Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Opið bréf til gæslumanna almannahagsmuna

8. bindi skýrslu RNA ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008".  Við lestur kafla II. 3 sem heitir ,,Samskipti stjórnmála og efnahagslífs" er ástæða til að staldra við, nánar tiltekið á bls. 153.  Þar segir:

„Eitt af markmiðum einkavæðingar er að færa völd frá stjórnmálamönnum til einkaaðila. Með einkavæðingu banka, sjóða og margra fyrirtækja á síðasta áratug dró ríkisvaldið sig út úr margvíslegri starfsemi og völd stjórnmálamanna minnkuðu að sama skapi. Á sama tíma og ríkisvaldið veiktist sóttist viðskiptalífið æ meir eftir afskiptum af stefnumótun og lagasetningu sem um það er sett. Eins og víða hefur gerst beittu fyrirtæki hagsmunasamtökum til að hafa afskipti af reglusetningu og lagasetningu. Hættan er sú að þetta lami jafnframt lýðræðislegt ákvörðunarferli. Þegar þannig er komið verða mörkin milli viðskiptalífsins og stjórnmála verulega óskýr. Hagsmunaaðilar taka ákvarðanir í stað stjórnvalda sem aftur kemur í veg fyrir lýðræðislega umræðu um efnið. Hérlendis reyndu tvö hagsmunasamtök viðskiptalífsins, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu og þá umgjörð sem fjármálafyrirtækjum var búin. Ekki er hægt að segja annað en að þeim hafi orðið vel ágengt."

Þjónustulund Alþingis í garð Viðskiptaráðs síðastliðin ár er margrómuð.  Til að mynda var skýrt frá því í júní 2006 að skv. athugun ráðsins hafi Alþingi farið eftir tillögum Viðskiptaráðs í 90% tilvika á starfsárinu sem þá var að ljúka.

Í niðurlagi kaflans, á bls. 170, er komið inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni.  Þar segir:  

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsveð, frumvarp þetta gengur í daglegu tali undir nafninu „Lyklafrumvarpið" og er til meðferðar (lesist: svæft) í Allsherjarnefnd.  Í stuttu máli gengur frumvarpið út á að lánveitendum verði ekki heimilt að ganga lengra í innheimtu lána með veði í íbúðarhúsnæði heldur en að leysa til sín hina veðsettu eign. 

Hér er á ferðinni gríðarlegt hagsmunamál fyrir almenning sem hefur mátt horfa upp á lánin sín hækka og hækka í kjölfar hruns íslensku krónunnar, verðbólgunnar sem í kjölfarið fylgir og í krafti ósanngjarnra verðbreytingarákvæða í lánasamningum.  Að því er fram kemur á bloggi Marinós G. Njálssonar er það mat Seðlabankans, að 28.300 heimili, eða 39% heimila sem eiga eigið húsnæði, séu í neikvæðri eiginfjárstöðu og 65% „ungra" heimila eru í þeirri stöðu.  Verðbreytingarákvæðin eru reyndar sér kapítuli og algerlega óverjandi að ekki sé búið að afnema þau fyrir lifandi löngu eins og 80% þjóðarinnar vill gera.

Að svo komnu máli ætla ég ekki að fjölyrða um hversu óábyrg útlánastefna hefur tíðkast á Íslandi undanfarin ár en að mati Sigurjóns Árnasonar, fyrrv. bankastjóra Landsbankans voru fasteignalán bankanna „tómt rugl".  Ég mun heldur ekki skorast undan því að ræða lyklafrumvarpið efnislega hafi einhver áhuga á því.  Mín niðurstaða í þeim efnum er að verði frumvarpið að lögum muni það stuðla að jafnvægi á fasteignamarkaði til frambúðar - þar sem framboð og eftirspurn fasteigna stýra verði þeirra en ekki ofgnótt lánsfjár með baktryggingu í sjálfskuldarábyrgð (lesist: veði í lífi lántakenda).

Þegar litið er til þeirra umsagna sem allsherjarnefnd hefur borist málsins vegna má sjá að Viðskiptaráð hefur sent inn umsögn.  Sú umsögn er eins og vænta má til þess fallinn að stöðva framgang málsins.  Þau rök sem Viðskiptaráð tilgreina eru m.a. á þá leið að frumvarpið gangi gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti kröfuhafa.  Á móti má spyrja að eignarrétti fasteignaeigenda sem hafa mátt sjá eignarhlut sinn í fasteignum rýrna jafnt og þétt, varla er stjórnarskráin einstefna.

Nú stendur upp á lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar, „gæslumenn almannahagsmuna", að sýna í verki að þeim sé ekki fyrirmunað að læra af reynslunni.


mbl.is Brýnt að leysa vanda stofnfjáreigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kaupa sér frest?

Eftirfarandi klausa er úr pistli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem kallast „Af gefnu tilefni frá Steinunni Valdísi" og er að finna á vef Samfylkingarinnar

„Við í Samfylkingunni þurfum að horfast í augu við fortíðina og þær aðferðir sem við höfum haft við uppbyggingu flokksstarfsins, fjármögnun og aðferðir við val á framboðslista. Með það að markmiði höfum við sett á fót sérstaka umbótanefnd. Ekkert á að undanskilja í þeirri vinnu og ræða allar hugmyndir af alvöru. Innan okkar raða hefur sú krafa janfvel heyrst að allir þeir sem sátu á Alþingi fram til ársins 2008 skuli víkja og láta nýju fólki eftir uppbygginguna í kjölfar hrunsins. Er hún réttmæt? Það er ekki óhugsandi að við komumst að þeirri niðurstöðu að svo sé og að slíkar róttækar aðgerðir séu nauðsynlegar til að baráttumál okkar hljóti þann hljómgrunn sem við teljum þeim bera meðal þjóðarinnar. Við skulum ekki útiloka neitt fyrirfram."

Viðbrögðin við þessum pistli hafa verið á ýmsa vegu.  Teitur Atlason skrifar í bloggfærslu á DV sem heitir ,,Steinunn Valdís svarar":

„Reyndar er þessi hugmynd að allir þingmenn Samfylkingarinnar sem sátu á tíma hinnar Vanhæfu ríkisstjórnar segi af sér, ósköp eðlileg og myndi ekkert vekja neina sérstaka eftirtekt í þróuðum lýðræðisríkjum.  Ég er ekkert þakklátur Steinunni að varpa þessu fram.  Ekkert frekar en að þakka strætóbílstjóra fyrir að stoppa á rauðu ljósi eða eitthvað svoleiðis.

Þetta er ganska sjalfklart eins og Sænskurinn segir. 

Þó rennur mig í grun að Steinunn sé í rauninni að segja "Ég ætla ekki að vera blóraböggull í þessu máli" og hótar hinum þaulsetnu og mosavöxnu félögum sínum allskonar þrýstingi ef hún væri látin taka (bónus)pokann sinn út úr alþingi."

Í færslu sem ber titilinn ,,Það sem Steinunn Valdís skilur ekki" og er á Freedomfries á Eyjunni er vitnað í orð Steinunnar í ofangreindum pistli frá henni á vef Samfylkingarinnar:

,,En mér er hins vegar annt um æru mína og samvisku. Afsögn á grundvelli ásakana um að hafa þegið mútufé frá útrásarvíkingum og af þeim sökum látið undir höfuð leggjast að beita mér gegn þeim sem skyldi myndu hvorugu hjálpa. Þær ásakanir eru einfaldlega rangar og breytir þá litlu hvort fáir eða margir hafa þær uppi."

Síðuhöfundur skrifar í kjölfarið:

,,Ég held ekki að málið snúist um að Steinunn hafi þegið „mútur" eða hvort Steinunn hafi birt rétt bókhald um alla styrki sem hún fékk. Málið snýst um að stjórnmálamenn sem fjármögnuðu kosningabaráttu sína og frama í stjórnmálum með styrkjafé frá fjármálastofnunum og athafnamönnum sem gerðu landið gjaldþrota þurfa að axla ábyrgð - sýna kjósendum í verki að þeir brugðust, að löngun þeirra til að „skipta um vettvang" eins og Valdís orðar það, og sækjast eftir völdum og frama, hafi verið slík að þeir hafi látið bera á sig tugi milljóna í styrki.

Málið snýst ekki um að Steinunn sé glæpamaður og þjófur. Ég efast stórlega um að hún sé það, eða að styrkirnir allir hugsaðir sem mútur, þó þeir líti þannig út í augum margra kjósenda. En um það snýst málið bara alls ekki. Málið snýst um að stjórnmálamenn þurfa að axla ábyrgð og sýna iðrun og snúa við blaðinu. Og það hefur Steinunn ekki gert, því það er ekki hægt að lesa bréf hennar frá um daginn öðru vísi en sem svo að hún upplifi sig sem saklaust fórnarlamb ofsókna, og að ef hún þurfi að axla ábyrgð á einhverju eigi barasta allir aðrir þingmenn flokksins að axla sömu ábyrgð".

Eftirfarandi klausa er af vef Samfylkingarinnar þar sem tilkynnt er um umbótanefndina: 

„Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 17. apríl 2010 var samþykkt skipan umbótarnefndar sem hefur það verkefni að leiða skoðun og umræðu um störf, stefnu, innri starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins og gera að því loknu tillögur til umbóta. ... Stefnt skal að því að kynning helstu niðurstaðna og tillagna fyrir stjórn flokksins og flokksstjórnarfundi verði eigi síðar en 15. október 2010."

Að lokum langar mig að velta því upp hvort það sé ætlun Steinunnar Valdísar að draga málið á langinn þangað til haust, og ef svo er hvort slíkt þyki boðlegt.


Samskipti Steinunnar og Þórs

Eins og kunnugt er hefur þingmannanefndin sem ætlað er að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu RNA nú tekið til starfa.  Þingmannanefndin starfar á grundvelli tiltekinna laga sem sett voru um starfsgrundvöll hennar.

Hér má sjá feril málsins á Alþingi.

Lagafrumvarpið var til meðferðar hjá Allsherjarnefnd hverrar formaður heitir Steinunn Valdís Óskarsdóttir.  Þór Saari er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og lýsti Hreyfingin á öllum stigum málsins miklum efasemdum um ágæti þess.  Í viðleitni sinni til að bæta málið óskaði Þór m.a. eftir því við formann nefndarinnar að tilteknir aðilar yrðu kallaðir fyrir nefndina til að veita umsögn um það, en slíkur er algengur háttur þegar kemur að störfum nefnda þingsins. 

Beiðninni var hafnað, á þeirri forsendu að ,,formlega séð væri fulltrúi Hreyfingarinnar áheyrnarfulltrúi í nefndinni og því þyrfti formaður samkvæmt reglum um þingsköp ekki að verða við ósk hans um gesti (þó vissulega væri það heimilt)".  Um þetta má lesa í yfirlýsingu sem Hreyfingin sendi frá sér málsins vegna.

Hér á eftir fer annars vegar bréf sem Þór ritaði Steinunni sem lá fyrir fundi allsherjarnefndar þann 10. desember 2009 og ræða Steinunnar í þinginu þann 29. desember 2009.

Bréf Þórs

,,Sæl Steinunn.

Meðfylgjandi er rökstuðningur fyrir þeim gestum sem óskað var að kæmu fyrir nefndina vegna máls 286 um þingmannanefnd vegna skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (Blaðamannafélag Íslands).
Fulltrúi "fjórða valdsins" , þ.e. blaða/fréttamanna hverra álit ég tel mikilvægt vegna þess aðhalds sem þeir eiga að veita stjórnvöldum í lýðræðisríkjum.

Ragnar Aðalsteinsson hrl.
Sennilega sá lögmaður íslenskur sem hvað mest hefur tjáð sig um lýðræði og mannréttindi sem og að hafa mjög virtar skoðanir um stjórnskipan og stjórnarskra Íslands. 

Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands
Sá fræðimaður innan Háskólans sem hvað fyrst varaði við hruninu og hefur skrifað fjölmargar greinar um ástæður þess.

Hörður Torfason, söngvaskáld (Raddir fólksins).
Einhver staðfastasti mannréttindafrömuður Íslands og sá er stóð fyrir og skipulagði "Raddir fólksins", útifundi á Austurvelli s.l. vetur er voru vettvangur tugþúsunda íslendinga sem voru að óska eftir nýjum vinnubrögðum og aðferðum við stjórn landsins.

Egill Helgason, blaðamaður.
Sennilega einn mikilvægasti og virtasti þáttastjórnandi samtímans og er e.t.v. meira með "púlsinn" á þjóðinni en nokkur annar.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.
Einhver virtasti og best menntaði stjórnsýlsufræðingur landsins og með mikla reynslu úr stjórnkerfinu hér á landi sem og erlendis og býr yfir mikilli þekkingu á stjórnsýslum nágrannalanda og þeim aðferðum sem þar er beitt.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. sendiherra og ráðherra.
Með afburða þekkingu og reynslu af innlendum og alþjóðastjórnmálum.

Ólafur Hannibalsson, blaðamaður og rithöfundur (Þjóðarhreyfingin).
Forsvarsmaður Þjóðarhreyfingarinnar sem er hópur fólks sem hefur fundað reglulega undanfarin a.m.k. átta ár um lýðræðis- og stjórnkerfisumbætur.  Þjóðarhryefingin samanstendur af mörgum mjög reynslumiklumog hæfum einstaklingum sem hafa víðtæka þekkingu af íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu.

Gunnar Sigurðsson, leikstjóri (Borgarafundir)
Forsprakki "Borgarafunda", þeirra funda sem spruttu upp s.l. vetur og voru vettvangur þúsunda sem komu til að hlýða á og eiga samræður við stjórnmálamenn og/eða aðra sem tengdust málefnum þeim er mest brunnu á fólki í kjölfar hrnsins í október s.l. 

Eva Joly,
hana þarf varla að kynna en ég hef pata af því að hún sé á landinu eða við það að koma.  Ef svo er ekki þá væri gott að fá aðstoðarmann hennar Jón Þórisson í hennar stað.

Jón Þórisson, aðstoðarmaður Evu Joly.

Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.
Sérþekking Róberts á íslenskri stjórnskipan og stjórnsýslu gerir álit hans mjög mikilvægt.

Með bestu kveðju,

Þór Saari
þingmaður Hreyfingarinnar"

Ræða Steinunnar:

,,Frú forseti. Hv. þm. Þór Saari veit mætavel að sú sem hér stendur hafnaði ekki beiðni hans fyrst og fremst vegna formsatriða. Ég gat þess hins vegar að í samþykktum um áheyrnarfulltrúa fastanefnda er ekki gert ráð fyrir því að áheyrnarfulltrúar geti kallað gesti fyrir fundi. Það var hins vegar ekki meginástæðan fyrir því að ég hafnaði þeim lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fram.

Eins og hv. þingmaður veit mætavel, sagði ég við hann á þessum tiltekna fundi að ég sæi ekki sérstaka ástæðu til þess að kalla tiltekna blaðamenn, álitsgjafa, fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga eða ræðumenn hér úti á Austurvelli í aðdraganda búsáhaldabyltingarinnar fyrir nefndina, þennan 14 manna lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fyrir mig, frekar en að kalla einhverja aðra tiltekna einstaklinga inn á fund. Það var ástæðan fyrir því að ég féllst ekki á að kalla þessa einstaklinga þarna inn en ekki þau formsatriði sem hv. þingmaður nefnir hér.

Ég vil óska eftir því við hv. þingmann að hann fari rétt með staðreyndir hér úr ræðustóli Alþingis."


mbl.is Segir ásakanir á hendur sér rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferði og trúverðugleiki Háskóla Íslands

Stofnun stjórnsýslufræða, kynjafræði innan stjórnmálafræðideildar og blaða- og fréttamennska innan félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands boða til málþings, miðvikudaginn 21. apríl 2010, undir yfirskriftinni ,,Af hverju gengur þetta svona hægt? Konur, kosningar og fjölmiðlar"

Á dagskrá er m.a. auglýst erindi Katrínar Jakobsdóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem kallast:  ,,Viðbrögð stjórnmálamanna, núv. og fyrrv. ráðherra mennta-og menningarmála, stutt innlegg".

Í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur Þorgerður Katrín eins og kunnugt er sagt af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ákveðið að taka sér tímabundið leyfi frá þingstörfum. 

Nafn Þorgerðar er m.a. að finna í töflu 23 sem tilgreinir þá Alþingismenn sem höfðu yfir 100 milljóna lán.  Taflan er í 8. bindi skýrslunnar.  Í samhengi við þær upplýsingar sem fram koma í töflu 23 sagði Þorgerður Katrín í afsagnarræðunni um síðustu helgi: 

,,Hjá þeirri staðreynd verður ekki horft að minn elskulegi eiginmaður – og þar með ég sjálf með einum eða öðrum hætti - stöndum í eitt þúsund og sjöhundruð milljón króna skuld við kröfuhafa lána sem við tókum. Líkt og ég sagði áðan eru skuldir okkar Kristjáns ekki nýjar fréttir en með útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar er þessi veruleiki enn áþreifanlegri en áður.

Það var hinn gallharði femínisti í mér sem svaraði í útvarpinu einn morguninn í vikunni svo óheppilega að þetta væru ekki mínar skuldir heldur hans! Reyndar finnst mér alls ekki sanngjarnt að  stjórnmálakonurnar sem taldar eru skulda stórar upphæðir samkvæmt skýrslunni eru þar allar komnar á blað vegna viðskipta og fyrirgreiðslu  við eiginmanna þeirra. En hér er sanngirni ekki til umræðu heldur siðferði og tilfinningar."


Nafn Þorgerðar er einnig að finna í töflu 6. í sama bindi sem tilgreinir þá þingmenn sem þáðu styrk frá Landsbankanum á tímabilinu 2004 - 2008.

Einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar er Ásta Möller, forstöðumaður stofnunnar stjórnsýslufræða.  Nafn hennar er einnig að finna í ofangreindum töflum.


mbl.is Boða til aukalandsfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkjamál Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur

Yfirlit yfir framlög lögaðila til SVÓ 2006 og 2007
 20062007Samtals
Landsbanki Íslands1.500.0002.000.0003.500.000
Baugur1.000.0001.000.0002.000.000
FL Group1.000.0001.000.0002.000.000
Nýsir1.000.000 1.000.000
Hönnun500.000 500.000
Eykt650.000 650.000
Atlantsolía500.000 500.000
Framlög lögaðila undir 500 þús.kr. hvert1.950.000650.0002.600.000
Samtals8.100.0004.650.00012.750.000
Heimild: 
http://www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/sveit06samf.pdf
http://www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/Alþingiskosningar_2007_Samf.pdf

Trúverðugleiki og pólitísk ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur

Á blaðsíðu 18 í Fréttablaðinu í dag, þann 17. Apríl 2010, eru birt svör formanna flokkanna við spurningum blaðsisins í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Ein af þeim spurningum sem um ræðir hljóðar svo: „Aðhafðist þú eitthvað eða sýndirðu af þér aðgerðaleysi sem biðjast ber afsökunar á?"

Svar formanns Samfylkingarinnar hefst með eftirfarandi orðum:  „Ekkert í skýrslu rannsóknarnefndarinnar gefur tilefni til að ætla að svo sé, enda var ábyrgðasvið mitt í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á svið félags- og tryggingamála og málefni bankanna komu nánast aldrei til umræðu á ríkisstjórnarfundum fyrir hrun."

21. kafli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ber titilinn „Orsakir falls íslensku bankanna - ábyrgð mistök og vanræksla".  Í kafla 21.4.2. er fjallað um ríkisstjórnina.  Í kaflanum kemur meðal annars fram (feitletranir eru mínar):

„Fyrir liggur að í ríkisstjórn Íslands var lítið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna sem hófst undir loks sumars 2007 og ágerðist eftir því sem á leið. Hvorki verður séð af fundargerðum ríkisstjórnarinnar né frásögnum þeirra sem gáfu skýrslur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem fóru með efnahagsmál (forsætisráðherra), bankamál (viðskiptaráðherra) eða fjármál ríkisins (fjármálaráðherra) hafi gefið ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á efnahag og fjármál ríkisins frá því að þrengja tók að bönkunum og þar til bankakerfið riðaði til falls í október 2008. Á tímabilinu hafði þó birst neikvæð umfjöllun um bankana í innlendum sem erlendum fjölmiðlum, íslenska krónan hafði veikst verulega auk þess sem skuldatryggingarálag bankanna fór hækkandi.

Frá því í byrjun árs 2008 höfðu oddvitar ríkisstjórnarflokkanna fengið upplýsingar um vanda fjármálafyrirtækja landsins á fundum með bankastjórn Seðlabanka Íslands. Þá fengu þeir ráðherrar sem áttu fulltrúa í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað upplýsingar um að hvaða verkefnum samráðshópurinn vann á hverjum tíma en áhyggjur af stöðu íslensku fjármálafyrirtækjanna og umræður um nauðsyn viðbúnaðaráætlunar vegna fjármálaáfalls fóru vaxandi á þeim vettvangi.

Til skýringar á því að málefni bankanna hafi ekki verið tekin upp í ríkisstjórn hefur rannsóknarnefndin m.a. fengið þær athugasemdir frá Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í bréfi, dags. 24. febrúar 2010, að þau hafi verið viðkvæm trúnaðarmál. Hefðu upplýsingar um þau borist út af fundum ríkisstjórnar, eða jafnvel aðeins frést að þau væru rædd þar sérstaklega, hefði það getað valdið tjóni. Málefni bankanna hafi því ekki verið tekin á formlega dagskrá ríkisstjórnarfunda en verið reifuð undir liðnum „önnur mál" eða utan dagskrár þegar við átti eða einhver ráðherra óskaði þess. Samkvæmt gamalgróinni venju hafi slíkar umræður ekki verið færðar til bókar. Af þessu tilefni tekur rannsóknarnefnd fram að hvað sem leið störfum ríkisstjórnarinnar fram á sumar 2008 virðist þessi venja ekki hafa staðið í vegi fyrir því að bókað væri í fundargerð ríkisstjórnar 12. ágúst 2008 að viðskiptaráðherra hefði lagt fram minnisblað, dags. sama dag, um skipan nefndar um fjármálastöðugleika og lagt til að ríkisstjórnin féllist á þær tillögur sem þar voru settar fram. Tillaga viðskiptaráðherra fékk engar undirtektir í ríkisstjórn og var málinu frestað.

Rannsóknarnefndin tekur fram að almennt er ekki um það deilt að neikvæðar fregnir eða orðrómur sem kvisast út um afstöðu eða fyrirhugaðar aðgerðir opinberra aðila á vettvangi fjármálamarkaðar geti orðið til þess að hreyfa við aðilum á markaðnum og jafnvel auka á þann vanda sem við er að etja. Það hlýtur þó að heyra til skyldna ráðherra sjálfra, og þá einkum forsætisráðherra, að búa svo um hnútana í skipulagi og starfi ríkisstjórnar að hægt sé að ræða þar í trúnaði um viðkvæm mál sem varða mikilsverða og knýjandi almannahagsmuni. Hvað sem öðru líður hlýtur sú aðstaða að veikja starf stjórnvalda verulega ef vantraust veldur því að slík málefni komi yfirhöfuð ekki með neinum raunhæfum hætti fram á vettvangi ríkisstjórnar.

Rétt er að benda á ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar í þessu sambandi. Samkvæmt þeim er skylt að ræða nýmæli í lögum og „mikilvæg stjórnarmálefni" á ráðherrafundum, eða ríkisstjórnarfundum eins og þeir kallast að jafnaði. Enda þótt hver ráðherra fari sjálfstætt með málefni sem undir hann heyra samkvæmt málefnaskiptingu innan stjórnarráðsins verður í samræmi við stjórnarskrána að gera ráð fyrir að „mikilvæg stjórnarmálefni" séu tekin til umræðu í ríkisstjórn þannig að aðrir ráðherrar hafi tækifæri til að bregðast við og hafa áhrif á stefnumörkun ríkisstjórnar og síns ráðuneytis. Hér þarf líka að hafa í huga að það getur skipt máli hvað skráð er um mál í fundargerð og gögn ríkisstjórnarinnar ef síðar reynir á hvort gerðar hafi verið viðhlítandi ráðstafanir af hálfu ráðherra í tengslum við tiltekna stjórnarframkvæmd og hverjir úr hópi ráðherra hafi átt þar hlut að máli.

...

Rannsóknarnefnd Alþingis telur mikilvægt að mál sem koma til umræðu og ráðið er til lykta í innra starfi ríkisstjórnarinnar komi fram með skýrum hætti í formlegum fundargerðum hennar, enda er þar um að ræða einhverjar mikilvægustu ákvarðanir sem teknar eru fyrir hönd þjóðarinnar.

Forsætisráðherra átti allmarga fundi árið 2008 með formanni bankastjórnar Seðlabankans og bankastjórum bankanna. Bankastjórn Seðlabankans átti einnig á tímabilinu febrúar til maí 2008 a.m.k. fimm fundi með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Félagsmálaráðherra sótti einn þessara funda þegar rætt var um málefni Íbúðalánasjóðs. Af skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, verður ráðið að hann hafi ekki verið boðaður á neinn þessara funda. Þar var þó m.a. rætt um vanda bankanna og lausafjárkreppuna en málefni bankakerfisins heyrðu undir ráðuneyti hans. Að auki virðist viðskiptaráðherra hvorki hafa verið gerð grein fyrir því að fundirnir fóru fram né upplýstur um það sem þar fór fram, þó með þeirri undantekningu að upplýst er að á þingflokksfundi Samfylkingarinnar 11. febrúar 2008 gerði formaður Samfylkingarinnar Björgvin og fleirum grein fyrir fundi sem hún átti ásamt forsætis- og fjármálaráðherra með bankastjórn Seðlabankans 7. febrúar 2008.

...

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum ómarkvissar þegar harðna tók á dalnum í ársbyrjun 2008. Ráðherrar einblíndu of mikið á ímyndarvanda fjármálafyrirtækja í stað þess að takast á við þann augljósa vanda að íslenska fjármálakerfið var allt of stórt miðað við íslenska hagkerfið. Þegar ráðherrar hugðust bæta ímynd landsins með þátttöku í opinberri umræðu, einkum erlendis, var það gert án þess að lagt væri mat á fjárhagslegan styrk ríkisins til þess að koma bönkunum til aðstoðar og án þess að fyrir lægju upplýsingar um kostnað við hugsanlegt fjármálaáfall. Í þessu sambandi má nefna að Björgvin G. Sigurðsson viðurkenndi við skýrslutöku að yfirlýsingar um að ríkið myndi styðja við bakið á bönkunum hefðu verið byggðar á pólitískri afstöðu en ekki mati á raunverulegri getu ríkisins í þeim efnum. Á sama tíma lagði Seðlabanki Íslands áherslu á að gera gjaldeyrisskiptasamninga og auka gjaldeyrisforðann til þess að auka trúverðugleika bankans til þess að takast á við fjármálaáfall.

Þótt hér sé á engan hátt gert lítið úr ímyndarmálum og aðgerðum til að auka trúverðugleika vekur það hins vegar athygli að stjórnvöld skyldu ekki samhliða grípa til annarra aðgerða. Þannig verður ekki séð að gerð hafi verið vönduð úttekt á því hvort þörf væri á því að einn eða fleiri af stóru bönkunum flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Þvert á móti var það beinlínis opinber stefna þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð var í maí 2007 að bankarnir hefðu áfram höfuðstöðvar á Íslandi, sbr. umfjöllun í kafla 5.0.

...

Getuleysi ríkisstjórnar og stjórnvalda til að draga úr stærð fjármálakerfisins í tæka tíð áður en til fjármálaáfalls kom sker í augu þegar sú saga er virt sem rakin er í köflum 19.0 og 20.0. Í því sambandi er rétt að minnast þess að þegar banki veitir fyrirtæki lágt lán er hann í stakk búinn til að setja fyrirtækinu skilyrði verði um vanskil að ræða. Ef banki veitir aftur á móti fyrirtæki svo hátt lán að bankinn sjái fram á veruleg skakkaföll lendi lánið í vanskilum er það í reynd fyrirtækið sem komið er með slík tök á bankanum að haft getur óeðlileg áhrif á framgang viðskipta þess við bankann. Á sama hátt liggur fyrir að þegar stærð fjármálakerfis lands nemur þrefaldri þjóðarframleiðslu þess hafa lögbær yfirvöld landsins almennt burði til þess að setja fjármálakerfinu leikreglur og hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt. Þegar stærð fjármálakerfis lands nemur aftur á móti nífaldri þjóðarframleiðslu þess verður viðsnúningur á þessu og virðist þannig bæði Alþingi og ríkisstjórn hafa skort burði og þor til þess að setja fjármálakerfinu skynsamleg mörk. Öll orka virðist hafa farið í að halda fjármálakerfinu gangandi því það var orðið svo stórt að ekki var hægt að taka áhættuna af því að jafnvel aðeins hluti þess félli."

Í 2. kafla skýrslunnar segir í ágripi um megin niðurstöður hennar:  „Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra áttu fund með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. febrúar 2008. Á fundinum dró formaður bankastjórnar Seðlabankans upp mjög dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum íslensku bankanna. Upplýsingarnar bentu til yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnhagslíf."

Eftirfarandi texti er úr fundargerðum þingflokks Samfylkingarinnar sagt var frá hér að ofan.  Umrædd gögn eru hluti af þeim gögnum sem Björgvin G. Sigurðsson lét rannsóknarnefndinni í té, nánar tiltekið fylgiskjal 10.

Úr fundargerð þingflokks Samfylkingarinnar 11. febrúar 2008:
„ISG:      Ríkisstjórn mun koma með útspil vegna stöðunnar í efnahagsmálum í vikunni.  Staðan á fjármálamörkuðum er alvarleg vegna ástandsins á alþjóðlegum mörkuðum og skuldsetningar íslensku bankanna.  Við þurfum  að senda út þau skilaboð að við getum ráðið við vandann.  Bankarnir munu standa af sér a.m.k. næstu 9 mánuði en spurningin er hvað ríkið getur gert hafi markaðir ekki opnast þá.  Því þarf að svara. 

Moody‘s mat stöðu ríkisins neikvæða og lausnir á því gætu verið aukið aðhald og að Íbúðalánasjóður starfi í samræmi við stefnu Seðlabankans.  Nýtt mat er væntanlegt þar sem lánshæfismat ríkis og banka lækka enn frekar.  Samtök fjármálafyrirtækja hafa sent ISG og GHH tillögur - eins konar bænaskjal.

Jón Þór Sturluson aðstoðamaður viðskptaráðherra og Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri voru settir í að skoða lausnir og hugmyndir þeirra eru t.d.:
- draga til baka reglugerð fjármálaráðherra um gjaldeyri og Seðlabanka - gæti verið sterkur leikur
- fjármögnun og skráning hlutafjár í erlendri mynd auðvelduð
- styrkja Tryggingasjóð innistæðueigenda
- auka gjaldeyrisforða með lántöku (ekki hagstætt núna - gert síðar er aðstæður batna)
- ríkið fari með bönkum í kynningu erlendis á íslenskri fjármálastarfsemi"

11 feb 08

Úr fundargerð þingflokks Samfylkingarinnar 18. febrúar 2008:
„ISG:      Stöðuna á fjármálamörkuðum þarf að taka alvarlega og menn þurfa að passa sig á að tala ekki óvarlega því slíkt tal getur verið skaðlegt berist það út.  Aðilar á markaði vilja helst ekki að talað sé hátt um þessi mál.  Það þarf að styrkja gjaldeyrisforða og lausafjárstöðu en hagstæðara að gera það án þess að mikið beri á.  Það er líka mikilvægt að kynna styrkleikana, sterka stöðu ríkissjóðs og góða eiginfjárstöðu bankanna án þess þó að gera of mikið úr því."

18 feb 08

Í 19. kafla skýrslunnar segir:  „Í skýrslu Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra, kom fram að oftast hefði „súperráðherrahópurinn" komið fyrst að umfjöllun um stærri mál, s.s. ríkisfjármál og kjarasamningsráðstafanir og annað slíkt, og mótað stefnuna áður en aðrir ráðherrar hefðu komið að máli. Í þessum hópi hefðu verið forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra."

Einnig segir í 19. kafla: „Hinn 8. ágúst 2008 héldu fjórir ráðherrar lokaðan fund með hagfræðingunum Má Guðmundssyni, Gauta B. Eggertssyni, Friðriki Má Baldurssyni og Jóni Þór Sturlusyni. Fundinn sóttu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var ekki meðal fundarmanna. Um ástæður þessa upplýsti Jón Þór Sturluson við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þetta hefði verið „súperráðherrahópurinn". Hagfræðingarnir Friðrik, Gauti og Már hefðu á fundinum haldið framsögu um lausafjárvandann."

Í kvöldfréttum RÚV var svo sýnt frá ræðu Jóhönnu á fundi Samfylkingarinnar í dag.  Sagði hún meðal annars:  „Við vorum hluti af ríkisstjórn sem hefði samkvæmt skýrslunni getað minnkað skaðann með markvissari viðbrögðum, þar liggur ábyrgð Samfylkingarinnar."

Hvar liggur ábyrgð Jóhönnu?

vanhaef_rikisstjorn


mbl.is Draga á þá sem tæmdu bankana fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála

Var að horfa á umræður stjórnmálamanna í Kastljósi kvöldsins um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem meðal annars var komið inn á fjármál stjórnmálasamtaka.

Þór Saari upplýsti að ekki stæði til gera fjárframlög frá fyrirtækjum til stjórnmálasamtaka óheimil, þrátt fyrir það sem á undan er gengið.  Er þessi fullyrðing framsett á grundvelli lagafrumvarpsdraga um breytingar á gildandi lögum um fjármál stjórnmálasamtaka sem rædd voru á fundi formanna flokkanna síðasta sunnudag. 

Nú er starfandi nefnd sem hefur með endurskoðun laganna að gera.  Þór tilgreindi sérstaklega að fulltrúi Sjálfstæðismanna í nefndinni væri á móti því að framlög lögaðila yrðu gerð óheimil.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hafnaði þessum ummælum Þórs hins vegar og sagði hið rétta í málinu að það hefði verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem hefði lagt það til að framlög lögaðila yrðu bönnuð, um það hefði aftur á móti ekki tekist sátt og lendingin orðið sú að lögaðilar megi styrkja flokkana um 300 þúsund krónur á ári.

Ég sit fyrir Hreyfinguna í umræddri nefnd en sitjandi fulltrúi Sjálfstæðisflokksins er Gréta Ingþórsdóttir.  Hins vegar er sú tillaga sem Bjarni vísaði til komin frá forvera hennar í nefndinni, Kjartani Gunnarssyni.  Var hún fram sett þegar flokkarnir tókust á um málið  þegar gildandi lög voru sett árið 2006.  Niðurstaðan varð þó eins og Bjarni lýsti.  Þegar þessi forsaga málsins var rædd í nefndinni fyrir nokkrum vikum spurði ég Grétu hvort hún vildi gera tillögu forvera síns að sinni.  Í stuttu máli sagt svaraði hún því neitandi.

Í 8. bindi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um fjárframlög bankanna til stjórnmálasamtaka og stjórnmálamanna.  Á bls. 170 er komið inn á þá lærdóma sem draga þurfi af reynslunni.  Þar segir m.a.: 

Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."


Skoðar AGS bankaskatt?

Í Fréttablaðinu í dag má lesa frétt sem ber titilinn ,,AGS skoðar bankaskatt".

Í fréttinni kemur fram að AGS íhugi að leggja nýja skatta á banka og fjármálafyrirtæki.  Annars vegar hagnaðarskatt og hins vegar einhverskonar loftbóluskatt.  Eins kemur fram að þriðja leiðin hafi verið skoðuð sem ekki sé líklegt að nái fram að ganga.  Hún felst í skattlagningu fjármagnsflutninga (Tobin-skattur?). 

Sagt er að skattféð eigi að fara í sjóð sem nýtast muni AGS í fjármálakreppum á borð við þær sem riðið hafa alþjóðlegum fjármálamörkuðum síðast­liðin tvö ár og á að koma í veg fyrir að almenningur verði látinn borga brúsann þegar illa fer.

Við þetta má gera þrjár athugasemdir.

1.  Hvernig stendur á því að AGS íhugi að leggja skatta á eitthvað yfir höfuð?  Maður hefði haldið að slíkt væri hlutverk löggjafans í hverju ríki fyrir sig.  Lýðræðislegt aðhald óskast.  

2.  Það er jákvætt að menn hafi í hyggju að koma einhverjum böndum á bankana og hefta óeðlilegan vöxt pappírsverðmæta, eins og virðist vera markmiðið með þessum sköttum.  Aftur á móti veldur vonbrigðum að svo virðist sem hugmyndir á borð við Tobin-skatt njóti ekki meiri stuðnings. 

3.  Í hlekknum á Tobin skattinn er grein á Vísindavef HÍ sem ég hvet til lesturs á.  Eins má nefna að Attac samtökin voru upphaflega stofnuð í kringum kröfu um upptöku Tobin-skatts. 

Á vef HÍ segir: ,,Ýmsar tillögur hafa verið settar fram um það hvert tekjurnar af skattinum ættu að renna, til dæmis í að kosta rekstur Sameinuðu þjóðanna eða styðja vanþróuð lönd. ... Þá eru sumir hrifnir af hugmyndinni um skattinn en efast um að hún sé framkvæmanleg. Það er ekki skrýtið því að innheimtan og framkvæmdin almennt gæti orðið afar snúin svo að ekki sé minnst á fyrirsjáanlegar deilur um það hvert afraksturinn ætti að renna."

Velta má fyrir sér hvort raunverulega sé komið í veg fyrir að almenningur borgi brúsann með innheimtu umræddra skatta og eyrnamerkingu þeirra til bjargar fjármálakerfisins þegar illa fer.  Að sama skapi má spyrja að því hvort umrætt fyrirkomulag tryggi ekki einmitt að almenngur borgi brúsann - fyrirfram -  því hver er hin raunverulega uppspretta verðmætanna, og öllu heldur ávísanna til þeirra, þegar öllu er á botninn hvolft?


5 stærstu pólitísku mistökin frá 1976 - 2008

5 stærstu pólitísku mistök sem gerð voru á Íslandi frá því að ég fæddist árið 1976 og fram að hruni árið 2008:

1. Verðtryggingu komið á lán og laun með Ólafslögunum svokölluðu árið 1979. Árið 1983 var verðtrygging launa afnumin.
http://www.visir.is/article/20081103/SKODANIR/660801973

2. Kvótakerfið, upprunalega komið á með lagasetningu árið 1983.
http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dslenska_kv%C3%B3takerfi%C3%B0

3. Einkavæðing bankanna 1998 - 2002.
http://is.wikipedia.org/wiki/Einkav%C3%A6%C3%B0ing_bankanna_2002

4. Stuðningurinn við innrásina í Írak 2003
http://www.ogmundur.is/umheimur/nr/1085/

5. Kárahnjúkavirkjun 2002 - 2007
http://www.natturan.is/frettir/3760/

http://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%A1rahnj%C3%BAkavirkjun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband