15.5.2009 | 21:19
Eignamat gömlu bankanna
Gunnar Tómasson skrifar:
Ágætu alþingismenn.
Eftirfarandi grein mín birtist í Fréttablaðinu á morgun, föstudaginn 15. maí.
Hér er stærra mál á ferðinni en ætla mætti af framsetningu minni:
1. Yfirtaka Nýju bankanna á eignum Gömlu bankanna á óraunhæfu verði er óásættanleg.
2. Viljayfirlýsing stjórnvalda til AGS (# 14) dags. 15. nóvember sl. nefnir hugsanlega sölu Nýju bankanna á komandi tíð til að létta stöðu ríkissjóðs óraunhæft yfirtökuverð myndi minnka söluverðið.
3. Í millitíðinni gæti hugsanlegt útlánatap vegna óraunhæfs yfirtökuverðs grafið undan eiginfjárstöðu bankanna svo tugum eða hundruðum milljarða skiptir.
4. Í viljayfirlýsingunni er talað um að bring loan values in line with expected market values (# 4) aðferðafræði Fjármálaeftirlitsins gerir Deloitte/Oliver Wyman kleift að horfa til framtíðar þar sem heimili landsins lenda ekki í greiðsluþroti og sjávarútvegsfyrirtæki ráði fram úr skuldum og fjármálagerningum sínum án taps.
O.s.frv.
Fjármálaeftirlitið virðist hafa gengið erinda kröfuhafa við skilgreiningu á viðeigandi aðferðafræði.
--- --- ---
Eignamat gömlu bankanna
Í minnisblaði viðskiptaráðherra Endurreisn fjármálakerfisins - sýn viðskiptaráðherra á verkefnin framundan dags. 5. maí segir svo í 1. lið:
Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá því í október 2008 var kveðið á um að tilteknar eignir og skuldir færðust yfir frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Í kjölfarið gerði Fjármálaeftirlitið samning við Deloitte LLP um að meta þær eignir og skuldir sem færðust á milli. Einnig gerði eftirlitið samning við alþjóða ráðgjafafyrirtækið, Oliver Wyman, til þess að hafa tilsjón með mati á eignunum. Fjármálaeftirlitið fól Deloitte LLP að byggja mat sitt á hugtakinu gangvirði, en skilgreining þess gerir ráð fyrir að nýju bankarnir haldi áfram starfsemi sem fullfjármagnaðir íslenskir bankar á innanlandsmarkaði og þurfi hvorki að losa eignir (eða gera upp skuldbindingar) í bráð né með nauðungarsölu. Niðurstöður matsins liggja nú fyrir og er nú verið að kynna þær hagsmunaaðilum í samræmi við stefnu þar að lútandi.
Gangvirði (fair value á ensku) vísar til söluverðs eigna við ríkjandi markaðsaðstæður án tillits til upphaflegs kaupverðs eða nafnverðs, t.d. reyndist gangvirði eigna Glitnis í Noregi sl. október vera 10% af kaupverði 2004 og brezkur fjármálamaður bauð 5% í áhvílandi skuldir á eignum Baugs í Bretlandi á sama tíma. Þegar bankar fara á hliðina fara eignir þeirra á brunaútsölu, sbr. yfirtöku Bank of America á skuldum og eignum Merrill Lynch & Co. um síðustu áramót á 12% af gangvirði hlutabréfa fyrirtækisins í janúar 2007. Markaðurinn er harður húsbóndi eins og skuldsett heimili landsins sannreyna um leið og stjórnvöld bjóða þeim aðstoð í skötulíki. Hins vegar hafa íslenzk stjórnvöld slegið skjaldborg um hagsmuni erlendra og innlendra kröfuhafa á Gömlu bankana sbr. þær vinnureglur sem Fjármálaeftirlitið setti Deloitte LLP við mat á eignum þeirra og eiga ekkert skylt við gangvirði í merkingu þess hugtaks við ráðstöfun eigna gjaldþrota banka.
Höfuðstóll og skilmálar húsnæðislána Gömlu bankanna eru ótvírætt umfram greiðslugetu fjölda lántakenda. Það væri því glapræði fyrir Nýju bankana að yfirtaka slík lán skv. mati Deloitte LLP sem byggir á öðrum forsendum. Vandi stjórnvalda verður einfaldlega ekki umflúinn: skjaldborg verður ekki slegin samtímis um hagsmuni heimila landsins og kröfuhafa Gömlu bankanna. Hið sama er upp á teningnum varðandi skuldir sjávarútvegsfyrirtækja: Nýju bankarnir myndu verða nánast óstarfhæfir til langframa við yfirtöku skuldanna á margföldu gangvirði.
Mat á eignum Gömlu bankanna samkvæmt þeirri aðferðafræði sem Fjármálaeftirlitið fyrirskipaði myndi ofmeta eignir þeirra til hagsbóta fyrir erlenda og innlenda kröfuhafa um e.t.v. hundruð milljarða miðað við eignamat samkvæmt fair value aðferðafræðinni. Leiðrétting á mistökum Fjármálaeftirlitsins og endurmat eigna Gömlu bankanna í samræmi við viljayfirlýsingu stjórnvalda til AGS myndi skapa samsvarandi svigrúm til að aðlaga greiðslubyrði heimila landsins af skuldum við bankakerfið að greiðslugetu þeirra.
FME veitir aukinn frest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.