Færsluflokkur: Bloggar

Reglugerð fyrir hvern?

Þetta er áhugavert og í sjálfu sér hið besta mál.  Hins vegar verður ekki hjá öðru komist en að velta því fyrir sér hversu almennar skuldafskriftir munu verða.


mbl.is Auðveldara verði að taka á málum skuldara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningsyfirlýsing við Evu Joly

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna lýsir yfir stuðningi við störf Evu Joly í þágu réttarkerfis þjóðarinnar og þannig almennra hagsmuna. Í ljósi viðtala og yfirlýsinga frú Joly er það mat stjórnar HH að hún hafi notað áhrif sín til að halda rannsókn sérstaks saksóknara á réttri braut. Rannsóknin er ef að líkum lætur mikilvægasta aðgerð íslenska réttarkerfisins frá upphafi og mun hafa áhrif langt út fyrir landsteinana. Eva Joly nýtur óskoraðs trausts okkar.

11.6.2009
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

http://www.heimilin.is/varnarthing/about/alyktanir-samtykktir/371-stueningsyfirlysing-vie-evu-joly-#yvComment371


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á eintali við Sjálfstæðisflokkinn

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Vandamálin sem heimilin standa nú frammi fyrir eru viðameiri og margslungnari en margur ætlar. Í grunninn má segja að þau felist í skulda- og greiðslubyrði heimilanna í kjölfar hárra vaxta, verðbólgu, gengisfalls íslensku krónunnar, lækkandi raunlauna, atvinnuleysis og fallandi eignaverðs. Þessir þættir voru að mestu ófyrirséðir og afleiðing af alheimskreppu, ójafnvægi í efnahagslífinu og hruni fjármálakerfisins – það varð forsendubrestur hjá skuldurum."

ÞBS:
Sammála.  Sérstaklega þessu með forsendubrestinn.  Það gleymist reyndar að nefna hversu grátt verðtryggingin hefur leikið hagkerfið.  Þó alheimskreppa sé staðreynd má heldur ekki líta framhjá því sem miður hefur farið heima fyrir.  Varðandi forsendubrestinn varð hann ekki síður hjá lánveitendum.  Ef rétt væri með farið ætti að segja að forsendur lánasamninga væru brostnar, m.a. vegna framgöngu lánveitenda. 

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Í kjölfar þessa forsendubrests hafa vanskil aukist mikið. Þannig hafa vanskil sem varað hafa í 90 daga eða lengur við Íbúðalánasjóð, viðskiptabankana (nýju bankana) og sparisjóðina, tæplega fimmfaldast frá því í upphafi árs 2008 og stöðugt bætist í vanskilahópinn. Í lok mars 2009 voru um 16,5 milljarðar kr. í vanskilum í þessum hlutum lánakerfisins. Eignastaða heimilanna hefur einnig versnað gríðarlega eftir hrunið."

ÞBS:
Sammála.

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Vandinn við þau úrræði sem nú þegar hafa verið lögfest er að skilyrðin fyrir því að skuldarar eigi kost á þeim eru of þröng. Í ljósi þess hve vandinn er almennur er lagt til að öllum sem þess óska verði gert kleift að minnka greiðslubyrði húsnæðislána sinna um allt að 50% næstu þrjú árin. Lækkuninni verði bætt við eftirstöðvar lánsins. Hugmyndin er að eftir þrjú ár verði efnahagslegar aðstæður á Íslandi umtalsvert betri en nú eru og fólk geti þá frekar staðið við skuldbindingar sínar."

ÞBS:
Ósammála.  Þetta er eins og Iceslave samningurinn.  Öll áhætta áfram hjá lántakendum.  Í ofanálag mætti spyrja að því í ljósi þess forsendubrests sem Sjálfstæðismenn vilja kalla svo hvort ekki beri að leiðrétta það sem miður hefur farið í kjölfarið.  Hverjar eru skuldbindingar lánveitenda við lántaka?

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Efnahagur þjóðarinnar verður ekki bættur með fjöldagjaldþrotum skuldara. Það er því hagur heildarinnar að þess verði freistað að koma heimilunum yfir versta skuldahjallann."

ÞBS:
Sammála þessu með gjalþrotin.  Skuldahjallinn er engu að síður ennþá bara á teikniborðinu í mínum huga.  Stjórnvöld hafa öll völd í hendi sér varðandi þá ákvörðun hvort hjallinn verður reistur skv. forskrift þess arkitektúrs sem íslenska efnahagsundrið hefur nú brotlent eða hvort ný teikning verður höfð til grundvallar.  M.ö.o. ætti ekki að reyna að þvinga fram ósæmandi skuldaviðurkenningu á þessum okurlánum.  Það væri að lengja í ólinni í stað þess að skera menn úr henni.  Bólan sem menn héldu að væri full af peningum var full af lofti þegar á reyndi.  Þar af leiðandi eru engar innistæður fyrir hluta af bókfærðum eignum lánveitenda.

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Möguleikinn á lækkun greiðslubyrði dugir ekki öllum heimilum. Því er lagt til að skoðuð verði af fullri alvöru sú leið að lækka höfuðstól húsnæðislána til að bæta þann forsendubrest sem varð við hrun bankanna."

ÞBS:
Þarna er ekki nógu langt gengið.  Annað hvort varð forsendubrestur eða ekki.  Ef það varð forsendubrestur þá varð hann hjá öllum - ekki bara þeim sem ekki geta borgað.  Þetta er ekki síður réttlætismál.  Þess vegna þarf að byrja á því að taka út fyrir sviga það fyrirsjáanlega tjón sem af forsendubrestinum myndi hljótast og leiðrétta með almennum aðgerðum.  Síðan ber að horfa til sértækra lausna til handa þeim sem ennþá standa höllum fæti.

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Í dag eru fyrir hendi úrræði til höfuðstólslækkunar lána en það ferli sem ganga þarf í gegnum er bæði langt og niðurlægjandi fyrir skuldara. Þá er brýnt að stimpilgjöld verði afnumin til þess að auðvelda heimilunum að nýta sér bestu kjör við endurfjármögnun lána. Þegar í stað verði settur á laggirnar hópur sérfræðinga skipaður fulltrúum allra stjórnmálaflokka til að koma með tillögur í þessum efnum."

ÞBS:
Sammála.

http://xd.is/?action=efnahagsmal_nanar&id=23376


mbl.is Fyrirtækin nálgast hengiflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleiki nefndarinnar?

Vek athygli á þessari færslu Gunnars Axels þar sem fjallað er um aðkomu Páls að einkavæðingu sparisjóðanna:

Hvernig sparisjóðirnir urðu að markaðsvöru


mbl.is Hefur engin áhrif á vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengistryggð lán ólögleg á Íslandi líka?

Að gefnu tilefni endurbirti ég hér í heild færslu sem Marinó félagi minn í HH birti fyrir nokkru á sínu bloggi.

***

http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/855575/

Í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er í greinum 13 og 14 fjallað um vísitölutengingu skuldbindinga.

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]*
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

*(L. 51/2007. 1. mgr.)

Það vekur athygli í þessum greinum, sem "gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum" að "[h]eimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé .. sé grundvöllurinn verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs" eða "hlutabréfavísi[tala]..eða safn slíkra vísitalna".  Þó svo að greinin banni ekki beint aðrar tengingar, þá verður að túlka hana á þann hátt.  Það er jú verið að nefna það sem er heimilt á grundvelli reglunnar "allt er bannað sem er ekki sérstaklega leyft".  Ekki væri verið að nota orðið "heimilt", nema vegna þess að annað er bannað.

Í greinargerð með frumvarpinu (sjá http://www.althingi.is/altext/126/s/0872.html) segir um 13. og 14. gr.:

    Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið tak markaðrar hylli.
    Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

(Leturbreytingar: MGN)

Ég fæ ekki betur séð en að gengistryggð lán, hvort heldur hrein eða með myntkörfu í bland við íslenskar krónur, séu ólögleg! ".. ekki verður heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Verður það nokkuð skýrar?  Fjármálafyrirtækin eru búin að vera að selja ólögleg lán í fjölmörg ár.

Þar sem  þessi lán eru helsti dragbítur margra heimila og fyrirtækja, þá skiptir þetta miklu máli.  Hvernig stendur á því að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og viðskiptaráðuneytið hafa látið þetta óátalið?  Hvað segir ríkissaksóknari við þessu?  Mér finnst alveg með ólíkindum að þetta hafi verið látið óátalið í öll þessi ár, þegar reyndin er að með lögum nr. 38/2001 var löggjafinn að banna þessi lán.

Nú þýðir ekki fyrir fjármálafyrirtæki að ætla sér að snúa út úr og segja að þetta hafi verið skuldbindingar í erlendum gjaldmiðli.  Lánsumsóknir eru undantekningarlaust um fjárhæð í íslensum krónum, útborgun lánanna var í íslenskum krónum, afborganir lánanna eru/voru í íslenskum krónum og þegar upplýsingar eru gefnar um stöðu lánanna, þá eru þær gefnar í íslenskum krónum.  Auk þess er einn möguleiki að fá blandað lán, þar sem hluti þess er miðaður við verðtryggð kjör samkvæmt vísitölu neysluverðs meðan restin er miðuð við "dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Nú er spurningin hvort skjól gömlu bankanna fyrir lögsóknum muni koma í veg fyrir að lántakendur sem tóku hin ólöglegu lán geti leitað réttar síns.

***

Frá því þessi færsla var rituð af Marinó hafa Hagsmunasamtök heimilanna sent FME, Viðskiptaráðuneyti, Seðlabankanum og Neytendastofu fyrirspurn um afstöðu þeirra til lögmætis gengistryggðra skuldabréfa t.d. til húsnæðiskaupa.  Engin svör hafa borist ennþá.  Bréfið hljóðaði svo:

***

 

Fjármálaeftirlitið
Suðurlandsbraut 32
108 Reykjavík

Reykjavík, 18. maí 2009

 

Efni: Fyrirspurn varðandi lögmæti gengistryggðra lána

Hagsmunasamtök heimilanna óska eftir rökstuddri afstöðu Fjármálaeftirlitsins til lögmætis gengistryggðra skuldabréfa, svo sem  til íbúðakaupa.  Er vísað  til ákvæða og heimilda sem kveðið er á um í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem og til athugasemda sem fylgdu með frumvarpinu:

„13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.

14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi."
http://www.althingi.is/lagas/nuna/2001038.html

Ennfremur segir í athugasemdum með frumvarpinu:  „ Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi."
http://www.althingi.is/altext/126/s/0872.html

Í ljósi þeirra íþyngjandi fjárhagslegu aðstæðna sem veik staða krónunnar og hrun efnahagskerfisins hafa skapað fyrir lántakendur gengistryggðra íbúðalána er þess óskað að afgreiðslu málsins verði hraðað eins og kostur er. 

Virðingarfyllst,
f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna

 

___________________________

Þórður B. Sigurðsson
formaður 


mbl.is Banna lán í erlendri mynt á Norðurlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundur um boðun greiðsluverkfalls

Það er mat stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna að horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar séu kolmyrkvar og að heimilin standi frammi fyrir umfangsmiklum þrengingum.

Því miður hefur ríkisstjórnin ákveðið að hunsa með öllu skynsamlegar og hóflegar tillögur samtakanna um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána sem hafa rokið upp úr öllu valdi á brostnum forsendum.  Í staðinn ætla stjórnvöld að þvinga fram ósæmandi skuldaviðurkenningu á umræddum okurlánum og innheimta þau af fullri hörku.  Slík framganga er riftun á gildandi samfélagssáttmála.


Afstaða stjórnvalda í málinu er með öllu óskiljanleg og ber öll þess merki að sérhagsmuni skuli taka fram yfir almenna.  Í því samhengi vekur sérstaka athygli að ekki skuli liggja fyrir tímasett áætlun um afnám verðtryggingar þegar formenn beggja stjórnarflokka eru yfirlýstir andstæðingar hennar.

Aðstæður eru nú með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að grípa til nauðvarnar til að knýja fram tafarlausar úrbætur.  Þær aðferðir sem stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hyggst leggja í dóm félagsfundar eru:

  • Greiðsluverkfall; að afborgunum af lánum verði hætt, þær takmarkaðar eða dregnar í tiltekinn tíma
  • Að hvatt verði til uppsagna á kreditkortaviðskiptum og greiðsluþjónustu
  • Að hvatt verði til úttekta og flutnings á innistæðum
  • Að hvatt verði til sniðgöngu og neysla takmörkuð við brýnar nauðsynjar
  • Að meintir brotaaðilar sem vinna gegn velferð heimilanna verði auglýstir
  • Opinber mótmæli


Til fundarins verður boðað eins fljótt og auðið er.


6. júní 2009
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
www.heimilin.is


mbl.is Nærri 19 þúsund á vanskilaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Grunuðum" gert viðvart

Hver ætli viðbrögð þeirra sem hafa réttarstöðu ,,grunaðra" verði við þeim fregnum að brátt verði hægt að frysta eignir þeirra?


mbl.is Ekki tilefni til að kyrrsetja eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Ef vér slítum í sundur lögin, slítum vér og í sundur friðinn“

Sættir og málamiðlun í deilum eru lykilhugtök í friðarboðskap þeirra bóka sem skrifaðar voru á mestu ófriðartímum þjóðarinnar, þegar kristni var tekin upp á landinu árið 1000.  En hvernig skildu menn þess tíma hugtakið lög?  Lög voru alls ekki lagabókstafurinn fyrst og fremst; lögin voru samfélagið sjálft, hin siðræna undirstaða, rétt hegðun gagnvart náunganum, heiðarleiki.  Ef lögin voru slitinn, ef samfélagið var brotið upp var ófriður skollinn á.  Nú hafa þessi varnaðarorð Þorgeirs Ljósvetningagoða orðið að raunveruleika á okkar tímum, þegar ráðamenn þjóðarinnar hafa „slitið í sundur lögin".

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill með meðsendu fylgiskjali koma á framfæri lykilatriðum um málefni heimilanna inn í umræður um Samfélagssáttmála þann sem nú er í smíðum.  Sem frjálsir þegnar hefur almenningur í landinu kosið sér fulltrúa, sér jafna menn og konur, til að fara með hagsmunamál sín í stjórnsýslu og lykilstofnunum samfélagsins.  Það er gert í því sjónarmiði að jafna stöðu þegnanna á milli, skapa jöfn skilyrði til atvinnustarfsemi og jafnframt að hlúa að uppbyggingu samfélagslegra þátta.

Undanfarin ár hefur þessi skilningur snúist allur á hvolf og þegnarnir eru farnir að þjóna samfélagsyfirbyggingunni og eru orðnir að þrælum fjármálastofnana.  Ef skapa á skilyrði fyrir frjálsa þegna til að búa í þessu landi til framtíðar verður að snúa þessum formerkjum aftur við og hlúa að grunnstoðum samfélagsins, þegnunum sjálfum, heimilunum í landinu.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna óskar ykkur góðs gengis í þeirri miklu vinnu sem þið eigið fyrir höndum og er boðin og búin til að leggja sitt af mörkum í því samhengi, sé þess óskað.

***

Svona hljóða skilaboðin með samfélagssáttmála þeim er Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent stjórnvöldum og aðlilum vinnumarkaðarins.  Í því plaggi koma fram þær áherslur sem samtökin telja nauðsynlegar að hafa í huga í þeim viðræðum sem nú standa yfir.


mbl.is „Allir þurfa að standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Krefjumst þjóðaratkvæðagreiðslu

Ég vil fá að greiða atkvæði um þetta mál, en þú?


mbl.is Hugsanleg Icesave mótmæli á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki í okkar nafni

Við neitum að borga skuldir sem við berum ekki ábyrgð á!

Mikill vafi er á því hvort okkur Íslendingum beri að standa undir skuldbindingum vegna starfsemi íslensku bankanna erlendis. Þar er sem kunnugt er fyrst og fremst um að ræða svokallaða Icesave-innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Svo leiða megi staðreyndir málsins í ljós verður að koma til úrskurður hlutlauss dómstóls.

Bresk stjórnvöld hafa með fulltingi Evrópusambandsins beitt harðræði, og í sumum tilfellum hreinu og kláru ofbeldi, til þess að fá okkur til þess að taka á okkur alla ábyrgð á starfsemi bankanna m.a. með beitingu hryðjuverkalaga gegn hagsmunum íslenskra fyrirtækja í Bretlandi sem og hagsmunum íslenska ríkisins.

Breskir ráðamenn hafa neitað að samþykkja að málið verði útkljáð fyrir dómstólum vegna þess að þeir óttast niðurstöðuna. Sama á við um Evrópusambandið sem er full kunnugt um ábyrgð sína í málinu vegna meingallaðs lagaumhverfis sem við tókum upp hér á landi í gegnum EES-samninginn.

Evrópusambandið veit að það gæti sett allt innlánskerfið í ríkjum þess í uppnám ef dómstóll úrskurðaði okkur Íslendingum í vil. Því hefur verið lagt allt kapp á að kúga okkur til þess að fallast skilyrðislaust á kröfur breskra og hollenskra stjórnvalda í málinu. Okkar hagsmunum er einfaldlega fórnað.

Ríkisstjórn Íslands hefur nú svo gott sem lagt blessun sína yfir þennan ráðahag. Það er ekki gert í okkar nafni. Við neitum að borga skuldir sem við berum ekki ábyrgð á. Við krefjumst þess að málið verði leitt til lykta fyrir þar til bærum hlutlausum dómstóli!

(,,Hópur með nafninu við neitum að borga skuldiur sem við berum ekki ábyrgð á" var stofnaður á Facebook föstudaginn 5. júní. Fyrsta sólarhringinn skráðu 1.300 manns sig í hann.)


mbl.is Erfitt að skrifa undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband