Afnám verðtryggingar og Maastricht-skilyrðin

Þann 16. júlí 2009 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðildarumsókn Íslands að ESB.  33 þingmenn sögðu já, 28 sögðu nei.  2 þingmenn, þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðfriður Lilja Grétarsdóttir, þáverandi þingflokksformaður VG greiddu ekki atkvæði.  Tillaga Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur  um  svokallaða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, það er þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja eigi um aðild að ESB var felld með 32 atkvæðum gegn 30.

Þann 13. júlí 2009 skrifaði ég bloggfærlsu undir heitinu „Ráðgefandi löggjafarvald".  Í henni segir: 

„Nokkuð hefur borið á umræðu um hugsanlega aðild Íslands að ESB.  Ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort ég telji hagsmunum Íslands betur borgið utan eða innan sambandsins.  Til þess veit ég einfaldlega of lítið um hvað felst í aðild enda hef ég engan samning séð.  Ég hef um nokkurt skeið verið verið fylgjandi þeirri hugmynd að fá úr því skorið hvers kyns samningur kann að bjóðast.  Ef formleg aðildarumsókn er nauðsynleg í því samhengi þarf einfaldlega að sækja um, semja og leggja svo afraksturinn í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir faglega og upplýsta umræðu.  En málið er ekki einfalt.

Eðli málsins samkvæmt er ég einnig hlynntur tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.  Slík aðferðafræði gerir ráð fyrir lágmarkstillitsemi gagnvart þeim sem kunna að vera andvígir.  Ég tel að umboð framkæmdavaldsins til aðildarviðræðna verði að vera skýrt og óskorað.  Annað væri ólýðræðislegt og síður líklegt til árangurs eins og nú árar í okkar sundraða samfélagi.  Það má ekki gleyma því að horfa á málið í því samhengi sem sitjandi ríkissstjórn komst til valda.  Ég er alls ekki sammála því að síðustu kosningar hafi snúist um ESB.  Þær snérust um allt, allt annað.

a_gongumi_inn.jpgÉg hef verið ófeiminn síðustu daga við að láta í ljós þá skoðun mína að ef aðgöngumiðinn að ESB er samþykkt Icesave samningsins í núverandi mynd og óbreytt samstarf við AGS tel ég að ESB megi bíða áfram eftir umsókn Íslands.  Umsókn okkar þarf að vera lögð fram á okkar forsendum þegar við höfum um eitthvað að semja.  Við megum ekki bara taka hverju því sem að okkur er rétt.  Að þessu sögðu mælist ég til þess að þessi tvö mál verði leidd til lykta áður en ESB málið verður lagt í dóm þjóðarinnar.

thingma_ur_segir_ja.jpgÞað sem stendur upp úr varðandi ESB málið og Icesave er hversu lítil virðing er borin fyrir Stjórnarskránni en 48. grein hennar hljóðar svo: ,,Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum".  Fregnir af kúgun þingmanna til hlýðni við flokk sinn í sambandi við þessi mál vekja eðlilega upp áleitnar spurningar er varða stöðu þjóðríkisins og þroskastig þess lýðræðis sem menn telja sig vera að iðka."

Í dag, tæpum 2 árum síðar, hugsa ég að afstaða mín til aðildar Íslands að ESB sé í grófum dráttum sú sama.  Vegna þess að ég er almennt hlynntur lýðræðislegri afgreiðslu mála ætti ég erfitt með að taka ekki undir þá tillögu að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um hvort halda skuli viðræðuferlinu áfram eða að umsóknin verði dregin til baka.  Á hinn bóginn er margt sem bendir til þess að farsælast sé, úr því sem komið er, að klára viðræðuferlið og kjósa svo um niðurstöðuna eins fljótt og auðið er.  Mikilvægt er að fá niðurstöðu í þetta mikla ágreiningsmál.  Minnugur um að í samskiptum við stórveldi er ekkert til sem heitir vinátta, bara hagsmunir, eins og Matthías Jóhannessen sagði í Draumalandinu, hlýtur ískalt hagsmunamat að ráða för í því sambandi.

Að trúa á verðtryggingu?
Eitt af því sem stuðningsmenn umsóknar Íslands að ESB hafa tilgreint er að með aðild að ESB geti Ísland tekið upp evru og þannig losnað við verðtrygginguna.  Stundum, þegar þessi mál ber á góma, er engu öðru líkt en að um einhverskonar trúarbrögð sé að ræða.  Margir halda því fram að verðtryggingin sé óhjákvæmilegur fylgifiskur íslensku krónunnar því hún sé óstöðug og síverðbólgin.  Einnig að enginn myndi vilja lána peninga á Íslandi nema ef væri fyrir verðtrygginguna.  En það er akkúrat þarna sem hundurinn liggur grafinn.  Verðtryggingin er ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur krónunnar nema menn gefi sér þá forsendu að fjármagnseigendur þurfi aldrei að horfast í augu við verðbólgu heldur velti áhættu af verðbólguþróun sífellt yfir á þann sem fær lánað sem er bæði óréttlátt og óskynsamlegt.  Heilbrigð skynsemi er að álykta að á meðan orsok_og_lausn_kreppunnar.jpgsvo er búið um hnútana þurfi lánvetendur hvorki að hafa miklar áhyggjur af vandaðri útlánastarfsemi né samfélagslegri ábyrgð þegar kemur að sköpun skilyrða fyrir efnahagslegan stöðugleika og lága verðbólgu.  Á meðan allir hlutaðeigandi aðilar sameinast ekki um að leggja höfuðáherslu á að ná tökum á efnahagsstjórninni í stað þess að grípa aftur til þeirra skammtímalausna sem boðið var upp á í fortíðinni mun ekkert breytast.

Grunnur að þjóðarsátt
Ein leið sem nefnd hefur verið til skjalana til að jafna ábyrgð milli lánveitenda og lántakenda þegar kemur að áhættunni sem fylgir verðbólgu í lánastarfsemi er að lögfesta nafnvaxtaþak á óverðtryggð lán.  Ný verðtryggð útlán er hægt að banna með einu pennastriki.  Ef slíkt þak væri fyrir hendi þyrftu stjórnvöld og lánveitendur að sjá til þess að verðbólga ásamt umsömdum lánsvöxtum færu aldrei upp fyrir þakið til að tryggja ávöxtun lánveitandans.  Grunnur að þjóðarsátt; framtíðarsýn Hagsmunasamtaka heimilanna er dæmi um þessa hugsun.

Afnám verðtryggingar með upptöku evru og Maastricht-skilyrðin
Þó vissulega sé vel hægt að hætta að verðtryggja krónuna er sjálfsagt að taka þá umræðu sem snýr að afnámi hennar með upptöku nýs eða annars gjaldmiðils.  Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fulltrúi Samfylkingarinnar í verðtryggingarnefnd sem skilaði skýrslu sinni til efnahags- og viðskiptaráðherra þann 12. maí 2011, álítur að raunhæfasta og fljótlegasta leiðin til að stuðla að afnámi verðtryggingar sé að stefna að upptöku evru eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  Þetta má lesa í séráliti hans (bls. 19 - 21 í skýrslunni).  Í því kemur einnig fram að þegar Ísland hefði náð að uppfylla Maastricht-skilyrðin um verðbólgu, vaxtastig, fjárlagahalla og skuldir hins opinbera, en þó eftir a.m.k. tvö ár innan ERM II, gæti landið tekið upp evru.  Öllum íslenskum krónum yrði þá skipt beint í evrur í boði evrópska seðlabankans á því gengi sem ákveðið var við inngöngu.

jaghcop.jpgMeð upptöku evru eftir inngöngu í ESB breytast verðtryggð húsnæðislán ekki sjálfkrafa í óverðtryggð.  Gerðir samningar munu standa, nema gripið verði til sérstakra aðgerða til að breyta þeim.  Með upptöku evru yrði lánastofnunum hins vegar gert auðveldara að bjóða upp á óverðtryggð lán á hagstæðari kjörum. 

Maastricht-skilyrðin eru sett til að tryggja stöðugleika og draga úr hættu á að möguleg efnahagsleg áföll hafi ósamhverf áhrif í aðildarríkjum ESB.  Ríkin þurfa að uppfylla eftirfarandi:

  • Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB ríkjum með lægstu verðbólguna.
  • Langtímavextir mega ekki vera meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugast.
  • Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu.
  • Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu.
  • Aðili að gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils innan ákveðinna vikmarka.

Til að fá upplýsingar um hvernig Ísland stendur gagnvart Maastrich-skilyrðunum lagði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, fram fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra.  Ráðherra hefur nú svarað fyrirspurninni.  Ekki er hægt að segja annað en að svörin staðfesti áhyggjur þeirra sem hafa haldið því fram að Ísland uppfylli ekki Maastricht skilyrðin og muni ekki uppfylla þau í bráð, nema í besta falli að hluta til, því mikil óvissa er uppi um þá þætti sem skoðast gætu innan marka.  Til einföldunar útbjó ég eftirfarandi töflu:

Uppfyllir Ísland Maastricht-skilyrðin?

 

2010

Hvenær

Forsendur

1. Verðbólga

Nei

2011

Spá framkvæmdastjórnar ESB

2. Langtímavextir

 

 

3. Afkoma ríkissjóðs

Nei

2012

Skýrsla AGS frá 6. júní 2011

4. Opinberar skuldir

Nei

?

Ekki fyrir amk. 2017 skv. spá AGS

5. ERM II

Nei

?

2 ár í ERM II með viðunandi árangri

Varðandi verðbólguþáttinn kemur fram í svari ráðherra að framkvæmdastjórn ESB spáir 3% verðbólgu á Íslandi árið 2011.  Á sama tíma er því spáð að verðbólga verði 1,63% í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún er minnst.  Gangi þetta eftir næst skilyrðið með tilliti til ársins 2011.  Samkvæmt Hagstofu Íslands er 12 mánaða hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs 3,1% í apríl 2011.  Talan fer hækkandi milli mánaða enda hefur verðbólgan verið að aukast á ný upp á síðkastið.  Það bendir til þess að verðbólga á Íslandi kunni að verða meiri á árinu 2011 en spá framkvæmdstjórnar ESB gengur út frá.  Ísland muni þá ekki uppfylla verðbólguþátt Maastricht-skilyrðanna fyrir árið 2011 eins og fram kemur í svari ráðherra nema þróunin í þeim þremur ríkjum ESB þar sem verðbólgan er minnst verði okkur hagfelld í samanburði.

Þegar horft er til langtímavaxta segir í svari ráðherra að langtímavextir skuldabréfa ríkissjóðs (10 ára) hafi verið að meðaltali 6,5% árið 2010. Í þeim þremur ríkjum ESB þar sem verðbólga var lægst 2010 voru vextir að meðtali 7,35%.  Vextir á Íslandi hefðu því mátt vera 9,35% árið 2010 en voru nærri 3 prósentustigum lægri en svo.  Ef staðan væri tekin nú væri miðað við vexti í Tékklandi, Írlandi og Svíþjóð. Meðallangtímavextir í þeim þremur ríkjum eru 5,8%. Vaxtaviðmið Maastricht-skilyrða væri því 7,8%. Langtímavextir ríkissjóðs eru hins vegar nú um 7,3%.  Þetta er eini þáttur Maastricht-skilyrðanna sem Ísland uppfyllir eins og er.  Hafa ber í huga að íslenska hagerfið liggur í öndurnarvél gjaldeyrishafta með erlendar lánalínur í æð. 

Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skal halli af rekstri ríkissjóðs ekki vera meiri en 3% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan.  Ef svo er ekki þarf hlutfallið að hafa lækkað jafnt og þétt í átt að 3%.  Að sögn ráðherra stefna stjórnvöld að jákvæðum frumjöfnuði ríkissjóðs árið 2011 og að árið 2013 verði heildarafkoma ríkissjóðs jákvæð.  Halli af rekstri ríkissjóðs er talinn hafa verið 5,4% árið 2010, samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 6. júní sl., en í þeirri tölu er stuðst við skilgreiningu AGS á skuldum hins opinbera.  Í skýrslunni er því spáð að hallinn verði 3,3% í lok árs 2011 og 0,5% í lok árs 2012, en að afkoma ríkissjóðs verði orðin jákvæð um 2,2% árið 2013.  Gangi spáin eftir verður skilyrðinu náð í lok árs 2012, eða fyrr sé tekið tillit til lækkunar hlutfallsins úr 13,5% í 3,3% frá lokum árs 2008 til loka árs 2011.  Það verður áhugavert að sjá hvernig stjórnvöldum tekst að halda þetta plan.  Ég er ekki bjartsýnn á að það takist án óásættanlegra fórna.    

Stóra fréttin í svari ráðherra kemur hinsvegar fram þegar litið er til þess þáttar sem snýr að opinberum skuldum Íslands. Því ef spá AGS um þróun opinberra skulda frá lokum árs 2010 til loka árs 2016 er notuð, eins og ráðherra miðar við, næst markmið um skuldir ríkissjóðs ekki á spátímanum.  Samkvæmt efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS mun Ísland ekki uppfylla Maastricht-skilyrðin til að minnsta kosti 2017.  Að því gefnu er útilokað að Ísland taki upp evru í gegnum ESB aðild fyrr en í fyrsta lagi 2019 og þá aðeins að ef skuldastaða hins opinbera verður komin undir 60% af VLF.

Er stefna Samfylkingarinnar óraunhæf?
Í þessu sambandi er ekki úr vegi að rifja upp ummæli utanríkisráðherra í Silfri Egils þann 22. maí 2011.  Á vef Eyjunnar kemur fram að utanríkisráðherra hafi sagt í þættinum að Íslendingar gætu tekið upp evruna á innan við þremur árum frá því að þjóðin samþykkti samning um aðild að Evrópusambandinu.  Ég ætla því að endurtaka spurningu sem ég sló upp sem fyrirsögn í bloggfærslu þann 13. maí 2011: „Er stefna Samfylkingarinnar óraunhæf?"  Miðað við svar efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um Maastricht-skilyrðin hlýtur svarið að vera já.  Að framansögðu fæst ekki annað ráðið en að það sé í besta falli mikil einföldun að halda því að almenningi að verðtryggingin hverfi með inngöngu í ESB eða eins og segir í auglýsingu Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 2009:

„Aðild myndi færa okkur öflugra atvinnulíf, stöðugan gjaldmiðil og lægri vexti, án verðtryggingar."

Almenningur hefur mátt líða fyrir okurvaxtastefnu sem ríkt hefur á landinu í hart nær þrjá áratugi, allt frá árinu 1983 þegar hætt var að verðbæta laun en áfram haldið að verðbæta lán.  Að ætla sér að halda dauðahaldi í verðtrygginguna til allavega 2019, eins og svar ráðherra ber með sér er algerlega óverjandi.  Þeirri stefnu verður að breyta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Þórður,

góð og vönduð færsla. Það sem er sláandi er tvískynnungur Samfylkingarinnar og að þau miða alla sína tilveru við að koma okkur inn í ESB. 

Hvað viðkemur verðbólgunni þá er bara að afnema hana, tekur fimm mínútur eða svo.

Maastricht skilyrðin eru hönnuð fyrir fjármagnseigendur. Þegar íslenska krónan féll haustið 2008 þá töpuðu allir, bæði þeir sem áttu íslenskar krónur í banka eða eignir í íslenskum krónum. Það gekk jafnt yfir alla. Með Maastricht skilyrðinum verður að gengisfella þjóðfélagið innan frá því ekki má hagga evrunni. Þar með hagnast innistæðueigendur því evran heldur sínu gildi. Aftur á móti verður afgangurinn af þjóðfélaginu að taka á sig launalækkanir og skerðingar til að útflutningurinn eða framleiðslan verði meira virði.

Gunnar Skúli Ármannsson, 14.6.2011 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband