Trúverðugleiki og pólitísk ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur

Á blaðsíðu 18 í Fréttablaðinu í dag, þann 17. Apríl 2010, eru birt svör formanna flokkanna við spurningum blaðsisins í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Ein af þeim spurningum sem um ræðir hljóðar svo: „Aðhafðist þú eitthvað eða sýndirðu af þér aðgerðaleysi sem biðjast ber afsökunar á?"

Svar formanns Samfylkingarinnar hefst með eftirfarandi orðum:  „Ekkert í skýrslu rannsóknarnefndarinnar gefur tilefni til að ætla að svo sé, enda var ábyrgðasvið mitt í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á svið félags- og tryggingamála og málefni bankanna komu nánast aldrei til umræðu á ríkisstjórnarfundum fyrir hrun."

21. kafli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ber titilinn „Orsakir falls íslensku bankanna - ábyrgð mistök og vanræksla".  Í kafla 21.4.2. er fjallað um ríkisstjórnina.  Í kaflanum kemur meðal annars fram (feitletranir eru mínar):

„Fyrir liggur að í ríkisstjórn Íslands var lítið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna sem hófst undir loks sumars 2007 og ágerðist eftir því sem á leið. Hvorki verður séð af fundargerðum ríkisstjórnarinnar né frásögnum þeirra sem gáfu skýrslur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem fóru með efnahagsmál (forsætisráðherra), bankamál (viðskiptaráðherra) eða fjármál ríkisins (fjármálaráðherra) hafi gefið ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á efnahag og fjármál ríkisins frá því að þrengja tók að bönkunum og þar til bankakerfið riðaði til falls í október 2008. Á tímabilinu hafði þó birst neikvæð umfjöllun um bankana í innlendum sem erlendum fjölmiðlum, íslenska krónan hafði veikst verulega auk þess sem skuldatryggingarálag bankanna fór hækkandi.

Frá því í byrjun árs 2008 höfðu oddvitar ríkisstjórnarflokkanna fengið upplýsingar um vanda fjármálafyrirtækja landsins á fundum með bankastjórn Seðlabanka Íslands. Þá fengu þeir ráðherrar sem áttu fulltrúa í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað upplýsingar um að hvaða verkefnum samráðshópurinn vann á hverjum tíma en áhyggjur af stöðu íslensku fjármálafyrirtækjanna og umræður um nauðsyn viðbúnaðaráætlunar vegna fjármálaáfalls fóru vaxandi á þeim vettvangi.

Til skýringar á því að málefni bankanna hafi ekki verið tekin upp í ríkisstjórn hefur rannsóknarnefndin m.a. fengið þær athugasemdir frá Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í bréfi, dags. 24. febrúar 2010, að þau hafi verið viðkvæm trúnaðarmál. Hefðu upplýsingar um þau borist út af fundum ríkisstjórnar, eða jafnvel aðeins frést að þau væru rædd þar sérstaklega, hefði það getað valdið tjóni. Málefni bankanna hafi því ekki verið tekin á formlega dagskrá ríkisstjórnarfunda en verið reifuð undir liðnum „önnur mál" eða utan dagskrár þegar við átti eða einhver ráðherra óskaði þess. Samkvæmt gamalgróinni venju hafi slíkar umræður ekki verið færðar til bókar. Af þessu tilefni tekur rannsóknarnefnd fram að hvað sem leið störfum ríkisstjórnarinnar fram á sumar 2008 virðist þessi venja ekki hafa staðið í vegi fyrir því að bókað væri í fundargerð ríkisstjórnar 12. ágúst 2008 að viðskiptaráðherra hefði lagt fram minnisblað, dags. sama dag, um skipan nefndar um fjármálastöðugleika og lagt til að ríkisstjórnin féllist á þær tillögur sem þar voru settar fram. Tillaga viðskiptaráðherra fékk engar undirtektir í ríkisstjórn og var málinu frestað.

Rannsóknarnefndin tekur fram að almennt er ekki um það deilt að neikvæðar fregnir eða orðrómur sem kvisast út um afstöðu eða fyrirhugaðar aðgerðir opinberra aðila á vettvangi fjármálamarkaðar geti orðið til þess að hreyfa við aðilum á markaðnum og jafnvel auka á þann vanda sem við er að etja. Það hlýtur þó að heyra til skyldna ráðherra sjálfra, og þá einkum forsætisráðherra, að búa svo um hnútana í skipulagi og starfi ríkisstjórnar að hægt sé að ræða þar í trúnaði um viðkvæm mál sem varða mikilsverða og knýjandi almannahagsmuni. Hvað sem öðru líður hlýtur sú aðstaða að veikja starf stjórnvalda verulega ef vantraust veldur því að slík málefni komi yfirhöfuð ekki með neinum raunhæfum hætti fram á vettvangi ríkisstjórnar.

Rétt er að benda á ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar í þessu sambandi. Samkvæmt þeim er skylt að ræða nýmæli í lögum og „mikilvæg stjórnarmálefni" á ráðherrafundum, eða ríkisstjórnarfundum eins og þeir kallast að jafnaði. Enda þótt hver ráðherra fari sjálfstætt með málefni sem undir hann heyra samkvæmt málefnaskiptingu innan stjórnarráðsins verður í samræmi við stjórnarskrána að gera ráð fyrir að „mikilvæg stjórnarmálefni" séu tekin til umræðu í ríkisstjórn þannig að aðrir ráðherrar hafi tækifæri til að bregðast við og hafa áhrif á stefnumörkun ríkisstjórnar og síns ráðuneytis. Hér þarf líka að hafa í huga að það getur skipt máli hvað skráð er um mál í fundargerð og gögn ríkisstjórnarinnar ef síðar reynir á hvort gerðar hafi verið viðhlítandi ráðstafanir af hálfu ráðherra í tengslum við tiltekna stjórnarframkvæmd og hverjir úr hópi ráðherra hafi átt þar hlut að máli.

...

Rannsóknarnefnd Alþingis telur mikilvægt að mál sem koma til umræðu og ráðið er til lykta í innra starfi ríkisstjórnarinnar komi fram með skýrum hætti í formlegum fundargerðum hennar, enda er þar um að ræða einhverjar mikilvægustu ákvarðanir sem teknar eru fyrir hönd þjóðarinnar.

Forsætisráðherra átti allmarga fundi árið 2008 með formanni bankastjórnar Seðlabankans og bankastjórum bankanna. Bankastjórn Seðlabankans átti einnig á tímabilinu febrúar til maí 2008 a.m.k. fimm fundi með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Félagsmálaráðherra sótti einn þessara funda þegar rætt var um málefni Íbúðalánasjóðs. Af skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, verður ráðið að hann hafi ekki verið boðaður á neinn þessara funda. Þar var þó m.a. rætt um vanda bankanna og lausafjárkreppuna en málefni bankakerfisins heyrðu undir ráðuneyti hans. Að auki virðist viðskiptaráðherra hvorki hafa verið gerð grein fyrir því að fundirnir fóru fram né upplýstur um það sem þar fór fram, þó með þeirri undantekningu að upplýst er að á þingflokksfundi Samfylkingarinnar 11. febrúar 2008 gerði formaður Samfylkingarinnar Björgvin og fleirum grein fyrir fundi sem hún átti ásamt forsætis- og fjármálaráðherra með bankastjórn Seðlabankans 7. febrúar 2008.

...

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum ómarkvissar þegar harðna tók á dalnum í ársbyrjun 2008. Ráðherrar einblíndu of mikið á ímyndarvanda fjármálafyrirtækja í stað þess að takast á við þann augljósa vanda að íslenska fjármálakerfið var allt of stórt miðað við íslenska hagkerfið. Þegar ráðherrar hugðust bæta ímynd landsins með þátttöku í opinberri umræðu, einkum erlendis, var það gert án þess að lagt væri mat á fjárhagslegan styrk ríkisins til þess að koma bönkunum til aðstoðar og án þess að fyrir lægju upplýsingar um kostnað við hugsanlegt fjármálaáfall. Í þessu sambandi má nefna að Björgvin G. Sigurðsson viðurkenndi við skýrslutöku að yfirlýsingar um að ríkið myndi styðja við bakið á bönkunum hefðu verið byggðar á pólitískri afstöðu en ekki mati á raunverulegri getu ríkisins í þeim efnum. Á sama tíma lagði Seðlabanki Íslands áherslu á að gera gjaldeyrisskiptasamninga og auka gjaldeyrisforðann til þess að auka trúverðugleika bankans til þess að takast á við fjármálaáfall.

Þótt hér sé á engan hátt gert lítið úr ímyndarmálum og aðgerðum til að auka trúverðugleika vekur það hins vegar athygli að stjórnvöld skyldu ekki samhliða grípa til annarra aðgerða. Þannig verður ekki séð að gerð hafi verið vönduð úttekt á því hvort þörf væri á því að einn eða fleiri af stóru bönkunum flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Þvert á móti var það beinlínis opinber stefna þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð var í maí 2007 að bankarnir hefðu áfram höfuðstöðvar á Íslandi, sbr. umfjöllun í kafla 5.0.

...

Getuleysi ríkisstjórnar og stjórnvalda til að draga úr stærð fjármálakerfisins í tæka tíð áður en til fjármálaáfalls kom sker í augu þegar sú saga er virt sem rakin er í köflum 19.0 og 20.0. Í því sambandi er rétt að minnast þess að þegar banki veitir fyrirtæki lágt lán er hann í stakk búinn til að setja fyrirtækinu skilyrði verði um vanskil að ræða. Ef banki veitir aftur á móti fyrirtæki svo hátt lán að bankinn sjái fram á veruleg skakkaföll lendi lánið í vanskilum er það í reynd fyrirtækið sem komið er með slík tök á bankanum að haft getur óeðlileg áhrif á framgang viðskipta þess við bankann. Á sama hátt liggur fyrir að þegar stærð fjármálakerfis lands nemur þrefaldri þjóðarframleiðslu þess hafa lögbær yfirvöld landsins almennt burði til þess að setja fjármálakerfinu leikreglur og hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt. Þegar stærð fjármálakerfis lands nemur aftur á móti nífaldri þjóðarframleiðslu þess verður viðsnúningur á þessu og virðist þannig bæði Alþingi og ríkisstjórn hafa skort burði og þor til þess að setja fjármálakerfinu skynsamleg mörk. Öll orka virðist hafa farið í að halda fjármálakerfinu gangandi því það var orðið svo stórt að ekki var hægt að taka áhættuna af því að jafnvel aðeins hluti þess félli."

Í 2. kafla skýrslunnar segir í ágripi um megin niðurstöður hennar:  „Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra áttu fund með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. febrúar 2008. Á fundinum dró formaður bankastjórnar Seðlabankans upp mjög dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum íslensku bankanna. Upplýsingarnar bentu til yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnhagslíf."

Eftirfarandi texti er úr fundargerðum þingflokks Samfylkingarinnar sagt var frá hér að ofan.  Umrædd gögn eru hluti af þeim gögnum sem Björgvin G. Sigurðsson lét rannsóknarnefndinni í té, nánar tiltekið fylgiskjal 10.

Úr fundargerð þingflokks Samfylkingarinnar 11. febrúar 2008:
„ISG:      Ríkisstjórn mun koma með útspil vegna stöðunnar í efnahagsmálum í vikunni.  Staðan á fjármálamörkuðum er alvarleg vegna ástandsins á alþjóðlegum mörkuðum og skuldsetningar íslensku bankanna.  Við þurfum  að senda út þau skilaboð að við getum ráðið við vandann.  Bankarnir munu standa af sér a.m.k. næstu 9 mánuði en spurningin er hvað ríkið getur gert hafi markaðir ekki opnast þá.  Því þarf að svara. 

Moody‘s mat stöðu ríkisins neikvæða og lausnir á því gætu verið aukið aðhald og að Íbúðalánasjóður starfi í samræmi við stefnu Seðlabankans.  Nýtt mat er væntanlegt þar sem lánshæfismat ríkis og banka lækka enn frekar.  Samtök fjármálafyrirtækja hafa sent ISG og GHH tillögur - eins konar bænaskjal.

Jón Þór Sturluson aðstoðamaður viðskptaráðherra og Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri voru settir í að skoða lausnir og hugmyndir þeirra eru t.d.:
- draga til baka reglugerð fjármálaráðherra um gjaldeyri og Seðlabanka - gæti verið sterkur leikur
- fjármögnun og skráning hlutafjár í erlendri mynd auðvelduð
- styrkja Tryggingasjóð innistæðueigenda
- auka gjaldeyrisforða með lántöku (ekki hagstætt núna - gert síðar er aðstæður batna)
- ríkið fari með bönkum í kynningu erlendis á íslenskri fjármálastarfsemi"

11 feb 08

Úr fundargerð þingflokks Samfylkingarinnar 18. febrúar 2008:
„ISG:      Stöðuna á fjármálamörkuðum þarf að taka alvarlega og menn þurfa að passa sig á að tala ekki óvarlega því slíkt tal getur verið skaðlegt berist það út.  Aðilar á markaði vilja helst ekki að talað sé hátt um þessi mál.  Það þarf að styrkja gjaldeyrisforða og lausafjárstöðu en hagstæðara að gera það án þess að mikið beri á.  Það er líka mikilvægt að kynna styrkleikana, sterka stöðu ríkissjóðs og góða eiginfjárstöðu bankanna án þess þó að gera of mikið úr því."

18 feb 08

Í 19. kafla skýrslunnar segir:  „Í skýrslu Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra, kom fram að oftast hefði „súperráðherrahópurinn" komið fyrst að umfjöllun um stærri mál, s.s. ríkisfjármál og kjarasamningsráðstafanir og annað slíkt, og mótað stefnuna áður en aðrir ráðherrar hefðu komið að máli. Í þessum hópi hefðu verið forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra."

Einnig segir í 19. kafla: „Hinn 8. ágúst 2008 héldu fjórir ráðherrar lokaðan fund með hagfræðingunum Má Guðmundssyni, Gauta B. Eggertssyni, Friðriki Má Baldurssyni og Jóni Þór Sturlusyni. Fundinn sóttu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var ekki meðal fundarmanna. Um ástæður þessa upplýsti Jón Þór Sturluson við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þetta hefði verið „súperráðherrahópurinn". Hagfræðingarnir Friðrik, Gauti og Már hefðu á fundinum haldið framsögu um lausafjárvandann."

Í kvöldfréttum RÚV var svo sýnt frá ræðu Jóhönnu á fundi Samfylkingarinnar í dag.  Sagði hún meðal annars:  „Við vorum hluti af ríkisstjórn sem hefði samkvæmt skýrslunni getað minnkað skaðann með markvissari viðbrögðum, þar liggur ábyrgð Samfylkingarinnar."

Hvar liggur ábyrgð Jóhönnu?

vanhaef_rikisstjorn


mbl.is Draga á þá sem tæmdu bankana fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála

Var að horfa á umræður stjórnmálamanna í Kastljósi kvöldsins um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem meðal annars var komið inn á fjármál stjórnmálasamtaka.

Þór Saari upplýsti að ekki stæði til gera fjárframlög frá fyrirtækjum til stjórnmálasamtaka óheimil, þrátt fyrir það sem á undan er gengið.  Er þessi fullyrðing framsett á grundvelli lagafrumvarpsdraga um breytingar á gildandi lögum um fjármál stjórnmálasamtaka sem rædd voru á fundi formanna flokkanna síðasta sunnudag. 

Nú er starfandi nefnd sem hefur með endurskoðun laganna að gera.  Þór tilgreindi sérstaklega að fulltrúi Sjálfstæðismanna í nefndinni væri á móti því að framlög lögaðila yrðu gerð óheimil.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hafnaði þessum ummælum Þórs hins vegar og sagði hið rétta í málinu að það hefði verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem hefði lagt það til að framlög lögaðila yrðu bönnuð, um það hefði aftur á móti ekki tekist sátt og lendingin orðið sú að lögaðilar megi styrkja flokkana um 300 þúsund krónur á ári.

Ég sit fyrir Hreyfinguna í umræddri nefnd en sitjandi fulltrúi Sjálfstæðisflokksins er Gréta Ingþórsdóttir.  Hins vegar er sú tillaga sem Bjarni vísaði til komin frá forvera hennar í nefndinni, Kjartani Gunnarssyni.  Var hún fram sett þegar flokkarnir tókust á um málið  þegar gildandi lög voru sett árið 2006.  Niðurstaðan varð þó eins og Bjarni lýsti.  Þegar þessi forsaga málsins var rædd í nefndinni fyrir nokkrum vikum spurði ég Grétu hvort hún vildi gera tillögu forvera síns að sinni.  Í stuttu máli sagt svaraði hún því neitandi.

Í 8. bindi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um fjárframlög bankanna til stjórnmálasamtaka og stjórnmálamanna.  Á bls. 170 er komið inn á þá lærdóma sem draga þurfi af reynslunni.  Þar segir m.a.: 

Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."


Skoðar AGS bankaskatt?

Í Fréttablaðinu í dag má lesa frétt sem ber titilinn ,,AGS skoðar bankaskatt".

Í fréttinni kemur fram að AGS íhugi að leggja nýja skatta á banka og fjármálafyrirtæki.  Annars vegar hagnaðarskatt og hins vegar einhverskonar loftbóluskatt.  Eins kemur fram að þriðja leiðin hafi verið skoðuð sem ekki sé líklegt að nái fram að ganga.  Hún felst í skattlagningu fjármagnsflutninga (Tobin-skattur?). 

Sagt er að skattféð eigi að fara í sjóð sem nýtast muni AGS í fjármálakreppum á borð við þær sem riðið hafa alþjóðlegum fjármálamörkuðum síðast­liðin tvö ár og á að koma í veg fyrir að almenningur verði látinn borga brúsann þegar illa fer.

Við þetta má gera þrjár athugasemdir.

1.  Hvernig stendur á því að AGS íhugi að leggja skatta á eitthvað yfir höfuð?  Maður hefði haldið að slíkt væri hlutverk löggjafans í hverju ríki fyrir sig.  Lýðræðislegt aðhald óskast.  

2.  Það er jákvætt að menn hafi í hyggju að koma einhverjum böndum á bankana og hefta óeðlilegan vöxt pappírsverðmæta, eins og virðist vera markmiðið með þessum sköttum.  Aftur á móti veldur vonbrigðum að svo virðist sem hugmyndir á borð við Tobin-skatt njóti ekki meiri stuðnings. 

3.  Í hlekknum á Tobin skattinn er grein á Vísindavef HÍ sem ég hvet til lesturs á.  Eins má nefna að Attac samtökin voru upphaflega stofnuð í kringum kröfu um upptöku Tobin-skatts. 

Á vef HÍ segir: ,,Ýmsar tillögur hafa verið settar fram um það hvert tekjurnar af skattinum ættu að renna, til dæmis í að kosta rekstur Sameinuðu þjóðanna eða styðja vanþróuð lönd. ... Þá eru sumir hrifnir af hugmyndinni um skattinn en efast um að hún sé framkvæmanleg. Það er ekki skrýtið því að innheimtan og framkvæmdin almennt gæti orðið afar snúin svo að ekki sé minnst á fyrirsjáanlegar deilur um það hvert afraksturinn ætti að renna."

Velta má fyrir sér hvort raunverulega sé komið í veg fyrir að almenningur borgi brúsann með innheimtu umræddra skatta og eyrnamerkingu þeirra til bjargar fjármálakerfisins þegar illa fer.  Að sama skapi má spyrja að því hvort umrætt fyrirkomulag tryggi ekki einmitt að almenngur borgi brúsann - fyrirfram -  því hver er hin raunverulega uppspretta verðmætanna, og öllu heldur ávísanna til þeirra, þegar öllu er á botninn hvolft?


5 stærstu pólitísku mistökin frá 1976 - 2008

5 stærstu pólitísku mistök sem gerð voru á Íslandi frá því að ég fæddist árið 1976 og fram að hruni árið 2008:

1. Verðtryggingu komið á lán og laun með Ólafslögunum svokölluðu árið 1979. Árið 1983 var verðtrygging launa afnumin.
http://www.visir.is/article/20081103/SKODANIR/660801973

2. Kvótakerfið, upprunalega komið á með lagasetningu árið 1983.
http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dslenska_kv%C3%B3takerfi%C3%B0

3. Einkavæðing bankanna 1998 - 2002.
http://is.wikipedia.org/wiki/Einkav%C3%A6%C3%B0ing_bankanna_2002

4. Stuðningurinn við innrásina í Írak 2003
http://www.ogmundur.is/umheimur/nr/1085/

5. Kárahnjúkavirkjun 2002 - 2007
http://www.natturan.is/frettir/3760/

http://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%A1rahnj%C3%BAkavirkjun

Plan B

Tillaga til þingsályktunar um mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 

,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta vinna efnahagsáætlun sem tryggir velferð og félagslegan stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Skilgreindar verði nauðsynlegar aðgerðir til að gera íslenskt hagkerfi óháð aðstoð sjóðsins og forðast frekari skuldsetningu ríkissjóðs, aðgerðaáætlun útbúin og henni fylgt eftir. Leitað verði liðsinnis færustu erlendra sérfræðinga á sviði hagvísinda við mótun og framkvæmd áætlunarinnar til að tryggja þann trúverðugleika efnahagsstjórnar landsins sem er nauðsynlegur.

Efnahagsáætlunin liggi fyrir 1. október 2010 og komi til framkvæmda fyrir 2011.

Ráðherra kynni Alþingi efnahagsáætlunina við fyrsta tækifæri eftir að þing hefur verið sett í október 2010."

http://www.althingi.is/altext/138/s/0331.html

Hér má sjá 1. umræðu í þinginu um málið:
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20100301T173838&horfa=1


mbl.is Ísland kann að skorta stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri til breytinga

Nú er starfandi nefnd sem hefur með endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka að gera.  Í þeirri vinnu hefur Hreyfingin átt fulltrúa.

Helstu áherslur Hreyfingarinnar eru:

  • Dregið verði úr fjárþörf stjórnmálasamtaka.
  • Framlög lögaðila verði óheimil.
  • Framlög einstaklinga verði hámörkuð við kr. 200.000,- og upplýsingaskylda verði á öllum framlögum sem eru hærri en kr. 20.000,-
  • Jafnræðis milli stjórnmálasamtaka verði gætt við úthlutun opinberra framlaga:
  •    o Framlög miðist við kostnað vegna reksturs á skrifstofu og fundaraðstöðu af hóflegri stærð í hverju kjördæmi. Jafnframt dugi framlög til greiðslu launa fyrir eitt stöðugildi framkvæmdastjóra (á landsvísu) og hálft stöðugildi í hverju kjördæmi fyrir sig.
  •    o Framlög til þingflokka frá Alþingi verði þau sömu fyrir alla flokka.
  •    o Hóflegt framlag að upphæð kr. 12.000.000,- til hvers stjórnmálaafls sem býður fram á landsvísu vegna reksturs framboðsins. Hlutfallslegt framlag til þeirra sem bjóða fram í færri kjördæmum.
  • Að nefndin beiti sér fyrir því að sambærilegar reglur verði teknar upp á Íslandi og tíðkast víðast hvar í Evrópu um auglýsingar stjórnmálasamtaka, þar sem auglýsingar í ljósvakamiðlum eru ýmist bannaðar eða mjög takmarkaðar. Ísland er frávik í þeim efnum.
  • Að nefndin beiti sér fyrir því að aðgengi framboða að ljósvakamiðlum í aðdraganda kosninga verði tryggt með skylduákvæði í lögum sem geri ráð fyrir endurgjaldslausum kynningum framboða með svipuðum hætti og "Party Political Broadcast" í Bretlandi.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Hreyfingarinnar.


mbl.is Allt á að vera uppi á borðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr stöðugleikasáttmálanum

,,Forsendur stéttarfélaga á opinberum vinnumarkaði fyrir gerð kjarasamninga eru að ekki verði gripið til lagasetninga eða annarra stjórnvaldsaðgerða sem hafa bein áhrif á innihald kjarasamninga eða kollvarpa með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggja á."

http://www.island.is/endurreisn/stjornvold/adgerdir-stjornvalda/samantekt-adgerda/stodugleikasattmalinn/


mbl.is Lög á verkfall flugvirkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betur má ef duga skal

Þegar kemur að stjórnmálasamtökum og auglýsingum þeirra í ljósvakamiðlum sker Ísland sig úr.  Víðast hvar í Evrópu eru slíkar auglýsingar bannaðar eða mjög takmarkaðar.

Þessum málum hefur m.a. verið gerð skil í grein sem kallast Fjármál stjórmmálasamtaka.

Grein Einars Árnasonar sem vísað er í nefndri grein er aðgengileg hér.

Í þessu samhengi vil ég einnig vekja athygli á málflutningi Hreyfingarinnar sem vill gera róttækar breytingar í þessum efnum.  Nauðsynlegt er að hugsa samhliða um auglýsingar stjórnmálasamtaka og fjármögnun þeirra. 

Áherslur Hreyfingarinnar felast m.a. í að dregið verði úr fjárframlögum til stjórnmálasamtaka og fjárþörf þeirra takmörkuð.  Til að mynda með því að veita stjórnmálasamtökum aðgang að fjölmiðlum líkt og tíðkast með s.k. political broadcasting. 

Eins vill Hreyfingin að framlög lögaðila verði gerð óheimil enda sé vandséð hvernig lögaðili getur haft hugmyndafræðilegan áhuga á framgangi mála.  Að mati Hreyfingarinnar á að hámarka framlög einstaklinga við 200.000 kr. og öll framlög hærri en 20.000 kr. ber skilyrðislaust að skrá og opinbera innan eins dags frá greiðslu þeirra.

Þessum sjónarmiðum hefur verið komið á framfæri við nefndina sem hefur með endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka að gera.


mbl.is Þak á auglýsingakostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfræðiálit ráðuneytis leyndarmál?

Fram hefur komið að efnhags- og viðskiptaráðuneytið hefur látið vinna lögfræðiálit á gengistryggðum lánum.  Þetta má sjá á vefsíðu Talsmanns neytenda

Einnig kemur fram á síðunni að Talsmaður neytenda er bundinn þagnarskyldu um málið.  Nú ríður á að efnahags og viðskiptaráðuneytið aflétti trúnaði af umræddu áliti.

Að sama skapi færi vel á því ef stjórnvöld myndu beita sér fyrir skjótri úrlausn þeirra dómsmála sem eru í farvatninu vegna deilna um lögmæti gengistryggðra lána. 


mbl.is Óþarfi að óttast hugmyndir mínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta á ferð?

Jón Ólafsson heimspekingur var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils í dag.

Jón gerði m.a. því skóna að sú samstaða sem til hefur orðið í kringum Icesave málið væri merki um eitthvað hættulegt.  Þegar algerlega andstæðir pólar í pólitík sjái sér hag í að berjast fyrir sameiginlegu máli sé eitthvað skrýtið að gerast.

Þetta var framsett í samhengi við afrakstur búsáhaldabyltingarinnar og nefnt til skjalanna sem dæmi um að hún hefði ekki tekist sem skyldi.

Hér vil ég staldra við og velta upp hugleiðingu. 

Hvernig má mæla afrakstur búsáhaldabyltingarinnar í samstöðu eða samstöðuleysi stjórnmálasamtaka um tiltekið málefni?  Og ef afraksturinn er mælanlegur með þeim hætti, hvort ætli sé meira í anda búsáhaldabyltingarinnar að ólík stjórnmálasamtök geti sameinast um markmið eður ei?
mbl.is Gengur hægt að koma á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband