Skoðar AGS bankaskatt?

Í Fréttablaðinu í dag má lesa frétt sem ber titilinn ,,AGS skoðar bankaskatt".

Í fréttinni kemur fram að AGS íhugi að leggja nýja skatta á banka og fjármálafyrirtæki.  Annars vegar hagnaðarskatt og hins vegar einhverskonar loftbóluskatt.  Eins kemur fram að þriðja leiðin hafi verið skoðuð sem ekki sé líklegt að nái fram að ganga.  Hún felst í skattlagningu fjármagnsflutninga (Tobin-skattur?). 

Sagt er að skattféð eigi að fara í sjóð sem nýtast muni AGS í fjármálakreppum á borð við þær sem riðið hafa alþjóðlegum fjármálamörkuðum síðast­liðin tvö ár og á að koma í veg fyrir að almenningur verði látinn borga brúsann þegar illa fer.

Við þetta má gera þrjár athugasemdir.

1.  Hvernig stendur á því að AGS íhugi að leggja skatta á eitthvað yfir höfuð?  Maður hefði haldið að slíkt væri hlutverk löggjafans í hverju ríki fyrir sig.  Lýðræðislegt aðhald óskast.  

2.  Það er jákvætt að menn hafi í hyggju að koma einhverjum böndum á bankana og hefta óeðlilegan vöxt pappírsverðmæta, eins og virðist vera markmiðið með þessum sköttum.  Aftur á móti veldur vonbrigðum að svo virðist sem hugmyndir á borð við Tobin-skatt njóti ekki meiri stuðnings. 

3.  Í hlekknum á Tobin skattinn er grein á Vísindavef HÍ sem ég hvet til lesturs á.  Eins má nefna að Attac samtökin voru upphaflega stofnuð í kringum kröfu um upptöku Tobin-skatts. 

Á vef HÍ segir: ,,Ýmsar tillögur hafa verið settar fram um það hvert tekjurnar af skattinum ættu að renna, til dæmis í að kosta rekstur Sameinuðu þjóðanna eða styðja vanþróuð lönd. ... Þá eru sumir hrifnir af hugmyndinni um skattinn en efast um að hún sé framkvæmanleg. Það er ekki skrýtið því að innheimtan og framkvæmdin almennt gæti orðið afar snúin svo að ekki sé minnst á fyrirsjáanlegar deilur um það hvert afraksturinn ætti að renna."

Velta má fyrir sér hvort raunverulega sé komið í veg fyrir að almenningur borgi brúsann með innheimtu umræddra skatta og eyrnamerkingu þeirra til bjargar fjármálakerfisins þegar illa fer.  Að sama skapi má spyrja að því hvort umrætt fyrirkomulag tryggi ekki einmitt að almenngur borgi brúsann - fyrirfram -  því hver er hin raunverulega uppspretta verðmætanna, og öllu heldur ávísanna til þeirra, þegar öllu er á botninn hvolft?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband