Lýðræðisleg þátttaka almennings

Stjórnlagaráð
Ofanleiti 2
103 Reykjavík

Mosfellsbæ, 30.6.2011

Í Áfangaskjali að stjórnaskrá (14. ráðsfundur) segir eftirfarandi í kafla um lýðræðislega þátttöku almennings:

„2.  Þingmál að frumkvæði kjósenda

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Fimmtán af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi ákveður hvort þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi eða ráðgefandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi."

Hér með er þess farið á leit við ráðið að ofangreindur texti verði endurskoðaður með það leiðarljósi að uppspretta valds er hjá kjósendum.  Sú ráðstöfun að Alþingi ákveði hvort þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp kjósenda skuli vera bindandi eða ráðgefandi virðist ekki þjóna neinum öðrum tilgangi en að þingmenn geti stöðvað framgang þeirra mála sem þingmenn kunna að vilja stöðva þar sem Alþingi er ekki skylt að fara eftir niðurstöðu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.  Auk þess getur það varla talist lýðræðislega frambærilegt að kjósendum verði gert að bíða í tvö ár eftir óbindandi niðurstöðu í slíkum tilfellum.

Hægt væri að kveða á um það í textanum að þjóðaratkvæaðgreiðslan væri bindandi eða að kjósendur taki þá ákvörðun.  Verði það ofan á að kjósendum verði látið það eftir að taka ákvörðunina er hægt að útfæra það á mismunandi vegu.  Hægt væri að tilgreina það í frumvarpinu hvort vilji kjósenda standi til þess að fram fari ráðgefandi eða bindandi þjóðaratkvæaðgreiðsla um frumvarpið.  Eins væri hægt að láta kjósendur staðfesta í kjörklefa hvort um sé að ræða ráðgefandi eða bindandi atkvæði.

Þá væri hægt að leggja upp með aðra nálgun þegar kemur að frumkvæði kjósenda.  Hægt væri að hugsa sér að tiltekið hlutfall kjósenda gæti lagt fram lagafrumvarp og færi þá fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið svo fljótt sem auðið er.

Virðingarfyllst,
Þórður Björn Sigurðsson
Rauðumýri 1 - 106
270 Mosfellsbæ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband