28.1.2011 | 12:17
Opið bréf til Og fjarskipta
Skútuvogi 2
104 Reykjavík
Nú standa yfir mikil átök í Egyptalandi þar sem almenningur rís upp gegn yfirvöldum. Helstu ástæður uppreisnarinnar eru sagðar bág kjör almennings og skortur á mannréttindum. Fram hefur komið að netsamskipti hafi verið verulega takmörkuð síðustu daga m.a. til að halda aftur af uppreisninni. Netið hefur leikið lykilhlutverki í þessu sambandi.
Netumferð í Egyptalandi 27. janúar 2011:
Ekki fæst betur séð en að Vodafone eigi í viðskiptum við egypsk stjórnvöld.
Upplýsingasíða egypska stjórnkerfisins:
http://www.egypt.gov.eg/english/default.aspx
Að því er fram kemur í neðangreindum skilaboðum frá hópnum Anonymous beinast spjótin m.a. að Vodafone þegar kemur að takmörkun netsamskiptanna:
Í ljósi ofangreinds óskar undirritaður eftir því að Og fjarskipti grennslist tafarlaust fyrir um aðkomu Vodafone að málum í Egyptalandi og upplýsi um viðskipti Vodafone við egypsk stjórnvöld og í hverju þau felast. Þá kanni Og fjarskipti sérstaklega þátt Vodafone í takmörkun á netsamskiptum í Egyptalandi síðustu daga. Niðurstaða Og fjarskipta verði gerð opinber og afstaða félagsins til hennar að sama skapi.
Í ljós eignarhaldsins á Og fjarskiptum er það mat undirritaðs að Og fjarskipti geti ekki skorast undan ofangreindri ósk en félagið er í eigu Teymis, sem er í eigu Framtakssjóðsins, sem er í eigu lífeyrisjóðanna annars vegar og ríkisbankans Landsbankans hins vegar.
Virðingarfyllst,
Þórður Björn Sigurðsson
Samrit:
Fjölmiðlar
Fjármálaráðherra
Formenn þingflokka
Egyptar virði málfrelsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
En nú er Vodafone global fyrirtæki sem selur fyrirtækjum í öllum löndum not af brandinu sínu.
Þarf nú engan sérfræðing til að átta sig á því að þetta kemur Og Fjarskiptum ekkert við, eina sem þetta segir er að þeir sem eiga VodafoneEgypt eru að versla við sömu aðila og Og Fjarskipti.
Þetta er svipað og ásaka byssuframleiðandann um morðið en ekki þann sem tók í gikkinn.
Siggi (IP-tala skráð) 28.1.2011 kl. 13:33
Held að þú sért bara að faila á að halda að Vodafone í öllum löndum sé sama fyrirtækið, sem það er ekki.
Mæli með að kynna mér svona grunn hluti fyrst áður en þú slengir fram svona miður skemmtilegum ásökunum.
Siggi (IP-tala skráð) 28.1.2011 kl. 13:36
Ágæti Þórður Björn.
Eins og fram kemur í yfirlýsingu frá Vodafone, á http://www.vodafone.com/content/index/press.html, hefur öllum símafyrirtækjum í Egyptalandi (og væntanlega netþjónustufyrirtækjum) verið gert að takmarka sína þjónustu á völdum svæðum. Samkvæmt yfirlýsingunni eru slíkar tilskipanir heimilar samkvæmt lögum í Egyptalandi og fyrirtækjunum er því skylt að framfylgja þeim. Skoðanir einstakra fyrirtækja og/eða stjórnenda þeirra ráða því miður engu þar um.
Eins og réttilega er bent á hér að ofan (í færslu frá Sigga) eru engin eignatengsl milli Vodafone á Íslandi og Vodafone í Egyptalandi. Eigendur Vodafone hér á landi geta því ekki með nokkrum hætti haft áhrif á starfsemi og þjónustuna í Egyptalandi. Við höfum engu að síður upplýst höfuðstöðvar Vodafone um bréfið frá þeir og þær áhyggjur sem þar koma fram.
Það liggur í hlutarins eðli, að fjarskiptafyrirtæki hljóta ávallt að vilja veita sínum viðskiptavinum góða þjónustu. Að sama skapi er öllum fyrirtækjum skylt að starfa eftir gildandi lögum, hvar í heimi sem þau starfa. Því miður geta skapast aðstæður þar sem þetta tvennt fer ekki saman, eins og nú virðist vera raunin í Egyptalandi.
Kær kveðja,
Hrannar Pétursson
upplýsingafulltrúi Vodafone
Vodafone, 28.1.2011 kl. 15:57
Ég velti því fyrir mér hvort alsherjarnefnd Alþingis kalli forráðamenn Og Fjarskipta, Símans og annarra fjarskiptafyrirtækja á sinn fund núna og hóti þeim því að rekstrarleyfum þeirra verði breytt nema svona takmörkunum á tjáningarfrelsi verði aflétt eins og skot. Þetta var nefnilega gert þegar norska fyrirtækið Teller lokaði á færsluhirðingu hjá samstarfsaðila Wikileaks. Þá voru gjörsamlega ótengd íslensk fyrirtæki kölluð fyrir og beðin skýringa á ákvörðunum sem þau áttu enga aðkomu að.
Marinó G. Njálsson, 28.1.2011 kl. 17:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.