1.7.2011 | 09:43
Ísland of skuldsett til að taka upp evru
Til að ríki geti tekið upp evru eftir inngöngu í ESB þurfa tiltekin efnhagsleg skilyrði að vera fyrir hendi í því ríki sem um ræðir. Þessi skilyrði eru kölluð Maastricht-skilyrðin. Þau lúta að verðbólgu, langtímavöxtum, afkomu af rekstri ríkissjóðs og opinberum skuldum.
Til að kanna hvernig Ísland stendur gagnvart Maastricht-skilyrðunum lagði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, fram fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra. Í svari ráðherra kemur fram að Ísland uppfyllir ekki nema einn þátt Maastricht-skilyrðanna, þann sem snýr að langtímavöxtum.
Verði 3% verðbólga á Íslandi á árinu 2011 mun verðbólgumarkmið nást ef verðbólga verður samtímis 1,63% í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún mælist minnst. Samræmd vísitala neysluverðs hefur hins vegar farið hækkandi unanfarið og mælist 12 mánaða verðbólga nú 4,1%.
Halli af rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan. Gangi spá AGS eftir verður skilyrðinu náð í lok árs 2012. Þá er gert ráð fyrir að hallinn verði 0,5%. Til að svo megi verða þarf að fylla upp í um 80 -90 milljarða gat á árunum 2011 og 2012 (áætlað er út frá tölum sem Hagstofan hefur birt fyrir árið 2010).
Eitt stærsta áhyggjuefnið snýr að opinberum skuldum. Þær eru mældar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og mega ekki vera hærri en 60%. Í svari ráðherra segir: Ef spá AGS um 23% lækkun skuldahlutfalls hins opinbera frá lokum árs 2010 til loka árs 2016 er notuð sem viðmið má áætla gróflega að skuldir samkvæmt Maastricht-skilyrðunum lækki úr 89,4% af vergri landsframleiðslu í 68,8% frá 2010 til 2016." Markmiðið um opinberar skuldir næst því ekki á spátímanum.
Til viðbótar við þau fjögur skilyrði sem fjallað hefur verið um þarf ríki að hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils þarf að vera innan ákveðinna vikmarka. Í þessu sambandi er vert að hafa gjaldeyrishöftin í huga.
Ef taka á upp evru á Íslandi, standi vilji þjóðarinnar á annað borð til að ganga í ESB, þarf að leggja fram trúverðuga fjárhagsáætlun og fylgja henni eftir.
Til að fást við ofurskuldsetninguna má nefna tvær aðgerðir sem fordæmi eru fyrir. Önnur er að taka upp nýjan eða annan óverðtryggðan gjaldmiðil á mismunandi skiptigengi. Hin er að ráðast í kortlagningu opinberra skulda. Þar með talið allar eignir og skuldbindingar sem kunna að hafa verið færðar utan efnahagsreiknings. Í framhaldi að endursemja um höfuðstól og vexti skulda svo þær komist í niðurgreiðanlegt horf og afborganir ógni ekki velferð þjóðarinnar.
Fari svo að þjóðin ákveði að ganga ekki í ESB verði þó alltént búið að vinna markvisst gegn skuldakreppunni þegar þar að kemur. Ekki veitir af.
Grein birt í Morgunblaðinu 1. júlí 2011
Athugasemdir
Takk fyrir þessa grein, sem er bæði skýr og greinargóð.
The Economist greindi frá gögnum OECD, en samkvæmt þeim þarf frumjöfnuður íslenska ríkisins að batna sem nemur 13% af landsframleiðslu ef skuldastaðan á að komast í 60% af landsframleiðslu árið 2026.
En, eins og segir í grein þinni, þá þarf að uppfylla öll Maasticht skilyrðin í tvö ár samfellt áður en hægt er að taka upp evru. Hingað til hefur Ísland aldrei náð að uppfylla þau öll samtímis.
Svo, jafnvel þótt vondu fólki tækist að draga þjóðina til Brussel og jafnvel þótt björtustu spár rættust í efnahagsmálum og jafnvel þótt öll vikmörk væru nýtt, verður evran tæplega tekin upp á Íslandi fyrir árið 2030.
Eða hvað? Einhverjir hafa rætt um flýtileið sem væntanlega byggist á að beita "skapandi bókhaldi" eins og Grikkir gerðu, með þekktum afleiðingum. Líklega þyrfti maður að heita Össur og vera krati til að telja það freistandi. Ég efast um að enn sé til fólk sem tekur Össur alvarlega, en hann er því miður ráðherra og lofar evrunni þremur árum eftir inngöngu í Sambandið!!
Haraldur Hansson, 1.7.2011 kl. 12:53
Össur stefnir þá væntanlega að inngöngu árið 2027? Af hverju segir hann okkur það ekki?
Ég held að við uppfylllum eitt Maastricht skilyrði nú og það er orsök hrunsins og falls krónunnar. Viðskiptajöfnuður er í plús.
Við erum nú með ráðgjafa frá Wallstreet valsandi um ganga Seðlabankas. Þeir ráða för og verður ekki skotaskuld úr því að kokka bókhaldið a'la Goldman Sucks. Þeir eru raunar að því núna.
Jón Steinar Ragnarsson, 2.7.2011 kl. 09:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.