Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Getur einhver svarað þessu?

Í umræðum á facebook er því haldið fram að ERM II geti verið endastöð fyrir Ísland í gjaldmiðilsmálum.  Þannig megi ná fram afnámi verðtryggingar.

Er þetta raunhæft?

Eða þurfum við að fara alla leið yfir í evruna, ef við ætlum á annað borð inn í ESB?

 


Skiptigengisleið

Hagsmunasamtök heimilanna standa nú fyrir undirskriftasöfnun og krefjast afnáms verðtryggingar og almennra leiðréttinga lána. Því til áréttingar birta samtökin umfjöllun um fjórar mismunandi leiðir að þessu marki.  Ein af þeim leiðum sem um ræðir er kennd við skiptigengi.  En hvað felur sú leið í sér?  Eftirfarandi texti er fenginn að láni hjá HH og útskýrir vonandi málið.

Skiptigengisleið
Aðferðin felur í sér að fjárskuldbindingar í krónum eru færðar yfir í nýjan eða annan gjaldmiðil á mismunandi gengi í þeim tilgangi að endurreisa heimilin og hagkerfið. Það myndi leiða til aukinnar velferðar í gjörbreyttu efnahagsumhverfi og skapa tækifæri til að leiðrétta þá ósanngjörnu eignaupptöku sem átt hefur sér stað.

Skiptigengisleiðin hefur reynst vel til að byggja upp þjóðfélög að nýju eftir alvarleg áföll. Þrátt fyrir að ekki sé um algerlega sambærilegt ástand að ræða og þar sem þetta hefur verið gert, eins og í Þýskalandi, þá er það mat samtakanna að þessi leið sé jafn einföld og hún er snjöll. Það er því kannski engin tilviljun að Þjóðverjar hafi beitt henni í þrígang, nú síðast þegar þýsku ríkin sameinuðust.

Kostir skiptigengisleiðarinnar:
- Almenn skuldaleiðrétting treystir rekstrargrunn heimila og fyrirtækja og hraðar endurreisn.
- Samrýmist eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
- Er áhrifaríkt og skjótvirkt úrræði sem ríkisstjórnin getur auðveldlega beitt.
- Gerir verðtryggingu óþarfa.
- Fjármálakerfið hreinsar út eitraðar og verðlausar platkrónur sem sitja eftir úr froðuhagkerfinu.
- Svart fé og því sem skotið hefur verið undan leitar upp á yfirborðið því enginn vill sitja uppi með gamlar úreltar og verðlausar krónur.

Hagsmunasamtök heimilanna taka ekki afstöðu til þess hvaða gjaldmiðill yrði fyrir valinu, það er pólitísk spurning sem stjórnvöld þurfa að svara. Sem dæmi mætti nefna nýja íslenska krónu, evru, Bandaríkjadal, kanadískan dal, norska krónu eða jafnvel nýja samnorræna krónu.

Meira um skiptigengisleið
Til þess m.a. að örlög þjóðarinnar í peningamálum verði frekar í hennar eigin höndum, er nauðsynlegt að skipta um gjaldmiðil og gera það með mismunandi gengi eftir því hvort um er að ræða t.d. laun og lágmarkssparnað eða aflandskrónur byggðar á falsverðmætum.

Aðgerðin ætti ekki að taka nema nokkra daga og myndi flýta endurreisn þjóðar um mörg ár.
Jafnhliða upptöku nýs gjaldmiðils verði gjaldeyrishöft afnumin og verðtrygging á neytendalán bönnuð og í framhaldi gerð krafa um ábyrga efnahagsstjórn. Þá yrði að búa þannig um hnútana að auðvelt væri fyrir þá lántakendur sem nú þegar eru með verðtryggð lán að greiða þau upp með nýjum lánum, eða breyta þeim í þá veru sem lagt er til með nýju lánakerfi, án uppgreiðslu eða stimpilgjalda.

Með þessum hætti gæti Ísland á ný og mun fyrr náð aftur stjórn á eigin efnahags- og peningamálum. Aðgerð sem þessi væri einnig jákvæð hvort heldur sem landið verður aðili að ESB, þar sem hún mun styðja við og flýta fyrir því að landið uppfylli Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku Evru, eða ef þjóðin ákveður að standa utan sambandsins, með gjaldmiðil sem, öndvert við núverandi krónu, væri gjaldgengur í alþjóðlegum viðskiptum. Samtökin taka ekki afstöðu til þess hvaða gjaldmiðill verður fyrir valinu, ný íslensk króna eða einhver annar.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni og á sér fordæmi erlendis frá. Henni var til að mynda þrisvar hrint í framkvæmd í Þýskalandi á 20. öld, nú síðast við sameiningu Þýskalands. Þrátt fyrir að aðstæður hér á landi séu ekki alveg sambærilegar því sem þar var telja samtökin að þessi leið yrði vænleg til endurreisnar hagkerfisins.

Í sinni einföldustu mynd felst hugmyndin í því að eignir og skuldir eru færðar yfir í annan gjaldmiðil á mismunandi gengi. Sem dæmi mætti taka að smærri fjárhæðir, eins og laun og innistæður upp að ákveðnu marki færu yfir á genginu 1 á móti 1. Þannig yrðu 100 þúsund í gamla kerfinu jafngildi 100 þúsund í því nýja. Stærri skuldbindingar á borð við húsnæðislán færu yfir á öðru skiptigengi, til dæmis 1 á móti 0,6 - 0,7 (stuðullinn myndi miðast við uppsafnaða verðbólgu frá 2008 sem er nú um 34% frá 1. janúar 2008). Verðfærslur opinberra skráninga, s.s. fasteignaskrár á fasteignamati og brunabótamati verði skipt á genginu 1 á móti 0,6 - 0,7. 20 milljónir í gamla kerfinu yrði þannig að 14 milljónum í því nýja. Með þessu móti mætti leiðrétta fyrir það verðbólguskot sem varð vegna hrunsins og já, afnema verðtryggingu með skjótvirkri einskiptisaðgerð. Þess vegna telja Hagsmunasamtök heimilanna skiptigengisleiðina færa.

Einföld skýring á vandamálum hagkerfisins
Eitt af fórnarlömbum íslenskra viðskiptahátta í aðdraganda bankahrunsins er íslenska krónan. Með markaðsmisnotkun banka og lykilaðila íslensks viðskiptalífs á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði, með dyggri aðstoð peningaprentunaráhrifa almennrar verðtryggingar og peningastefnu Seðlabankans, var peningamagn í umferð margfaldað á árunum 2001 til 2008.

Ekki reyndist innistæða fyrir þessari aukningu og má segja að með þessu móti hafi þessir aðilar stundað peningafölsun og komist upp með það. Verðlausum pappírum var gefið verðgildi m.a. í svokölluðum „endurhverfum viðskiptum" bankanna við Seðlabankann. Þannig gátu bankarnir og velvildarmenn þeirra, sem voru fyrst og fremst í eigendahópnum, í reynd skipt út platkrónum fyrir alvöru krónur.

Í dag sitja þessar „alvöru" krónur á bókum seðlabankans og fjármagnseigenda í formi alfandskróna og skuldabréfa. Fjármagnseigendur bíða nú í röðum og vilja skipta þessum aflandskrónum yfir í gjaldeyri. Seðlabankinn hefur kynnt áætlun um losun gjaldeyrishafta, en helsta hindrunin á þeirri vegferð er hið mikla magn króna í umferð sem gert er ráð fyrir að eigendur vilji skipta yfir í gjaldeyri.

Seðlabankinn hefur því í áætlunum sínum kynnt tvær hugsanlegar leiðir til þess að losa um þá spennu sem hið mikla krónumagn veldur. Báðar byggja á því að beitt verði mismunandi gengi fyrir krónueignir fjármagnseigenda sem vilja losna úr helsi íslensku krónunnar. Annars vegar að gjaldeyrir verði seldur á uppboði og hins vegar að gjaldeyrisútflæði verði skattlagt þannig að raungengi liggi í reynd við aflandsgengi en ekki álandsgengi (opinbert skráningargengi Seðlabankans). Einungis uppboðsleiðin er komin til framkvæmda með því tilraunauppboði sem Seðlabankinn hefur þegar tilkynnt.

Ljóst er að leiðir Seðlabankans munu taka langan tíma, enda er nú gert ráð fyrir að gjaldeyrishöft verði viðvarandi a.m.k. til 2015. Aðferðarfræði Seðlabankans setur því þannig fjármagnseigendur í ökumannssætið varðandi tímalengd afnáms hafta. Stærsti gallinn við aðferðarfræði Seðlabankans er hins vegar sá að með henni verður ekki dregið úr peningamagni í umferð. Allt of margar krónur í umferð þýða að varanlega hefur dregið úr verðgildi gjaldmiðilsins og undirliggjandi verðbólguþrýstingur skapar hættu á annarri aðför að högum heimilanna þegar þessar krónur án undirliggjandi verðmætasköpunar komast í umferð eins og áætlun Seðlabankans gerir ráð fyrir. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir landsmanna verði helstu kaupendur á þessum krónum.


1521 læk vs. 51 kvitt

Illugi Jökulsson skrifar bloggfærslu um Sævar Ciesielski sem er nýlega fallinn frá.  Í færslunni segir:

,,Eftir að Sævar losnaði úr fangelsi hóf hann, flestum á óvart, mikla baráttu fyrir því að mál hans og félaga yrðu endurupptekin. Hann stóð einn – tugthúslimur, fyrrverandi smáglæpamaður, dæmdur morðingi, úthrópað illmenni! – gegn gervöllu íslenska kerfinu sem ætlaði sko ekki að viðurkenna mistök! Með hjálp frá nokkrum góðum manneskjum tókst Sævar að koma endurupptökubeiðni fyrir Hæstarétt. Þá var orðið deginum ljósara að á Sævari og félögum höfðu verið framin skelfileg réttarmorð. Meira að segja Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra viðurkenndi það í ræðustól á Alþingi. En enginn var samt til í að GERA neitt. Hæstiréttur hafnaði beiðni um endurupptöku. Það dugði ekki að sýna fram á að rannsókn málsins var rugl, meðferð þess hraksmánarleg og niðurstaðan augljós og svívirðileg skopstæling á réttlæti. Lesið bara málsskjölin."

 

Í þessum skrifuðum orðum hafa 1521 "lækað" færsluna.

Eva Hauksdóttir setur í gang undirskriftasöfnun til að skora á ráðherra að taka málið upp að nýju.  Á síðu undirskriftasöfnunarinnar segir:

,,Hver sem kynnir sér gögn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna hlýtur að sannfærast um að stór mistök hafi verið gerð, bæði við lögreglurannsóknir á þessum málum sem og fyrir dómstólum. Einn sakborninga, Sævar Ciesielski, hélt því fram til dauðadags að á honum hefði verið framið réttarmorð og barðist árangurslaust fyrir endurupptöku. Nú þegar Sævar er fallinn frá, sýnum við honum og öðrum sem þessi mál varða, samstöðu okkar með því að skora á Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála, sem og rannsókn á vinnubrögðum þeirra sem fóru með rannsókn málanna.  Málsgögnin eru almenningi aðgengileg á netslóðinni http://www.mal214.com"

Í þessum skrifuðum orðum hafa 51 kvittað.

Ég verð númer 52...


Þjóðaratkvæðagreiðslur um ríkisvæðingu einkaskulda

,,Þá er lagt til nýtt ákvæði um að ekki verði veitt ríkisábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga einkaaðila nema almannahagsmunir krefjist."

Hver mun skera úr um það hvort almannahagsmunir krefjist ríkisábyrgðarinnar eður ei?

Hvað mun liggja til grundvallar á því mati?

Væri ekki ráð að kveða á um að ekki verði veitt ríkisábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga einkaaðila nema almannahagsmunir krefjist og að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu þar að lútandi?


mbl.is Umræður á Alþingi verði tvær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða leið vilt þú fara?

Í spá Hagstofunnar segir eftirfarandi:

,, Hið opinbera, ríki, almannatryggingar og sveitarfélög, hefur verið rekið með miklum halla að undanförnu. Ríkissjóður varð að taka á sig miklar skuldbindingar vegna falls fjármálakerfisins á meðan tekjuhliðin skrapp saman. Hið opinbera stendur því frammi fyrir því erfiða verkefni að breyta miklum tekjuhalla í afgang og lækka skuldir á komandi árum."

Hvaða leið vilt þú að farin verði í þeim efnum?

a) Viltu draga úr opinberum útgjöldum og skera niður þjónustu?
b) Viltu hækka skatta og gjöld?
c) Viltu að ríkið og sveitarfélög selji eignir?
d) Viltu að endursamið verði um opinberar skuldir?

Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að byrja á því að gera atlögu að skuldunum áður en við leyfum okkur að hugsa um aðra möguleika.  Nóg er komið af niðurskurði og skattahækkunum að mínu viti.  Ég tel auk þess að nóg sé komið af einkavæðingu í bili, nú þurfi að hugsa í nýjum lausnum. 

Í því sambandi vil ég nefna tvær aðgerðir sem fordæmi eru fyrir.  Önnur er að taka upp nýjan eða annan óverðtryggðan gjaldmiðil  á mismunandi skiptigengi.  Hin er að ráðast í kortlagningu opinberra skulda.  Þar með talið allar eignir og skuldbindingar sem kunna að hafa verið færðar utan efnahagsreiknings.  Í framhaldi að endursemja um höfuðstól og vexti skulda svo þær komist í niðurgreiðanlegt horf og afborganir ógni ekki velferð þjóðarinnar.


mbl.is Hagstofan hækkar hagvaxtarspá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna undirskriftasöfnun?

uhrbbrc.jpg

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 í þeim tilgangi að berjast fyrir almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar. Þann 12. febrúar 2009 litu tillögur samtakanna um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar dagsins ljós. 

Tillögurnar fólu meðal annars í sér ofangreindar kröfur. Samtökin lögðu frá upphafi áherslu á að vinna með stjórnvöldum að lausn mála til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni, enda gerðu samtökin sér vonir um að stjórnvöld myndu hafa milligöngu um samninga við lánveitendur og kröfuhafa vegna þess tjóns sem lántakendur urðu fyrir. 

Þrátt fyrir að samtökin hafi fljótlega eftir stofnun þeirra og allar götur síðan fengið umtalsverða áheyrn stjórnvalda hefur ávallt staðið á almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar þrátt fyrir þann víðtæka samfélagslega stuðning sem fyrir liggur, sjá t.d. hér, hér og hér.

Fjölmörg önnur úrræði hafa aftur á móti verið kynnt til sögunnar af hálfu stjórnvalda. Þau úrræði gagnast fólki misvel og hafa réttilega verið gagnrýnd fyrir það að taka ekki á rót vandans. Hvernig sem á málin er litið hefur sá forsendubrestur sem lántakendur urðu fyrir vegna þeirra aðgerða lánveitenda og stjórnvalda sem leiddu til hruns efnahagskerfisins ekki verið leiðréttur. Sú niðurstaða er bæði óréttlát og óásættanleg.

Vaxandi óánægju meðal almennings hefur gætt vegna framgöngu stjórnvalda og fjármálastofnana í þessum málaflokki. Þann 4. október 2010 sauð upp úr þegar ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar áttu sér stað. Mörg þúsund manns komu saman á Austurvelli og tunnur voru barðar. Í kjölfarið sáu stjórnvöld sér þann leik helstan á borði að bjóða fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna að borðinu til að reikna út, í félagi við fjöldann allan af sérfræðingum úr stjórnkerfinu og fjármálageiranum, hvað hinar ýmsu aðgerðir myndu koma til með að kosta og hvernig þær myndu gagnast fólki. 

Þannig keyptu stjórnvöld sér frest fram yfir jól og áramót þar til reiðiöldurnar lægði. Á tímabili var látið líta svo út fyrir að allt kæmi til greina af hálfu stjórnvalda. Meira að segja almenn leiðrétting lána eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað mælt fyrir. Að endingu fór hins vegar svo að sjónarmið samtakanna voru blásin út af borðinu og fulltrúi samtakanna sá sig tilneyddan til að skila séráliti sem stjórnvöld hafa neitað að birta.

Þegar á hólminn var komið höfnuðu lánveitendur samkomulagi við lántakendur um sanngjarna og skynsamlega niðurstöðu. Stjórnvöld létu svo hjá líða að bregðast við forherðingu fjármálastofnana með nauðsynlegu boðvaldi. Á bak við þá afstöðu skýldu stjórnvöld og lánveitendur sér með því að vísa til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda kröfuhafa og höfðu þannig eignarrétt húsnæðiseigenda að engu.

Af þessu er ljóst að kröfur samtakanna um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar munu ekki ná fram að ganga með samningum líkt og samtökin vonuðust upphaflega til. Viðurkenning á forsendubresti þarf að eiga sér stað til þess að viðurkenna þörfina fyrir leiðréttingum lána.

HH kalla eftir að þessi viðurkenning komi frá stjórnvöldum og að ekki þurfi að leita til dómstóla með öll mál til að útkljá svo augljósa staðreynd. Sú leið sem á endanum verður valin til leiðréttingar er og verður alltaf pólitísk ákvörðun. Til þess að ganga fram fyrir hönd heimilanna og færa til baka þá eignatilfærslu sem átt hefur sér stað frá heimilunum til fjármagnseigenda þarf pólitískt hugrekki, kjark og þor.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa því, í nafni almannahagsmuna, ákveðið að blása nýju lífi í kröfur sínar með breyttri nálgun. Samtökin telja brýna þörf á því að fólki gefist tækifæri til að segja hug sinn í þessum efnum með undirskrift sem tekur undir kröfuna um almenna leiðréttingu lána heimilanna og afnám verðtryggingar og jafnframt um þjóðaratkvæðagreiðslu, verði stjórnvöld ekki við þessum kröfum.

Samhliða þessari undirskriftasöfnun kynna samtökin fjórar ólíkar leiðir til leiðréttingar, sem þau telja mögulegar og gætu fallist á. Þessar fjórar leiðir eru hugsaðar sem grundvöllur fyrir umræðu og er því ekki um tæmandi lista að ræða. Samtökin minna á að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og nú er brýn þörf fyrir pólitíska ákvörðun sem skilar sér alla leið til heimilanna í landinu.

Taka þátt í undirskriftasöfnuninni

Fara á Hvernig - nokkrar leiðir til leiðréttingar

Fara á Framtíðarsýn - nýtt húsnæðislánakerfi


Ísland fjarlægist Maastricht-skilyrðin

Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skal halli af rekstri ríkissjóðs ekki vera meiri en 3% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan.  Ef svo er ekki þarf hlutfallið að hafa lækkað jafnt og þétt í átt að 3%.  Að sögn efnahags og viðskiptaráðherra stefna stjórnvöld að jákvæðum frumjöfnuði ríkissjóðs árið 2011 og að árið 2013 verði heildarafkoma ríkissjóðs jákvæð.  Halli af rekstri ríkissjóðs er talinn hafa verið 5,4% árið 2010, samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 6. júní sl., en í þeirri tölu er stuðst við skilgreiningu AGS á skuldum hins opinbera.  Í skýrslunni er því spáð að hallinn verði 3,3% í lok árs 2011 og 0,5% í lok árs 2012, en að afkoma ríkissjóðs verði orðin jákvæð um 2,2% árið 2013.  Gangi spáin eftir verður skilyrðinu náð í lok árs 2012, eða fyrr sé tekið tillit til lækkunar hlutfallsins úr 13,5% í 3,3% frá lokum árs 2008 til loka árs 2011.

Að því gefnu að 37 milljarða fjárlagahalli jafngildi 3,3% halla í lok árs 2011, sbr. skýrslu AGS frá 6. júní og að þingmenn fjárlaganefndar hafi rétt fyrir sér, sbr. fréttina sem þessi færlsa er tengd við, má draga þá ályktun að Ísland fjarlægist Maastricht-skilyrðin enn frekar.  Vaxandi verðbólga á Íslandi er þess einnig til merkis.

Fram hefur komið að opinberar skuldir eru of miklar til að Ísland uppfylli Maastricht-skilyrðin.  Þorsteinn Pálsson setti þá staðreynd í áhugavert samhengi í nýlegri grein í Fréttablaðinu með þessum orðum: 

,,Í nýrri skýrslu OECD kemur fram að Írar gengu langsamlega lengst allra þjóða í að ábyrgjast skuldbindingar banka. Ísland er í öðru sæti á þeim lista en ekki utan hans."


oecd.gif

Á myndinni sem birt er á heimasíðu OECD má sjá að beinn kostnaður ríkisins vegna bankahrunsins á árunum 2007-2009 er 20,3% af VLF ársins 2009.  Samkvæmt Hagstofunni var VLF á árinu 2009 1.495 ma. kr.  Þetta eru því um 304 ma.kr.


mbl.is Stefnir í mikil fjárútlát
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlafulltrúi segir meinta nauðgun ,,leiðinlegt tilvik"

Í morgun las ég svohljóðandi frétt á vef mbl.is undir fyrirsögninni Lögregla rannsakar nauðgun:

,,Tilkynnt var um meinta nauðgun á tjaldstæðinu á Vindheimamelum í nótt þar sem landsmót hestamanna fer fram.

Fórnarlambið er tvítug stúlka. Að sögn lögreglu á staðnum er rannsókn í fullum gangi og verið er að afla sönnunargagna.

Lögreglan á Sauðárkróki tekur fram að atvikið endurspeglar á engan hátt ástandið á landsmóti hestamanna um helgina sem hefur farið mjög vel fram. Lögregla hefur þurft að hafa lítil afskipti af fólki." (Feitletrun mín)

Ég gat ekki annað en klórað mér í kollinum yfir feitletruðu setningunni. Því ef eitthvað endurspeglar á engan hátt annað er engu líkara en að þetta eitthvað hafi ekki átt sér stað í samhengi við þetta annað.

Ég deildi fréttinni inn á Facebook og meðal athugasemda mátti lesa:

,,Þetta eru svona svipuð ummæli og þegar bæjarstjórinn í Eyjum sagði um daginn að barnaníðingsmálið þar hefði ekkert með Eyjar að gera. Ég skil ekki einu sinni hvað svona ummæli þýða. Hvað er eiginlega verið að meina?"

,, Þeir meina að það sé allt í djollí fílíng þarna á Vindheimamelum. Eina manneskjan á meintum bömmer er meint nauðgunarfórnarlamb. Fávitar."

,,Það sem ég velti strax fyrir mér varðar orðalagið; Eru þá hraðasektir Sauðárkrókslögreglunnar veittar fyrir "meint" brot á lögum um hámarkshraða?"


,,Maður verður að horfa á ísland utanfrá til að ná hausnum utan um þetta ... á eyjunni snýst nefnilega allt um ímynd. Þessir herramenn eru að verja ímynd þess sem þeir standa fyrir (lögreglan, hestamannamótið) og er þar af leiðandi skít sama um veruleika þessara atburða."

Og nú hefur fjölmiðlafulltrúi mótsins náð að ramma inn þetta eitthvað sem ,,leiðinlegt tilvik".  Annars hafi mótið gengið eins og í sögu og veirð sannkölluð fjölskylduhátið.


mbl.is Gekk eins og í sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndræn glæpavæðing mótmæla

Á Freedomfries er að finna stutta færslu undir fyrirsögninni Undarleg myndbirting Eyjunnar.  Hún hljóðar svo:

,,Eyjan birti í dag endursögn á frétt Fréttablaðsins um að 205 ofbeldismenn skuldi fórnarlömbum sínum stórfé. Sem er ekki í frásögur færandi, þ.e. að Eyjan birti frásagnir af fréttum. Það er hins vegar athyglisvert að líta á myndina sem ritstjórn Eyjunnar hefur ákveðið að láta fylgja með fréttinni, en það er ljósmynd sem virðist vera úr einhverjum mótmælum.

Af myndatekstanum má ráða að þar sem hér sé mynd af “átökum” sé eðlilegt að hún fylgi fréttinni…

 atok-i-reykjavik.jpg
Átök í Reykjavík. Ofbeldismenn skulda þolendum töluverðar fjárhæðir. Mynd af Vísindavef HÍ

Það merkilega er að myndin er ekki einu sinni mynd af “átökum” – þetta er mynd af mótmælum. Það sjást engin “átök” á myndinni. Og þó svo hefði verið – hver væri þá tengingin?

Þegar aðrir fjölmiðlar birta ótengdar “stock photos” með fréttum, sérstaklega þegar fréttirnar eru um ofbeldisglæpi, er ævinlega sagt “mynd tengist frétt ekki beint”. En í þessu tilfelli er það svo að myndin tengist fréttinni nákvæmlega alls ekki neitt – ekki einu sinni óbeint!

Nema að Eyjan vilji skapa þá mynd í huga lesanda að einhver hluti þessara fjárhæða sem ofbeldismenn skuldi fórnarlömbum sínum tengist með einhverjum hætti mótmælum? En ég þekki ekki til þess að einn einasti mótmælandi hafi verið dæmdur til að greiða eina krónu í bætur vegna einhverra ofbeldisáverka sem hann hafi veitt einum eða öðrum. Ég veit ekki hver ástæðan er fyrir þessu undarlega myndavali, en hún er allavegana ekki sú að menn hafi verið að vanda sig."

Skv. síðuhaldara var myndinni við fréttina skipt út.

Nú langar mig að velta því upp hvort ástæða sé fyrir mbl.is til að gera slíkt hið sama við fréttina sem þessi færlsa er skrifuð við. 

Ástæðan er sú að fátt er skylt með notkun piparúða til sjálfsvarnar gegn nauðgunum og öðrum ofbeldisglæpum annars vegar og pólitískum mótmælum hins vegar.


mbl.is Danir vilja leyfa sölu á piparúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland of skuldsett til að taka upp evru

Til að ríki geti tekið upp evru eftir inngöngu í ESB þurfa tiltekin efnhagsleg skilyrði að vera fyrir hendi í því ríki sem um ræðir.  Þessi skilyrði eru kölluð Maastricht-skilyrðin.  Þau lúta að verðbólgu, langtímavöxtum, afkomu af rekstri ríkissjóðs og opinberum skuldum.

Til að kanna hvernig Ísland stendur gagnvart Maastricht-skilyrðunum lagði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, fram fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra.  Í svari ráðherra kemur fram að Ísland uppfyllir ekki nema einn þátt Maastricht-skilyrðanna, þann sem snýr að langtímavöxtum.

Verði 3% verðbólga á Íslandi á árinu 2011 mun verðbólgumarkmið nást ef verðbólga verður samtímis 1,63% í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún mælist minnst.  Samræmd vísitala neysluverðs hefur hins vegar farið hækkandi unanfarið og mælist 12 mánaða verðbólga nú  4,1%.

Halli af rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan.  Gangi spá AGS eftir verður skilyrðinu náð í lok árs 2012.  Þá er gert ráð fyrir að hallinn verði 0,5%.  Til að svo megi verða þarf að fylla upp í um 80 -90 milljarða gat á árunum 2011 og 2012 (áætlað er út frá tölum sem Hagstofan hefur birt fyrir árið 2010).

Eitt stærsta áhyggjuefnið snýr að opinberum skuldum.  Þær eru mældar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og mega ekki vera hærri en 60%.  Í svari ráðherra segir:  „Ef spá AGS um 23% lækkun skuldahlutfalls hins opinbera frá lokum árs 2010 til loka árs 2016 er notuð sem viðmið má áætla gróflega að skuldir samkvæmt Maastricht-skilyrðunum lækki úr 89,4% af vergri landsframleiðslu í 68,8% frá 2010 til 2016." Markmiðið um opinberar skuldir næst því ekki á spátímanum.

Til viðbótar við þau fjögur skilyrði sem fjallað hefur verið um þarf ríki að hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils þarf að vera innan ákveðinna vikmarka.  Í þessu sambandi er vert að hafa gjaldeyrishöftin í huga.

Ef taka á upp evru á Íslandi, standi vilji þjóðarinnar á annað borð til að ganga í ESB, þarf að leggja fram trúverðuga fjárhagsáætlun og fylgja henni eftir. 

Til að fást við ofurskuldsetninguna má nefna tvær aðgerðir sem fordæmi eru fyrir.  Önnur er að taka upp nýjan eða annan óverðtryggðan gjaldmiðil  á mismunandi skiptigengi.  Hin er að ráðast í kortlagningu opinberra skulda.  Þar með talið allar eignir og skuldbindingar sem kunna að hafa verið færðar utan efnahagsreiknings.  Í framhaldi að endursemja um höfuðstól og vexti skulda svo þær komist í niðurgreiðanlegt horf og afborganir ógni ekki velferð þjóðarinnar.

Fari svo að þjóðin ákveði að ganga ekki í ESB verði þó alltént búið að vinna markvisst gegn skuldakreppunni þegar þar að kemur.  Ekki veitir af.

Grein birt í Morgunblaðinu 1. júlí 2011


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband