Hinar nýju stéttir - lánadrottnar og skuldunautar

Ingólfur H. Ingólfsson skrifar: 

,,Félagsfræðin er í essinu sínu þegar kemur að því að skilgreina stéttir og stéttarstöðu fólks en í uppsláttaritum fara venjulega margar blaðsíður í útskýringarnar. Ég læt mér hins vegar nægja að útskýra stéttarhugtakið sem aðskilnað einstaklinga og hópa eftir efnahag og efnahagslegri stöðu í samfélaginu. Þessi örstutta stéttarpæling er nauðsynlegur inngangur að því sem ég kalla hina nýju stéttir (ég er nú einu sinni félagsfræðingur).

Í árdaga iðnbyltingarinnar fjaraði út skiptingin á milli aðalsmanna og leiguliða en í stað hennar kom aðskilnaður á milli verkalýðs og eigenda framleiðslutækja – öreiga og kapítalista. Þessi stéttaskipting verkalýðs og atvinnurekanda var ríkjandi allt fram á níunda áratug síðustu aldar en þá verður sú grundvallar breyting á að almenningur fær nánast óheftan aðgang að peningum, lánsfé, til þess að bæta sér upp launatekjur. Almenn neysla fer að hafa meiri áhrif á hagvöxt en sjálf framleiðslan og nær hámarki sínu eftir síðustu aldamót þegar hún verður 65% af hagkerfinu á Íslandi og 70% í Bandaríkjunum, á sama tíma er hlutdeild fjárfestinga í hagkerfinu aðeins 15% (og fjórðungur af því eru húsbyggingar). Það dró einnig verulega úr stéttaátökum á þessum tíma og með þjóðarsáttarsamningunum árið 1990 tekst samkomulag á milli stríðandi stétta um að allir fái sinn skerf af þjóðartekjunum. (þetta samkomulag hefur meira og minna haldist fram til dagsins í dag, enda ekki svo erfitt að deila köku sem fer sífellt stækkandi. Að ætla að endurtaka sama leikinn núna með svo kölluðum stöðugleikasáttmála, þegar kakan fellur saman í ofninum, kann að verða öllu erfiðara). Á uppgangstímanum þegar allir fá meiri peninga kemur varla á óvart að margur fræðimaðurinn hafi lítið svo á að stéttaskiptingin væri liðin undir lok. (Þeir fátæku eru líka að fá meira af peningum þó að þeim fari fjölgandi en það er vegna þess að þeim ofurríku fjölgar einnig, en ekki vegna þess að hinir fátæku séu að fá minna). Svo bættist við hrun kommúnismans, eins og til frekari staðfestingar á því að þjóðfélag kapítalismans væri ekki aðeins það besta sem mannkynið hefði fundið upp heldur væri það eilíft.

Það sem gerist um áttunda áratuginn er að almennir launþegar geta aukið við ráðstöfunartekjur sínar með lántökum. Með kreditkortum og raðgreiðslum, yfirdrætti og skuldabréfaútgáfu gat almenningur í fyrsta skipti í sögunni margfaldað neyslu sína umfram tekjur af launavinnu. Þessi skuldsetning heimilanna dreif svo áfram gífurlegan hagvöxt í þjóðfélaginu. Það sem skipti máli var aðgangur að lánsfé, ekki kauphækkanir. Verkalýðshreyfingin missir ítök sín en í stað þeirra verða lánastofnanir að bandamanni og verslunarkjarnar og Kringlur að samverustað fjölskyldnanna. Fjölskyldan sameinast ekki lengur í því að afla tekna heldur í því að eyða þeim.

Það tók innan við þrjátíu ár að breyta aldagamalli stéttarskiptingu þjóðfélagsins úr því að vera á milli launþega og atvinnurekenda í það að vera á milli lánadrottna og skuldunauta. Hver einasti vinnandi maður skuldar lánastofnun sinni að meðaltali tvöfaldar til þrefaldar árstekjur sínar. Vaxtakjör skipta orðið meira máli en launakjör. Samningstaða gangvart lánadrottni skiptir meira máli en við vinnuveitanda og það sem gerir stöðuna sérstaklega erfiða er að það eru engin stéttarsamtök skuldara til, aðeins stéttarsamtök launþega.

Á Íslandi er óréttlætið í stéttskiptingu skuldunauta og lánadrottna ekki fólgið í því að stéttaskiptingin sé yfirhöfuð til, heldur er það fólgið í verðtryggingu lánsfjármagns. Það er gegn þessu óréttlæti sem almenningur er að berjast, óháð því hverjar tekjur hans eru og óháð því hvort hann á eitthvað af eignum eða ekki. Sá göfugi vilji ríkisstjórnarinnar að ætla að ræða málefni heimilanna í landinu við samtök atvinnulífsins eru því dæmd til þess að mistakast. En henni er kannski vorkunn því að við hvern á hún að tala? Það eru bara til heildarsamtök lánadrottna en engin heildarsamtök skuldunauta! Mín fátæklegu ráð til ríkisstjórnarinnar eru því einfaldlega þau að hlusta á fólkið í landinu og framkvæma svo vilja þess."

***

Ég bendi áhugasömum á Hagsmunasamtök heimilanna: 
www.heimilin.is
HH eru í það minnsta vísir að ,,samtökum skuldunauta".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ég tek undir þessi ráð...

Birgitta Jónsdóttir, 30.5.2009 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband