Um jafnaðarmennsku

Ingólfur H. Ingólfsson skrifar: 

Jöfnuður og réttlæti

Ný ríkisstjórn virðist við fyrstu sýn hafna með öllu jöfnun byrða milli skuldara og skuldunauta vegna efnahagshrunsins. Ef þetta er réttur skilningur minn á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá er það með ólíkindum að flokkar sem kenna sig við vinstristefnu og jafnaðarhugsjónir skuli ekki líta á það sem sína fyrstu og æðstu skyldu að vinna að slíkum jöfnuði og réttlátri skiptingu þeirrar eignaskerðingar sem varð af völdum bankahrunsins.

Ég skil úrslit Alþingiskosninganna á þá leið að þjóðin hafi verið að kalla eftir meiri jöfnuð og réttlæti í samfélaginu, og þá var ekki verið að undaskilja gríðarlegar eignatilfærslur milli lánveitenda og skuldara. Ríkisstjórnin er að mínu viti að gera mistök með því að hafna skuldajöfnun og það kann að hafa alvarlegar afleiðingar ef ekki næst nauðsynleg þjóðarsamstaða um uppbyggingu samfélagsins án hennar.

Það sem veldur mér einnig nokkrum áhyggjum er að svo virðist sem ríkisstjórnin ætli ekki að tala til almennings eða skuldugra fjölskyldna í landinu ef og þegar kemur að frekari aðgerðum í þeirra þágu heldur, eins og segir í stjórnarsáttmálanum: “Ákvarðanir um frekari aðgerðir og tillögur verði teknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins”. Ég vona að þetta sé skrifað í fljótfærni í annars mjög ítarlegum sáttmála. Ef ekki, þá er ríkisstjórnin á blindgötu. Atvinnulífið er ekki samningsaðili um fjármál heimilanna, heldur fólkið sjálft. Almenningur í þessu landi er enn fjárráða, þrátt fyrir miklar skuldir og rýrar eignir, og friðhelgi einkalífs og heimilis er lögverndað. Atvinnulífið hefur ekkert með einkalíf fólks að gera né heldur hefur það forræði yfir neyslu þess, hún er á ábyrgð einstaklinga og stjórnast á frjálsum markaði.


 

Meira um jöfnunaraðgerðir

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira um skuldir heimilanna og rök með og á móti skuldajöfnun. Ríkisstjórnin virðist hafa afgreitt þá umræðu, af sinni hálfu í það minnsta. En ég læt samt þennan texta flakka sem ég skrifaði á meðan ég beið eftir útsendingu sjónvarpsins frá Norræna húsinu á sunnudaginn um stefnumál nýrrar ríkisstjórnar.

Þau efnahagslegu rök sem hafa verið færð gegn jöfnunaraðgerðum eru meðal annars að þær myndu lenda á skattborgurum, lífeyrisþegum og fjármálastofnunum. Ástæðan fyrir því að ekki megi leggja meiri byrðar á fjármálastofnanir eða fjármagnseigendur eru á þá leið að þær hafi nú þegar þurft að taka á sig gríðarlegt tap og meira tap myndi líklega koma þeim í þrot. Í þessum rökum er meinleg hugsunarvilla, ekki síst fyrir jafnaðarmenn.

Það er rétt að fjármálafyrirtæki hafa orðið fyrir miklu tjóni, enda er hrunið nefnt bankahrun, en jöfnunaraðgerðir eru ekki til þess ætlaðar að skaða einn umfram annan heldur, þvert á móti, að jafna skaðann og gera hann öllum léttbærari og réttlátari. Það er inntak jafnaðarins. Eignir fjármálafyrirtækja munu vissulega skerðast en eignir þeirra, og þar á meðal lán til íbúðarkaupa, eru um þessar mundir verðlitlar en gætu orðið verð meiri með jöfnunaraðgerðunum. Margir fræðimenn hafa fært rök fyrir því að eignasafn fjármálafyrirtækja gæti batnað með því að fleiri gætu staðið í skilum og auk þess mætti gera ráð fyrir að verðhrun fasteigna myndi stöðvast, sem bjargaði ekki aðeins eignum heimilanna heldur bjargaði þjóðarverðmætum.

Hluti af byrðunum mun vissulega lenda á lífeyrissjóðunum enda eru þeir stórir fjármagnseigendur og hluti af eignum þeirra, íbúðarlánin, munu skerðast. Það er hins vegar ekki eins óréttlátt eins og sumir vilja meina. Í fyrsta lagi gildir það sama um lífeyrissjóði og ég skrifaði um bætt eignasafn lánastofnana hér á undan. Í öðru lagi hafa lánastofnanir, eins og lífeyrissjóðir, möguleika á því að vinna upp eignatapið, til dæmis með því að leggja auka álag á framtíðar vexti. Það myndi vissulega þýða að hluti byrðanna færðust yfir á þá sem ættu eftir að taka lán, en í því fellst einmitt jöfnuðurinn – að sem flestir taki á sig byrðarnar. Spurningunni um réttlætið í því að lántakendur framtíðarinnar taki á sig syndir feðranna er fólgið í jöfnuðinum – ef allt samfélagið er meira eða minna ábyrgt fyrir efnahagshruninu af því að ekki er hægt að saka einhverja einstaklinga um það (þó að einstaklingar beri vissulega mikla og mismikla ábyrgð), eins og á við um náttúruhamfarir, þá er engin undanskilinn því að axla byrðarnar. Það þarf í raun ekki að fara lengra í röksemdunum fyrir samábyrgðinni en að benda á að ríkið (almenningur) verður óhjákvæmilega fyrir áhrifum af sveiflum í efnahagslífinu, bæði til léttis og íþyngingar. Skattar eru til dæmis í eðli sínu íþyngjandi, hvort sem við lítum á þá sem réttláta eða ekki (þess vegna þarf samþykki Alþingis fyrir því að breyta sköttum eða leggja nýja skatta á almenning).

Ríkissjóður tekur eitthvað af byrðunum á sig en minna en ætla mætti því að með jöfnunaraðgerðum fellur hluti þeirra á fjármagnseigendur og lánveitendur, eins og hefur komið fram. Einhverjir munu líklega vísa til þess að bankastofnanir séu í eigu ríkisins og því falli allt á skattborgarann að lokum. Það er tautology eða orðhengilsháttur því að bankar eru ekki eins og ríkið, heldur eru þeir rétt eins og hver önnur fyrirtæki sem hafa möguleika á því að jafna út tap með framtíðartekjum. Þetta er einmitt ein megin röksemdin fyrir því að ríkið leggur út í þá áhættu að eignast hlut í eða lánar peninga skattborgarans til fjármálafyrirtækja – það vonast til þess að fá peningana til baka og jafnvel með vöxtum.

Viðskiptaráðherra hefur bent á að fólk muni þrátt fyrir allt eignast íbúðirnar sínar að lokum, endist þeim örendið út allan lánstímann. Þetta er svo sannarlega rétt hjá honum. Í lok lánstíma, eftir 25 eða 40 ár, er lánið að fullu greitt og eftir stendur hrein eign, það er næstum því hægt að halda upp á það strax! En ég trúi því ekki að ráðherra hafi beitt þessum banal rökum til þess að réttlæta að ekkert þyrfti að gera annað en að borga og bíða. Er viðskiptaráðherra virkilega tilbúinn að greiða þrefalt eða fjórfalt verð fyrir íbúð sína, bara af því að hann getur það?! Spyr sá sem ekki veit, en ég efast stórlega um að það náist almenn sátt um þennan greiðsluvilja ráðherrans.

Það er ekki bara á Íslandi sem kallað er á róttækar jöfnunaraðgerðir vegna heimskreppunnar. Forseti sambands iðnaðarmanna (IG Metal) í Þýskalandi, Berthold Huber, vill sjá svipaðar aðgerðir og gripið var til eftir seinni heimstyrjöld í Þýskalandi, svo kölluðum “Lastenausgleich” – jöfnun byrðanna. Hann krefst einskonar eignaupptöku hjá stóreignafólki sem á meira en 750.000 evrur í hreina eign (eign að frátöldum skuldum). Saga þjóðanna í kringum okkur er full af kreppum og “þjóðargjaldþrotum”. Þjóðverjar hafa gengið tvisvar sinnum í gegnum slíkt þrot á síðustu öld – eftir fyrri heimsstyrjöldina og Weimarlýðveldið og þegar klukkan var stillt á tímann 0, “Stunde Null”, eins og Þjóðverjar nefna sitt nýja upphaf eftir seinni heimstyrjöldina. Í dag er þýska efnahagskerfið það stærsta í Evrópu og það þriðja stærsta í heimi. Meira að segja Bretar þekkja þjóðargjaldþrot og niðurfærslu skulda. Íslendingar standa hugsanlega frammi fyrir því að þurfa að stilla klukkuna á núll, og reynist það svo þá eigum við að gera það, eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir hafa gert í svipaðri stöðu. Hvers vegna í ósköpunum ættu Íslendingar að gangast við kröfum sem hvergi er gert nema helst hjá ófrjálsum og undirokuðum þjóðum sem hafa ekkert val? Það er engin ástæða fyrir Íslendinga að ganga álúta og hokna í hnjánum fram fyrir lánadrottna sína, hvorki innanlands né utan - eða hvað?

 


mbl.is Seðlabankinn í klemmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband