Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Brugðu ráðamenn fæti fyrir almenning?

Ég skora á þessa nefnd að rannsaka hvort og hvernig aðgerðir eða aðgerðaleysi hafi fellt gengi krónunnar og þannig komið óðaverðbólgu af stað.


mbl.is Ráðamenn í skýrslutökur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í banka sérhvers manns

Í banka sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.
 
Þinn banki býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.
 
Gegn þinni líkamsorku og andans mætti
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,
í dimmri þögn, með dularfullum hætti
rís bankans bákn og jafnframt minnkar þú.
 
Og sjá, þú fellur fyrir banka þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur bankinn hans.
 
Steinn Steinarr (með örlítilli breytingu frá JÖM)


mbl.is Seðlaforðinn var að klárast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á óvenjulegum tímum duga engin venjuleg ráð

Í dag sendu Hagsmunasamtök heimilanna frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Hagsmunasamtök heimilanna telja tillögur Framsóknarflokksins í efnahagsmálum, sem fela m.a. í sér almennar aðgerðir vegna skuldavanda þjóðarinnar, skref í rétta átt þó útfæra þurfi þær frekar.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt ríka áherslu á að gripið verði til almennra aðgerða þar sem jafnræði og jöfnun áhættu milli lánveitenda og lántakenda sé höfð að leiðarljósi.

Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru m.a.:

Leiðrétting á gengistryggðum íbúðalánum
Lýsing: Gengistryggðum íbúðalánum verði breytt í verðtryggð krónulán.
Útfærsla: Boðið verði upp á að gengistryggð íbúðalán verði umreiknuð sem verðtryggð krónulán frá lántökudegi einstakra lána.

Leiðrétting á verðtryggðum íbúðarlánum
Lýsing: Verðbótaþáttur íbúðalána verði endurskoðaður frá og með 1. janúar 2008.
Útfærsla: Verðbótaþáttur, frá og með 1. Janúar 2008, takmarkist við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, eða að hámarki 4%.  Aðgerð þessi er fyrsta skrefið í afnámi verðtryggingar.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnvöld til að afgreiða frumvörp laga um frestun fullnustuaðgerða og greiðsluaðlögun sem allra fyrst.

Ávinningur af aðgerðum þessum:

·         Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta afstýrt

·         Spornað við frekari hruni efnahagskerfisins

·         Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins

·         Líkur aukast á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af lánum

·         Þjóðarsátt um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar

·         Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný

Hagsmunasamtök heimilanna skora á stjórnvöld að tilkynna nú þegar um þær aðgerðir sem stjórnvöld muni grípa til, hvernig þær aðgerðir verða útfærðar og hvenær þær komi til framkvæmda.

26. febrúar 2009

Hagsmunasamtök heimilanna

www.heimilin.is  


Af gefnu tilefni

Í þessari frétt á Eyjunni segir: ,,Davíð nefndi einnig að fjöldi einkahlutafélaga sem þekkt fólk í þjóðlífinu og stjórnmálum tengdist hefði fengið óeðlilega fyrirgreiðslu í föllnu bönkunum. Þetta væri mál sem þyrfti að rannsaka."´

Þessi ummæli urði þess valdandi að ég rifjaði upp þennan flökkumeil sem rambaði manna á milli fyrir jól.

Þann 19.12.2008 barst mér svo þessi tölvupóstur:

,,Kæru félagar,
 
Af gefnu tilefni vil ég taka fram eftirfarandi, sem er niðurstaða af athugun sem ég lét gera meðal þingmanna okkar:
 
Margar sögur ganga nú um meinta óeðlilega fyrirgreiðslu viðskiptabanka við stjórnmálamenn. Því er meðal annars haldið fram að yfirgnæfandi meirihluti þingheims hafi fengið lán á öðrum kjörum en almennt hafi gilt í viðkomandi bönkum til hlutabréfakaupa eða annarra viðskipta og að skuldir þingmanna hafi verið afskrifaðar. Vegna þessa skal tekið fram að þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki notið neinna sérkjara eða óeðlilegrar fyrirgreiðslu í bankakerfinu. Samfylkingin hvetur til málefnalegrar umræðu um það sem aflaga hefur farið í samfélaginu og lýsir óbeit sinni á innihaldslausu slúðri og rógburði af þessu tagi.
 
Keðja,
Skúli Helgason
Framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar"

Ég var á sínum tíma ekki viss um hvort þessi yfirlýsing Skúla vekti upp fleiri spurningar heldur en henni var ætlað að svara.  Ummæli Björgvins viðskiptaráðherra um að öllum steinum yrði velt við komu óhjákvæmilega upp í hugann og maður spurði sig:  Hvernig fór þessi athugun fram?

Þetta lesendabréf birti Egill Helgason svo á síðu sinni:

,,Þingmenn og hagsmunatengsl

Í framhaldi af þessum miklu umræðum um þingmenn og meinta þátttöku þeirra í spillingunni í kringum bankanna þá veltir maður því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að þeir verði beðnir um að gera hreint fyrir sínum dyrum. Er það ekki þannig t.d. í Bandaríkjunum að kjörnir fulltrúar verða að gera grein fyrir öllum sínum fjármálum, stuðningsaðilum, eignum, skuldum og slíku? Væri óeðlilegt að einhver fjölmiðill spyrði alla þingmenn:

- Hverjar eru skuldir þínar og við hverja?
- Hvaða fyrirgreiðslu hefur þú fengið í íslenskum eða erlendum bankastofnunum á undanförnum fimm árum?
- Hverjar eru eignir þínar?
- Hvaða fjárframlög hefur þú fengið einkaaðilum í tengslum við störf þín?
- Og hvaða gjafir og fyrirgreiðslu hefur þú þegið af fyrirtækjum á
undanförnum fimm árum ?
Hefur þú fengið lán til hlutafjárkaupa?"


mbl.is Rannsókn sett til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimmföld lágmarkslaun!

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég sat á borgarafundi í Háskólabíói fyrr í vetur og formaður VR sagðist aðspurður telja eðlilegt að laun formanns væru fimmföld lágmarkslaun.

 

 


mbl.is Sögulegar kosningar hvernig sem fer
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrst lífeyrrissjóðirnir standa af sér storminn...

...er þá hægt að takmarka verðbótaþátt lána við 4% frá og með 1. janúar 2008?

,,Í gegnum tíðina hafa margar kenningar verið settar fram um samspil verðtryggingar og verðbólgu. Verðtrygging er algengari þar sem verðbólga er há. Það mætti túlka sem svo að verðtrygging væri verðbólguhvetjandi". http://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6809

Getur verið að verðtrygging framleiði verðbólgu?  Að þetta sé eins og hundur að elta skottið á sjálfum sér?

Vek athygli á þessum tillögum.


mbl.is Lífeyrisréttindi óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skapar óróa?

Í þessari frétt má lesa að í yfirliti sem kynnt var kröfuhöfum gamla Landsbankans áætlar bankinn að afskrifa 1.452 milljarða króna að lokinni skuldajöfnun.  Til samanburðar færði gamla Kaupþing 954 milljarða króna á afskriftarreikning til bráðabirgða fyrr í þessum mánuði.  Mestur hluti afskrifta gamla Landsbankans er vegna útlána til viðskiptavina bankans og krafna á önnur fjármálafyrirtæki, eða tæplega 1.100 milljarðar króna. 

Formaður skilanefndar Landsbankans, segir yfirlitið byggt á mati sem er áætlað miðað við núverandi stöðu. „Þetta teljum við raunhæft mat eins og staðan er í dag. Lánasöfnin sem voru færð yfir í nýja bankann hafa líka verið færð heilmikið niður. Þetta er það sem er að gerast. Það er svo mikil rýrnun á virði eigna.“

Ég hef ekki komist yfir sambærilegar tölur um gamla Glitni en geri ráð fyrir að þær muni hlaupa á hundruðum milljarða.  Fjárhæðum sem erfitt er fyrir venjulegt fólk að átta sig á.

Skuldir heimilanna eru skv. greiningu Íslandsbanka áætlaðar um 2.000 milljarðar króna.  Marinó G. Njálsson hefur reiknað út að um 700 milljarðar af þeirri fjárhæð sé tilkominn vegna gengis- og verðtryggingar frá og með árinu 2000, eða frá því um svipað leiti og stjórnvöld fleyttu krónunni og settu upp 2,5% - 4% verðbólgumarkið.   

Bankastjóri Íslandsbanka leggur til að enginn afsláttur verði gefinn af lánunum heimilanna.  Ennfremur telur bankastjóri Íslandsbanka að slíkt skapi óróa í samfélaginu auk þess sem það kosti gríðarlega peninga og lendi á skattgreiðendum.

Með eftirfarandi tvær staðreyndir í huga hljóta slík ummæli að vekja athygli.

1. Stjórnvöld brugðust.  Efnahagskerfið er hrunið og ljóst er að gríðarlegur kostnaður vegna þess mun lenda á skattgreiðendum.  

2. Fjármálastofnanir brugðust.  Af þeim sökum er ljóst að gríðarlegur kostnaður mun lenda á skattgreiðendum.  Lögfróðir menn vilja nú láta á það reyna fyrir dómi hvort glæpur hafi verið framinn. 

(Útúrdúr til umhugsunar: Hvað kostaði það skattgreiðendur að borga upp í peningamarkaðssjóðina?  Tek fram að ég sé ekki eftir þeim aurum.  Og hvers vegna er eigið fé landsmanna í fasteignum ekki meðhöndlað eins og hver annar sparnaður?  Hvers vegna gufar sá sparnaður upp í óðaverðbólgu og gengishruni?) 

Í ljósi þess að verið er að færa lánasöfnin á milli gömlu og nýju bankanna með umtalsverðum afföllum þá hljóta menn að spyrja að því hvort það sé ekki skynsamlegast að þau afföll skili sér í einhverjum mæli alla leið til lántakenda.  Hví á nýji bankinn einn að njóta góðs af slíkum gjörningi og á kostnað hvers er það?  Hvað með kröfuhafa gamla bankans?  Á hann að sætta sig við að fá jafnvel ekki nema 50% af 20 mkr. íbúðaláni sem hann lánaði Glitni á sama tíma og Íslandsbanki ætlar að innheimta lánið með vöxtum og vaxtavöxtum hjá Jóni og Gunnu?  Væri ekki skynsamlegra í því tilfelli að bjóða þá alla vega Jóni og Gunnu að gera tilboð í kröfuna samhliða Íslandsbanka?  Kannski fengi upprunalegi lánveitandinn, þ.e. kröfuhafinn í Glitni, meira upp úr krafsinu með þeim hætti.

Það er ljóst að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi.  Velferð heillrar þjóðar ef þú spyrð mig.  Í flestum tilfellum er um að ræða heimili fólks og þar með grunnstoð samfélagsins.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt fram tillögur um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunar.  Þær eru bæði hóflegar og skynsamlegar.

Það er fullkomlega eðlilegt m.v. þær aðstæður sem nú ríkja að tala opinskátt um nauðsyn þess að leiðrétta lán almennings.  Það er sanngjarnt og þjóðhagsleg rök mæla með því.  Þess vegna kýs ég að tala frekar um ávinning heldur en kostnað í þessu samhengi: 

  • Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta afstýrt
  • Stuðlað gegn frekari hruni efnahagskerfisins
  • Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins
  • Líkur aukast á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af íbúðum
  • Þjóðarsátt um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar
  • Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný

Leyfum ekki stjórnvöldum og fjármálastofnunum að bregðast okkur aftur.  Við, skattgreiðendur, ráðum nú för.


mbl.is Útilokar ekki sameiningu banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég mótmæli...

Ég mótmæli því að almenningur verði látinn taka ábyrgð á þeim vafasömu viðskiptaháttum sem fjármálastofnanir hafa stundað undanfarin ár í skjóli efnahagsóstjórnar og eftirlitsskorts.

Ábyrgðin sem almenningi er ætlað að taka birtist m.a. í formi hækkunar á gengis- og verðtryggðum lánum.

Þetta er með öllu ótækt og stjórnvöld verða að leiðrétta stöðuna.  Annars er hætt við því að skaðinn verði öllu meiri en nauðsynlegt er.


mbl.is Hlutabréfaverði var haldið uppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband