Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra aðgerða

Einar Árnason, hagfræðingur BSRB, hefur ritað þessa grein og veitt mér góðfúslegt leyfi til að birta hana.

Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra aðgerða

Það má hafa miklar efasemdir um að við núverandi aðstæður verndi verðtrygging eigendur sparifjár eins og til er ætlast. Að auki er ljóst að verðtryggingin á íbúðarhúsnæði sem endurspeglar mælda verðbólgu er langt frá því að vera óumdeild mæling til hækkunar áhvílandi skulda á þessum óvenjulegu tímum.

Gengishrun
Segja má að það þjóðfélag sem við höfum séð hér á landi á síðustu árum, sé gerólíkt því sem við höfum séð eftir bankahrunið í byrjun október 2008. Gengi krónunnar hefur hrunið nú í haust, en hafði einnig lækkað verulega fyrr á árinu eftir kjarasamninga á almenna markaðnum 17. feb rúar 2008. Þannig þurfti aðeins um 93 íslenskar krónur í upphafi árs 2008 (9.janúar) til að kaupa eina Evru en ári síðar í janúar 2009 þurfti 170 krónurnar samkvæmt gengi Seðlabankans. Þetta gerir um 84% hækkun Evru. Að sama skapi hækk aði dollarinn um tæplega 98% og gengis vísitalan um 81%. Á einum mánuði (9. des 2008 til 9 jan 2009) er hækkun á erlendri mynt 15-18%. Lækkun krónunnar hefur mikil áhrif á hækkun innflutningsverðs sem aftur veldur hækkun á mældri verðbólgu, enda vega innfluttar vörur í vísitölu- mælingunni 36,4% (í nóvember 2008). Enn eru gjaldeyrishöft og þegar þeim verður aflétt er yfirvofandi verulegt viðbótarfall krónunnar, meðal annars vegna svokallaðra jöklabréfa. Þetta mun enn auka á verðbólgu.

Kaupmáttur fellur, atvinnuleysi eykst, húsnæðisverð lækkar og mældar skuldir hækka
Þannig hafði kaupmáttur launa lækkað á árinu, en lækkaði svo enn hraðar eftir hrunið í október og ekki sér fyrir endann á þeirri lækkun. Á sama tíma hefur atvinnuleysi aukist mjög mikið og atvinnuleysistölur hækka frá mánuði til mánaðar. Húsnæðisverð lækkar einnig að raungildi, sölutregða eða nánast sölustopp er á íbúðarhúsnæði, svo eign almennings í íbúðarhúsnæði lækkar verulega. Oft er mögulegt söluverð komið langt niður fyrir áhvílandi skuldir, sérstaklega ef um er að ræða lán í erlendri mynt. Mæld verðbólga í desember var 18,1% og ekki útlit fyrir lækkun hennar í bráð. Í þessu ástandi er erfitt að sætta sig við að verðbólguþáttur í verðtryggingunni orki tvímælis.

Verðbólgumæling nú og verðtygging byggist á neyslumynstri áranna 2004, 2005 og 2006
Hagstofa Íslands reiknar út breytingu á verðlagi og gefur út vísitölu mánaðarlega. Það er vísitala neysluverðs sem er notuð til að mæla verðbólguna með samsvarandi áhrifum á útreikning verðtryggingar íbúðarlána. Hagstofan hefur sjálfdæmi um hvernig hún reiknar verðbólguna enda sjálfstæð stofnun. Undir það skal tekið að sjálfstæði hennar er mikilvægt því trúverðugleiki mælinganna myndi minnka verulega ef stjórnvöld færu að skipta sér af aðferðafræðinni. Annað mál er hversu rétt er að nota þessa mælingu til að endurspegla verðtrygginguna og þ.a.l. skuldastöðu heimilanna nú um stundir. Vísitala neysluverðs byggir á þriggja ára gömlum neyslugrunni að meðaltali. Hún byggist sem sagt á neyslu sem átti sér stað 2006, 2005 og 2004. Það má segja að þetta hafi verið árin þar sem hámarki neyslugleðinnar var náð. Það er ekki fyrr en í mars/apríl 2009 sem neyslu mælingin fyrir árið 2007 kemur inn í grunninn og fyrst á vormánuðum 2010 förum að fá einhver smá áhrif frá neyslunni eins og hún er núna, en það gerist þó frekar árin 2011 og 2012. Ljóst er að neyslan nú er gjörbreytt frá því sem hún var á þessum mikla neyslutíma sem vísitalan byggir á.

Gjörbreytt neyslumynstur
Við vitum t.d. að á síðustu mánuðum var algjört hrun á innflutningi bifreiða. Í nóvember síðastliðnum seldust 5,3% af þeim fjölda bíla sem seldust í nóvember árið á undan. Þá seldust aðeins 12,3% af þeim fjölda notaðra bíla sem seldust ári fyrr. Sama má segja um heimilistæki, flatskjái og dýrari innfluttar vörur. Það er allt annað neyslumynstur og við vitum að fólk færir sig frá dýrari matvöruverslunum í þær ódýrari og innan verslana kaupir það frekar ódýrari vörur. Þannig að mælingin á verðbólguna sem veldur hækkun verðtryggingar og skulda heimilanna, byggir á neyslu sem á sér ekki stað í gerbreyttu þjóðfélagi í dag. Neysla almennings minnkar sem sést m.a. í jákvæðum vöruskiptajöfnuði síðustu mánuði en jafnframt því loka sumar búðir sem áður seldu vörur sem voru í mæling unni. Þannig verður mælingin erfiðari og vafa samari sem mælikvarði sem eykur sjálfkrafa skuldir heimila með verðtryggð lán.

Bara í Ísrael, Brasilíu og Chile og Ísland
Þetta verðtryggingarfyrirkomulag á íbúðarhúsnæði þekkist ekki í löndum Evrópu, en hefur verið notað í Ísrael, Brasilíu og Chile. Hér á landi er stór hluti íbúðalána verðtryggð með háum vöxtum og ofan á það stundum breytilegum vöxtum líka. Það hefur verið kallað að hafa belti og axlabönd fyrir þann sem lánar og átti að vera algerlega pottþétt. Þannig hefur lánveitandi ekki þurft að hafa áhyggjur af verðbólgunni, það var bara vandamál lántakenda,þar til núna. Veru legar efasemdir eru uppi um að svona kerfi gangi til langframa, hvað þá nú, eins og þróunin er. Nú eru aftur á móti komnir tímar þar sem það er ekki endilega öruggt að lána á þennan máta. Fólk gefst upp, en á því eru mun meiri líkur en áður. Þegar skuldir í húsnæði eru orðnar meiri en mögulegt söluverð og ekki er mögulegt að selja, tekjurnar minnka eða hrynja, þá hreinlega gefast margir upp. Þá er mikið meira atriði að halda fólki, halda í vonina og gefa eftir einhvers staðar.

Greiðslugeta, greiðsluvilji, gagnsæi
BSRB hélt nokkra opna fundi fyrir áramót, sem voru vel sóttir og má nálgast upptökur af þeim á heimasíðu BSRB. Meðal annars var haldinn fundur um verðtrygginguna og annar fundur 26. nóvember var haldinn með fulltrúum bankanna. Þar hélt Helgi Bragason lánastjóri viðskiptasviðs KB banka erindi sem hét ,,Hugsum lengra“. Hann sagði þar meðal annars.,, Í dag þjónar það ekki endilega hagsmunum skuldaeigenda best að eignast fasteignir með afsali eða á uppboði“. Því fylgi mikill kostnaður og engar tekjur. Fast eignaver hefur hrapað, enginn markaður er fyrir hendi. Hann nefndi að betra væri að horfast í augu við staðreyndirnar strax. Það væri betra en að fólk gefist upp og geri sig gjaldþrota. Við viljum halda fólki á Íslandi. Ef fólk hefur greiðslugetu og greiðsluvilja er betra að afskrifa hluta af skuldum heldur en að lánveitandinn sitji uppi með verðlitlar og illseljanlegar eigur. Þarna þyrfti aðkomu stjórnvalda um mótun gagnsærra reglna og lagasetningar.

Lífeyrissjóðir og önnur lönd
Mikið hefur verið talað um hag lífeyrissjóðanna við þessar aðstæður. Um 50-60% af eigum þeirra er í verðtryggðum lánum og þar af um 5-15% í íbúðalánum sjóðfélaga. Skuldbindingar lífeyrissjóðanna eru hins vegar verðtryggðar greiðslur vegna örorku eða ellilífeyris. Þetta skapar vissulega vanda nú, ofaná tap sjóðanna í öðrum fjárfestingum nú nýverið. Í ljósi þess sem að ofan greinir er hins vegar ekki hægt að halda áfram eins og ekkert hafi breyst. Umdeildur útreikningur verðtryggingar og auknar líkur á greiðslufalli lána, kallar á endurskoðun. Varla geta verðtryggð lán verið eina haldreipi lífeyrissjóðanna í breyttum heimi, þar sem nánast allar aðrar fjárfestingar hafa beðið skipbrot. Almenningur stendur ekki undir því. Algeng íbúðarlán í Danmörku bera 3,5% vexti án verðtryggingar. Þar er oft líka hámark á vöxtum 5%. Það er ólíku saman að jafna. Hér þarf sátt í þjóðfélaginu og gerbreyttar áherslur. Margar útfærslur eru mögulegar, svo sem frysting vísitölunnar í eitt ár, helmingun hennar eða vísitöluþak. Markmiðið hlýtur þó að vera að komast í stöðugra umhverfi og lægri vexti, eins og er hjá nágrönnum okkar. En fyrst þarf að gírpa til aðgerða og það strax, áður en skaðinn er skeður.

Einar Árnason hagfræðingur BSRB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband