Þjóðarsátt um efnahagsvanda heimilanna

Nú í aðdraganda kosninga er kastljósinu beint að efnahagskreppunni og hvernig hún bitnar á almenningi í landinu.  Í því samhengi hafa Hagsmunasamtök heimilinna kallað eftir skýrum svörum um stefnu stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki og farið fram á upplýsingar um nákvæmar, vel skilgreindar og tímasettar mótvægisaðgerðir flokkanna.

Staða heimilanna
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum starfshóps Seðlabanka Íslands sem birtar voru þann 11. mars s.l. voru 42% heimila með neikvæða eða afar takmarkaða eiginfjárstöðu um síðustu áramót.  Í ljósi þess mikla verðfalls sem er fyrirsjáanlegt á fasteignamarkaði á næstu misserum er mikilvægt að hafa í huga að starfshópurinn skilgreinir húsnæðiseign út frá á fasteignamati í desember 2008.  Af þeim sökum má ætla að heimilum með neikvæða eiginfjárstöðu fjölgi umtalsvert á næstunni.  Að auki hefur höfuðstóll gengis- og verðtryggðra lána, og þar með mánaðarlegar afborganir fjölskyldna, nú þegar hækkað verulega samhliða launalækkunum og vaxandi atvinnuleysi.

Almennar eða sértækar aðgerðir?
Þegar rýnt er í afstöðu stjórnmálaflokkanna til málsins kemur í ljós að sú hugmyndafræði sem einkum er lögð til grundvallar byggir annars vegar á almennum aðgerðum og hins vegar sértækum.   Gróft á litið mætti staðhæfa að flokkarnir skipi sér í tvær fylkingar í þessum efnum.  Sem dæmi um almennar aðgerðir má nefna 20% leiðréttingu höfuðstóls íbúðalána á meðan aðgerð á borð við greiðsluaðlögun skoðast sem sértækt úrræði.

Til að rökstyðja hvers vegna beri að grípa til sértækra úrræða fremur en almennra er gjarnan vísað til takmarkaðrar getu hins opinbera til að taka á sig frekari skuldbindingar og að með sértækum lausnum sé aðstoðinni beint þangað sem hennar er þörf og vandinn hvað mestur.

Þeir sem gagnrýnt hafa þessa nálgun halda því fram  að vandinn sé mun alvarlegri en gefið sé í skyn, þörfin fyrir róttækari aðgerðir sé knýjandi og vísað er til þess að á óvenjulegum tímum dugi engin venjuleg ráð.  Fyrirsjáanlegt sé að fjöldi þeirra sem á aðstoð þurfi að halda á næstu mánuðum og árum sé svo mikill að ekki fáist með góðu móti séð að hægt verði að sinna þörfinni á skilvirkan hátt. 

Eins hefur komið fram að nýju bankarnir kaupi lánasöfn gömlu bankanna með miklum afföllum og því sé sanngjarnt og skynsamlegt að þau afföll verði að hluta látin ganga áfram til lántakenda.  Slíkt verði þegar upp er staðið til þess fallið að auka raunveruleg gæði lánasafnsins.  Einnig hefur verið bent á að sértæku lausnirnar taki á vandanum eftir á, þegar það liggi fyrir að bráðnauðsynlegt sé að fyrirbyggja að vandinn verði ekki óyfirstíganlegur.

Greiðsluaðlögun nær ekki til íbúðalána
Þegar fjallað er um greiðsluaðlögun er mikilvægt að hafa í huga að þau lög sem nýlega voru samþykkt á alþingi taka ekki til veðkrafna (t.d. íbúða- og bílalána) heldur samningskrafna (skuldir sem ekki eru tryggðar með veði í eignum skuldara).  Hins vegar liggur fyrir þinginu annað frumvarp sem tekur til fasteignaveðkrafna.  Það frumvarp hefur ekki verið samþykkt.  Velta má fyrir sér hvort nægilegur tími sé til að afgreiða það fyrir kosningar og hvort ekki hefði verið æskilegra að afgreiða þessi tvö frumvörp samtímis.

Greiðsluaðlögun samningnskrafna felur í sér heimild til að aðlaga skuldastöðu og greiðslubyrði að raunverulegri greiðslugetu ef sýnt er  fram á að viðkomandi  sé og verði um ófyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.  Mikilvægt er að gera grein fyrir því að ekki eiga allir rétt á þessu úrræði.  Lögin ná ekki til þeirra sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra.

Það frumvarp sem liggur nú fyrir þinginu um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna felur ekki í sér aðlögun / eftirgjöf skulda.  Fyrst og fremst er um að ræða frestun afborgana og lengingu lána samhliða því að greiðslubyrði er tímabundið löguð að greiðslugetu lántakenda en þó þannig að hún nemi að lágmarki fjárhæð hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir þá fasteign sem um ræðir.  Það er þó opið fyrir það í lok greiðsluaðlögunartímabilsins, sem getur verið allt að 5 ár, að ef sýnt sé að skuldari verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með greiðslu geti skuldari þá leitað eftir því „að veðréttindi sem standa til tryggingar uppreiknaðra eftirstöðva veðskulda á fasteigninni sem hún varðar og nema hærri fjárhæð en svarar til söluverðs fasteignarinnar á almennum markaði að viðbættum 10 hundraðshlutum verði afmáðar af fasteigninni enda sýni skuldari fram á að hann geti staðið í fullum skilum með þær veðskuldir sem áfram hvíla á fasteigninni“. 

Neyðarlögin vörðuðu veginn
Bent hefur verið á að með setningu neyðarlaganna hafi innstæður verið tryggðar umfram skyldu og að einnig hafi verið komið til móts við þá sem áttu sparifé sem tapaðist í peningamarkaðssjóðum.  Án þess að draga úr mikilvægi slíkra aðgerða mætti spyrja um kostnað í því samhengi (talan 800 milljarðar hefur verið tilgreind).  Með þessu móti hafi í raun verið gert upp á milli sparnaðarforma þar sem þeir sem settu sparifé sitt í fasteign horfa á það brenna upp á verðbólgubáli.  Eins má minna á að ráðgjöf banka í húsnæðismálum síðustu árin og verðbólguforsendur þeirra við lántöku stóðust ekki.  Á sama tíma tóku bankar, eigendur þeirra og stjórnendur, stöðu gegn krónunni og ollu með því hækkun höfðustóls lána, bæði gengis- og verðtryggðra.

Almennar aðgerðir sem tryggja þjóðarsátt og sértækar fyrir þá verst settu
Spurningin um hvort grípa skuli til sértækra eða almennra aðgerða er því alla vega tvíþætt.  Augljóslega snýst málið um hvoru tveggja þjóðarhag sem og réttlæti gagnvart heimilunum í landinu. 
Hagsmunasamtök heimilanna hafa kynnt sínar tillögur um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar.  Þær aðgerðir eru í raun blanda af sértækum og almennum aðgerðum og er ætlað að skapa þjóðarsátt um efnahagsvanda heimilanna og leggja samhliða hornstein að efnahagslegri endurreisn þjóðarbúsins.  Hugmyndin er að grípa fyrst til almennra aðgerða til að fækka verulega í þeim hópi sem á sértækum lausnum þurfa á að halda.  Tillögur samtakanna eru að boðið verði upp á að gengistryggðum íbúðalánum verði umbreytt í verðtryggð krónulán frá lántökudegi einstakra lána.  Samhliða takmarkist verðbótaþáttur verðtryggðra íbúðalána, frá og með 1. janúar 2008, við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, eða að hámarki 4%.  Dugi þetta ekki til geti fjölskyldur leitað eftir greiðsluaðlögun.
mbl.is AGS tjáir sig ekki um „skjalið sem lak út“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góðan pistil. En ég held nú samt sem áður að það hafi verið stigið feil spor í sögu Íslands þegar að við ákváðum að fara í samstarf svið Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn. Það held ég.

Nú verða þeir með puttann á púlsinum í okkar landi endalaust. Eða allavega í öllu mínu lífi. Þetta er ekki þægilegt að vita.

En ég hef heyrt marga vera að tala um það að flytja hreinlega af landi brott. Það er bara orðið sjálfsagt mál. Ég held að maður fari að athuga með búsetu á hinum Norðurlöndunum. Það er ekki orðið íbúðar hæft hérna á þessu landi, eða þessu skeri sem Ísland er. Það er nú bara þannig.

Og talandi um þá sem hvað minnst hafa á milli handanna hérna á þessu landi, þ.e. lífeyrisþegana. Þeir eru að fá eitthvað í kringum 100-150.000 kr,- á mánuði úr almannatryggingarkerfinu. Hvernig er hægt að bjóða þessum hópi fólks upp á þetta. T.d. aldraðir, eiga þeir ekki skilið betri ár í ellinni en að lifa af einhverjum 100-150.000 kr,- á mánuði. Ég held það.

Það er svo víða pottur brotinn í þessu þjóðfélagi hvað fjármál varðar að það hálfa væri miklu meira en nóg. Þetta er bara fáránlegt.

En takk fyrir góðan pistil.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 11:53

2 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Það er bæði eðlilegt og lýðræðislegt að stjórnvöld veiti almenningi svör og er ég ánægður með þessa greinargerð Hagsmunasamtaka Heimilanna.

Ég tek undir orð vinar míns hans Valgeirs að ekki sé hægt að bjóða öldruðum og öryrkjum upp á þessar aðstæður lengur. Vegna kreppunnar er orðið ómögulegt að lifa af svo lágum launum og mér finnst of lítið fjallað um þennan þátt af stjórnmálamönnum. Þetta er þó góð hugmynd fyrir ykkur í samtökunum til að tala um og krefjast svara enda koma þessir hópar einna verst út úr þrengingunum.

Hilmar Gunnlaugsson, 7.4.2009 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband