Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Rörsýn stjórnvalda

Þetta eru sorgleg tíðindi en fyrirsjáanleg miðað við stefnu stjórnvalda.

Hér verður að lækka vexti, afnema verðtryggingu og huga frekar að stjórnun peningamála.  Í fyrsta kasti verður að grípa til öflugra mótvægisaðgerða á borð við þær tillögur sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa talað fyrir.  Takið sérstaklega eftir þessu:

Ávinningur af aðgerðum þessum:

  • Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta afstýrt
  • Stuðlað gegn frekari hruni efnahagskerfisins
  • Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins
  • Líkur aukast á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af íbúðum
  • Þjóðarsátt um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar
  • Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný

Sífellt fleiri taka nú undir þau sjónarmið og ber sérstaklega að fagna ályktun aðalfundar Verkalýðsfélags Akraness í þeim efnum:

,,Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að koma í veg fyrir að einstaklingar taki þá ákvörðun að hætta að greiða af sínum skuldum sökum þess að skuldir hafi vaxið langt umfram eignir vegna þeirra hamfara sem riðið hafa yfir íslenskt efnahagslíf. Á þeirri forsendu skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að grípa til róttækrar niðurfærslu og leiðréttingar á skuldum íslenskra heimila. Það er mat aðalfundarins að stór hætta sé á að einstaklingar sjái ekki hag í því að greiða sínar skuldir lengur með skelfilegum afleiðingum fyrir allt samfélagið." 

Loksins er múr ASÍ rofin og skora ég á önnur stéttarfélög að gera slíkt hið sama. 

Menn þurfa líka að horfast í augu við að hagsmunir atvinnulífsins og heimilanna fara algerlega saman í þessum efnum.  Fyrirtækin þurfa tekjur og almenningur þarf vinnu til að geta verslað hjá þessum sömu fyrirtækjum.  Þetta er ekki flókið:  Skapa svigrúm fyrir almenning til að hafa ráðstöfunartekjur til að greiða fyrir annað og fleira en fjármagnskostnað. 


mbl.is Fjórfalt fleiri í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun til allra stjórnmálaframboða

Hagsmunasamtök heimilanna skora á alla framboðslista til að sameinast um að slá raunverulegri skjaldborg um heimilin, með yfirlýsingu um tafarlausar almennar aðgerðir til leiðréttingar á gengis- og verðtryggðum veðlánum heimilanna, strax að loknum kosningum.

Fjárhagsvandi heimilanna er gríðarlegur og samofinn hratt versnandi rekstrargrundvelli atvinnulífsins.  Á þessum tímapunkti hafa stjórnvöld tækifæri til að fyrirbyggja frekara tjón og boða til nýrrar þjóðarsáttar milli hins opinbera, fjármálakerfisins, atvinnulífsins og heimilanna.
Einungis með slíkri yfirlýsingu mun skapast svigrúm til að vinna að farsælli lausn með breiðri þátttöku allra hagsmunaaðila heimila og atvinnulífs.

Tugþúsundir heimila eru nú þegar í mjög þröngri og hratt versnandi fjárhagsstöðu.  Atvinnuleysi er í raun mun meira en gefið er upp, því fjöldi forráðamanna smáfyrirtækja eiga engan annan kost en að halda áfram verkefnalausum rekstri þar til lánveitendur fara fram á þrotaskipti.  Fyrirsjáanlegt er að þúsundir, ef ekki tugþúsundir einstaklinga munu þurfa á nauðasamningum greiðsluaðlögunar að halda verði ekki gripið inn í þróunina með almennum fyrirbyggjandi aðgerðum, til að forða frekari þrengingum og hruni efnahagskerfisins. Eftir nauðarsamninga greiðsluaðlögunar verða einstaklingar vanhæfir til fjárskuldbindinga og –festinga í 4-5 ár.  Þetta á bæði við um fjölskyldur og einnig til að skapa sér sjálfstæðan atvinnurekstur , þar sem litlum rekstrareiningum er gert að setja persónuleg veð gegn fjárskuldbindingum rekstrarins. Slík fjárfestingaleg lömun af þessari stærðargráðu mun hafa gríðarlega neikvæð og langvinn áhrif á hagkerfið í heild.

Lykilatriði nýrrar þjóðarsáttar er að aðilar deili afleiðingum hrunsins með sér af jafnræði og sanngirni. Samtökin telja allar forsendur veðlánasamninga brostnar.  Sífellt fleiri röksemdir benda til að fjármálastofnanir hafi beitt lántakendur órétti með markaðsíhlutandi aðgerðum og óeðlilegri eigin hagsmunagæslu um árabil. Sú verðbólga sem stjórnvöld hafa valið að láta ganga yfir heimili og atvinnulíf á grundvelli verðtryggingar, bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla og vísitölu neysluverðs, er óverjanleg í ljósi aðstæðna og verður að leiðrétta til að skapa sátt til enduruppbyggingar samfélagsins.

Landsmönnum er flestum orðið ljóst að verðtrygging fjárskuldbindinga, sem kveðið var á um í lögum nr 13/1979, fær ekki staðist lengur. Lánskjaravísitalan hefur sprengt gjaldþol þegnanna, ekki aðeins heimila og fyrirtækja heldur einnig opinberra stofnana og ríkissjóðs sjálfs. Sjálfkrafa vaxtahækkanir samkvæmt vísitölu neysluverðs mynda vaxta og verðlagsskrúfu sem ekki er unnt að hemja. Hér er rétt að geta þess að lög nr. 13/1979 gerðu ráð fyrir verðbótavísitölu á laun sbr. 48.gr. Hún var afnumin í byrjun níunda áratugarins en lánskjaravísitala ekki. Það orkar tvímælis og spurning hvort slíkt standist lög.  Mikil útlán gengistryggðra lána er jafnframt skýr höfnun á lánakerfi verðtryggðra veðlána sem tengjast vísitölu neysluverðs.

Bent er á að mikill vafi leikur á lögmæti gengistryggðra veðlána á grundvelli skýringa með 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Þar segir orðrétt: „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“

Brýn þörf er á að setja sem allra fyrst saman ópólitíska nefnd til gagngerrar endurskoðun á núverandi íbúðarlánakerfi og rannsóknar á útreikningi verð- og gengistryggðra veðlána.
Það er afar brýnt nefndin sé skipuð óháðum fagaðilum, fulltrúum hagsmunaaðila, neytenda og oddamanns til að hefja vinnu við að leiðréttingu þessara lána nú þegar. Þverpólitísk samstaða verður að ríkja um að aðfarir vegna vanefnda á veðlánum heimilanna verði óheimilar þar til endurmat veðlána liggur fyrir út frá niðurstöðum nefndarinnar og þær liggi fyrir ekki síðar en 1.desember 2009.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
22.4.2009 Reykjavík


Múr ASÍ rofnar

Til hamingju landsmenn, loksins vaknar einhver innan ASÍ.

,,„Á þeirri forsendu skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að grípa til róttækrar niðurfærslu og leiðréttingar á skuldum íslenskra heimila. Það er mat aðalfundarins að stór hætta sé á að einstaklingar sjái ekki hag í því að greiða sínar skuldir lengur með skelfilegum afleiðingum fyrir allt samfélagið".

 


mbl.is Þörf á tafarlausum aðgerðum í þágu heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður á afstöðu framboðanna

hh2

Smellið á myndina fyrir betri upplausn.

Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru að boðið verði upp á að gengistryggðum lánum verði breytt í verðtryggð lán frá lántökudegi.  Samhliða takmarkist verðbótaþáttur verðtryggðra lána við 4% frá og með 1. janúar 2008.

"Ég hef verið talsmaður niðurfærslu verðbóta, eða höfuðstóls lána, því
að mér finnst hún vera réttlætismál. Hún er jafnframt viðurkenning á
því að ekki sé verjandi að eignamyndun íbúðakaupenda á Íslandi eigi að
vera allt að helmingi hægari en annarsstaðar í veröldinni og
íbúðarlánin dýrari. Niðurfærsluleiðin er auk þess sársaukaminni fyrir
ríkissjóð heldur en niðurgreiðsluleiðin, þvert á það sem sumir telja,
því að hún bitnar fyrst og fremst á fjármagnseigandanum, en ekki
skattgreiðendum nema að því marki sem ríkissjóður (Íbúðarlánasjóður)
sé fjármagnseigandinn. Niðurgreiðslur leggjast hins vegar af fullum
þunga á ríkissjóð hvort sem þær eru í formi hækkunar vaxtabóta eða
sértækra greiðsluaðlögunar. Með niðurskurðarleiðinni er
fjármagnseigandinn alveg stikkfrí og fær allt sitt, en ríkissjóður
blæðir. Með niðurfærsluleiðinni tekur fjármagnseigandinn á sig
skerðingu líkt og lántakandinn, en ríkissjóður er að mestu stikkfrí"
- Ingólfur hjá spara.is

mbl.is Skuldaleiðrétting óumflýjanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunasamtökum heimilanna svarað

hh2

Smellið á myndina fyrir betri upplausn.  Auglýsing birtist í Fréttablaðinu 20.4.2009


mbl.is Kosningar kosta 200 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynningarfundur um málið í kvöld

Fimmtudaginn 16. apríl kl. 20.00  verður fundur í Borgartúni 3 á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna. Björn Þorri Viktorsson kemur á fundinn og skýrir sín áform um að safna fólki að baki lögsókn gegn bönkunum og kynna heimasíðu sem verið er að setja upp í þessu skyni.

Eins verða Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, og Hólmsteinn Brekkan frá samtökunum með framsögu.

Nánar hér: http://www.heimilin.is/varnarthing/index.php?option=com_content&view=article&id=150:fundur-um-malsoknir-a-hendur-fjarmalafyrirtaekjum&catid=56:fundir

 


mbl.is Lántakendur stefna og vilja lánum hnekkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordæmisgefandi

,,Með góðum (lána)kjörum sé verið að gera fyrirtækjunum kleift að ráða við afborganir af lánunum. Með því sé í reynd verið að reyna að tryggja að að ríkið geti endurheimt þá fjármuni sem um ræðir."
http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/03/26/steingrimur_god_vaxtakjor_naudsynleg/

 Nákvæmlega sömu rök má færa fyrir því hvers vegna skuli leiðrétta húsnæðislán almennings.


mbl.is Lán ríkis fært sem tekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Það glittir bara í löngutöng“

- Brauðmolum kastað til lýðsins
  • Samkomulag án aðkomu lántakenda er marklaust
  • Krafa um sanngjarna skiptingu byrða
  • Vörn fyrir öll sparnaðarform, ekki bara sum
  • Mesta eignaupptaka Íslandssögunnar í sjónmáli
  • Lýst eftir betri lánakjörum ekki lengingu á því sama
  • Bankakerfið fellur, ef gjaldþrotaleiðin verður farin


Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda og fjármálafyrirtækja að sniðganga með öllu sanngjarnar og hóflegar tillögur samtakanna um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra fasteignalána.  Að sama skapi mótmæla samtökin þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum sem liggja til grundvallar samkomulagi stjórnvalda og fjármálafyrirtækja.  Í fréttatilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu má lesa að ráðuneytið og lánveitendur hafi gert með sér samkomulag um að tryggja greiðslujöfnun gengistryggðra fasteignaveðlána einstaklinga.  Hagsmunasamtök heimilanna vekja sérstaka athygli á að ekkert samráð virðist hafa verið haft við neytendur vegna málsins.  Slíkt er með öllu óásættanlegt og ber merki um einstakan valdhroka og einbeittan brotavilja gagnvart þjóð sem er ætlað að bera mjög þungar byrðar á næstu árum.  Svona samkomulag er marklaust án aðkomu allra hagsmunaaðila.

Sanngjörn skipti

Í ræðu á Austurvelli þann 17. janúar 2009 sagði núverandi viðskiptaráðherra:  „Fjölmörg heimili og fyrirtæki eiga eftir að ganga í gegnum erfiða og þungbæra fjárhagslega endurskipulagningu.  Ríkið þarf að skera niður og hækka skatta.  Þetta eru ekki skemmtileg verkefni.  Það er hins vegar ekkert sem fyrir liggur sem er óviðráðanlegt.  Því fer raunar fjarri.  Byrðarnar verða þungar um tíma en ef þeim er skipt á sanngjarnan hátt þá verða þær engum óbærilegar.“

Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt það til að lánveitendur og lántakendur skipti með sér þeim kostnaði sem til hefur fallið vegna efnahagskreppunnar.  Með því að velja greiðslujöfnun og hafna almennri leiðréttingu hafa stjórnvöld eingöngu ákveðið að lengja í hengingarólinni.  Heimilin eiga að halda áfram að setja stærstan hluta tekna sinna inn í greiðslur af lánum.  Þau skulu blóðmjólkuð.  Þegar því er lokið, munu lánastofnanir geta gengið að fasteignum heimilanna.  Samtökin óttast að næsta skref stjórnvalda verði að gera lánastofnunum auðveldara að stofna eignarhaldsfélög sem taka við íbúðum eftir nauðungarsölu, í þeim tilgangi að leigja út íbúðir til að hámarka arð af eignanáminu.

„Að mati ríkisstjórnarinnar er þetta ábyrg leið þar sem hún bæði kemur til móts við þarfir lántaka og hefur þann augljósa kost að hún stefnir ekki nýja íslenska fjármálakerfinu í hættu“, segir viðskiptaráðherra um málið í frétt sem birt var á Vísi þann 9. apríl 2009. http://visir.is/article/20090409/FRETTIR01/274442683

Hagsmunasamtök heimilanna sjá sig knúin til að vara við slíkum þankagangi.  Þessar aðgerðir eru fyrst og fremst miðaðar að þörfum lánveitenda, enda lántakendur ekki spurðir álits.  Samtökin telja knýjandi þörf fyrir róttækari aðgerðir til að sporna við keðjuverkandi, neikvæðum áhrifum kreppunnar.  Greiðslujöfnun íbúðalána er eins og að setja plástur á fótbrot.  Samtökin spyrja hvort það sé forsvaranlegt að stefna íslenskum heimilum í hættu á kostnað hins nýja íslenska fjármálakerfis, sem virðist grunsamlega líkt því sem fyrir var.  Er það virkilega ætlun stjórnvalda að fjármagna uppbyggingu bankakerfisins með fasteignum heimilanna og tekjum þeirra um langa framtíð?

Krafa um réttlæti og jafnræði

Þarfir lántakenda snúast ekki síst um réttlæti og að jafnræðis sé gætt.  Fram hefur komið, að með setningu neyðarlaganna hafi innstæður verið tryggðar umfram það sem bar lögum samkvæmt.  Einnig að komið var til móts við þá sem áttu sparifé sem tapaðist í peningamarkaðssjóðum.  Spyrja má um kostnað í því samhengi (800 milljarðar hafa verið tilgreindir).  Með þessu móti var gert upp á milli sparnaðarleiða, þar sem þeir sem settu sparifé sitt í fasteign, hlutabréf og lífeyrissjóði horfa á það ýmist brenna upp á verðbólgubáli eða vegna eignartaps tengt hruni bankanna.  Samtökunum finnst einkennilegt að taka eina eða tvær sparnaðarleiðir út úr og veita þeim vernd umfram aðrar leiðir.  Minna má á að ráðgjöf banka í húsnæðismálum síðustu árin snerist í miklu mæli um að vísa lántakendum í áhættusamar lánveitingar í formi gengistryggðra lána á þeirri forsendu að gengið væri stöðugt.  Jafnvel var vísað í hagspár greiningadeilda þessara sömu banka sem ekki bara höfðu birt kolrangar spár, heldur einnig spár sem gátu ekki staðist í ljósi vitneskju sem síðar hefur komið fram.  Ekki er hægt að túlka þessar spár í dag á annan hátt en afbökun á staðreyndum eða blekkingar.  Sem afleiðing af því stóðust verðbólguforsendur við lántöku ekki.  Þetta var allt vegna þess að bankarnir, eigendur þeirra og stjórnendur höfðu, viljandi eða þvingaðir, tekið stöðu gegn krónunni og stuðluðu með því að hækkun höfuðstóls lána, bæði gengis- og verðtryggðra.

Með samkomulagi viðskiptaráðuneytisins og fjármálafyrirtækja er ábyrgð lánastofnana á því ástandi sem hér hefur skapast í raun að engu gerð og svik þeirra við heimili landsmanna samþykkt af ríkisstjórninni.  Hagsmunasamtök heimilanna líta á þennan gjörning sem stríðsyfirlýsingu lánastofnana og stjórnvalda gegn heimilum. Engar leiðréttingar eiga að fara fram, enginn tekur raunverulega ábyrgð.  Svona aðgerðir hefðu líklegast gert mikið gagn fyrir ári eða þess vegna átta mánuðum, en í dag virka þær sem salt í sárið.  Úrræðin eru lausnir fyrir lánastofnanir, ekki lántakendur.  Hvergi er gerð tilraun til að létta á vaxtabyrði, draga til baka hækkanir sem lánastofnanir bera ábyrgð á eða leiðrétta vegna ranglegra tekinna verðbóta.  Lausnirnar eru ekki til að létta heildargreiðslubyrði, heldur til að þyngja þær.  Hvergi er gerð hin minnsta tilraun til að bera fram réttlæti í orði eða verki.  Allar lausnirnar lúta að því að styrkja skuldahlekkina, auka byrðarnar.

Sáttarhöndin ekki sjáanleg

Samtökin vilja rifja upp orð Gylfa Magnússonar, núverandi viðskiptaráðherra, í ræðu á Austurvelli þann 17. janúar 2009:
„Sú hugmyndafræði sem kom okkur í núverandi stöðu er andlega gjaldþrota.  Þeir sem fóru fyrir henni þurfa að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Hvort sem þeir eru í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fyrirtækjarekstri, fara fyrir hagsmunasamtökum eða voru bara í klappliðinu. Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta fólk rétti fram sáttahönd og axli ábyrgð með því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttahandar enn þá. Það glittir bara í löngutöng.

Það er dapurleg staðreynd að einmitt sá aðili sem viðhafði ofangreind orð skuli nú standa í fylkingarbrjósti þeirra afla sem hafa í hyggju að standa fyrir mestu eignaupptöku Íslandssögunnar.  Eignaupptöku, sem á að standa undir hinu "nýja" fjármálakerfi, eftir að það "gamla" hafði sólundað öllu fé sem því var treyst fyrir og er í raun fullkomlega gjaldþrota og gott betur. Við höfum séð löngutöngina, en hvar er sáttarhöndin?   

Heimilin njóti betri kjara

Hagsmunasamtök heimilanna skora á lánastofnanir að bjóða ný lán með hagkvæmari kjörum en þeim sem fyrir eru.  Samtökin skora jafnframt á lánastofnanir að taka án undanbragða á sig að minnsta kosti jafnar byrðar varðandi verðtryggð lán á móti lántakendum afturvirkt til 1. janúar 2008.  Svigrúmið er fyrir hendi hjá flestum aðilum.  Samkvæmt upplýsingum frá skilanefndum gömlu bankanna er ætlunin að leggja nýjum afsprengjum þeirra til ríflega 3.300 milljarða "afslátt" af innlendum lánasöfnum.  Hvers konar siðferði er að taka við miklum afslætti frá lánadrottnum en ætla ekki að skila honum til lántakenda?  Samkvæmt dómi hæstaréttar bar verktaka að láta viðskiptavin njóta afsláttar sem hann fékk hjá birga.  Ætli þessi dómur sé fordæmisgefandi? 

Komi lánastofnanir ekki til móts við heimilin í landinu með því að létta á skuldabyrði þeirra og heildargreiðslubyrði, þá sjá samtökin ekki að það þjóni nokkrum tilgangi að fólk haldi áfram að borga af skuldum sínum. Það er val hvers og eins hvaða ákvörðun hann tekur, en samtökin spyrja: Hve marga þarf, sem hætta að greiða, til að opna augu fjármálafyrirtækja fyrir því að þau þurfa líka að færa fórnir?

Brauðmolar ríkisstjórnarinnar

Frá hruni bankanna hafa þær tvær ríkisstjórnir, sem með völd hafa farið, vissulega gert ýmislegt í þeim tilgangi að létta undir með heimilunum.  Samkvæmt bestu manna útreikningum eru áhrif þessara aðgerða minniháttar og kostnaður ríkissjóðs nær enginn.  Vissulega leggjast öll útgjöld ríkissjóðs á endanum á skattgreiðendur, en fyrr má nú vera sparðatíningur.  Á sama tíma og allt að 600 milljarðar eru settir í að verja innistæður og yfir 200 milljörðum er bætt í peningasjóði, er 2 milljörðum beint til heimilanna í formi aukinna vaxtabóta.  Nú til að bíta skömmina úr nálinni, þá leggur meirihluti efnahags- og skattanefndar til að meðan vaxtabætur til tekjulágra hækki um allt að 30%, þá hækki vaxtabætur hjóna, sem hafa milli 8 og 12 milljónir í árstekjum, um allt að 500%. Við höfum séð brauðmolana, en bíðum eftir raunverulegum úrræðum.

Málssókn til varnar heimilunum

Innan Hagsmunasamtaka heimilanna hefur myndast hópur fólks sem er að undirbúa málssókn  til varnar heimilum þess.  Samtökin hvetja þá sem vilja taka þátt í slíkri málssókn eða leggja henni lið að setja sig í samband við samtökin með því að senda tölvupóst á heimilin@heimilin.is. Hagsmunasamtök heimilanna vilja standa vörð um þau sjálfsögðu mannréttindi að eiga öruggt skjól gegn ofríki fjármálastofnana. Í því sambandi minna samtökin á eftirfarandi greinar úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna:

4. grein.
Engan mann skal hneppa í þrældóm né nauðungarvinnu. Þrælahald og þrælaverzlun, hverju nafni sem nefnist, skulu bönnuð.

17. grein.
1.     Hverjum manni skal heimilt að eiga eignir, einum sér eða í félagi við aðra.
2.     Engan má eftir geðþótta svipta eign sinni.

25. grein.
1.     Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert.
2.     Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, skilgetin sem óskilgetin, skulu njóta sömu félagsverndar.


Breytinga þörf, ef ekki á illa að fara

Verði ekki breyting á stefnu stjórnvalda og viðhorfi fjármálastofnana, mun sverfa til stáls.  Hagsmunasamtök heimilanna munu ekki sitja hjá hljóðalaust og horfa á þjóðfélagið sökkva niður í botnlaust skuldafenið.  Samtökin munu ekki sætta sig við að fasteignir heimilanna og fyrirtækin í landinu verði notuð til að fjármagna bankakerfið.  Samtökin krefjast þess að stjórnvöld taki tillit til heimilanna og atvinnulífsins.  Samtökin krefjast þess að fjármálafyrirtæki komi til móts við heimilin og atvinnulífið með raunhæfum úrræðum fyrir lántakendur, en ekki leiðum sem henta bara fjármálafyrirtækjunum.  Meðan bankakerfið sogar til sín allt laust fjármagn blæðir heimilunum og atvinnulífinu út.  Það endar með ekki nema á einn veg.  Bankakerfið fer aftur í þrot.

Það eru hagsmunir allra, að fjármálafyrirtækin axli ábyrgð á sínum hluta af hruni hagkerfisins.  Það er ekki gert með því að ganga fram af hörku gegn heimilunum og atvinnulífinu.  Það er ekki gert með því að bjóða bara lausnir sem soga sífellt stærri hlut af ráðstöfunartekjum heimila og atvinnulífs til sína. Nei, það er gert með því að koma til móts við heimilin og atvinnulífið og færa niður vexti og höfuðstól lána.  Og ekki síður með því að færa niður ósanngjarnar og ofteknar verðbætur frá 1. janúar 2008 og leiðrétta höfuðstól gengistryggðra lána miðað við sömu dagsetningu.
 

Hagsmunasamtök heimilanna
Páskadag, 12. apríl 2009


Ráða lífeyrissjóðir við 20% leiðréttingu?

Samkvæmt efnahagsyfirliti Lífeyrissjóða sem Seðlabankinn birtir var hrein eign lífeyrissjóðanna í lok febrúar s.l. 1.591 milljarðar.  Þar af voru 168 milljarðar sjóðfélagalán.

20% af 168 eru 33,6.

33,6 / 1.591 = 0,02

Ef lífeyrissjóðirnir myndu slá 20% af höfuðstól sjóðfélagalána myndu eignir sjóðanna rýrna um 34 milljarða eða 2%.


mbl.is Greiðsluaðlögun stórhættuleg ein og sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem áhætta er tiltölulega lítil

Eftirfarandi er hluti úr ræðu sem þáverandi fjármálaráðherra flutti á SBV deginum árið 2005.

(SBV: Samtök banka og verðbréfafyrirtækja)

Íbúðalánasjóður og bankarnir

Bankarnir komu á síðasta ári með myndarlegum hætti í fyrsta sinn inn á markaðinn fyrir fasteignaveðlán í beinni samkeppni við Íbúðalánasjóð. Lánsviðskipti á þessum markaði eru að mínum dómi eðlileg framþróun fyrir bankana og breikka grunn útlána þeirra á sviði, þar sem áhætta er tiltölulega lítil. Jafnframt er þessi þróun mjög í takt við það sem tíðkast hefur í nálægum löndum. Ekki er vafi á því að einkavæðing bankanna, aukin stærð þeirra og styrkur í kölfarið, á stóran þátt í því að þeir töldu sér óhætt að leggja út á þessa nýju braut. Með þeirri vaxtalækkun á langtímalánum til fasteignaviðskipta, sem þessari þróun fylgdi, má segja að einkavæðingin hafi með beinum hætti bætt lífskjörin í landinu.

Ræðuna má lesa í heild sinni hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband