Mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála

Var að horfa á umræður stjórnmálamanna í Kastljósi kvöldsins um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem meðal annars var komið inn á fjármál stjórnmálasamtaka.

Þór Saari upplýsti að ekki stæði til gera fjárframlög frá fyrirtækjum til stjórnmálasamtaka óheimil, þrátt fyrir það sem á undan er gengið.  Er þessi fullyrðing framsett á grundvelli lagafrumvarpsdraga um breytingar á gildandi lögum um fjármál stjórnmálasamtaka sem rædd voru á fundi formanna flokkanna síðasta sunnudag. 

Nú er starfandi nefnd sem hefur með endurskoðun laganna að gera.  Þór tilgreindi sérstaklega að fulltrúi Sjálfstæðismanna í nefndinni væri á móti því að framlög lögaðila yrðu gerð óheimil.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hafnaði þessum ummælum Þórs hins vegar og sagði hið rétta í málinu að það hefði verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem hefði lagt það til að framlög lögaðila yrðu bönnuð, um það hefði aftur á móti ekki tekist sátt og lendingin orðið sú að lögaðilar megi styrkja flokkana um 300 þúsund krónur á ári.

Ég sit fyrir Hreyfinguna í umræddri nefnd en sitjandi fulltrúi Sjálfstæðisflokksins er Gréta Ingþórsdóttir.  Hins vegar er sú tillaga sem Bjarni vísaði til komin frá forvera hennar í nefndinni, Kjartani Gunnarssyni.  Var hún fram sett þegar flokkarnir tókust á um málið  þegar gildandi lög voru sett árið 2006.  Niðurstaðan varð þó eins og Bjarni lýsti.  Þegar þessi forsaga málsins var rædd í nefndinni fyrir nokkrum vikum spurði ég Grétu hvort hún vildi gera tillögu forvera síns að sinni.  Í stuttu máli sagt svaraði hún því neitandi.

Í 8. bindi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um fjárframlög bankanna til stjórnmálasamtaka og stjórnmálamanna.  Á bls. 170 er komið inn á þá lærdóma sem draga þurfi af reynslunni.  Þar segir m.a.: 

Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gætti þess að sofna ekki yfir kastljósinu í gærkvöldi og fannst raunar áhugavert að hlusta á þetta, m.a. vegna þess að greinilega kom fram að gömlu flokkarnir eru enn allir í sínum gömlu skotgröfum og forðast eins og heitan eld að reka hausinn upp yfir grafarbrúnina -- og komast enn upp með að svara öðru en þeir eru spurðir um.

Sigurður Hreiðar, 15.4.2010 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband