Færsluflokkur: Bloggar

Þjóðaratkvæðagreiðslur um ríkisvæðingu einkaskulda

,,Þá er lagt til nýtt ákvæði um að ekki verði veitt ríkisábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga einkaaðila nema almannahagsmunir krefjist."

Hver mun skera úr um það hvort almannahagsmunir krefjist ríkisábyrgðarinnar eður ei?

Hvað mun liggja til grundvallar á því mati?

Væri ekki ráð að kveða á um að ekki verði veitt ríkisábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga einkaaðila nema almannahagsmunir krefjist og að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu þar að lútandi?


mbl.is Umræður á Alþingi verði tvær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða leið vilt þú fara?

Í spá Hagstofunnar segir eftirfarandi:

,, Hið opinbera, ríki, almannatryggingar og sveitarfélög, hefur verið rekið með miklum halla að undanförnu. Ríkissjóður varð að taka á sig miklar skuldbindingar vegna falls fjármálakerfisins á meðan tekjuhliðin skrapp saman. Hið opinbera stendur því frammi fyrir því erfiða verkefni að breyta miklum tekjuhalla í afgang og lækka skuldir á komandi árum."

Hvaða leið vilt þú að farin verði í þeim efnum?

a) Viltu draga úr opinberum útgjöldum og skera niður þjónustu?
b) Viltu hækka skatta og gjöld?
c) Viltu að ríkið og sveitarfélög selji eignir?
d) Viltu að endursamið verði um opinberar skuldir?

Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að byrja á því að gera atlögu að skuldunum áður en við leyfum okkur að hugsa um aðra möguleika.  Nóg er komið af niðurskurði og skattahækkunum að mínu viti.  Ég tel auk þess að nóg sé komið af einkavæðingu í bili, nú þurfi að hugsa í nýjum lausnum. 

Í því sambandi vil ég nefna tvær aðgerðir sem fordæmi eru fyrir.  Önnur er að taka upp nýjan eða annan óverðtryggðan gjaldmiðil  á mismunandi skiptigengi.  Hin er að ráðast í kortlagningu opinberra skulda.  Þar með talið allar eignir og skuldbindingar sem kunna að hafa verið færðar utan efnahagsreiknings.  Í framhaldi að endursemja um höfuðstól og vexti skulda svo þær komist í niðurgreiðanlegt horf og afborganir ógni ekki velferð þjóðarinnar.


mbl.is Hagstofan hækkar hagvaxtarspá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna undirskriftasöfnun?

uhrbbrc.jpg

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 í þeim tilgangi að berjast fyrir almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar. Þann 12. febrúar 2009 litu tillögur samtakanna um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar dagsins ljós. 

Tillögurnar fólu meðal annars í sér ofangreindar kröfur. Samtökin lögðu frá upphafi áherslu á að vinna með stjórnvöldum að lausn mála til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni, enda gerðu samtökin sér vonir um að stjórnvöld myndu hafa milligöngu um samninga við lánveitendur og kröfuhafa vegna þess tjóns sem lántakendur urðu fyrir. 

Þrátt fyrir að samtökin hafi fljótlega eftir stofnun þeirra og allar götur síðan fengið umtalsverða áheyrn stjórnvalda hefur ávallt staðið á almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar þrátt fyrir þann víðtæka samfélagslega stuðning sem fyrir liggur, sjá t.d. hér, hér og hér.

Fjölmörg önnur úrræði hafa aftur á móti verið kynnt til sögunnar af hálfu stjórnvalda. Þau úrræði gagnast fólki misvel og hafa réttilega verið gagnrýnd fyrir það að taka ekki á rót vandans. Hvernig sem á málin er litið hefur sá forsendubrestur sem lántakendur urðu fyrir vegna þeirra aðgerða lánveitenda og stjórnvalda sem leiddu til hruns efnahagskerfisins ekki verið leiðréttur. Sú niðurstaða er bæði óréttlát og óásættanleg.

Vaxandi óánægju meðal almennings hefur gætt vegna framgöngu stjórnvalda og fjármálastofnana í þessum málaflokki. Þann 4. október 2010 sauð upp úr þegar ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar áttu sér stað. Mörg þúsund manns komu saman á Austurvelli og tunnur voru barðar. Í kjölfarið sáu stjórnvöld sér þann leik helstan á borði að bjóða fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna að borðinu til að reikna út, í félagi við fjöldann allan af sérfræðingum úr stjórnkerfinu og fjármálageiranum, hvað hinar ýmsu aðgerðir myndu koma til með að kosta og hvernig þær myndu gagnast fólki. 

Þannig keyptu stjórnvöld sér frest fram yfir jól og áramót þar til reiðiöldurnar lægði. Á tímabili var látið líta svo út fyrir að allt kæmi til greina af hálfu stjórnvalda. Meira að segja almenn leiðrétting lána eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað mælt fyrir. Að endingu fór hins vegar svo að sjónarmið samtakanna voru blásin út af borðinu og fulltrúi samtakanna sá sig tilneyddan til að skila séráliti sem stjórnvöld hafa neitað að birta.

Þegar á hólminn var komið höfnuðu lánveitendur samkomulagi við lántakendur um sanngjarna og skynsamlega niðurstöðu. Stjórnvöld létu svo hjá líða að bregðast við forherðingu fjármálastofnana með nauðsynlegu boðvaldi. Á bak við þá afstöðu skýldu stjórnvöld og lánveitendur sér með því að vísa til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda kröfuhafa og höfðu þannig eignarrétt húsnæðiseigenda að engu.

Af þessu er ljóst að kröfur samtakanna um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar munu ekki ná fram að ganga með samningum líkt og samtökin vonuðust upphaflega til. Viðurkenning á forsendubresti þarf að eiga sér stað til þess að viðurkenna þörfina fyrir leiðréttingum lána.

HH kalla eftir að þessi viðurkenning komi frá stjórnvöldum og að ekki þurfi að leita til dómstóla með öll mál til að útkljá svo augljósa staðreynd. Sú leið sem á endanum verður valin til leiðréttingar er og verður alltaf pólitísk ákvörðun. Til þess að ganga fram fyrir hönd heimilanna og færa til baka þá eignatilfærslu sem átt hefur sér stað frá heimilunum til fjármagnseigenda þarf pólitískt hugrekki, kjark og þor.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa því, í nafni almannahagsmuna, ákveðið að blása nýju lífi í kröfur sínar með breyttri nálgun. Samtökin telja brýna þörf á því að fólki gefist tækifæri til að segja hug sinn í þessum efnum með undirskrift sem tekur undir kröfuna um almenna leiðréttingu lána heimilanna og afnám verðtryggingar og jafnframt um þjóðaratkvæðagreiðslu, verði stjórnvöld ekki við þessum kröfum.

Samhliða þessari undirskriftasöfnun kynna samtökin fjórar ólíkar leiðir til leiðréttingar, sem þau telja mögulegar og gætu fallist á. Þessar fjórar leiðir eru hugsaðar sem grundvöllur fyrir umræðu og er því ekki um tæmandi lista að ræða. Samtökin minna á að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og nú er brýn þörf fyrir pólitíska ákvörðun sem skilar sér alla leið til heimilanna í landinu.

Taka þátt í undirskriftasöfnuninni

Fara á Hvernig - nokkrar leiðir til leiðréttingar

Fara á Framtíðarsýn - nýtt húsnæðislánakerfi


Ísland fjarlægist Maastricht-skilyrðin

Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skal halli af rekstri ríkissjóðs ekki vera meiri en 3% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan.  Ef svo er ekki þarf hlutfallið að hafa lækkað jafnt og þétt í átt að 3%.  Að sögn efnahags og viðskiptaráðherra stefna stjórnvöld að jákvæðum frumjöfnuði ríkissjóðs árið 2011 og að árið 2013 verði heildarafkoma ríkissjóðs jákvæð.  Halli af rekstri ríkissjóðs er talinn hafa verið 5,4% árið 2010, samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 6. júní sl., en í þeirri tölu er stuðst við skilgreiningu AGS á skuldum hins opinbera.  Í skýrslunni er því spáð að hallinn verði 3,3% í lok árs 2011 og 0,5% í lok árs 2012, en að afkoma ríkissjóðs verði orðin jákvæð um 2,2% árið 2013.  Gangi spáin eftir verður skilyrðinu náð í lok árs 2012, eða fyrr sé tekið tillit til lækkunar hlutfallsins úr 13,5% í 3,3% frá lokum árs 2008 til loka árs 2011.

Að því gefnu að 37 milljarða fjárlagahalli jafngildi 3,3% halla í lok árs 2011, sbr. skýrslu AGS frá 6. júní og að þingmenn fjárlaganefndar hafi rétt fyrir sér, sbr. fréttina sem þessi færlsa er tengd við, má draga þá ályktun að Ísland fjarlægist Maastricht-skilyrðin enn frekar.  Vaxandi verðbólga á Íslandi er þess einnig til merkis.

Fram hefur komið að opinberar skuldir eru of miklar til að Ísland uppfylli Maastricht-skilyrðin.  Þorsteinn Pálsson setti þá staðreynd í áhugavert samhengi í nýlegri grein í Fréttablaðinu með þessum orðum: 

,,Í nýrri skýrslu OECD kemur fram að Írar gengu langsamlega lengst allra þjóða í að ábyrgjast skuldbindingar banka. Ísland er í öðru sæti á þeim lista en ekki utan hans."


oecd.gif

Á myndinni sem birt er á heimasíðu OECD má sjá að beinn kostnaður ríkisins vegna bankahrunsins á árunum 2007-2009 er 20,3% af VLF ársins 2009.  Samkvæmt Hagstofunni var VLF á árinu 2009 1.495 ma. kr.  Þetta eru því um 304 ma.kr.


mbl.is Stefnir í mikil fjárútlát
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlafulltrúi segir meinta nauðgun ,,leiðinlegt tilvik"

Í morgun las ég svohljóðandi frétt á vef mbl.is undir fyrirsögninni Lögregla rannsakar nauðgun:

,,Tilkynnt var um meinta nauðgun á tjaldstæðinu á Vindheimamelum í nótt þar sem landsmót hestamanna fer fram.

Fórnarlambið er tvítug stúlka. Að sögn lögreglu á staðnum er rannsókn í fullum gangi og verið er að afla sönnunargagna.

Lögreglan á Sauðárkróki tekur fram að atvikið endurspeglar á engan hátt ástandið á landsmóti hestamanna um helgina sem hefur farið mjög vel fram. Lögregla hefur þurft að hafa lítil afskipti af fólki." (Feitletrun mín)

Ég gat ekki annað en klórað mér í kollinum yfir feitletruðu setningunni. Því ef eitthvað endurspeglar á engan hátt annað er engu líkara en að þetta eitthvað hafi ekki átt sér stað í samhengi við þetta annað.

Ég deildi fréttinni inn á Facebook og meðal athugasemda mátti lesa:

,,Þetta eru svona svipuð ummæli og þegar bæjarstjórinn í Eyjum sagði um daginn að barnaníðingsmálið þar hefði ekkert með Eyjar að gera. Ég skil ekki einu sinni hvað svona ummæli þýða. Hvað er eiginlega verið að meina?"

,, Þeir meina að það sé allt í djollí fílíng þarna á Vindheimamelum. Eina manneskjan á meintum bömmer er meint nauðgunarfórnarlamb. Fávitar."

,,Það sem ég velti strax fyrir mér varðar orðalagið; Eru þá hraðasektir Sauðárkrókslögreglunnar veittar fyrir "meint" brot á lögum um hámarkshraða?"


,,Maður verður að horfa á ísland utanfrá til að ná hausnum utan um þetta ... á eyjunni snýst nefnilega allt um ímynd. Þessir herramenn eru að verja ímynd þess sem þeir standa fyrir (lögreglan, hestamannamótið) og er þar af leiðandi skít sama um veruleika þessara atburða."

Og nú hefur fjölmiðlafulltrúi mótsins náð að ramma inn þetta eitthvað sem ,,leiðinlegt tilvik".  Annars hafi mótið gengið eins og í sögu og veirð sannkölluð fjölskylduhátið.


mbl.is Gekk eins og í sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndræn glæpavæðing mótmæla

Á Freedomfries er að finna stutta færslu undir fyrirsögninni Undarleg myndbirting Eyjunnar.  Hún hljóðar svo:

,,Eyjan birti í dag endursögn á frétt Fréttablaðsins um að 205 ofbeldismenn skuldi fórnarlömbum sínum stórfé. Sem er ekki í frásögur færandi, þ.e. að Eyjan birti frásagnir af fréttum. Það er hins vegar athyglisvert að líta á myndina sem ritstjórn Eyjunnar hefur ákveðið að láta fylgja með fréttinni, en það er ljósmynd sem virðist vera úr einhverjum mótmælum.

Af myndatekstanum má ráða að þar sem hér sé mynd af “átökum” sé eðlilegt að hún fylgi fréttinni…

 atok-i-reykjavik.jpg
Átök í Reykjavík. Ofbeldismenn skulda þolendum töluverðar fjárhæðir. Mynd af Vísindavef HÍ

Það merkilega er að myndin er ekki einu sinni mynd af “átökum” – þetta er mynd af mótmælum. Það sjást engin “átök” á myndinni. Og þó svo hefði verið – hver væri þá tengingin?

Þegar aðrir fjölmiðlar birta ótengdar “stock photos” með fréttum, sérstaklega þegar fréttirnar eru um ofbeldisglæpi, er ævinlega sagt “mynd tengist frétt ekki beint”. En í þessu tilfelli er það svo að myndin tengist fréttinni nákvæmlega alls ekki neitt – ekki einu sinni óbeint!

Nema að Eyjan vilji skapa þá mynd í huga lesanda að einhver hluti þessara fjárhæða sem ofbeldismenn skuldi fórnarlömbum sínum tengist með einhverjum hætti mótmælum? En ég þekki ekki til þess að einn einasti mótmælandi hafi verið dæmdur til að greiða eina krónu í bætur vegna einhverra ofbeldisáverka sem hann hafi veitt einum eða öðrum. Ég veit ekki hver ástæðan er fyrir þessu undarlega myndavali, en hún er allavegana ekki sú að menn hafi verið að vanda sig."

Skv. síðuhaldara var myndinni við fréttina skipt út.

Nú langar mig að velta því upp hvort ástæða sé fyrir mbl.is til að gera slíkt hið sama við fréttina sem þessi færlsa er skrifuð við. 

Ástæðan er sú að fátt er skylt með notkun piparúða til sjálfsvarnar gegn nauðgunum og öðrum ofbeldisglæpum annars vegar og pólitískum mótmælum hins vegar.


mbl.is Danir vilja leyfa sölu á piparúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland of skuldsett til að taka upp evru

Til að ríki geti tekið upp evru eftir inngöngu í ESB þurfa tiltekin efnhagsleg skilyrði að vera fyrir hendi í því ríki sem um ræðir.  Þessi skilyrði eru kölluð Maastricht-skilyrðin.  Þau lúta að verðbólgu, langtímavöxtum, afkomu af rekstri ríkissjóðs og opinberum skuldum.

Til að kanna hvernig Ísland stendur gagnvart Maastricht-skilyrðunum lagði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, fram fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra.  Í svari ráðherra kemur fram að Ísland uppfyllir ekki nema einn þátt Maastricht-skilyrðanna, þann sem snýr að langtímavöxtum.

Verði 3% verðbólga á Íslandi á árinu 2011 mun verðbólgumarkmið nást ef verðbólga verður samtímis 1,63% í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún mælist minnst.  Samræmd vísitala neysluverðs hefur hins vegar farið hækkandi unanfarið og mælist 12 mánaða verðbólga nú  4,1%.

Halli af rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan.  Gangi spá AGS eftir verður skilyrðinu náð í lok árs 2012.  Þá er gert ráð fyrir að hallinn verði 0,5%.  Til að svo megi verða þarf að fylla upp í um 80 -90 milljarða gat á árunum 2011 og 2012 (áætlað er út frá tölum sem Hagstofan hefur birt fyrir árið 2010).

Eitt stærsta áhyggjuefnið snýr að opinberum skuldum.  Þær eru mældar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og mega ekki vera hærri en 60%.  Í svari ráðherra segir:  „Ef spá AGS um 23% lækkun skuldahlutfalls hins opinbera frá lokum árs 2010 til loka árs 2016 er notuð sem viðmið má áætla gróflega að skuldir samkvæmt Maastricht-skilyrðunum lækki úr 89,4% af vergri landsframleiðslu í 68,8% frá 2010 til 2016." Markmiðið um opinberar skuldir næst því ekki á spátímanum.

Til viðbótar við þau fjögur skilyrði sem fjallað hefur verið um þarf ríki að hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils þarf að vera innan ákveðinna vikmarka.  Í þessu sambandi er vert að hafa gjaldeyrishöftin í huga.

Ef taka á upp evru á Íslandi, standi vilji þjóðarinnar á annað borð til að ganga í ESB, þarf að leggja fram trúverðuga fjárhagsáætlun og fylgja henni eftir. 

Til að fást við ofurskuldsetninguna má nefna tvær aðgerðir sem fordæmi eru fyrir.  Önnur er að taka upp nýjan eða annan óverðtryggðan gjaldmiðil  á mismunandi skiptigengi.  Hin er að ráðast í kortlagningu opinberra skulda.  Þar með talið allar eignir og skuldbindingar sem kunna að hafa verið færðar utan efnahagsreiknings.  Í framhaldi að endursemja um höfuðstól og vexti skulda svo þær komist í niðurgreiðanlegt horf og afborganir ógni ekki velferð þjóðarinnar.

Fari svo að þjóðin ákveði að ganga ekki í ESB verði þó alltént búið að vinna markvisst gegn skuldakreppunni þegar þar að kemur.  Ekki veitir af.

Grein birt í Morgunblaðinu 1. júlí 2011


Lýðræðisleg þátttaka almennings

Stjórnlagaráð
Ofanleiti 2
103 Reykjavík

Mosfellsbæ, 30.6.2011

Í Áfangaskjali að stjórnaskrá (14. ráðsfundur) segir eftirfarandi í kafla um lýðræðislega þátttöku almennings:

„2.  Þingmál að frumkvæði kjósenda

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Fimmtán af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi ákveður hvort þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi eða ráðgefandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi."

Hér með er þess farið á leit við ráðið að ofangreindur texti verði endurskoðaður með það leiðarljósi að uppspretta valds er hjá kjósendum.  Sú ráðstöfun að Alþingi ákveði hvort þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp kjósenda skuli vera bindandi eða ráðgefandi virðist ekki þjóna neinum öðrum tilgangi en að þingmenn geti stöðvað framgang þeirra mála sem þingmenn kunna að vilja stöðva þar sem Alþingi er ekki skylt að fara eftir niðurstöðu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.  Auk þess getur það varla talist lýðræðislega frambærilegt að kjósendum verði gert að bíða í tvö ár eftir óbindandi niðurstöðu í slíkum tilfellum.

Hægt væri að kveða á um það í textanum að þjóðaratkvæaðgreiðslan væri bindandi eða að kjósendur taki þá ákvörðun.  Verði það ofan á að kjósendum verði látið það eftir að taka ákvörðunina er hægt að útfæra það á mismunandi vegu.  Hægt væri að tilgreina það í frumvarpinu hvort vilji kjósenda standi til þess að fram fari ráðgefandi eða bindandi þjóðaratkvæaðgreiðsla um frumvarpið.  Eins væri hægt að láta kjósendur staðfesta í kjörklefa hvort um sé að ræða ráðgefandi eða bindandi atkvæði.

Þá væri hægt að leggja upp með aðra nálgun þegar kemur að frumkvæði kjósenda.  Hægt væri að hugsa sér að tiltekið hlutfall kjósenda gæti lagt fram lagafrumvarp og færi þá fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið svo fljótt sem auðið er.

Virðingarfyllst,
Þórður Björn Sigurðsson
Rauðumýri 1 - 106
270 Mosfellsbæ


Líkur minnka á upptöku evru

Ef spá bankans gengur eftir minnka líkurnar enn frekar á að Ísland uppfylli Maastricht skilyrðin, forsendur þess að Ísland taki upp evru með ESB aðild.

Málið er rakið nánar í færslu frá 14. júní undir fyrirsögninni Afnám verðtryggingar og Maastricht skilyrðin.  Færslan er unnin út frá svari ráðherra við fyrirspurn þingmanns um hvernig Ísland standi gagnvart Maastricht skilyrðunum.  Skilyrðin taka til verðbólgu, langtímavaxta, afkomu ríkissjóðs og opinberra skulda.  Niðurstaðan er sú að Ísland muni ekki uppfylla skilyrðin fyrr en í fyrsta lagi 2019, fyrst og fremst út af opinberum skuldum.  Í færslunni segir um verðbólguþáttinn:

,,Varðandi verðbólguþáttinn kemur fram í svari ráðherra að framkvæmdastjórn ESB spáir 3% verðbólgu á Íslandi árið 2011.  Á sama tíma er því spáð að verðbólga verði 1,63% í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún er minnst.  Gangi þetta eftir næst skilyrðið með tilliti til ársins 2011.  Samkvæmt Hagstofu Íslands er 12 mánaða hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs 3,1% í apríl 2011.  Talan fer hækkandi milli mánaða enda hefur verðbólgan verið að aukast á ný upp á síðkastið.  Það bendir til þess að verðbólga á Íslandi kunni að verða meiri á árinu 2011 en spá framkvæmdstjórnar ESB gengur út frá.  Ísland muni þá ekki uppfylla verðbólguþátt Maastricht-skilyrðanna fyrir árið 2011 eins og fram kemur í svari ráðherra nema þróunin í þeim þremur ríkjum ESB þar sem verðbólgan er minnst verði okkur hagfelld í samanburði."

Nú spáir Íslandsbanki að 12 mánaða verðbólga fari í 4,1%.  Ég kalla eftir því að stjórnvöld eigi samræðu við almenning um Ísland og Maastricht skilyrðin.  Á meðan þögnin ríkir er auðvelt fyrir hvern sem er að halda á lofti málflutningi um ótrúverðugleika stefnu stjórnvalda.  Ég held því til að mynda fram að stefna Samfylkingarinnar sé óraunhæf.  Ég mun halda mig við þá skoðun þangað til einhver sýnir mér fram á hið gagnstæða eða leggur fram trúverðuga áætlun um það hvernig Ísland eigi að fara að því að uppfylla Maastricht skilyrðin.

Tengill á færlsuna Afnám verðtryggingar og Maastricht skilyrðin.

 


mbl.is Spá mestu verðbólgu í 10 mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd um aðkomu einkabanka að skuldavanda Grikklands sögð ,,leikur að eldi"

BBC birti í gær frétt af þróun mála varðandi málefni Grikklands.  Staðan er slæm.  Greiðslufall vofir yfir nema Papandreou nái að sannfæra þingið um að samþykkja sársaukafullar sparnaðaraðgerðir, fyrir 29. júní.  Takist það hafa Evrópusambandið og AGS lofað nýjum neyðarlánum, en fjárþörfin í þessari umferð er sögð 110 milljarðar evra.  Í dag hófust umræður í gríska þinginu um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar en atkvæði verða greidd um hana á þriðjudag.

Forvitnilegt hefur verið að fylgjast með fréttum af afstöðu evrópskra þjóðarleiðtoga til hugmynda um aðkomu einkabanka að hinum svokallaða björgunarpakka. Eftirfarandi mynd sem BBC birtir í ofangreindri frétt sýnir í hvaða ríkjum Grikkir skulda og hvernig skuldir skiptast á milli einkabanka og opinberra aðila:

gri.png

Fram hefur komið að Merkel, kanslari Þýskalands, hafi hvatt til þess að einkabankar taki þátt í aðgerðunum.  Ekki megi þó neyða einkabanka til þátttöku, sú aðkoma þurfi að vera á eigin forsendum.  Þetta var niðurstaða fundar hennar og Sarkozy, forseta Frakklands, um málið sem fram fór 16. júní.  Guardian segir frá þessum ,,ósigri" Merkel á vef sínum, en skv. Guardian hafði Merkel upphaflega ætlað að freista þess að þvinga einkabanka til að taka þátt.

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborga og oddviti evruhópsins svonefnda, samráðsvettvangs fjármálaráðherra evruríkjanna, sem fjallar um 12 milljarða evru lánapakka til Grikkja í dag kallaði hugmyndir Merkel um aðkomu einkabanka ,,leik að eldi", þar sem þær sendu röng skilaboð til lánshæfisstofnana.

Ljóst er að evrusamstarfið gæri verið í húfi.  Falli eitt ríki, hafi það keðjuverkandi áhrif á spilaborgina.  Innbyrðis skulda ríkin hvoru öðru umtalsvert.  NY Times birti eftirfarandi mynd sem Chris Martensen endurbirtir í mjög áhugverðum pistli undir fyrirsögninni Death by Deabt.  Pistill Martensen hefst á þessum orðum:

,,One of the conclusions that I try to coax, lead, and/or nudge people towards is acceptance of the fact that the economy can't be fixed.  By this I mean that the old regime of general economic stability and rising standards of living fueled by excessive credit are a thing of the past.  At least they are for the debt-encrusted developed nations over the short haul -- and, over the long haul, across the entire soon-to-be energy-starved globe."

 

02marsh-image-custom1-v3.gif


mbl.is Hvetur banka til að styðja Grikki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband