Opið bréf til gæslumanna almannahagsmuna

8. bindi skýrslu RNA ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008".  Við lestur kafla II. 3 sem heitir ,,Samskipti stjórnmála og efnahagslífs" er ástæða til að staldra við, nánar tiltekið á bls. 153.  Þar segir:

„Eitt af markmiðum einkavæðingar er að færa völd frá stjórnmálamönnum til einkaaðila. Með einkavæðingu banka, sjóða og margra fyrirtækja á síðasta áratug dró ríkisvaldið sig út úr margvíslegri starfsemi og völd stjórnmálamanna minnkuðu að sama skapi. Á sama tíma og ríkisvaldið veiktist sóttist viðskiptalífið æ meir eftir afskiptum af stefnumótun og lagasetningu sem um það er sett. Eins og víða hefur gerst beittu fyrirtæki hagsmunasamtökum til að hafa afskipti af reglusetningu og lagasetningu. Hættan er sú að þetta lami jafnframt lýðræðislegt ákvörðunarferli. Þegar þannig er komið verða mörkin milli viðskiptalífsins og stjórnmála verulega óskýr. Hagsmunaaðilar taka ákvarðanir í stað stjórnvalda sem aftur kemur í veg fyrir lýðræðislega umræðu um efnið. Hérlendis reyndu tvö hagsmunasamtök viðskiptalífsins, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu og þá umgjörð sem fjármálafyrirtækjum var búin. Ekki er hægt að segja annað en að þeim hafi orðið vel ágengt."

Þjónustulund Alþingis í garð Viðskiptaráðs síðastliðin ár er margrómuð.  Til að mynda var skýrt frá því í júní 2006 að skv. athugun ráðsins hafi Alþingi farið eftir tillögum Viðskiptaráðs í 90% tilvika á starfsárinu sem þá var að ljúka.

Í niðurlagi kaflans, á bls. 170, er komið inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni.  Þar segir:  

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsveð, frumvarp þetta gengur í daglegu tali undir nafninu „Lyklafrumvarpið" og er til meðferðar (lesist: svæft) í Allsherjarnefnd.  Í stuttu máli gengur frumvarpið út á að lánveitendum verði ekki heimilt að ganga lengra í innheimtu lána með veði í íbúðarhúsnæði heldur en að leysa til sín hina veðsettu eign. 

Hér er á ferðinni gríðarlegt hagsmunamál fyrir almenning sem hefur mátt horfa upp á lánin sín hækka og hækka í kjölfar hruns íslensku krónunnar, verðbólgunnar sem í kjölfarið fylgir og í krafti ósanngjarnra verðbreytingarákvæða í lánasamningum.  Að því er fram kemur á bloggi Marinós G. Njálssonar er það mat Seðlabankans, að 28.300 heimili, eða 39% heimila sem eiga eigið húsnæði, séu í neikvæðri eiginfjárstöðu og 65% „ungra" heimila eru í þeirri stöðu.  Verðbreytingarákvæðin eru reyndar sér kapítuli og algerlega óverjandi að ekki sé búið að afnema þau fyrir lifandi löngu eins og 80% þjóðarinnar vill gera.

Að svo komnu máli ætla ég ekki að fjölyrða um hversu óábyrg útlánastefna hefur tíðkast á Íslandi undanfarin ár en að mati Sigurjóns Árnasonar, fyrrv. bankastjóra Landsbankans voru fasteignalán bankanna „tómt rugl".  Ég mun heldur ekki skorast undan því að ræða lyklafrumvarpið efnislega hafi einhver áhuga á því.  Mín niðurstaða í þeim efnum er að verði frumvarpið að lögum muni það stuðla að jafnvægi á fasteignamarkaði til frambúðar - þar sem framboð og eftirspurn fasteigna stýra verði þeirra en ekki ofgnótt lánsfjár með baktryggingu í sjálfskuldarábyrgð (lesist: veði í lífi lántakenda).

Þegar litið er til þeirra umsagna sem allsherjarnefnd hefur borist málsins vegna má sjá að Viðskiptaráð hefur sent inn umsögn.  Sú umsögn er eins og vænta má til þess fallinn að stöðva framgang málsins.  Þau rök sem Viðskiptaráð tilgreina eru m.a. á þá leið að frumvarpið gangi gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti kröfuhafa.  Á móti má spyrja að eignarrétti fasteignaeigenda sem hafa mátt sjá eignarhlut sinn í fasteignum rýrna jafnt og þétt, varla er stjórnarskráin einstefna.

Nú stendur upp á lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar, „gæslumenn almannahagsmuna", að sýna í verki að þeim sé ekki fyrirmunað að læra af reynslunni.


mbl.is Brýnt að leysa vanda stofnfjáreigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Getur verið að peningarnir sem notaðir eru til að bjarga BYR, SPRON og Sparisjóði Keflavíkur séu þeir peningar sem AGS hafði ætlað til skjaldborgar heimilanna?

Hefur þetta kannski alltaf verið undir borðinu, alveg frá Hruni, þegar ákveðið var að styrkja BYR með opinberum fjárhæðum frekar en að láta hann hrynja með öllu hinu?

Hrannar Baldursson, 26.4.2010 kl. 19:11

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Ekki sitja heima og gera ekki neitt!

Sigurður Haraldsson, 27.4.2010 kl. 00:34

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég er ánægður fyrir mig og mína fjölskyldu með að vera farinn frá Íslandi, en fyrir hönd samlanda minna sem þurfa að lenda undir þessum valtara, líður mér afar illa og botna ekkert í því að fólk skuli ekki rísa gegn þessu.

Hrannar Baldursson, 27.4.2010 kl. 04:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband