Hvað skapar óróa?

Í þessari frétt má lesa að í yfirliti sem kynnt var kröfuhöfum gamla Landsbankans áætlar bankinn að afskrifa 1.452 milljarða króna að lokinni skuldajöfnun.  Til samanburðar færði gamla Kaupþing 954 milljarða króna á afskriftarreikning til bráðabirgða fyrr í þessum mánuði.  Mestur hluti afskrifta gamla Landsbankans er vegna útlána til viðskiptavina bankans og krafna á önnur fjármálafyrirtæki, eða tæplega 1.100 milljarðar króna. 

Formaður skilanefndar Landsbankans, segir yfirlitið byggt á mati sem er áætlað miðað við núverandi stöðu. „Þetta teljum við raunhæft mat eins og staðan er í dag. Lánasöfnin sem voru færð yfir í nýja bankann hafa líka verið færð heilmikið niður. Þetta er það sem er að gerast. Það er svo mikil rýrnun á virði eigna.“

Ég hef ekki komist yfir sambærilegar tölur um gamla Glitni en geri ráð fyrir að þær muni hlaupa á hundruðum milljarða.  Fjárhæðum sem erfitt er fyrir venjulegt fólk að átta sig á.

Skuldir heimilanna eru skv. greiningu Íslandsbanka áætlaðar um 2.000 milljarðar króna.  Marinó G. Njálsson hefur reiknað út að um 700 milljarðar af þeirri fjárhæð sé tilkominn vegna gengis- og verðtryggingar frá og með árinu 2000, eða frá því um svipað leiti og stjórnvöld fleyttu krónunni og settu upp 2,5% - 4% verðbólgumarkið.   

Bankastjóri Íslandsbanka leggur til að enginn afsláttur verði gefinn af lánunum heimilanna.  Ennfremur telur bankastjóri Íslandsbanka að slíkt skapi óróa í samfélaginu auk þess sem það kosti gríðarlega peninga og lendi á skattgreiðendum.

Með eftirfarandi tvær staðreyndir í huga hljóta slík ummæli að vekja athygli.

1. Stjórnvöld brugðust.  Efnahagskerfið er hrunið og ljóst er að gríðarlegur kostnaður vegna þess mun lenda á skattgreiðendum.  

2. Fjármálastofnanir brugðust.  Af þeim sökum er ljóst að gríðarlegur kostnaður mun lenda á skattgreiðendum.  Lögfróðir menn vilja nú láta á það reyna fyrir dómi hvort glæpur hafi verið framinn. 

(Útúrdúr til umhugsunar: Hvað kostaði það skattgreiðendur að borga upp í peningamarkaðssjóðina?  Tek fram að ég sé ekki eftir þeim aurum.  Og hvers vegna er eigið fé landsmanna í fasteignum ekki meðhöndlað eins og hver annar sparnaður?  Hvers vegna gufar sá sparnaður upp í óðaverðbólgu og gengishruni?) 

Í ljósi þess að verið er að færa lánasöfnin á milli gömlu og nýju bankanna með umtalsverðum afföllum þá hljóta menn að spyrja að því hvort það sé ekki skynsamlegast að þau afföll skili sér í einhverjum mæli alla leið til lántakenda.  Hví á nýji bankinn einn að njóta góðs af slíkum gjörningi og á kostnað hvers er það?  Hvað með kröfuhafa gamla bankans?  Á hann að sætta sig við að fá jafnvel ekki nema 50% af 20 mkr. íbúðaláni sem hann lánaði Glitni á sama tíma og Íslandsbanki ætlar að innheimta lánið með vöxtum og vaxtavöxtum hjá Jóni og Gunnu?  Væri ekki skynsamlegra í því tilfelli að bjóða þá alla vega Jóni og Gunnu að gera tilboð í kröfuna samhliða Íslandsbanka?  Kannski fengi upprunalegi lánveitandinn, þ.e. kröfuhafinn í Glitni, meira upp úr krafsinu með þeim hætti.

Það er ljóst að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi.  Velferð heillrar þjóðar ef þú spyrð mig.  Í flestum tilfellum er um að ræða heimili fólks og þar með grunnstoð samfélagsins.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt fram tillögur um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunar.  Þær eru bæði hóflegar og skynsamlegar.

Það er fullkomlega eðlilegt m.v. þær aðstæður sem nú ríkja að tala opinskátt um nauðsyn þess að leiðrétta lán almennings.  Það er sanngjarnt og þjóðhagsleg rök mæla með því.  Þess vegna kýs ég að tala frekar um ávinning heldur en kostnað í þessu samhengi: 

  • Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta afstýrt
  • Stuðlað gegn frekari hruni efnahagskerfisins
  • Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins
  • Líkur aukast á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af íbúðum
  • Þjóðarsátt um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar
  • Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný

Leyfum ekki stjórnvöldum og fjármálastofnunum að bregðast okkur aftur.  Við, skattgreiðendur, ráðum nú för.


mbl.is Útilokar ekki sameiningu banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú krúttlegt að bankastýra nýja Íslandsbanka telji það ógerlegt að gefa heimilunum afslátt af lánum þegar starfsmaður Glitnis gleymdi "óvart" að tilkynna um hlutabréfakaup hennar og þar með gleymdi "óvart" að tilkynna um lán til þessara hlutabréfakaupa. Í hvaða útibúi fær maður svona afgreiðslu?

Prjóna (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband