Skiptigengisleið

Hagsmunasamtök heimilanna standa nú fyrir undirskriftasöfnun og krefjast afnáms verðtryggingar og almennra leiðréttinga lána. Því til áréttingar birta samtökin umfjöllun um fjórar mismunandi leiðir að þessu marki.  Ein af þeim leiðum sem um ræðir er kennd við skiptigengi.  En hvað felur sú leið í sér?  Eftirfarandi texti er fenginn að láni hjá HH og útskýrir vonandi málið.

Skiptigengisleið
Aðferðin felur í sér að fjárskuldbindingar í krónum eru færðar yfir í nýjan eða annan gjaldmiðil á mismunandi gengi í þeim tilgangi að endurreisa heimilin og hagkerfið. Það myndi leiða til aukinnar velferðar í gjörbreyttu efnahagsumhverfi og skapa tækifæri til að leiðrétta þá ósanngjörnu eignaupptöku sem átt hefur sér stað.

Skiptigengisleiðin hefur reynst vel til að byggja upp þjóðfélög að nýju eftir alvarleg áföll. Þrátt fyrir að ekki sé um algerlega sambærilegt ástand að ræða og þar sem þetta hefur verið gert, eins og í Þýskalandi, þá er það mat samtakanna að þessi leið sé jafn einföld og hún er snjöll. Það er því kannski engin tilviljun að Þjóðverjar hafi beitt henni í þrígang, nú síðast þegar þýsku ríkin sameinuðust.

Kostir skiptigengisleiðarinnar:
- Almenn skuldaleiðrétting treystir rekstrargrunn heimila og fyrirtækja og hraðar endurreisn.
- Samrýmist eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
- Er áhrifaríkt og skjótvirkt úrræði sem ríkisstjórnin getur auðveldlega beitt.
- Gerir verðtryggingu óþarfa.
- Fjármálakerfið hreinsar út eitraðar og verðlausar platkrónur sem sitja eftir úr froðuhagkerfinu.
- Svart fé og því sem skotið hefur verið undan leitar upp á yfirborðið því enginn vill sitja uppi með gamlar úreltar og verðlausar krónur.

Hagsmunasamtök heimilanna taka ekki afstöðu til þess hvaða gjaldmiðill yrði fyrir valinu, það er pólitísk spurning sem stjórnvöld þurfa að svara. Sem dæmi mætti nefna nýja íslenska krónu, evru, Bandaríkjadal, kanadískan dal, norska krónu eða jafnvel nýja samnorræna krónu.

Meira um skiptigengisleið
Til þess m.a. að örlög þjóðarinnar í peningamálum verði frekar í hennar eigin höndum, er nauðsynlegt að skipta um gjaldmiðil og gera það með mismunandi gengi eftir því hvort um er að ræða t.d. laun og lágmarkssparnað eða aflandskrónur byggðar á falsverðmætum.

Aðgerðin ætti ekki að taka nema nokkra daga og myndi flýta endurreisn þjóðar um mörg ár.
Jafnhliða upptöku nýs gjaldmiðils verði gjaldeyrishöft afnumin og verðtrygging á neytendalán bönnuð og í framhaldi gerð krafa um ábyrga efnahagsstjórn. Þá yrði að búa þannig um hnútana að auðvelt væri fyrir þá lántakendur sem nú þegar eru með verðtryggð lán að greiða þau upp með nýjum lánum, eða breyta þeim í þá veru sem lagt er til með nýju lánakerfi, án uppgreiðslu eða stimpilgjalda.

Með þessum hætti gæti Ísland á ný og mun fyrr náð aftur stjórn á eigin efnahags- og peningamálum. Aðgerð sem þessi væri einnig jákvæð hvort heldur sem landið verður aðili að ESB, þar sem hún mun styðja við og flýta fyrir því að landið uppfylli Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku Evru, eða ef þjóðin ákveður að standa utan sambandsins, með gjaldmiðil sem, öndvert við núverandi krónu, væri gjaldgengur í alþjóðlegum viðskiptum. Samtökin taka ekki afstöðu til þess hvaða gjaldmiðill verður fyrir valinu, ný íslensk króna eða einhver annar.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni og á sér fordæmi erlendis frá. Henni var til að mynda þrisvar hrint í framkvæmd í Þýskalandi á 20. öld, nú síðast við sameiningu Þýskalands. Þrátt fyrir að aðstæður hér á landi séu ekki alveg sambærilegar því sem þar var telja samtökin að þessi leið yrði vænleg til endurreisnar hagkerfisins.

Í sinni einföldustu mynd felst hugmyndin í því að eignir og skuldir eru færðar yfir í annan gjaldmiðil á mismunandi gengi. Sem dæmi mætti taka að smærri fjárhæðir, eins og laun og innistæður upp að ákveðnu marki færu yfir á genginu 1 á móti 1. Þannig yrðu 100 þúsund í gamla kerfinu jafngildi 100 þúsund í því nýja. Stærri skuldbindingar á borð við húsnæðislán færu yfir á öðru skiptigengi, til dæmis 1 á móti 0,6 - 0,7 (stuðullinn myndi miðast við uppsafnaða verðbólgu frá 2008 sem er nú um 34% frá 1. janúar 2008). Verðfærslur opinberra skráninga, s.s. fasteignaskrár á fasteignamati og brunabótamati verði skipt á genginu 1 á móti 0,6 - 0,7. 20 milljónir í gamla kerfinu yrði þannig að 14 milljónum í því nýja. Með þessu móti mætti leiðrétta fyrir það verðbólguskot sem varð vegna hrunsins og já, afnema verðtryggingu með skjótvirkri einskiptisaðgerð. Þess vegna telja Hagsmunasamtök heimilanna skiptigengisleiðina færa.

Einföld skýring á vandamálum hagkerfisins
Eitt af fórnarlömbum íslenskra viðskiptahátta í aðdraganda bankahrunsins er íslenska krónan. Með markaðsmisnotkun banka og lykilaðila íslensks viðskiptalífs á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði, með dyggri aðstoð peningaprentunaráhrifa almennrar verðtryggingar og peningastefnu Seðlabankans, var peningamagn í umferð margfaldað á árunum 2001 til 2008.

Ekki reyndist innistæða fyrir þessari aukningu og má segja að með þessu móti hafi þessir aðilar stundað peningafölsun og komist upp með það. Verðlausum pappírum var gefið verðgildi m.a. í svokölluðum „endurhverfum viðskiptum" bankanna við Seðlabankann. Þannig gátu bankarnir og velvildarmenn þeirra, sem voru fyrst og fremst í eigendahópnum, í reynd skipt út platkrónum fyrir alvöru krónur.

Í dag sitja þessar „alvöru" krónur á bókum seðlabankans og fjármagnseigenda í formi alfandskróna og skuldabréfa. Fjármagnseigendur bíða nú í röðum og vilja skipta þessum aflandskrónum yfir í gjaldeyri. Seðlabankinn hefur kynnt áætlun um losun gjaldeyrishafta, en helsta hindrunin á þeirri vegferð er hið mikla magn króna í umferð sem gert er ráð fyrir að eigendur vilji skipta yfir í gjaldeyri.

Seðlabankinn hefur því í áætlunum sínum kynnt tvær hugsanlegar leiðir til þess að losa um þá spennu sem hið mikla krónumagn veldur. Báðar byggja á því að beitt verði mismunandi gengi fyrir krónueignir fjármagnseigenda sem vilja losna úr helsi íslensku krónunnar. Annars vegar að gjaldeyrir verði seldur á uppboði og hins vegar að gjaldeyrisútflæði verði skattlagt þannig að raungengi liggi í reynd við aflandsgengi en ekki álandsgengi (opinbert skráningargengi Seðlabankans). Einungis uppboðsleiðin er komin til framkvæmda með því tilraunauppboði sem Seðlabankinn hefur þegar tilkynnt.

Ljóst er að leiðir Seðlabankans munu taka langan tíma, enda er nú gert ráð fyrir að gjaldeyrishöft verði viðvarandi a.m.k. til 2015. Aðferðarfræði Seðlabankans setur því þannig fjármagnseigendur í ökumannssætið varðandi tímalengd afnáms hafta. Stærsti gallinn við aðferðarfræði Seðlabankans er hins vegar sá að með henni verður ekki dregið úr peningamagni í umferð. Allt of margar krónur í umferð þýða að varanlega hefur dregið úr verðgildi gjaldmiðilsins og undirliggjandi verðbólguþrýstingur skapar hættu á annarri aðför að högum heimilanna þegar þessar krónur án undirliggjandi verðmætasköpunar komast í umferð eins og áætlun Seðlabankans gerir ráð fyrir. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir landsmanna verði helstu kaupendur á þessum krónum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Seðlabankinn er að fara leið skiptigengis.  Hefur þú ekki tekið eftir því?

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 15.7.2011 kl. 13:22

2 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Sástu þetta svar Seðlabankans við erindi HH um skiptigengisleiðna, Stefán:

http://www.heimilin.is/varnarthing/component/content/article/47-okkar-efni/1315-kreppan-hvorki-nogu-djup-ne-alvarleg-fyrir-seelabankann

Þórður Björn Sigurðsson, 15.7.2011 kl. 15:30

3 identicon

Þetta er furðulegt því Seðlabankinn er að selja skuldabréf. 

Hverjar hundrað krónur þar kosta aðeins 70 krónur.

Þannig að skiptigengið hjá þeim er 0,70 krónur fyrir hverja krónu.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 15.7.2011 kl. 15:52

4 identicon

Það er dagskipun frá Jóhönnu, Össuri og Árna Páli til skjólstæðings í Seðlabankanum, Má Guðmundssyni, að láta krónuna veikjast til að "sanna" það að krónan sé ónýt.

Með þessu á að svelta landsmenn til að játast ESB og Evrunni.

En varðandi skiptigengið, þá er ég viss um að lán fólks fara á genginu 1 á móti 1, en laun fólks fara á genginu 1 á móti 10.

Þannig verða skuldir þess sem skuldar 10 mio.kr. að 10 mio. Evra skuld í við myntskiptin.

Verða aftur á móti skipt þannig að 350 þús.kr. mánaðarlaun verða ekki nema 3.500 Evrur í nýja kerfinu.

Góð skipti þetta?

Já, fyrir fjármagnseiendur.

Hannes M. Páls. (IP-tala skráð) 18.7.2011 kl. 00:21

5 identicon

Svona er þetta í raun.  Ég hef ekki séð stjórnarandstöðuna vera að mótmæla þessu.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 18.7.2011 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband