Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
30.4.2011 | 01:18
Kæri Einar Örn - opið bréf til borgarfulltrúa Besta flokksins
Ég hef undanfarið verið að bræða með mér þá hugmynd að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, taki sig saman og geri atlögu að því að endursemja um opinberar skuldir, en margir hagfræðingar segja að skuldastaða hins opinbera sé ósjálfbær eða á mörkum ósjálfbærni. Eftir því sem ég kemst næst eru ósjálfbærar skuldir þær skuldir sem talið er að skuldarinn hafi ekki burði til að greiða.
Ég gerði smá athugun á skuldum Reykjavíkur um daginn og komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað ársreikninga borgarinnar nokkur ár aftur í tímann að skuldir borgarinnar hafa aukist um 200 milljarða frá 2004 og er Reykjavík með skuldsettustu sveitarfélögum landsins, hlutfallslega. Til samanburðar má geta þess að fjárlög ríkisins 2011 eru 513 milljarðar og þar af fara 75 milljarðar eingöngu í vexti.
Hvað ætli Reykjavík borgi í vexti á ári? Og í hvað væri hægt að nota þá peninga sem kynnu að sparast ef vel til tækist til í endursamningum um skuldir borgarinnar og aðrar opinberar skuldir?
Ég ber mikla virðingu fyrir því að þú viljir eiga einlæga samræðu og talir heiðarlegt stjórn-mál, það vil ég líka gera. En ég vil gera gott betur. Ég vil ekki bara bæta umræðuhefðina heldur vil ég líka að öðruvísi verði stjórnað svo forgangsraða megi í þágu almennings fremur en fjármálakerfisins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég nefni þennan möguleika við fulltrúa Besta flokksins. Ég hef bæði sent Jóni Gnarr skilaboð á Facebook og svo hef ég líka reynt að koma skilaboðum til ykkar í gegnum kunningja minn sem ég veit að starfar með ykkur. Ég hef ekki fengið nein svör frá ykkur ennþá en ég efast ekki um að nóg sé að gera. Ég vona bara að þið séuð að gera rétt.
Með von um jákvæð viðbrögð,
Þórður Björn Sigurðsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2011 | 10:48
Af sambandi viðskipta og stjórnmála
Áttunda bindi skýrslu RNA ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í kafla II. 3 segir: Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna". Enn fremur segir í niðurlagi kaflans þar sem ályktanir eru dregnar og komið er inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni: Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."
Vegna ábendinga Evrópuríkja gegn spillingu (Greco) var sett á laggirnar nefnd sem endurskoðaði lög um fjármál stjórnmálasamtaka sem sett voru 2006 (líka vegna ábendinga Greco). Það er svo sérstakt rannsóknarefni hvers vegna sú löggjöf sem samþykkt var 2006 hefur leitt af sér stórauknar fjárveitingar til flokkanna úr ríkissjóði eins og Guðmundur Magnússon segir í bókinni Nýja Ísland - listin að týna sjálfum sér (bls 144). Niðurstaðan úr umræddri endurskoðunarvinnu var lagasetning í september 2010.
Málið var lagt fram af formönnum allra flokka á þingi utan Hreyfingarinnar sem gagnrýndi að lögin gerðu hvorki ráð fyrir að rofin verði óeðlileg tengsl á milli viðskipta og stjórnmála né að jafnræðis verði gætt við úthlutun opinberra fjármuna. Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn geta áfram tekið við peningum frá fyrirtækjum. Þá er flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við peningum frá einstaklingum án þess að upplýst sé í öllum tilfellum um viðkomandi styrkveitendur. Þessar ráðstafanir eru í andstöðu við markmið laganna sjálfra sem er að ...draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum." Einnig er lögunum ætlað ...að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið." Að þessu leiti eru lögin í innra ósamræmi sem seint verður talin vönduð lagasetning.
Gagnrýni Hreyfingarinnar virtist skila sér að einhverju marki í umræðum um málið á Alþingi, ef marka má orð Róberts Marshall, formanns allsherjarnefndar, þó ekki hafi hann treyst sér til að ganga lengra en raun ber vitni: Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en tekið vel í þá fyrirspurn sem til mín er beint í þessum efnum því að eins og hv. þingmanni er kunnugt tel ég hér um að ræða skref í rétta átt og vildi gjarnan að gengið yrði lengra. Hins vegar er það einfaldlega svo að ef maður lætur pragmatíkina" ráða - ég leyfi mér að sletta því orði hér í ræðustól Alþingis - er hér á ferðinni frumvarp sem er góð sátt um á milli meiri hluta þings og allra stjórnmálaflokka og því öruggt að þær breytingar sem hér eru kynntar til sögunnar gangi í gegn. Hins vegar hef ég ákveðnar skoðanir í þá áttina hvað varðar nafnleyndargólfið sem hér er sett í 200 þús. kr., hvort það eigi yfir höfuð að vera til staðar, ég mundi gjarnan vilja skoða það. Því sjónarmiði hefur jafnframt verið hreyft að fyrirtækjum eigi ekki að vera heimilt að styrkja stjórnmálaframbjóðendur eða stjórnmálasamtök."
Í byrjun október birtust niðurstöður skoðanakönnunar um efnið. Dagana 8. - 15. september 2010 kannaði Capacent Gallup afstöðu almennings til styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka. Í ljós kom að afgerandi meirihluti, eða 68%, eru andvíg því að íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum. Þá segjast 79% þjóðarinnar andvíg því að stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilit að taka við fjárframlögum frá einstaklingum án þess að nafn þess einstaklings sem veitir styrkinn sé gefið upp. Niðurstöður könnunar tala sínu máli. Jafnframt benda þær til þess að yfirgnæfandi meirihluti almennings styðji hugmyndir Hreyfingarinnar í þessum efnum.
Til að fylgja málinu eftir hafa þingmenn Hreyfingarinnar svo nýlega lagt fram lagafrumvarp. Helstu breytingar frumvarpsins eru þær að banna framlög lögaðila til stjórnmálasamtaka og að takmarka fjárframlög einstaklinga við 200 þús. kr., þó þannig að framlög hærri en 20 þús. kr. skuli gera opinber innan þriggja daga frá því að þau voru móttekin. Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stærri stjórnmálasamtök fái hærri fjárframlög en þau sem eru minni.
Fleiri aðilar í samfélaginu hafa vakið máls á fjármálum stjórnmálasamtaka, til að mynda hefur Lýðræðisfélagið Alda sent stjórnlagaráði erindi sem fjallar meðal annars um efnið.
Þá er nýafstaðin þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave III. Kosningabarátta já og nei hreyfinga í aðdraganda hennar gefur tilefni til að ræða hvort ekki sé nauðsynlegt sé að setja reglur þar að lútandi. Ef sú niðurstaða að 68% eru andvíg fjárframlögum frá fyrirtækjum til stjórnmálasamtaka er einhver vísbending um afstöðu manna til fjármála já og nei hreyfinga þarf það ekki að koma á óvart að einhverjir hafi sett spurningamerki við það að öflug hagsmunasamtök á borð við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samtök fjármálafyrirtækja hafi, samkvæmt frétt mbl, styrkt annan hópinn um eina milljón per samtök.
Ekki hafa já og nei hreyfingarnar opnað bókhaldið, enda er þeim það ekki skylt. Talsmenn já hreyfingarinnar Áfram sögðu þó að bókhaldið yrði lagt fram að baráttunni lokinni. Á vefsíðu AMX má lesa að talsmenn já hreyfingarinnar hafi sagt að um 10 milljónir hafi safnast, miðað við umfang kosningabaráttunnar er það þó dregið í efa af AMX. Talsmenn nei hreyfingarinnar Advice hafa upplýst að einstaklingar hafi fjármagnað baráttuna alfarið með frjálsum framlögum og alls hafi um sjö til átta milljónir safnast.
Verðum að læra að treysta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)