Misrétti, siðrof og búsáhöld

Ingólfur H. Ingólfsson skrifar: 

Það versta sem gæti gerst á næstu dögum eða vikum væri að almenningur gengi ekki lengur í takt við hefðir og venjur samfélagsins og bryti jafnvel lög í nafni þess sem hann kallaði réttlæti. Í fréttum heyrist æ oftar af fólki sem ekki ætlar lengur að greiða af lánum sínum, hvort sem það hefur efni á því eða ekki. Það er því ekki neyðin sem knýr fólk til þess að hætta að borga heldur réttlætið, eða tilfinning fólks fyrir misréttinu sem er reyndar það sama. Verði þetta raunin skiptir litlu hvort ríkisvaldið telji lögin og réttin vera sín megin og fólkið vera lögbrjóta, óeirðaseggi eða siðleysingja, samfélagið allt færi í uppnámi.

Greiðsluvilji er hugtak sem hagfræðingurinn Tryggvi Þór Herbertsson hefur notað á bloggi sínu www.eyjan.is til þess að vara við þessu sama, en þar skrifar hann: “Ef greiðsluviljinn hverfur og fólk og fyrirtæki hætta að greiða af skuldum sínum þá er illa komið. Það leiðir til þess að vantraust verður algjört og samfélagið gliðnar. Gömul og góð gildi hverfa og upplausnarástand myndast.”

Það er einmitt þetta sem kallað hefur verið siðrof og er vel þekkt í félagsfræðinni. Ef fólk tekur sig almennt til og gengst ekki við lánaskuldbindingum, hverfa algild viðmið samfélagsins fyrir skuldaskilum og ábyrgðum og það kemur til upplausnar. Þetta er hættuástand sem gæti leitt til þess að eitthvað annað en búsáhöld yrðu notuð á Austurvelli.

Ég hef lengi varað við þeirri skoðun að skuldavandi fólks og heimila sé eingöngu fólgin í greiðsluerfiðleikum sem taka megi á með sértækum aðgerðum, eins og þeim sem ríkisstjórnin hefur lagt til. Fólk sem er með íbúðalán er einnig að takast á við misrétti sem efnahags- og peningastjórnun ríkisins og Seðlabankans hefur kallað yfir það með misgengi skulda og eigna. Það er líka að takast á við óréttlæti í skiptingu ábyrgðar á milli lánveitanda og skuldara.

Ríkisvaldið getur vissulega staðið á því að réttlætinu sé fullnægt með aðgerðum fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum og að rangt sé að nota takmarkaða fjármuni til þess að leiðrétta meint misræmi í þróun eigna og skulda hjá fólki sem geti auðveldlega greitt af lánum sínum. Það breytir því hins vegar ekki, að telji fólk sig beitt órétti og vilji þessvegna ekki greiða af lánum sínum, þá stefnir í siðrof og upplausn í samfélaginu. Ríkisvaldið getur brugðist við með því að beita fyrir sig lögum og reglum og valdboði, ef það telur sig þurfa, eða það getur breytt afstöðu sinni til þess sem olli ástandinu og leiðrétt ranglætið.

Það ætti als ekki að þurfa að koma til jafn alvarlegra atburða og siðrofs eða upplausnar í landinu því að krafa fólks er í raun ekki önnur en sú að fjárhagslegum byrðum efnahagshrunsins verði dreift nokkuð jafnt á fjármagnseigendur og skuldara. Margar tillögur hafa komið fram til leiðréttingar á misræminu og nú síðast frá umboðsmanni neytenda sem hagsmunasamtök heimilanna hafa tekið undir. Lausnirnar eru því til og sátt gæti orðið um einhverja þeirra, ef pólitískur vilji stæði til þess.


mbl.is Þjóðarsátt í þröngum hópi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband