Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Samsæri gegn almenningi

Á facebook Í gærkvöldi vísaði ég á færslu Marinós G. Njálssonar með svohljóðandi inngangsorðum:

,,Samsæri gegn almenningi sem fjölmiðlar þegja yfir.  Lilja Mósesdóttir með áhugaverða athugasemd þarna líka.  Gott skúbb fyrir þann blaðamann sem nennir..."

Mig grunar að Heimir og Kolla hafi haft pat af málinu áður en ég skrifaði þessi orð því í morgun voru Lilja Mósesdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarsson í viðtali í morgunætti Bylgjunnar um málið.  Þau fá prik fyrir umfjöllunina.

Málið snýst um skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna, yfirfærslu gengistryggðra lána sem dæmd hafa verið ólögleg og þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í því ferli.

Ég hvet fólk til að kynna sér þetta mál vel og hugleiða um leið hvort málið sé frágangssök þeirra sem ábyrgð bera.


Í miðri vísindakreppu?

BA verkefnið mitt í mannfræði árið 2003 fjallaði um þróun sjúkdómshugtaksins alkóhólisma.  Mig langar til að birta kafla úr ritgerðinni hér og setja um leið í annað samhengi.  Mig langar til að velta því upp hvort hægt sé að beita kenningu Thomas Kuhn um vísindabyltingar á þá stöðu sem birtist mörgum þegar hefðbundin vinstri hægri pólitík ber á góma.  Getur verið að við séum stödd í miðri „vísindakreppu" ofan í allar hinar?  Ég læt svo ritgerðina fylgja með í heild sinni sem fylgiskjal fyrir áhugasöm.


Vísindi vísindanna: um sannleika almennra fullyrðinga

Er sannleikurinn afstæður?  Þau vísindi sem ætlað er að færa okkur sannleikann breytast í tíma og rúmi.  Sífellt koma fram nýjar kenningar sem eiga að útskýra veröldina, eða alla vega einhvern hluta hennar.  Sumar þessara kenninga eru kæfðar í fæðingu og þeim er hafnað umsvifalaust.  Aðrar þykja sannfærandi og eru samþykktar, verða hluti af ráðandi hugmyndum um hvað sé satt og rétt, hluti af ríkjandi vísindaheimsmynd.  Svo líður tíminn og vísindalegar „framfarir" eiga sér stað, ný þekking verður til sem þykir meira sannfærandi en sú sem fyrir er til staðar og leysir hún þá eldri af hólmi.  Eldri kenningum er annað hvort hafnað algjörlega eða þær felldar inn í hina nýju, breyttu, ríkjandi vísindaheimsmynd.  Síðan endurtekur ferlið sig aftur og aftur.

Kenning Thomas Kuhn um vísindabyltingar er í svipaða veru og síðasta málsgrein.  „Þungamiðjan í kenningu Kuhns er hugtakið um vísindaleg viðmið (e. paradigm) og muninn á hefðarvísindum og vísindabyltingu" (Gilje og Skirbekk, 1999: 679).  Samkvæmt Kuhn eru vísindaleg viðmið stórar kenningar sem innihalda smærri kenningar.  Þegar smærri kenningar útskýra ekki lengur veröldina á máta sem þykir sannfærandi á sér stað vísindakreppa.  Afleiðing slíkrar vísindakreppu er að smærri kenningunni er annað hvort hafnað eða hún felld inn í nýja og stærri kenningu (Barnard, 2000: 7).  „Hugtakið viðmið er tilraun Kuhns til að lýsa því hvernig sérhver kenning í vísindum er hluti af stærra kerfi sem allt vísindastarf hvílir á" (Gilje og Skirbekk, 1999: 679).  Ef bornar eru saman eðlisfræðikenningar Newton (1643-1727) og Einstein (1879-1955) mætti segja, í anda Einstein, að allt (tími, rými, o.s.frv.) sé afstætt, með öðrum orðum að öll fyrirbrigði séu háð hvert öðru.  Samkvæmt Newton eru segulsvið og rafmagn hins vegar aðgreind fyrirbrigði og hægt er að útskýra þau óháð hvoru öðru.  Að mati Einstein aftur á móti er segulsvið nauðsynlegur hluti af rafmagni.  Hvorug kenningin er endilega algerlega rétt eða röng.  Hins vegar öðlast þær merkingu innan stærri kenningalegri ramma.  Þó væri hægt að halda því fram að kenning Einstein sé „betri" að því leyti að hún útskýrir ákveðin fyrirbrigði sem kenning Newton gerir ekki og getur ekki gert (Barnard, 2000: 7-8).

Til að tengja þetta við umfjöllunarefni þessarar ritgerðar væri hægt að hugsa sér læknisfræði sem einn stóran kenningarlegan ramma og innan hans vísindatilgátuna „alkóhólismi er sjúkdómur":

Sérhver vísindatilgáta er líkt og samofin flóknu kerfi forsenda sem í meginatriðum ríkir þögult samkomulag um.  Til þessara þöglu forsendna telst sú þjálfun sem vísindamenn hljóta þegar þeir læra grein sína. (Að læra vísindi felst ekki aðeins í því að tileinka sér mikið safn staðreynda heldur einnig að hljóta þjálfun og innvígslu í sameiginlegan hugsunarhátt - hugtök vísindanna og vinnureglur þeirra.) ... Við vísindalegar rannsóknir er mismikil þörf á því að velta fyrir sér þessum forsendum og gera breytingar á þeim.  Þegar slíkar vangaveltur og athuganir hefjast á sér stað vísindabylting, segir Kuhn (Gilje og Skirbekk, 1999: 679). 

Í samhengi við þessa umræðu væri hægt að halda því fram að vísindabylting hafi átt sér stað undir lok átjándu aldar þegar Benjamin Rush og Thomas Trotter kynntu hugmyndir sínar um ofdrykkju sem sérstakan sjúkdóm fyrstir manna. Rökin fyrir þeirri stæðhæfingu væru að áður en Rush og Trotter mótuðu hugmyndir sínar var ofdrykkja útskýrð með skírskotun til trúarbragða (Conrad og Schneider, 1992: 78).  Ekki verður hjá því komist í þessari umræðu að beina athyglinni að því hvernig hægt sé að álíta það vísindabyltingu, með nútímalega merkingu orðsins vísindi í huga, þegar menn byrja að útskýra tiltekið athæfi með skírskotun til læknisfræðilegra hugtaka í stað trúarlegra kenninga.  Nauðsynlegt er að hafa tíðaranda átjándu aldarinnar í huga en sú öld hefur verið kennd við upplýsingartímann:

Þá var farið að líta svo á að maðurinn gæti af eigin frumkvæði haft áhrif á samfélagsgerðina og framvindu eigin lífs.  Að vissu leyti var upplýsingin beint framhald endurreisnartímans þegar maðurinn varð mælikvarði allra hluta og sú trú vaknaði að manninum væri kleyft að ráða í flestar gátur og komast að sannleikanum um eðli hluta og fyrirbæra með skynsemi sinni einni saman (Haraldur Ólafsson, 1998: 9).    

Unnur B. Karlsdóttir fjallar um tímabilið á eftirfarandi hátt:

Fyrir daga vísindabyltingar, upplýsingarinnar og síðan náttúruvísinda og Darwinisma 19. aldarinnar taldist guð ábyrgur fyrir sköpun lífríkisins.  En nú var farið að skýra náttúruna út frá kenningum um lögmál og þróun sem hefði ekkert með íhlutun guðs að gera heldur lyti reglum náttúrunnar, mannlífið þar með talið (Unnur B. Karlsdóttir, 1998: 12).

Áður en vísindin ruddu sér til rúms sem ráðandi hugmyndafræði leitaði fólk skýringa á ráðgátum tilverunnar í trúarbrögðum. Á Vesturlöndum var kristin trú ráðandi og því var það fyrst og fremst Biblían sem sótt var í eftir svörum við hverju því sem fólk óskaði eftir skýringum á. Í kjölfar uppgötvanna þeirra er gerðar voru á upplýsingartímanum fór almenningur smám saman að draga upplýsinga- og sannleiksgildi Biblíunnar í efa og vísindalegar heimildir tóku við sem helsta uppspretta skýringa á ráðgátum heimsins.  Sem dæmi um það má nefna að „allt fram undir miðja nítjándu öld og jafnvel miklu lengur, var talið að heimurinn hefði verið skapaður árið 4004 f. Kr. eins og enski biskupinn Ussher (1581-1656) hafði reiknað út eftir ættartölum í Gamla testamentinu" (Haraldur Ólafsson, 1998: 95).  Trúarbrögð voru því eins konar vísindi miðaldamanna.

Samkvæmt Kuhn er vísindabylting andstæða hefðarvísinda þar sem fengist er við afmarkaðar tilgátur á grundvelli skilyrða sem ekki eru dregin í efa.  Þar sem hinar víðtæku forsendur, sem áður var fjallað um, fela einnig í sér mælikvarða á mikilvægi og sannleika í vísindum verða deilur um mismunandi viðmið ekki útkljáðar með rökum.  Að því gefnu er ekki til neitt hlutlaust sjónarhorn á slíkar deilur og engin leið er til að skera úr um hvort niðurstaða slíkra deilna leiði til framfara eða ekki (Gilje og Skirbekk, 1999: 679).  Í því samhengi er áhugavert að lesa eftirfarandi klausu sem læknirinn Þórarinn Tyrfingsson skrifar á heimasíðu SÁÁ, samtaka sem eru „fyrst og fremst pólitískur vettvangur fyrir einstaklinga til að vinna að áfengis- og vímuefnavörnum" (Þórarinn Tyrfingsson, 2002):

Þekking á áfengissýki- og vímuefnafíkn hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin 25 ár.  Undraverðar framfarir hafa orðið í líffræði og nú vitum við miklu betur en nokkru sinni fyrr hvernig vímuefnin hafa áhrif á heilastarfsemina og breyta henni svo varanlega að fíknisjúkdómur verður til (Þórarinn Tyrfingsson, 2002, feitletrun bætt við).

Sökum þess að Kuhn gerir ráð fyrir að á milli mismunandi viðmiða í vísindum sé óbrúanlegt bil er ekki lengur hægt að tala um vísindalegar framfarir sem samfellda hreyfingu fram á við.  Þó hægt sé að segja, frá tilteknu sjónarhorni, að þekkingunni fleygi fram er slíkt hið sama ekki uppi á teningnum þegar eitt viðmið leysir annað af hólmi.  Ástæða þess er sú að ekki er til neinn hlutlaus dómstóll sem gæti metið framfarirnar.  Þar af leiðir að erfitt er að koma á gagnkvæmum skilningi milli fulltrúa ólíkra viðmiða af þeirri ástæðu að báðir aðilar sjá málið út frá sínum eigin forsendum, út frá sínu viðmiði.  Samskipti eru aftur á móti möguleg milli þeirra sem deila sama viðmiði (Gilje og Skirbekk, 1999: 679).  Ef þessi kenning er túlkuð á róttækan hátt mætti segja að ekkert hlutlaust tungumál sé til, að allar upplýsingar séu háðar þeim kenningaramma sem þær koma úr og séu mótaðar af viðmiðinu.  Af þeim sökum eru ekki til aðferðir sem eru hlutlausar með tilliti til viðmiðanna, allir mælikvarðar á sannleika eru háðir því viðmiði sem þeir heyra til, engir mælikvarðar eru óháðir öllum viðmiðum og engir mælikvarðar eru sameiginlegir öllum viðmiðum.  Sannleikurinn er afstæður.[1] 

Til að tengja þetta aftur við umfjöllunarefni þessa texta má líta svo á að allt síðan Benjamin Rush og Thomas Trotter, sem nánar verður fjallað um í næsta kafla, skilgreindu ofdrykkju sem sjúkdóm hafi fræðimenn læknavísindanna, og aðrir sem deila því viðmiði sem skilgreinir ofdrykkju sem sjúkdóm, verið að stunda hefðarvísindi í tengslum við ofdrykkju.  Ljóst er að á þeim rúmlega tvö hundruð árum sem liðin eru frá því að Rush og Trotter skilgreindu ofdrykkju sem sjúkdóm hafa ýmsar kenningar verið settar fram í tengslum við sjúkdómshugtakið.  Á umræddum ferli hefur sjúkdómshugtakið tekið breytingum.  Í dag útskýra menn ofdrykkjusjúkdóminn á annan hátt en þeir gerðu fyrir tvö hundruð árum.  Þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa á skilningi manna á sjúkdómshugtakinu er samt sem áður eitt sem ekki hefur breyst, það er að ofdrykkja er ennþá skilgreind sem sjúkdómur og hefur verið það í rúmlega tvö hundruð ár.  Þess vegna væri hægt að tala um hefðarvísindi í því samhengi.

Það þýðir þó ekki að enginn gagnrýni þá skilgreiningu að ofdrykkja sé sjúkdómur.  Fleiri viðmið fyrirfinnast en það viðmið sem umlykur sjúkdómsskilgreininguna alkóhólisma.  Sem dæmi um þess háttar viðmið má taka sjónarhorn sem félagsfræðingarinr Conrad og Schneider (1992) nefna „þekkingarfélagsfræði" (e. sociology of knowledge), en nánar verður vikið að gagnrýni þeirra félaga og annara á sjúkdómshugtakið síðar í ritgerðinni.

 


[1] Ef stigið er skrefinu lengra í túlkuninni og kenningin er notuð sem mælitæki á sjálfa sig er hún um leið orðin varhugaverð.  Því að ef kenningin boðar afstæðan sannleik hvernig er þá hægt að halda því fram að hún sé sönn? Slíkt væri ekki hægt nema að gert væri ráð fyrir því að einhvers staðar væri að finna einhvern altækan sannleik sem stæði utan við allar kenningar, viðmið og vísindi.  Í framhaldi væri þá hægt að spyrja að því hver sá sannleikur kynni að vera sem og velta „eðli" sannleikans fyrir sér: Hvað er sannleikur?


mbl.is Baráttan rétt að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er stefna Samfylkingarinnar óraunhæf?

Vilhjálmur Þorsteinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í verðtryggingarnefnd sem skilaði skýrslu sinni til efnahags- og viðskiptaráðherra þann 12. maí 2011, álítur að raunhæfasta og fljótlegasta leiðin til að stuðla að afnámi verðtryggingar sé að stefna að upptöku evru eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  Þetta má lesa í séráliti hans (bls. 19 - 21 í skýrslunni).  Í því kemur einnig fram að þegar Ísland hefði náð að uppfylla Maastricht-skilyrðin um verðbólgu, vaxtastig, fjárlagahalla og skuldir hins opinbera, en þó eftir a.m.k. tvö ár innan ERM II, gæti landið tekið upp evru.  Öllum íslenskum krónum yrði þá skipt beint í evrur í boði evrópska seðlabankans á því gengi sem ákveðið var við inngöngu.

Aðild að EMU er skilyrði fyrir upptöku evru, en þar að auki þurfa aðildarríki að uppfylla ákveðin skilyrði um efnahagslega samleitni (Maastricht-skilyrðin). Öll aðildarríki ESB eru aðilar að EMU, en ekki öll þeirra hafa uppfyllt Maastricht-skilyrðin. Skilyrðin eru sett til að tryggja stöðugleika og draga úr hættu á að möguleg efnahagsleg áföll hafi ósamhverf áhrif í aðildarríkjum ESB. Ríkin þurfa að uppfylla eftirfarandi:

  • Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB ríkjum með lægstu verðbólguna.
  • Langtíma stýrivextir mega ekki vera meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugast.
  • Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu.
  • Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu.
  • Aðili að gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils innan ákveðinna vikmarka.

Til að fá upplýsingar um hvernig Ísland stendur gagnvart Maastrich-skilyrðunum hefur Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sent fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra svo hljóðandi:

  • Uppfyllir Ísland verðbólguþátt Maastricht-skilyrðanna? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
  • Uppfyllir Ísland langtímastýrivaxtaþátt Maastrich-skilyrðanna? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
  • Hver hefur afkoma af rekstri ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verið árin 2000-2010?
  • Uppfyllir Ísland þátt Maastricht-skilyrðanna um afkomu af rekstri ríkissjóðs? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
  • Hverjar hafa skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verið árin 2000-2010?
  • Uppfyllir Ísland þátt Maastricht-skilyrðanna um opinberar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
  • Uppfyllir Ísland þær kröfur sem gerðar eru til að öðlast aðild að gengissamstarfi Evrópu (ERM II)? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?

Það verður áhugavert að sjá svörin.  Í framhaldi skora ég á spekinga að leggja mat á hvenær við gætum í fyrsta lagi tekið upp Evru, með aðild að ESB.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband