Ræðan mín í Hlégarði

Fundarstjóri, ágætir íbúar.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ býður nú fram í fyrsta sinn. Þó að saga Íbúahreyfingarinnar sé ekki löng má segja að aðdragandinn að stofnun hennar eigi sér djúpar rætur.

Þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu mynduðust ekki á einni nóttu. Mosfellingar, líkt og þjóðin öll, þurfa nú að takasta á við afleiðingar hrunsins og tilvistarkreppu þeirra afla sem ábyrgð á því bera. Kosningarnar á laugardaginn eru liður í því uppgjöri.

Rætur Íbúahreyfingarinnar liggja í þeirri sannfæringu að meira af því sama sé íbúum óboðlegt. Að breytinga á kerfinu sem nú er fallið um sjálft sig sé þörf. Ekki dugar að endurreisa það gamla með fúnum spýtum.

Á fjögurra ára fresti er lýðræðið virkt. Þá fáum við íbúarnir náðasamlegast að kjósa um hverjum við felum umboð okkar til að sýsla með sameiginlega sjóði og ýmis völd því samfara. Málið er brýnt og það er eftir þó nokkru er að slægjast, líkt og dæmin hafa sannað.

Þess vegna fara gömlu góðu flokkarnir í sparifötin fyrir kosningar, dikta upp slagorð, grilla pylsur og bjóða börnunum okkar í hoppikastala. Síðan hrósa þeir sér af því sem þeir hafa gert vel eða gagnrýna það sem hinir hafa ekki gert nógu vel.

Um eigin mistök tala flokkarnir helst ekki. Allavega ef þeir komast hjá því og það þykir heldur ekki snjallt að hrósa öðrum flokkum, nema menn séu að stíga í vænginn við þá til að kaupa sér aðgang að völdum í framtíðinni.

Verst af öllu þykir flokkunum að þurfa að svara opinberlega erfiðum spurningum frá íbúum og fjölmiðlum.

Svo er kosið. Stjórnmálamennirnir skipta kannski um hlutverk, kannski ekki – en leikritið heldur áfram.

Ég hef stundum líkt þessu við lestarferð þar sem atkvæðaseðillinn er miði. Því miður stoppar lestin ekki fyrr en eftir fjögur ár og þá er hún kannski komin eitthvað allt annað en þú ætlaðir að fara.

Langar okkur að hafa þetta svona áfram eða ætlum við að breyta þessu?

Inntakið í áherslum Íbúahreyfingarinnar felst í lýðræðisumbótum, fagmennsku og réttlæti.

Við viljum að kosningar fari fram um einstök mál óski 10% kosningabærra íbúa eftir því, eða tveir fulltrúar í bæjarstjórn. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu gríðarlega mikið aðhald umrætt fyrirkomulag myndi veita kjörnum fulltrúum. Þá gætu íbúar tekið málin í sínar hendur þegar íbúar telja ástæðu til. Stoppað lestina á miðri leið og breytt um stefnu.

Við gætum til að mynda kosið um skipulagsmál, stærri fjárveitingar og fleira.

Viljum við sameiginlegt menningarhús og kirkju? Og ef svo er, hvar viljum við staðsetja mannvirkið?

 Viljum við setja 132 milljónir í byggingu í golfskála á næstu þrem árum á sama tíma og verið er að skera niður grunnþjónustu eða viljum við breytta forgansröðun?

Viljum við að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að auðlindir innan bæjarmarka verði aftur á sameiginlegu forræði Mosfellinga áður en aðilar á borð við Magma Energy banka upp á?

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hefur ekki svör á reiðum höndum við þessum spurningum. Hún er hinsvegar farvegur til breytinga á forsendum íbúanna sjálfra. Því þegar stórt er spurt er lýðræði svarið.

Íbúahreyfingin boðar aukna valddreifingu. Við viljum skilja á milli bæjarstjóra og kjörinna fulltrúa með faglegri ráðningu bæjarstjóra á hóflegum kjörum.

Nefndir á vegum bæjarins ættu að vera faglega skipaðar. Þannig verði best stuðlað að viðunandi afgreiðslu mála í stað þess að flokkspólitískt þras taki völdin, eins og stundum vill gerast.

Við teljum að kjörnir fulltrúar eigi ekki að sitja lengur en tvö kjörtímabil. Þannig verði eðlileg endurnýjun tryggð og stuðlað gegn því að vald safnist fyrir á fáar hendur til lengri tíma.

Fjölmargir horfa fram á mjög erfiða tíma næstu misserin. Samkvæmt nýlegri skýrslu Seðlabankans eru tæplega 40% heimila landsins tæknilega gjaldþrota. Afleiðingar þessa eru að fólk getur ekki selt eignir sínar og er bundið átthagafjötrum. Um 65% ungra heimila eru í þessari stöðu.

Ennfremur kemur fram í skýrslunni að eitt af hverjum fjórum heimilum í landinu þarf á frekari aðstoð að halda en nú þegar hefur verið veitt. Gróflega áætlað gerir það um 500 fjölskyldur í Mosfellsbæ en tæplega 400 Mosfellingar eru á atvinnuleysiskrá.

Framhjá þessari staðreynd getum við ekki litið. Íbúahreyfingin vill huga sérstaklega að stöðu atvinnuleitenda og tekjulægri hópa með áherslu á menntun og velferð barna. Við megum aldrei sætta okkur við að börn líði skort eða upplifi mismunun vegna fátæktar.

Mosfellsbær ætti að beita sér formlega í baráttunni við skuldavanda heimila og fyrirtækja. Þar er um risavaxið hagsmunamál að ræða fyrir sveitarfélagið í heild sinni.

Góðir fundarmenn.

Það er mikilvægt að við tökum ábyrgð á lýðræðislegri framtíð Mosfellsbæjar. Fyrir 2500 árum varaði heimspekingurinn Plató við því að refsingin við því að taka ekki þátt í stjórnmálum væri að vera stjórnað af verra fólki en manni sjálfum. Höfum það í huga á laugardaginn. Því þegar við kjósum Íbúahreyfinguna erum við að kjósa með okkur sjálfum. X-M.


mbl.is Spurningar úr sal ekki leyfðar á framboðsfundi í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ

Nánari upplýsingar um Íbúahreyfinguna í Mosfellsbæ og frambjóðendur hennar er að finna á www.ibuahreyfingin.is

Eftirfarandi eru áherslur Íbúahreyfingarinnar:

  • Aukið íbúalýðræði
    • Íbúakosning fari fram um einstök málefni óski 10% kosningabærra íbúa eftir því eða tveir fulltrúar í bæjarstjórn
    • Verði máli vísað í íbúakosningu fari fram hlutlaus og fagleg kynning á því máli sem um ræðir
    • Aukin umræða um málefni bæjarins og hlustað verði á sjónarmið íbúa
    • Íbúar hafi jafnan rétt til áhrifa á umhverfi sitt og skipulagsmál
    • Hagsmunum heildarinnar verði ekki fórnað fyrir sérhagsmuni
  • Fagleg, heiðarleg og gegnsæ stjórnsýsla
    • Skipað verði í nefndir á faglegum forsendum
    • Virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa
    • Aðgengileg heimasíða og virk upplýsingagjöf
    • Íbúar hafi aðgang að öllum samningum sem bærinn gerir
    • Fundir nefnda, bæjarráðs og bæjarstjórnar verði sendir út á netinu og hljóðskrár aðgengilegar á netinu.
    • Öllum erindum til bæjarins verði svarað
    • Íbúar geti lagt mat á stjórnsýslu
  • Valddreifing
    • Skilja á milli framkvæmadavalds (bæjarstjóra) og löggjafarvalds (kjörinna fulltrúa)
    • Efsti maður á lista er ekki bæjastjóraefni
    • Fagleg ráðning bæjarstjóra á hóflegum kjörum
    • Skýrar reglur um verkaskiptingu kjörinna fulltrúa og embættismanna
    • Reglur verði settar um að fulltrúar í bæjarstjórn sitji ekki lengur en tvö kjörtímabil
  • Ábyrg fjármálastefna
    • Skýr og skynsöm forgangsröðun
    • Grunnþjónusta við íbúa í fyrsta sæti
    • Hófleg gjaldtaka
    • Bæjarfélagið beiti sér í baráttunni við skuldavanda heimila og fyrirtækja
  • Réttlæti og jafnrétti
    • Sérstaklega verði hugað að stöðu atvinnuleitenda og tekjulægri hópa
    • Menntun og velferð allra barna tryggð
    • Hvers kyns mismunun hafnað
    • Grundvallarmannréttindi tryggð

mbl.is Íbúalýðræði á allra vörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samráðsfundur um Magma, HS orku og auðlindirnar

Samráðsfundur um Magma, HS orku og auðlindirnar. Fimmtudaginn, 20. maí kl. 18:00 í Húsinu,
Höfðtúni 12, 105 Rvk. Þetta er fundur fyrir ALLA sem vilja gera eitthvað í málinu. Ræðum hugmyndir, aðferðir og aðgerðir.

mbl.is Óttast hærra orkuverð til almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver beitir ákæruvaldið þrýstingi?

Í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur um málefni níumenninganna svokölluðu kemur fram:  „Það er grundvallarregla í réttarríki að þeir sem hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi sæti ákæru og séu beittir lögmæltum viðurlögum. Að því vinna lögregla, handhafar ákæruvalds og dómstólar hér á landi sem starfa sjálfstætt og af hlutlægni. Mikilvægt er að þessir aðilar fái svigrúm til að meta atvik í réttu ljósi og án utanaðkomandi þrýstings." 

Í sama svari kemur fram: ,,Þar sem ekki var ljóst hvort lögreglan mundi eiga frumkvæði að rannsókn málsins ákvað skrifstofustjóri Alþingis að óska eftir því bréflega fyrir hönd skrifstofu Alþingis og þeirra starfsmanna, sem í átökunum lentu, að málið yrði tekið til lögreglurannsóknar."

Nú hljóta menn að velta fyrir sér hvort ákæruvaldið hafi verið beitt þrýstingi í málinu og hvort ástæða sé til að umrætt bréf og önnur gögn sem málinu tengjast verði gerð opinber.


mbl.is Tónlist og sól á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grikkir allra landa sameinist! - Mótmæli til stuðnings Grikkjum verða þann 5. maí kl. 16:00 á Arnarhóli

Tilkynning á vef Attac samtakanna:

Stórfelldar launalækkarnir, uppsagnir opinberra starfsmanna, skerðing lífeyrisréttinda,  niðurskurður opinberra útgjalda og þyngri skattbyrgðar á hina lægst launuðu er meðal þess sem fyrirhugað er.  Afleiðingin er ógnvænleg lífskjaraskerðing almennings.

Á meðan grískir auðmenn koma eigum sínum í skjól, situr almenningur í súpunni. Engar tillögur hafa verið settar fram af  AGS eða ESB um hvernig hægt er að draga úr alvarlegri misskiptingu tekna og auðs. Engar tillögur hafa verið settar fram um að þeir sem ábyrgðina beri axli hana. Engar tillögur hafa verið settar fram um hvernig koma skal í veg fyrir að nýjar fjármálakreppur dynji á.

Þann 5. maí hefst allsherjarverkfall í Grikklandi. Á næstu dögum verða samstöðumótmæli um alla Evrópu. Krafan er: Segja verður skilið við pilsfaldakapítalisma og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Stöðva verður þjóðnýtingu tapsins og einkavæðingu gróðans. Standa verður vörð um hagsmuni almennings en ekki fjárglæframanna.

Attac á Íslandi mun standa fyrir mótmælum til stuðnings Grikkjum þann 5. maí kl 16:00 á Arnarhóli.

Ræðumenn verða: Sólveig Jónsdóttir formaður Attac og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingkona VG.

Frekari upplýsingar verður að finna á Attac.is og á síðu Attac á Facebook.


mbl.is Grikkir leggja niður störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til gæslumanna almannahagsmuna

8. bindi skýrslu RNA ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008".  Við lestur kafla II. 3 sem heitir ,,Samskipti stjórnmála og efnahagslífs" er ástæða til að staldra við, nánar tiltekið á bls. 153.  Þar segir:

„Eitt af markmiðum einkavæðingar er að færa völd frá stjórnmálamönnum til einkaaðila. Með einkavæðingu banka, sjóða og margra fyrirtækja á síðasta áratug dró ríkisvaldið sig út úr margvíslegri starfsemi og völd stjórnmálamanna minnkuðu að sama skapi. Á sama tíma og ríkisvaldið veiktist sóttist viðskiptalífið æ meir eftir afskiptum af stefnumótun og lagasetningu sem um það er sett. Eins og víða hefur gerst beittu fyrirtæki hagsmunasamtökum til að hafa afskipti af reglusetningu og lagasetningu. Hættan er sú að þetta lami jafnframt lýðræðislegt ákvörðunarferli. Þegar þannig er komið verða mörkin milli viðskiptalífsins og stjórnmála verulega óskýr. Hagsmunaaðilar taka ákvarðanir í stað stjórnvalda sem aftur kemur í veg fyrir lýðræðislega umræðu um efnið. Hérlendis reyndu tvö hagsmunasamtök viðskiptalífsins, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu og þá umgjörð sem fjármálafyrirtækjum var búin. Ekki er hægt að segja annað en að þeim hafi orðið vel ágengt."

Þjónustulund Alþingis í garð Viðskiptaráðs síðastliðin ár er margrómuð.  Til að mynda var skýrt frá því í júní 2006 að skv. athugun ráðsins hafi Alþingi farið eftir tillögum Viðskiptaráðs í 90% tilvika á starfsárinu sem þá var að ljúka.

Í niðurlagi kaflans, á bls. 170, er komið inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni.  Þar segir:  

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsveð, frumvarp þetta gengur í daglegu tali undir nafninu „Lyklafrumvarpið" og er til meðferðar (lesist: svæft) í Allsherjarnefnd.  Í stuttu máli gengur frumvarpið út á að lánveitendum verði ekki heimilt að ganga lengra í innheimtu lána með veði í íbúðarhúsnæði heldur en að leysa til sín hina veðsettu eign. 

Hér er á ferðinni gríðarlegt hagsmunamál fyrir almenning sem hefur mátt horfa upp á lánin sín hækka og hækka í kjölfar hruns íslensku krónunnar, verðbólgunnar sem í kjölfarið fylgir og í krafti ósanngjarnra verðbreytingarákvæða í lánasamningum.  Að því er fram kemur á bloggi Marinós G. Njálssonar er það mat Seðlabankans, að 28.300 heimili, eða 39% heimila sem eiga eigið húsnæði, séu í neikvæðri eiginfjárstöðu og 65% „ungra" heimila eru í þeirri stöðu.  Verðbreytingarákvæðin eru reyndar sér kapítuli og algerlega óverjandi að ekki sé búið að afnema þau fyrir lifandi löngu eins og 80% þjóðarinnar vill gera.

Að svo komnu máli ætla ég ekki að fjölyrða um hversu óábyrg útlánastefna hefur tíðkast á Íslandi undanfarin ár en að mati Sigurjóns Árnasonar, fyrrv. bankastjóra Landsbankans voru fasteignalán bankanna „tómt rugl".  Ég mun heldur ekki skorast undan því að ræða lyklafrumvarpið efnislega hafi einhver áhuga á því.  Mín niðurstaða í þeim efnum er að verði frumvarpið að lögum muni það stuðla að jafnvægi á fasteignamarkaði til frambúðar - þar sem framboð og eftirspurn fasteigna stýra verði þeirra en ekki ofgnótt lánsfjár með baktryggingu í sjálfskuldarábyrgð (lesist: veði í lífi lántakenda).

Þegar litið er til þeirra umsagna sem allsherjarnefnd hefur borist málsins vegna má sjá að Viðskiptaráð hefur sent inn umsögn.  Sú umsögn er eins og vænta má til þess fallinn að stöðva framgang málsins.  Þau rök sem Viðskiptaráð tilgreina eru m.a. á þá leið að frumvarpið gangi gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti kröfuhafa.  Á móti má spyrja að eignarrétti fasteignaeigenda sem hafa mátt sjá eignarhlut sinn í fasteignum rýrna jafnt og þétt, varla er stjórnarskráin einstefna.

Nú stendur upp á lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar, „gæslumenn almannahagsmuna", að sýna í verki að þeim sé ekki fyrirmunað að læra af reynslunni.


mbl.is Brýnt að leysa vanda stofnfjáreigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kaupa sér frest?

Eftirfarandi klausa er úr pistli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem kallast „Af gefnu tilefni frá Steinunni Valdísi" og er að finna á vef Samfylkingarinnar

„Við í Samfylkingunni þurfum að horfast í augu við fortíðina og þær aðferðir sem við höfum haft við uppbyggingu flokksstarfsins, fjármögnun og aðferðir við val á framboðslista. Með það að markmiði höfum við sett á fót sérstaka umbótanefnd. Ekkert á að undanskilja í þeirri vinnu og ræða allar hugmyndir af alvöru. Innan okkar raða hefur sú krafa janfvel heyrst að allir þeir sem sátu á Alþingi fram til ársins 2008 skuli víkja og láta nýju fólki eftir uppbygginguna í kjölfar hrunsins. Er hún réttmæt? Það er ekki óhugsandi að við komumst að þeirri niðurstöðu að svo sé og að slíkar róttækar aðgerðir séu nauðsynlegar til að baráttumál okkar hljóti þann hljómgrunn sem við teljum þeim bera meðal þjóðarinnar. Við skulum ekki útiloka neitt fyrirfram."

Viðbrögðin við þessum pistli hafa verið á ýmsa vegu.  Teitur Atlason skrifar í bloggfærslu á DV sem heitir ,,Steinunn Valdís svarar":

„Reyndar er þessi hugmynd að allir þingmenn Samfylkingarinnar sem sátu á tíma hinnar Vanhæfu ríkisstjórnar segi af sér, ósköp eðlileg og myndi ekkert vekja neina sérstaka eftirtekt í þróuðum lýðræðisríkjum.  Ég er ekkert þakklátur Steinunni að varpa þessu fram.  Ekkert frekar en að þakka strætóbílstjóra fyrir að stoppa á rauðu ljósi eða eitthvað svoleiðis.

Þetta er ganska sjalfklart eins og Sænskurinn segir. 

Þó rennur mig í grun að Steinunn sé í rauninni að segja "Ég ætla ekki að vera blóraböggull í þessu máli" og hótar hinum þaulsetnu og mosavöxnu félögum sínum allskonar þrýstingi ef hún væri látin taka (bónus)pokann sinn út úr alþingi."

Í færslu sem ber titilinn ,,Það sem Steinunn Valdís skilur ekki" og er á Freedomfries á Eyjunni er vitnað í orð Steinunnar í ofangreindum pistli frá henni á vef Samfylkingarinnar:

,,En mér er hins vegar annt um æru mína og samvisku. Afsögn á grundvelli ásakana um að hafa þegið mútufé frá útrásarvíkingum og af þeim sökum látið undir höfuð leggjast að beita mér gegn þeim sem skyldi myndu hvorugu hjálpa. Þær ásakanir eru einfaldlega rangar og breytir þá litlu hvort fáir eða margir hafa þær uppi."

Síðuhöfundur skrifar í kjölfarið:

,,Ég held ekki að málið snúist um að Steinunn hafi þegið „mútur" eða hvort Steinunn hafi birt rétt bókhald um alla styrki sem hún fékk. Málið snýst um að stjórnmálamenn sem fjármögnuðu kosningabaráttu sína og frama í stjórnmálum með styrkjafé frá fjármálastofnunum og athafnamönnum sem gerðu landið gjaldþrota þurfa að axla ábyrgð - sýna kjósendum í verki að þeir brugðust, að löngun þeirra til að „skipta um vettvang" eins og Valdís orðar það, og sækjast eftir völdum og frama, hafi verið slík að þeir hafi látið bera á sig tugi milljóna í styrki.

Málið snýst ekki um að Steinunn sé glæpamaður og þjófur. Ég efast stórlega um að hún sé það, eða að styrkirnir allir hugsaðir sem mútur, þó þeir líti þannig út í augum margra kjósenda. En um það snýst málið bara alls ekki. Málið snýst um að stjórnmálamenn þurfa að axla ábyrgð og sýna iðrun og snúa við blaðinu. Og það hefur Steinunn ekki gert, því það er ekki hægt að lesa bréf hennar frá um daginn öðru vísi en sem svo að hún upplifi sig sem saklaust fórnarlamb ofsókna, og að ef hún þurfi að axla ábyrgð á einhverju eigi barasta allir aðrir þingmenn flokksins að axla sömu ábyrgð".

Eftirfarandi klausa er af vef Samfylkingarinnar þar sem tilkynnt er um umbótanefndina: 

„Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 17. apríl 2010 var samþykkt skipan umbótarnefndar sem hefur það verkefni að leiða skoðun og umræðu um störf, stefnu, innri starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins og gera að því loknu tillögur til umbóta. ... Stefnt skal að því að kynning helstu niðurstaðna og tillagna fyrir stjórn flokksins og flokksstjórnarfundi verði eigi síðar en 15. október 2010."

Að lokum langar mig að velta því upp hvort það sé ætlun Steinunnar Valdísar að draga málið á langinn þangað til haust, og ef svo er hvort slíkt þyki boðlegt.


Samskipti Steinunnar og Þórs

Eins og kunnugt er hefur þingmannanefndin sem ætlað er að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu RNA nú tekið til starfa.  Þingmannanefndin starfar á grundvelli tiltekinna laga sem sett voru um starfsgrundvöll hennar.

Hér má sjá feril málsins á Alþingi.

Lagafrumvarpið var til meðferðar hjá Allsherjarnefnd hverrar formaður heitir Steinunn Valdís Óskarsdóttir.  Þór Saari er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og lýsti Hreyfingin á öllum stigum málsins miklum efasemdum um ágæti þess.  Í viðleitni sinni til að bæta málið óskaði Þór m.a. eftir því við formann nefndarinnar að tilteknir aðilar yrðu kallaðir fyrir nefndina til að veita umsögn um það, en slíkur er algengur háttur þegar kemur að störfum nefnda þingsins. 

Beiðninni var hafnað, á þeirri forsendu að ,,formlega séð væri fulltrúi Hreyfingarinnar áheyrnarfulltrúi í nefndinni og því þyrfti formaður samkvæmt reglum um þingsköp ekki að verða við ósk hans um gesti (þó vissulega væri það heimilt)".  Um þetta má lesa í yfirlýsingu sem Hreyfingin sendi frá sér málsins vegna.

Hér á eftir fer annars vegar bréf sem Þór ritaði Steinunni sem lá fyrir fundi allsherjarnefndar þann 10. desember 2009 og ræða Steinunnar í þinginu þann 29. desember 2009.

Bréf Þórs

,,Sæl Steinunn.

Meðfylgjandi er rökstuðningur fyrir þeim gestum sem óskað var að kæmu fyrir nefndina vegna máls 286 um þingmannanefnd vegna skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (Blaðamannafélag Íslands).
Fulltrúi "fjórða valdsins" , þ.e. blaða/fréttamanna hverra álit ég tel mikilvægt vegna þess aðhalds sem þeir eiga að veita stjórnvöldum í lýðræðisríkjum.

Ragnar Aðalsteinsson hrl.
Sennilega sá lögmaður íslenskur sem hvað mest hefur tjáð sig um lýðræði og mannréttindi sem og að hafa mjög virtar skoðanir um stjórnskipan og stjórnarskra Íslands. 

Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands
Sá fræðimaður innan Háskólans sem hvað fyrst varaði við hruninu og hefur skrifað fjölmargar greinar um ástæður þess.

Hörður Torfason, söngvaskáld (Raddir fólksins).
Einhver staðfastasti mannréttindafrömuður Íslands og sá er stóð fyrir og skipulagði "Raddir fólksins", útifundi á Austurvelli s.l. vetur er voru vettvangur tugþúsunda íslendinga sem voru að óska eftir nýjum vinnubrögðum og aðferðum við stjórn landsins.

Egill Helgason, blaðamaður.
Sennilega einn mikilvægasti og virtasti þáttastjórnandi samtímans og er e.t.v. meira með "púlsinn" á þjóðinni en nokkur annar.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.
Einhver virtasti og best menntaði stjórnsýlsufræðingur landsins og með mikla reynslu úr stjórnkerfinu hér á landi sem og erlendis og býr yfir mikilli þekkingu á stjórnsýslum nágrannalanda og þeim aðferðum sem þar er beitt.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. sendiherra og ráðherra.
Með afburða þekkingu og reynslu af innlendum og alþjóðastjórnmálum.

Ólafur Hannibalsson, blaðamaður og rithöfundur (Þjóðarhreyfingin).
Forsvarsmaður Þjóðarhreyfingarinnar sem er hópur fólks sem hefur fundað reglulega undanfarin a.m.k. átta ár um lýðræðis- og stjórnkerfisumbætur.  Þjóðarhryefingin samanstendur af mörgum mjög reynslumiklumog hæfum einstaklingum sem hafa víðtæka þekkingu af íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu.

Gunnar Sigurðsson, leikstjóri (Borgarafundir)
Forsprakki "Borgarafunda", þeirra funda sem spruttu upp s.l. vetur og voru vettvangur þúsunda sem komu til að hlýða á og eiga samræður við stjórnmálamenn og/eða aðra sem tengdust málefnum þeim er mest brunnu á fólki í kjölfar hrnsins í október s.l. 

Eva Joly,
hana þarf varla að kynna en ég hef pata af því að hún sé á landinu eða við það að koma.  Ef svo er ekki þá væri gott að fá aðstoðarmann hennar Jón Þórisson í hennar stað.

Jón Þórisson, aðstoðarmaður Evu Joly.

Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.
Sérþekking Róberts á íslenskri stjórnskipan og stjórnsýslu gerir álit hans mjög mikilvægt.

Með bestu kveðju,

Þór Saari
þingmaður Hreyfingarinnar"

Ræða Steinunnar:

,,Frú forseti. Hv. þm. Þór Saari veit mætavel að sú sem hér stendur hafnaði ekki beiðni hans fyrst og fremst vegna formsatriða. Ég gat þess hins vegar að í samþykktum um áheyrnarfulltrúa fastanefnda er ekki gert ráð fyrir því að áheyrnarfulltrúar geti kallað gesti fyrir fundi. Það var hins vegar ekki meginástæðan fyrir því að ég hafnaði þeim lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fram.

Eins og hv. þingmaður veit mætavel, sagði ég við hann á þessum tiltekna fundi að ég sæi ekki sérstaka ástæðu til þess að kalla tiltekna blaðamenn, álitsgjafa, fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga eða ræðumenn hér úti á Austurvelli í aðdraganda búsáhaldabyltingarinnar fyrir nefndina, þennan 14 manna lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fyrir mig, frekar en að kalla einhverja aðra tiltekna einstaklinga inn á fund. Það var ástæðan fyrir því að ég féllst ekki á að kalla þessa einstaklinga þarna inn en ekki þau formsatriði sem hv. þingmaður nefnir hér.

Ég vil óska eftir því við hv. þingmann að hann fari rétt með staðreyndir hér úr ræðustóli Alþingis."


mbl.is Segir ásakanir á hendur sér rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferði og trúverðugleiki Háskóla Íslands

Stofnun stjórnsýslufræða, kynjafræði innan stjórnmálafræðideildar og blaða- og fréttamennska innan félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands boða til málþings, miðvikudaginn 21. apríl 2010, undir yfirskriftinni ,,Af hverju gengur þetta svona hægt? Konur, kosningar og fjölmiðlar"

Á dagskrá er m.a. auglýst erindi Katrínar Jakobsdóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem kallast:  ,,Viðbrögð stjórnmálamanna, núv. og fyrrv. ráðherra mennta-og menningarmála, stutt innlegg".

Í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur Þorgerður Katrín eins og kunnugt er sagt af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ákveðið að taka sér tímabundið leyfi frá þingstörfum. 

Nafn Þorgerðar er m.a. að finna í töflu 23 sem tilgreinir þá Alþingismenn sem höfðu yfir 100 milljóna lán.  Taflan er í 8. bindi skýrslunnar.  Í samhengi við þær upplýsingar sem fram koma í töflu 23 sagði Þorgerður Katrín í afsagnarræðunni um síðustu helgi: 

,,Hjá þeirri staðreynd verður ekki horft að minn elskulegi eiginmaður – og þar með ég sjálf með einum eða öðrum hætti - stöndum í eitt þúsund og sjöhundruð milljón króna skuld við kröfuhafa lána sem við tókum. Líkt og ég sagði áðan eru skuldir okkar Kristjáns ekki nýjar fréttir en með útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar er þessi veruleiki enn áþreifanlegri en áður.

Það var hinn gallharði femínisti í mér sem svaraði í útvarpinu einn morguninn í vikunni svo óheppilega að þetta væru ekki mínar skuldir heldur hans! Reyndar finnst mér alls ekki sanngjarnt að  stjórnmálakonurnar sem taldar eru skulda stórar upphæðir samkvæmt skýrslunni eru þar allar komnar á blað vegna viðskipta og fyrirgreiðslu  við eiginmanna þeirra. En hér er sanngirni ekki til umræðu heldur siðferði og tilfinningar."


Nafn Þorgerðar er einnig að finna í töflu 6. í sama bindi sem tilgreinir þá þingmenn sem þáðu styrk frá Landsbankanum á tímabilinu 2004 - 2008.

Einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar er Ásta Möller, forstöðumaður stofnunnar stjórnsýslufræða.  Nafn hennar er einnig að finna í ofangreindum töflum.


mbl.is Boða til aukalandsfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkjamál Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur

Yfirlit yfir framlög lögaðila til SVÓ 2006 og 2007
 20062007Samtals
Landsbanki Íslands1.500.0002.000.0003.500.000
Baugur1.000.0001.000.0002.000.000
FL Group1.000.0001.000.0002.000.000
Nýsir1.000.000 1.000.000
Hönnun500.000 500.000
Eykt650.000 650.000
Atlantsolía500.000 500.000
Framlög lögaðila undir 500 þús.kr. hvert1.950.000650.0002.600.000
Samtals8.100.0004.650.00012.750.000
Heimild: 
http://www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/sveit06samf.pdf
http://www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/Alþingiskosningar_2007_Samf.pdf

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband