Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Skynsamleg ráðstöfun

Að takmarka veð við þá eign sem sett er að veði hefur verið ein af grunnkröfum HH frá upphafi.

Þetta er afar skynsamleg ráðstöfun í efnahagslegu tilliti að mínu viti, bæði fyrir lánveitanda, lántakanda og þjóðarbúið.  Þetta stuðlar að ábyrgari útlánastarfsemi og þar með áhættuminni rekstri fyrir alla aðila. 

HH hafa aðsetur hér:  www.heimilin.is

Ég hvet landsmenn alla til að kynna sér málin og skrá sig í samtökin.

Afstaða félagsmálaráðherra vekur athygli.  M.a. í ljósi stofnfjáreignar hans í BYR.


mbl.is Lánshlutfallið gæti hugsanlega lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

29 verkefnum af 48 enn ólokið?

Hef ekki gert nákvæma úttekt á þessu sjálfur en þetta er áhugaverður samanburður:

http://fact.is/100dagar/

Í öllu falli er ljóst að stjórnvöldum og þessari vefsíðu ber ekki saman. 


mbl.is Segja 16 málum af 48 ólokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru aðrir valkostir í stöðunni?

Fimmtudaginn 2. júlí kl. 20.00 verður í JL-húsinu, Hringbraut 121, húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar, haldinn kynningar- og umræðufundur. Kynnt verða Attac-samtökin, og verða fulltrúar frá Noregsdeild þeirra samtaka með framsögu um Attac og starf samtakanna.
Attac eru alþjóðasamtök með deildir í um 50 löndum. Þau hafa það að markmiði að berjast gegn nýfrjálshyggju og hnattvæðingu í nafni hennar, en eru fylgjandi hnattvæðingu að öðru leyti. Attac lítur á það sem eitt meginverkefni sitt að fylgjast með alþjóðastofnunum nýfrjálshyggjunnar eins og AGS.
Einnig mun Lilja Mósesdóttir hagfræðingur flytja erindi um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þau vandamál sem það hefur í för með sér að láta hann hafa yfirstjórn með efnahagsmálum Íslendinga. Hún mun í erindi sínu benda á aðrar færar leiðir í þeim efnum, en flestir valkostir munu vera betri í efnahagsmálum en láta AGS stýra þeim.

 
Að fundinum stendur bráðabirgðastjórn Íslandsdeildar Attac. Benda má á heimasíðu samtakanna, attac.is, fyrir þá sem vilja fræðast meira.

Attac á Íslandi.
http://attac.is/

mbl.is Greiðsla frá IMF í ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifandi mynd

Má til með að vekja athygli á þessu framtaki:

http://www.youtube.com/user/lifandimynd#play/all

Um er að ræða óháðan netmiðil sem virðist beina kastljósinu að því sem hefðbundnir fjölmiðlar sýna minni áhuga á.  Skoðið vandlega myndbandið frá 17. júní.

Hér má svo sjá frá útifundi Radda fólksins á Austurvelli:


Stigið

Það má ekki gleyma því að skoða málið út frá sjónarhóli heimilanna.

Skuldir heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum voru 20% árið 1980 en 272% í árslok 2008.  Sjá hér og hér.

Vísitölufjölskyldan er rekin með 2 mkr. halla að meðaltali á ári.  Sjá hér.

Skattbyrðin á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu mun aukast að meðaltali um 90 þúsund krónur á mánuði, þegar skattahækkanir í aðgerðaáætlun stjórnvalda verður komin að fullu til framkvæmda.  Sjá hér.

Á að endurreisa þjóðfélagið á þessum grundvelli?

Hvernig mun skuldastaða heimilanna líta út þegar búið er að stoppa upp í 180 milljarða fjárlagagat á næstu 3 árum?  Eða eftir 7 ár þegar við ættum að byrja að borga af Icesave skv. undirrituðum samningi?  Já eða 15 þegar skuldin ætti að vera uppgreidd?


mbl.is Meiri áhyggjur af yfirstandandi glímu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrollvekjandi niðurstaða?

Ég spyr: Hefur einhver hafi lagt fram fjárhagsáætlun sem sýnir að þjóðarbúið ráði við Icesave?

***

Fengið að láni héðan:
http://fridjon.eyjan.is/2009/06/24/icesave-samantekt-peturs-richters/

Pétur Richter, kunningi minn og Facebook vinur hefur lagt sig fram öðrum fremur við að ná utan um flesta þætti Icesave-málsins. Niðurstaða hans er hrollvekjandi.
Hann birti eftirfarandi á Facebook-síðu sinni með áskorun um að dreifa þessu víðar. Ég tel mér ljúft og skylt að gera það.

Að neðan er pistill Péturs eins og hann birtist á Fb-síðu hans.

————-

Einn laugardagsmorgun í byrjun júní setti ég upp lítið Excel-skjal til að reyna að reikna út vænta skuldbindingu vegna IceSave-samningsins. Síðan þá hafa vangaveltur mínar undið upp á sig og er svo komið að ég tel rétt að taka saman smá samantekt yfir helstu staðreyndir varðandi þennan samninginn.

Ástæða þess að ég fór út í að reyna að meta skuldbindinguna vegna IceSave er að eftir 12 ára starf í banka tel ég mig vera farinn að skilja áhrif vaxta á skuldir. Þetta virtist eitthvað vefjast fyrir stjórnvöldum þar sem þau kynntu væntanlega skuld okkar vegna IceSave alltaf sem X ma.kr auk vaxta. Vitandi það að “auk vaxta” væri líklega hærri upphæð en skuldin reiknaði ég þetta út, og má sjá nýjustu niðurstöðu í næsta Note frá mér.

Eftir að hafa reiknað út skuldbindinguna, fór ég að velta fyrir mér þessum góðu eignum í Bretlandi sem ættu að koma á móti skuldinni. Alltaf var talað um eignasöfn í Bretlandi, en eftir smá grams á netinu fann ég kynningu á efnahagsreikningi Landsbankans sem birt var í febrúar en miðaðist við 14. nóvember 2008. Þá kom tvennt í ljós

  1. Eignirnar eru að stærstum hluta útlán og þá til innlendra aðila (en í gjaldeyri)

  2. Eignirnar eru metnar um 1.195 ma.kr.

Mér létti mjög við þetta þar sem þetta leit ekki illa út á þessum tímapunkti. Eignir upp á 1.195 ma.kr. en skuldbinding upp á tæpa 700 ma.kr. Það þyrfti að verða gríðarlegur eignabruni hjá Landsbankanum til að við fengjum ekki allt upp í skuldbindinguna.

 

Eina sem truflaði mig var að Jóhanna forsætisráðherra var alltaf að tala um að samninganefndin gerði ráð fyrir að 75% næðist upp í skuldbindinguna með eignum Landsbankans, og að virt ensk endurskoðunarskrifstofa hefði eftir skoðun á lánasafninu komist að þeirri niðurstöðu að það næðust jafnvel 95%.

Hvernig gátu 1.195 ma.kr. eignir lækkað í 525 ma.kr (75%) til 665 ma.kr. (95%) á ekki lengri tíma?

Þegar hér var komið í sögu var ljóst að það þyrfti að birta samninginn, ekki seinna en strax. Það var eitthvað sem ekki stemmdi.

Það fóru á þessum tímapunkti að leka valdar fréttir um samninginn (t.d. að það væri ákvæði um endurskoðun og nýtt mat á eignasafninu)

Þann 11. júní síðastliðinn birtist síðan í vefriti fjármálaráðuneytisins smá frétt um samninginn þar sem aðallega var verið að réttlæta 5,55% vextina á lánið. Það sem var skondið nið þessa umfjöllun var að þar voru lánin allt í einu orðin hærri í erlendum myntum (GBP og EUR) en þegar samningurinn var kynntur. Hvað var eiginlega í gangi. Vissu menn ekki hvað þeir voru að skrifa undir?

Þann 15. júní fóru ýmsir að hafa samband við mig sem eru mun lögfróðari en ég og benda mér á tvennt. Annars vegar að vegna laga um slitastjórnir væri varla hægt að borga inn á IceSave lánið með eigum Landsbankans fyrr en í fyrsta lagi eftir kröfulýsingarfrest (sem er í nóvember 2009) Hins vegar er það óvissa um hvort hægt væri að nota eigur Landsbankans til að greiða vextina af láninu, þar sem þeir falla ekki undir forgangskröfur.

Reyndar er það svo að nýlegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki heimila að greiða fyrr út forgangskröfur en þá þarf að vera vissa fyrir því að greiða út allar jafnar forgangskröfur að fullu eða að jöfnu. Því er ennþá möguleiki á að skilanefnd Landsbankans geti byrjað að greiða inn á samninginn áður en kröfulýsingarfrestur rennur út, þ.e. ef IceSave samningurinn verður samþykktur.

Á þessum tímapunkti (16. júní) brást mér þolinmæði og sendi öllum alþingismönnum Íslands tölvubréf þar sem ég setti fram nokkrar spurningar og staðreyndir varðandi IceSave samninginn. Viðbrögð voru þokkaleg, sérstaklega frá VG.

Þann 18. júní var síðan rætt um samninginn á Alþingi. Í þeim umræðum kom meðal annars fram að forsætisráðherra teldi að samningurinn ætti að bæta lánshæfismat landsins, sérstaklega þar sem fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hefðu sagt það. Það hafði reyndar láðst að spyrja lánshæfismatsfyrirtækin sjálf.

Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði, þar sem erlendar skuldir, bæði ríkis og ekki síst opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar og Orkuveitunnar, eru verulegar og lánshæfismat ríkisins er einu skrefi fyrir ofan ruslbréf (e. junk bond). Fari lánshæfismat ríkisins niður í rusl, getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðinga, svo sem að margir fjárfestar megi hreinlega ekki eiga skuldabréf/skuldir þessara fyrirtækja.

Þennan dag var síðan tilkynnt að birta ætti samninginn. Eftir að hann var síðan birtur upphófst heljarmikill sirkus varðandi lögfræðina bak við þennan samning, en þar sem ég er bara vesæll verkfræðingur og bankamaður reyndi ég að sneiða framhjá þeim umræðum. Forsendur útreikninga minna stóðust ágætlega, en sumt var nokkuð óljóst í samningnum (eða ég svona lélegur í ensku lagamáli)

Ég var ennþá að klóra mér í hausnum yfir því af hverju 1.195 ma.kr. eignir dygðu ekki fyrir 700 ma.kr. skuld. Eftir að hafa verið í viðtali í Speglinum á Rúv vegna þessa máls fórust mér að berast hinar ýmsu upplýsingar úr stjórnkerfinu og fjármálakerfinu um samninginn og hvernig raunverulega hann virkaði.

Til dæmis fékk ég loksins skýringu (sjá neðst í forsendum) á því af hverju 1.195 ma.kr. eignir duga ekki fyrir 700 ma.kr. skuld. Það er af því að Bretar og Hollendingar eiga líka forgangskröfu á eignirnar fyrir því sem þeir tryggðu umfram innistæðutryggingu samkvæmt tilskipun ESB. og því fengju þeir í raun ca. 630 ma.kr. forgangskröfu í eignirnar á móti 700 ma.kr. kröfu okkar, en þessar kröfur væru jafnréttháar.

Það þýðir á mannamáli að það er ekki krækiber í helvíti að það náist að borga upp alla skuldbindinguna og hvað þá vexti.(afsakið orðalagið)

Fram að þessum tímapunkti var ég á því að við þyrftum að taka þessa skuldbindingu á okkur þar sem kostnaðurinn við að hafna ríkisábyrgðinni og þar með samningum væri of há vs. að samþykkja samninginn. Þarna snérist ég alveg. Þessi samningur gerir ekkert annað en að lengja í hengingarólinni, eða eins og einhver kallaði samninginn “stærsta kúlulán sögunnar”.

Ég fékk líka upplýsingar fyrir helgi um að eitthvað væri bogið við túlkun stjórnvalda á skýrslu “virtu ensku endurskoðunarskrifstofunnar” á eignasafni Landsbankans. Ég sendi nokkrum þingmönnum tölvupóst.

Eitt mega stjórnvöld eiga. Þann 21. júní voru loksins komnar mjög ýtarlegar upplýsingar inn á island.is um samninginn, skýringar, fylgiskjöl og Q&A. Þar á meðal var hin margrædda skýrsla“virtrar enskrar endurskoðunarskrifstofu” og viti menn. Þetta er skýrsla um hvernig sveitarfélög eigi að fara með kröfur sínar á hendur íslensku bönkunum og dótturfélögum þeirra. Á einni blaðsíðu af 15 kemur fram að þeir hafa notað sömu kynningu og ég fann á netinu um eignir Landsbankans og reiknað sig fyrst í 90% heimtur upp í skuldir (1.330/1.195=90%) en vegna óvissu um verðmat á eignum milli gamla og nýja Landsbankans gáfu þeir sér að þetta gæti hækkað í 100%, en tóku síðan meðaltalið og fengu 95%. Ég hefði geta metið þetta á 5 mínútum.

Þannig var nú það, upplýsingarnar frá virtu ensku endurskoðendunum voru í raun unnar upp úr glærukynningu Landsbankans en ekki eftir skoðun á þessum blessuðu eignum sem eiga að standa bak við þetta. Erum við þá komin í hring?

Stjórnvöld virðast líka hafa gleymt að lesa alla skýrsluna. Á blaðsíðu 13 er farið yfir áhættuþætti varðandi mat á hvað fáist upp í skuldbindinguna. Þar kemur fram að það sé líklegt að aðrir kröfuhafar fari í mál til að reyna að fella neyðarlögin (þar sem innlán voru sett í hóp forgangskrafna) og ef þau falli er líklegt að það fáist eingöngu 33% upp í kröfuna !!!

Þann 22. júní var haldinn fundur í efnahags- og skattanefnd þar sem umræðuefnið var IceSave samningurinn. Var skilanefnd Landsbankans boðið. Þar var síðan staðfest það sem ég hafði verið að velta fyrir mér, þ.e. vextir af láninu eru ekki forgangskröfur og falla að fullu á íslenska ríkið og að við deilum aðgangi að eignum Landsbankans með hinum forgangskröfuhöfunum (Bretum og Hollendingum).

Þetta er sem sagt samantektin á IceSave farsanum séð frá mínum bæjardyrum. Einhvern veginn hefur sú tilfinning mín vaxið að kostnaðurinn og áhættan við að hafna ríkisábyrgðinni og þar með fella þennan samning hafi minnkað í hlutfalli við kostnað og áhættu við að samþykkja samninginn. Einhvern veginn fær maður það á tilfinninguna að þessi samningur geri ekkert annað en að lengja í hengingarólinni. Það verður reyndar spennandi að sjá lagafrumverpið sem lagt verður fram á Alþingi varðandi ríkisábyrgðina, en þá hljóta stjórnvöld að koma með útreikninga á getu þjóðarbússins til að standa við samningana. Eitt sem þarf að varast við slíka kynningu er að það er rangt að bera greiðslugetuna saman við landsframleiðslu, heldur þarf að bera hana saman við afgang af erlendum viðskiptum okkar, því við verðum að greiða þetta í gjaldeyri, ekki íslenskum krónum.

Svona er málið fram á þennan dag séð frá mínum bæjardyrum. Ég mun halda ótrauður áfram að djöflast í þessu máli. Nú voru að berast upplýsingar um að ríkisábyrgðin yrði lögð fyrir Alþingi á föstudaginn. Spurning um að mæta á pallana?

—-

Þessu til viðbótar ber það vott um gríðarlega bjartsýni ef ekki barnaskap að halda að heimtur verði allt að 95%.
Helmingur eignasafns Landsbankans eru útlán, hversu stórt hlutfall þeirra er til gjaldþrota fyrirtækja?

Pétur Richter á þakkir skilið fyrir þetta framtak, hann er tvímælalaust einn af hetjum Íslands.


mbl.is Getum staðið við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarafundur um málið í kvöld

Í IÐNÓ, mánudaginn 29. júní kl. 20-22.

 

Fundarefni:

IceSave - Getum við borgað?.

Frummælendur:

  • Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur
  • Einar Már Guðmundsson rithöfundur
  • Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra

Í pallborði verða (auk ofangreindra):

  • Meðlimir úr InDefence hópnum
  • Eygló Harðardóttir þingmaður
  • Elvira Méndez dr. í Evrópurétti

Að vanda hefur öllum þingmönnum verið sérstaklega boðið.

Fundarform verður með sama sniði og áður, þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og fundargestir úr sal fá að tjá sig eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.

Hver aðili hefur tvær mínútur til að tjá sig svo gott er að vera vel undirbúinn.


mbl.is Icesave-ábyrgð úr ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessu tengt: Attac á Íslandi

Frábært framtak og ég stefni að því að mæta í Iðnó.  Langar að nota tækifærið og vekja athygli á þessu: 
Fimmtudaginn 2. júlí kl. 20.00 verður í JL-húsinu, Hringbraut 121, húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar, haldinn kynningar- og umræðufundur. Kynnt verða Attac-samtökin, og verða fulltrúar frá Noregsdeild þeirra samtaka með framsögu um Attac og starf samtakanna. Attac eru alþjóðasamtök með deildir í um 50 löndum. Þau hafa það að markmiði að berjast gegn nýfrjálshyggju og hnattvæðingu í nafni hennar, en eru fylgjandi hnattvæðingu að öðru leyti. Attac lítur á það sem eitt meginverkefni sitt að fylgjast með alþjóðastofnunum nýfrjálshyggjunnar eins og AGS.
Einnig mun Lilja Mósesdóttir hagfræðingur flytja erindi um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þau vandamál sem það hefur í för með sér að láta hann hafa yfirstjórn með efnahagsmálum Íslendinga. Hún mun í erindi sínu benda á aðrar færar leiðir í þeim efnum, en flestir valkostir munu vera betri í efnahagsmálum en láta AGS stýra þeim. 
Að fundinum stendur bráðabirgðastjórn Íslandsdeildar Attac. Benda má á heimasíðu samtakanna, attac.is, fyrir þá sem vilja fræðast meira.

Attac á Íslandi.
http://attac.is/

mbl.is Borgarafundur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræðan mín á Austurvelli

Ræða á Austurvelli 27. Júní 2009

Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

„Ef vér slítum í sundur lögin, slítum vér og í sundur friðinn"

Sættir og málamiðlun í deilum eru lykilhugtök í friðarboðskap þeirra bókmennta sem skrifaðar voru á mestu ófriðartímum þjóðarinnar, þegar kristni var tekin upp á Íslandi árið 1000.  En hvernig skildu menn þess tíma hugtakið lög?  Lög voru alls ekki lagabókstafurinn fyrst og fremst; lögin voru samfélagið sjálft, hin siðræna undirstaða, rétt hegðun gagnvart náunganum, heiðarleiki.  Ef lögin voru slitin, ef samfélagið var brotið upp var ófriður skollinn á.  Nú hafa þessi varnaðarorð Þorgeirs Ljósvetningagoða orðið að raunveruleika á okkar tímum, þegar ráðamenn þjóðarinnar hafa „slitið í sundur lögin".

Sem frjálsir þegnar hefur almenningur í landinu kosið sér fulltrúa, sér jafna menn og konur, til að fara með hagsmunamál sín í stjórnsýslu og lykilstofnunum samfélagsins.  Það er gert í því sjónarmiði að jafna stöðu þegnanna á milli, skapa jöfn skilyrði til atvinnustarfsemi og jafnframt að hlúa að uppbyggingu samfélagslegra þátta.

Undanfarin ár hefur þessi skilningur allur snúist á hvolf, þegnarnir eru farnir að þjóna samfélagsyfirbyggingunni og eru orðnir að þrælum fjármálastofnanna.  Ef skapa á skilyrði fyrir frjálsa þegna til að búa í þessu landi til framtíðar verður að snúa þessum formerkjum aftur við og hlúa að grunnstoðum samfélagsins, þegnunum sjálfum, heimilunum í landinu.

---

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa nú um nokkurt skeið unnið hörðum höndum að gerð stöðugleikasáttmála.  Fyrir nokkrum vikum tóku Hagsmunasamtök heimilanna sér það bessaleyfi að senda samningsaðilum sínar áherslur málsins vegna.

Við teljum ljóst að alger forsendubrestur sé kominn upp í veðlánum heimila, bæði hvað varðar verð‐ og gengistryggð lán, sem vegur að fjárhagslegu sjálfstæði íslenskra heimila og grefur undan tilvist þeirra og framtíðarsýn.  Forsendur endurreisnar eru að leiðréttingar á stöðu mála eigi sér stað og í framhaldi sameinist hagsmunaaðilar og stjórnvöld um endurmótun og þróun kerfis með það að leiðarljósi að ábyrgð í lánveitingum verði framvegis deilt á milli samningsaðila.  Jafnframt verði samtímis hafist handa við að snúa ógnvekjandi skuldastöðu heimilanna við en frá 1980 til 2008 hefur skuldastaða heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunatekjum farið úr 20% í liðlega 300%.

Aðgerðaáætlun sú sem við kynntum til leiks er ítarleg og sett fram í 3 áföngum.  Í fyrsta lagi leggum við til ýmsar bráðaðgerðir á borð við leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána.  Að bráðaðgerðum loknum þarf að vinna með skipulögðum hætti að viðsnúningi á skuldastöðu heimilanna.  Að lokum verði unnið að efnahagslegu jafnvægi til framtíðar þar sem grunnkrafan er lað ausnir í dag skapi ekki augljós vandamál til framtíðar.

Það er skemmst frá því að segja að okkur var ekki boðið til sætis við „stóra borðið" í ár, eins og samningsvettvangur aðila er gjarnan kallaður.

Í vikunni sem leið var svo stöðugleikasáttmálinn undirritaður við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu.  Í fréttum var samningurinn sagður afar mikilvægur áfangi  og veigamikil forsenda fyrir endurreisnarstarfinu á næstu misserum.  Óskaði forsætisráðherra þjóðinni til hamingju með samninginn.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega hamingjusamur með þennan samning.  En við hverju er að búast.  Ég er ekki þjóðin.

Stöðugleikasáttmálinn tryggir í sessi efnahagsáætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda þar sem áformað er meðal annars að stoppa upp í 130 milljarða fjárlagagat frá 2009 til 2011.  Það er álíka mikið og fer í rekstur heilbrigðis- og menntakerfis þjóðarinnar á heilu ári.  Í því samhengi má spyrja hvernig skuldastaða heimilanna mun koma til með að líta út að þeim tíma liðnum þegar gjaldþrot vísitölufjölskyldunnar liggur fyrir fyrir liggur samkvæmt opinberum tölum Hagstofunnar, það er að hún er nú rekin með um 2 milljón króna halla á ári að meðaltali.  Engir slík áætlun af hálfu stjórnvalda liggur fyrir.

Burt séð frá því sáu samningsaðilar þó ástæðu til að setja inn klausu varðandi skuldsett heimili þar sem megin inntakið er „að tryggja að þau úrræði sem þegar hefur verið komið á gagnist, eins og vænst var og að tillögur um viðbótarúrræði verði gerð í samráði við aðila vinnumarkaðarins eftir því sem þörf krefur".

Öll úrræði, sem kynnt hafa verið til sögunnar hingað til af hálfu stjórnvalda, snúast fyrst og fremst um að gulltryggja að fólk haldi áfram að greiða af stökkbreyttum skuldbindingum sem hafa rokið upp úr öllu valdi á brostnum forsendum.

Úrræðin virðast því fyrst og fremst hafa þann tilgang að verja hagsmuni lánveitenda eins og frekast er kostur enda kannski ekki við öðru að búast þegar lánveitendur hanna úrræðin sjálfir.

Það er ljóst að þeir aðilar sem hafa haft því hlutverki að gegna í gegnum tíðina að standa vörð um hagsmuni launþega sitja orðið báðum megin við borðið.  Og satt best að segja grunar mig að verkalýðsforystan sjái hreinlega ekki hinn almenna launamann fyrir peningahrúgunni sem henni hefur verið falið að hlúa að fyrir lífeyrissjóðina. 

Herdís Dröfn Baldvinsdóttir hefur gert doktorsverkefni um tengsl og samgróna innviði íslenska fjármálageirans og verkalýðssamtaka. Í útdrætti segir meðal annars að sterk yfirráðastétt, eða elíta, ríki á landinu, og bindiafl hennar felist meðal annars í krosseignatengslum en einnig öðrum kross-yfirráðum, ef svo má að orði komast.

Meginniðurstaðan er sú að „með samstarfi við starfsfólk í einkalífeyrissjóðageiranum hafi verkalýðshreyfingin verið innlimuð í þessar ytri valdaformgerðir, með gríðarmiklu og flóknu neti samtengdra yfirráða á sviði einkalífs og fjármála. Það er megin þversögn verkalýðshreyfingarinnar: hún er orðin veikburða fyrir hönd meðlima sinna en sterk fyrir „ríkjandi yfirstétt".

Þó niðurstaða Dr. Herdísar sé sjokkerandi í sjálfu sér verður að viðurkennast að hún er allt að því fyrirsjáanleg.  Því mætti jafnvel segja að það þyrfti engan kjarneðlisfræðing til að koma auga á samruna fjárvaldsins og forystu verkalýðshreyfingarinnar. Til dæmis má nefna að í mörgum tilfellum við útgreiðslu launa er launagreiðendum uppálagt að leggja verkalýðsfélagsgjöld starfsmanna beinustu leið inn á bankareikninga lífeyrissjóða.  Eitt af skiltunum sem sjá mátti í kröfugöngu þann 1. maí síðast liðinn bar áletrun sem segir allt sem segja þarf: „ASÍ er skúffufyrirtæki".

Aukaársfundur ASÍ 2009 var haldinn í mars síðast liðinn.  Í setningarræðu sinni gerði forseti ASÍ vanda heimilanna að umtalsefni.  Honum varð að orði: 

„Það er ... mikið áhyggjuefni hvernig bæði stjórnmálaflokkar og sjálfskipaðir bjargvættir hafa afvegaleitt umræðuna um raunhæfar lausnir á vanda heimilanna. Yfirboð um almenna lækkun skulda sem fjármagna á með galdraþulum skapa auðvitað væntingar meðal almennings um það sem vitað er að ekki verður hægt að mæta."

Það er dapurlegt að hafa þessi orð eftir forseta Alþýðusambandsins.  Að mínu viti ætti hann og hans líkar að leggja meiri áherlsu á að elta uppi alkemistana sem með aðstoð ráðandi afla rændu bankana innan frá í stað þess að setja púður í að ráða almenningi frá réttlæti og skynsemi.

Í samhengi við gerð stöðugleikasáttmálans ritaði Ingólfur H. Ingólfsson félagsfræðingur ágæta grein sem kallast „Hinar nýju stéttir - lánadrottnar og skuldarar".  Í greininni kemur meðal annars fram að frá og með áttunda áratugnum hafi aðgangur að lánsfé stóraukist og í krafti þess hafi hefðbundin stéttabarátta milli launþega og atvinnurekanda mun minna vægi en áður.  Þess í stað hafi orðið til nýjar stéttir eins og titill greinarinnar ber vitni um.

Með leyfi fundarstjóra langar mig að lesa nokkrur orð upp úr grein Ingólfs:  

„Það tók innan við þrjátíu ár að breyta aldagamalli stéttarskiptingu þjóðfélagsins úr því að vera á milli launþega og atvinnurekenda í það að vera á milli lánadrottna og skuldunauta. Hver einasti vinnandi maður skuldar lánastofnun sinni að meðaltali tvöfaldar til þrefaldar árstekjur sínar. Vaxtakjör skipta orðið meira máli en launakjör. Samningstaða gangvart lánadrottni skiptir meira máli en við vinnuveitanda og það sem gerir stöðuna sérstaklega erfiða er að það eru engin stéttarsamtök skuldara til, aðeins stéttarsamtök launþega.

Á Íslandi er óréttlætið í stéttskiptingu skuldunauta og lánadrottna ekki fólgið í því að stéttaskiptingin sé yfirhöfuð til, heldur er það fólgið í verðtryggingu lánsfjármagns. Það er gegn þessu óréttlæti sem almenningur er að berjast, óháð því hverjar tekjur hans eru og óháð því hvort hann á eitthvað af eignum eða ekki. Sá göfugi vilji ríkisstjórnarinnar að ætla að ræða málefni heimilanna í landinu við samtök atvinnulífsins eru því dæmd til þess að mistakast. En henni er kannski vorkunn því að við hvern á hún að tala? Það eru bara til heildarsamtök lánadrottna en engin heildarsamtök skuldunauta! Mín fátæklegu ráð til ríkisstjórnarinnar eru því einfaldlega þau að hlusta á fólkið í landinu og framkvæma svo vilja þess."

Það er ekki annað hægt en að taka heilshugar undir með Ingólfi í þessum efnum.  Þó leyfi ég mér að fullyrða að Hagsmunasamtök heimilanna séu í það minnsta vísir að lánþegasamtökum.  Við höfum alla vega tekið afgerandi stöðu sem málsvari lánþega á neytendasviði.  Sem slík erum við gjörsamlega búin að tala okkur blá í framan við dræmar undirtektir stjórnvalda. 

Því spyr ég ykkur fundarmenn að því nú hvort tími sé kominn til aðgerða?

Aðstæður eru nú með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að grípa til nauðvarnar til að knýja fram tafarlausar úrbætur, þjóðinni til heilla.

Satt best að segja átti ég aldrei von á því að til þessa myndi koma.  Ég kaus að treysta því í lengstu lög að stjórnvöld myndu átta sig á því að það væri í þeirra valdi að afstýra stórkostlegu tjóni og allsherjar upplausnarástandi í þjóðfélaginu sem ég hef áður varað við og vísað til sem fjárhagslegrar borgarastyrjaldar.

Sú styrjöld er reyndar hafin fyrir margt löngu síðan, en áhrif hennar eru nú byrjuð að koma fram með víðtækari hætti en áður. Flestum er sjálfsagt ennþá í fersku minni Álftanesaðferðin, sem svo hefur verið nefnd, þegar maður sem misst hafði hús sitt afréð að rústa það með þungavinnuvél á sjálfan þjóðhátíðardaginn.

Þó mótmælin á 17. júní hafi ekki ratað inn í beina útsendingu Ríkissjónvarpsins frá Austurvelli var sýnt þegar forsætisráðherra og forseti lögðu blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, sjálfstæðisímynd þjóðarinnar.

En hvað felst í því sjálfstæði?  Jú, vissulega liggur beint við að skírskota til hins fullvalda lýðveldis, en spyrja má að því hvernig slíkt fullveldi var fengið.  Með þrælslund og undirlægjuhætti? Eða þurftu menn og konur að taka á honum stóra sínum og standa með sjálfum sér og gegn hvers kyns ofríki þegar á hólminn var komið?

Ef við samþykkjum hljóðalaust það óréttlæti sem felst í höfuðstólshækkun lána á grundvelli vafasamra vísitölu- og gengisbindinga erum við þá nokkuð annað en skuldaþrælar sem ekki þorum að rísa upp og berjast fyrir réttindum okkar?

Í vikunni sem leið voru haldnir fundir víðsvegar um landið á vegum HH um boðun greiðsluverkfalls.  Í beinu framhaldi óskaði stjórn HH eftir umboði félagsmanna til að skipa verkfallsstjórn og hefja aðgerðir eins og þær hafa verið skilgreindar.  Kosning fór fram rafrænt og liggja niðurstöður nú fyrir.  Þær eru afgerandi.  77% svarenda sögðu já.  

Í raun er margt líkt með greiðsluverkfalli og hefðbundnu verkfalli.  Mikilvægt er að hafa í huga að venjulega leggur fólk ekki niður störf vegna þess að það ætli sér að hætta að vinna.  Nei, fólk fer í verkfall til að berjast fyrir bættum kjörum. 

Þetta má algerlega yfirfæra á greiðsluverkfallið.  Ég veit til dæmis ekki um neinn sem vill hætta að borga af lánunum sínum eða hefur ekki áhuga á að standa við þær skuldbindingar sem viðkomandi stofnaði til í góðri trú.  Hins vegar veit ég um marga sem eru mjög ósáttir við þau lánakjör sem bjóðast á Íslandi um þessar mundir og framgöngu stjórnvalda í þeim málum.

Til að auka líkurnar á að hertar aðgerðir skili árangri er nauðsynlegt að skipulegga þær vel.  Hlutverk verkfallsstjórnar verður að skipuleggja og sjá um framkvæmd verkfallsins.  Hugsanlega verður ákveðið að boða verkfallið þegar nægilegur fjöldi hefur lýst yfir áhuga á að taka þátt í hertum aðgerðum með einum eða öðrum hætti.  Líkt og þegar um hefðbundið verkfall er að ræða verður kröfugerð afhent ríkissáttasemjara við boðun greiðsluverkfalls og þess freistað að fá stjórnvöld að samningaborðinu.

Það skal sérstaklega tekið fram að markmiðið með aðgerðinni er ekki að valda tjóni heldur að vinna gegn frekara tjóni síðar meir sem mun eiga sér stað verði stefnan ekki tekin í rétta átt.

En hvers vegna ætti nokkur maður að taka þátt í slíkum aðgerðum?  Þessari spurningu er erfitt að svara nema út frá eigin forsendum.  Ég er reiðubúinn að deila með ykkur hvers vegna ég íhuga þátttöku. 

Í fyrsta lagi ber að nefna skálkaskjól þeirrar efnahagsóstjórnar sem hér hefur liðist, höfuðóvin íslenskrar alþýðu á efnahagslegum grundvelli, sjálfa verðtrygginguna, sem verður að afnema með öllu.  Verðtryggingin er ekki bara óréttlát svikamylla heldur er hún einnig lögvarinn þjófnaður þar sem eignir almennings eru með skipulögðum hætti færðar elítunni á silfurfati.  Að tengja höfuðstól skulda við verðbólgu er auk þess algerlega fráleitt og þjóðhagslega óhagkvæmt.  Þetta virðast flestar þjóðir heims skilja.

Í annan stað er óheimilt samkvæmt frumvarpi því sem varð að lögum um vexti og verðtryggingu að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Gengistryggð lán eru því sjálfsagt ólögmæt.  Það að íslensk stjórnvöld kusu engu að síður að leyfa slík neytendalán á sínum tíma er að öllum líkindum ámælisvert.

Í þriðja lagi eru forsendur flestra lánasamninga brostnar þar sem í mörgum tilfellum hafði annar samningsaðilinn með atferli sínu bein áhrif á höfuðstól skuldarinnar til hækkunnar.  Ég er að tala um það hvernig bankarnir, eigendur þeirra og lykilstjórnendur, felldu gengi krónunnar með svo kröftugu handafli að gengistryggð lán tvö- til þrefalduðust og verðtryggð lán hækkuðu um fjórðung á um það bil ári.

Á endanum hlaut eitthvað að láta undan í þessum hamagangi og bankarnir fóru á hausinn hver á fætur öðrum.  Fyrstu viðbrögð stjórnvalda við þeirri krísu voru að tryggja innstæður á Íslandi umfram skyldu og bæta duglega í peningamarkaðssjóði til að koma til móts við tap þeirra sem höfðu verið svo ólánsamir að falla fyrir þeim gylliboðum bankanna.

Kostnaðurinn við þessar aðgerðir vorum um 1.200 milljarðar.  Það slagar hátt upp í landsframleiðslu ársins 2008.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei lýst andstöðu við þessar aðgerðir þó að sitt sýnist sjálfsagt hverjum.  Aftur á móti höfum við gert þá kröfu að öll sparnaðarform verði varin en ekki bara sum. 

Því hvers vegna er sparifé þess sem ákvað að binda það í fasteign ómerkilegra en sparifé þess sem ákvað fjárfesta í peningamarkaðssjóði?  Á meðan sumt sparifé er varið upp í topp er annað gengisfellt eða brennt á verðbólgubáli. 

Til þess að bíta svo endanlega höfuðið af skömminni virðast stjórnvöld ætla að fjármagna nýtt ofvaxið fjármálakerfi með húsnæðisskuldum almennings. 

Eða hvað?  Myndi norrænni velferðarstjórn detta slíkur ósómi til hugar?  Að kaupa lánin á hrakvirði úr þrotabúum gömlu bankanna og innheimta þau svo margfalt til baka af fullri hörku?  Það er enginn svo óforskammaður að gera nokkuð slíkt, eða hvað?

Góðir fundarmenn.

Að endingu þakka ég gott hljóð og minni á að án réttlætis verður enginn friður.


mbl.is Nokkur fjöldi á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagssáttmáli HH

http://www.heimilin.is/varnarthing/about/alyktanir-samtykktir/353-samfelagssattmali-hh
mbl.is Sáttmáli undirritaður á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband