Er stefna Samfylkingarinnar óraunhæf?

Vilhjálmur Þorsteinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í verðtryggingarnefnd sem skilaði skýrslu sinni til efnahags- og viðskiptaráðherra þann 12. maí 2011, álítur að raunhæfasta og fljótlegasta leiðin til að stuðla að afnámi verðtryggingar sé að stefna að upptöku evru eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  Þetta má lesa í séráliti hans (bls. 19 - 21 í skýrslunni).  Í því kemur einnig fram að þegar Ísland hefði náð að uppfylla Maastricht-skilyrðin um verðbólgu, vaxtastig, fjárlagahalla og skuldir hins opinbera, en þó eftir a.m.k. tvö ár innan ERM II, gæti landið tekið upp evru.  Öllum íslenskum krónum yrði þá skipt beint í evrur í boði evrópska seðlabankans á því gengi sem ákveðið var við inngöngu.

Aðild að EMU er skilyrði fyrir upptöku evru, en þar að auki þurfa aðildarríki að uppfylla ákveðin skilyrði um efnahagslega samleitni (Maastricht-skilyrðin). Öll aðildarríki ESB eru aðilar að EMU, en ekki öll þeirra hafa uppfyllt Maastricht-skilyrðin. Skilyrðin eru sett til að tryggja stöðugleika og draga úr hættu á að möguleg efnahagsleg áföll hafi ósamhverf áhrif í aðildarríkjum ESB. Ríkin þurfa að uppfylla eftirfarandi:

  • Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB ríkjum með lægstu verðbólguna.
  • Langtíma stýrivextir mega ekki vera meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugast.
  • Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu.
  • Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu.
  • Aðili að gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils innan ákveðinna vikmarka.

Til að fá upplýsingar um hvernig Ísland stendur gagnvart Maastrich-skilyrðunum hefur Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sent fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra svo hljóðandi:

  • Uppfyllir Ísland verðbólguþátt Maastricht-skilyrðanna? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
  • Uppfyllir Ísland langtímastýrivaxtaþátt Maastrich-skilyrðanna? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
  • Hver hefur afkoma af rekstri ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verið árin 2000-2010?
  • Uppfyllir Ísland þátt Maastricht-skilyrðanna um afkomu af rekstri ríkissjóðs? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
  • Hverjar hafa skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verið árin 2000-2010?
  • Uppfyllir Ísland þátt Maastricht-skilyrðanna um opinberar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
  • Uppfyllir Ísland þær kröfur sem gerðar eru til að öðlast aðild að gengissamstarfi Evrópu (ERM II)? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?

Það verður áhugavert að sjá svörin.  Í framhaldi skora ég á spekinga að leggja mat á hvenær við gætum í fyrsta lagi tekið upp Evru, með aðild að ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Áhugavert að sjá hvernig menn ætla að uppfylla þetta skilyrði:

Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu.

Erlendar skuldir ríkissjóðs er að því ég best veit helmingi hærri. Vaxtagreiðslur vegna þeirra eru um hundrað milljarðar á ári. Hvar ætla þeir að fá erlendar tekjur til þess að greiða niður erlendar skuldir. Varla getur ríkisstjórnin ætlað að græða á erlendum tekjum vegna stóriðju sem ekki má skattleggja eða frekari sölu auðlinda fyrir kúlulán og hrunkrónur?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.5.2011 kl. 12:58

2 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Mitt mat er að við fáum aldrei Evru eða ESB aðild. Ástæðan er sú að eftir 2 ár, þá verður engin Evra og ekkert ESB.

Þjóðverjar  verða búnir að skuldsetja flest ESB ríkin svo heiftarlega að það verður ekki aftur snúið.

Meiri líkur eru á að við göngum inn í hið sameinaða ÞÝSKA RÍKI, þ.e.a.s. Þýska ríkið verður búið að sölsa undir sig öll  Evrópuríkin.

Eggert Guðmundsson, 13.5.2011 kl. 14:16

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Já, stefna Samspillingarinnar er óraunhæf...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.5.2011 kl. 01:51

4 identicon

Ehe..já.

Sterfna Samfó er óraunhæf. ESB innganga og evruupptaka hefur alltaf verið bleyja sem samfylkingin getur skitið í þegar efnahagsstefna hennar er krufin. Enda var samfylking við stýrið á undan hruni og í hruninu. Sem betur fer erum við sloppin framhjá uppgangstímum evrunnar. við munum sleppa við fullan samruna við ESB. Flestir sjá það að okkur er betur borgið með áframhaldandi samstarfi við ESB í gegnum EES samningin í einhverskonar endurskoðun. Með gjaldmiðil sem er gefinn út af okkur hvort sem það er núverandi króna eða FISK og NISK. Eða bara NISK.

Vilhjálmur Árnason (IP-tala skráð) 14.5.2011 kl. 11:21

5 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

,,Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að ef Íslendingar myndu samþykkja inngöngu landsins í Evrópusambandið gæti það tekið þrjú ár að taka upp evruna sem gjaldmiðil."
http://www.visir.is/ossur--tekur-thrju-ar-ad-taka-upp-evruna-fra-samthykkt-i-thjodaratkvaedi/article/2011110519163

Þórður Björn Sigurðsson, 16.5.2011 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband