Viltu vera memm?

Það er þetta með bankana.  Nú er það ekki svo að ég sé fráhverfur einkaframtaki eða telji ríkið best til þess fallið að standa í hvers kyns rekstri.  Satt best að segja þykir mér fráleitt að ríkið skuli, í gegnum Landsbankann, vera komið inn á pizzamarkaðinn á Íslandi eftir að bankinn yfirtók rekstur Dominos, svo dæmi sé tekið.  Nú er svo komið að bankarnir sem Sjálfstæðsflokkurinn og Framsóknarflokkurinn einkavæddu hérna um árið fóru á hausinn haustið 2008 með þeim afleiðingum að efnahagskerfi þjóðarinnar er ennþá ein rjúkandi rúst.  Síðan haustið 2008 hafa allir sparisjóðir landsins, nema tveir, annað hvort lagt upp laupana eða farið fram á fé frá ríkinu til endurreisnar.  Þetta mega þeir gera samkvæmt neyðarlögunum.  Fleiri fjármálastofnanir eru í djúpum skít, allskonar fjárfestingabankar og tryggingafélög hafa verið gripin í fangið af ríkinu með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur, að ógleymdum Íbúðalánasjóði sem slapp undan einkavæðingu þrátt fyrir áform manna um annað.

Já krakkar mínir, ballið er búið.  Löngu búið.  Flest okkar eru farin heim að sofa.  Vöknuð aftur og byrjuð að taka út þynnkuna.  Sum okkar sjá jafnvel fram á rólegheit í kvöld, heima í stofunni fyrir framan nýja íslenska sjónvarpsmynd um norrænt velferðarþjóðfélag.  Hún er allavega á dagskrá, þó einhverjir séu farnir að pískra um að það verði bara afsakið hlé fram eftir kvöldi.  En svo eru þeir sem sem létu sér ekki segjast þegar ballið kláraðist, skelltu sér í eftipartí og pöntuðu góðan bíl.

Og hvað kostar bíllinn?  Ef við erum að tala um hina svokölluðu einkabanka, þið vitið fyrirtæki sem menn út í bæ eiga og mega græða á og borga jafnvel öðrum mönnum ofurlaun fyrir að reka fyrir sig, þá hefur það verið reiknað út, miðað við þær reglur um innstæðutryggingar sem unnið er samkvæmt, að það taki næstum heila öld fyrir þessi fyrirtæki að safna nægilega öflugum varasjóði sem standi undir falli eins af stóru bönkunm þremur.  Halló, hver á þá að borga brúsann þegar einhver þessara banka fer á hausinn næst?  Og ég segi þegar því hið íslenska verðtryggða hagkerfi liggur í öndunarvél gjaldeyrishafta með erlendar lánalínur í æð.     

Íslenska þjóðin hefur verið tekin.  Hún hefur verið tekin af fjármagnseigendum sem spilltir stjórnmálamenn verja í sérhagsmunaskyni.  Það er vitað mál að um áramótin 2009/2010 áttu 5% þjóðarinnar meira en helming af öllum bankainnstæðum.  2,5% (4.627 manns) áttu 44% af öllum innstæðum og þar af áttu 9 manns meira en þúsund milljónir.  Á sama tíma áttu 95% þjóðarinnar 15 milljónir eða minna inni á bankabók.  Frá janúar 2008 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 30%.  Þau ykkar sem ekki átta sig því hvað það þýðir fyrir meirihluta þjóðarinnar sem skuldar verðtryggð lán bið ég  vinsamlega um að hringja strax í einhvern sem getur útskýrt það fyrir ykkur eða lesa bara meira bleikt þangað til bréfin frá skrimtum byrja að koma inn um lúguna.  Því kaupmáttur hefur lækkað um ég veit ekki hvað mörg prósent, sægur af fólki hefur misst vinnu, gomma flúið land eða í nám að læra gvuð má vita hvað í þessum skólum sem kóa sífellt með kerfinu, á meðan röðin hjá Fjölskylduhjálpinni er orðin lengri en röðin á Hurts á Airwaves.

Það væri hægt að tína til fjölmargt fleira til að sýna fram á í hversu slæmri stöðu við erum.  Ég gæti þulið upp opinberar skuldir sem aldrei verða endurgreiddar og tilheyrandi vaxtakostnað sem veldur sársaukafullum niðurskurði í þjónustu við almenning, gjaldskrárhækkunum og uppsögnum opinberra starfsmanna; þið vitið, linkind stjórnmálamanna gagnvart fjármagnseigendum íklædd orðræðu um hagræðingarþörf á erfiðum tímum.  Ég gæti talað um lífeyrissjóðakerfið sem doktorsnemi í hagfræði hefur reiknað út að sé tryggingafræðilega gjaldþrota, þ.e.a.s. að það muni ekki eiga fyrir framtíðarskuldbindingum sínum.  Og í því samhengi, tregðu manna til að viðurkenna þörfina fyrir okurvaxtabann, því hér ríki einhverskonar vaxtafrelsi.  En hvernig má tala um vaxtafrelsi í hagkerfi sem hvílir á lögfestri 3,5% raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóða?  Eru það ekki annars þeir sem lána mest?

E n ég ætla ekki að velta mér upp úr ómögulegum aðstæðum þessa ónýta kerfis eða gera tillögur um plástra hér og þar.  Ég vil tala um leiðir út úr þessu ófremdar- svartnættisástandi sem er við það að gera hvern ábyrgðarmann að andlegu flaki.  Já, ég segi ábyrgðarmann því ef þið voruð ekki búin að átta ykkur á því þá er almenningur alltaf látinn borga brúsann með einum eða öðrum hætti þegar gæðingarnir eru búnir með kvótann sem stjórnmálamennirnir afhentu þeim.  Alveg sama þó að í orði kveðnu heiti það einka-eitthvað.  Á meðan við leyfum stjórnmálamönnunum að skorast undan því að láta gæðingana axla ábyrgð á gjörðum sínum mun ekkert breytast.

Nú er það ekki svo að ég hafi ekki komið fram með tillögur áður um það hvernig megi bregaðst við þessu ástandi.  Ég hef til dæmis verið virkur í störfum Hagsmunasamtaka heimilanna og er einn af upphafsmönnum þeirra samtaka.  Margir þekkja kröfur samtakanna um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar þó færri hafi kynnt sér heildaraðgerðaramma samtakanna þar sem tekið er á fjölmörgum af þeim atriðum sem hrjá íslenska efnahagskerfið.  Vandamálið er bara að breytingarnar sem þarf að ráðast í fela í sér afnám sérréttinda og kalla á að stjórnmálamenn taki ábyrgð á efnahagstjórninni, nokkuð sem þeir hafa ekki gert hingað til.

4. október 2010 áttu sér stað ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar.  Þúsundir komu saman á Austurvelli og tunnur voru barðar.  Þetta var ógleymanleg stund fyrir alla viðstadda.  Í kjölfarið sá ríkisstjórnin sér þann leik helstan að bjóða fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna að borðinu til að reikna út, í félagi við gommu af kerfisköllum, hvað hinar ýmsu aðgerðir myndu koma til með að kosta og hvernig þær myndu gagnast fólki.  Þannig keypti ríkisstjórnin sér frest fram yfir jól og áramót.  Á endanum fór svo að fulltrúi HH skilaði séráliti sem stjórnvöld hafa neitað að birta.  Niðurstaðan úr þessu öllu saman var einhvernvegin á þá leið að lífeyrissjóðirnir neituðu að semja við lántakendur um sanngjarna niðurstöðu og stjórnvöld sögðu ókei bæ, það er allt í lagi af því eignaréttur kröfuhafa er varin af stjórnarskrá.  Gott ef á bakvið tjöldin hafi lífeyrissjóðrnir ekki lofað lána í einhverjar vegaframkvæmdir sem þeir svo sviku korteri seinna.

Enívei.  Það er nokkuð ljóst að upphaflegar kröfur HH um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar munu ekki ná fram að ganga með samningum líkt og samtökin vonuðust upphaflega til.  Sitjandi stjórnvöld hafa heldur ekki áhuga á að fara út í nauðsynlegar aðgerðir með boðvaldi enda eru flestir búnir að átta sig á því að við sitjum við uppi með auðræðisstjórn.  Verkalýðshreyfinguna eyði ég ekki púðri í enda segir í þekktri doktorsrannsókn um hana að með samstarfi við starfsfólk í einkalífeyrissjóðageiranum hafi verkalýðshreyfingin verið innlimuð í ytri valdaformgerðir með gríðarmiklu og flóknu neti samtengdra yfirráða á sviði einkalífs og fjármála. Það sé megin þversögn verkalýðshreyfingarinnar: hún sé orðin veikburða fyrir hönd meðlima sinna en sterk fyrir ríkjandi yfirstétt.

Hvað er þá til ráða?  Sennilega mun lítið breytast fyrr en í fyrsta lagi eftir næstu kosningar.  Þess vegna þurfum við plan.  Við ábyrgðarmenn þurfum að sameinast um áætlun sem er til þess fallin að leiða fram réttlæti og sanngirni í þessu þjóðfélagi.  Þess vegna legg ég til að við skoðum þýsku leiðina rækilega (upptaka nýs gjaldmiðils).  Aðlögum hana að okkar aðstæðum og tryggjum henni brautargengi í næstu kosningum.

Viltu vera memm?  


mbl.is Þurfa að rifja upp gömlu gildin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þýska leiðin?

Árið 1948 var ekki lýðræðsleg stjórn við völd.  Það var verið að losa þýska ríkið við stríðsskuldabréf.

Árið 1990 fékk Austur-Þýskaland mark á móti marki.  Það setti iðnað og fyrirtæki í Austur-Þýskaland á hausinn.  Austur-Þýskaland hefur ekki náð sér eftir það.

Það er ekki hægt að líkja þessu saman við Ísland.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 26.3.2011 kl. 18:45

2 identicon

Því miður verða engar breytingar fyrr en annað hvort einhver á þingi fari í krossför gegn sérréttindum ríkisstarfsmanna og verðtrygginguni eða einhver snappi og taki að sér að hreinsa þetta lið út með riffli og góðum kíki.

Um leið og verðtryggingin er farin og þjóðin og atvinnulífið er búið að jafna sig á skelfingarhögginu sem kemur í kjölfarið þá er hægt að fara að vinna að sanngjörunum stöðuleika sem er ekki haldið uppi með því að stíga á launafólk í landinu.

Stebbi (IP-tala skráð) 26.3.2011 kl. 18:59

3 identicon

Sýnist þessi færsla vart hafa tengingu við fréttina sem vísað er í...

bobbi (IP-tala skráð) 26.3.2011 kl. 22:09

4 identicon

Stebbi, eru þessi sérréttindi nokkuð annað en sjálftaka löggjafar- og framkvæmdarvaldsins á kostnað okkar hinna? Með aðstoð embættismannakerfisins eru þeir eru búnir að byggja upp eigið samtryggingarkerfi sem við erum látin borga fyrir, sama hvað á dynur.

Björn (IP-tala skráð) 26.3.2011 kl. 23:26

5 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Fín grein takk fyrir.

Georg P Sveinbjörnsson, 27.3.2011 kl. 12:58

6 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góð grein og allt hægt að skoða frekar en ger spillt fjórflokkskerfið!

Sigurður Haraldsson, 27.3.2011 kl. 15:45

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk, fyrir virkilega flott blogg! Spurning hvort það verði nokkuð pláss fyrir réttlæti og breytingar á fjármálakerfinu fyrr en með þessu: http://utanthingsstjorn.is/

Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.4.2011 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband