Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Skúli tekur undir með Hreyfingunni

Sem betur ver virðist vera að renna upp ljós fyrir fleirum en þingmönnum Hreyfingarinnar í málinu sem lagðist gegn þessu fyrirkomulagi frá upphafi.  Þegar verið var að koma þingmannanefndinni á laggirnar á sínum tíma gerði Hreyfingin formlegar breytingartillögur við það.  Í greinargerð með breytingartillögunni segir m.a.: 

,,Það er mat þinghóps Hreyfingarinnar að hætt sé við að tengsl og hagsmunaárekstrar muni gera trúverðugleika þingmannanefndarinnar að engu. Til að mark verði takandi á störfum nefndarinnar er það grundvallaratriði að þingmenn ákvarði ekki það verklag er varðar aðra þingmenn sem og ráðherra í þeirri vinnu sem framundan er.
    Með kosningu nefndar fimm manna utan þings, sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings, sem hefur það hlutverk sem breytingartillögur Hreyfingarinnar gera ráð fyrir er auk þess tryggt að Alþingi verði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald heldur fái stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald.
    Þá er vert að hafa í huga að þingið nýtur lítils trausts meðal borgara landsins og frumvarp forsætisnefndar óbreytt mun ekki verða til þess að þingið auki veg sinn og virðingu meðal landsmanna. Þvert á móti mun þetta verða til þess að breikka enn gjána á milli þjóðar og þings."

http://www.althingi.is/altext/138/s/0523.html


mbl.is Tel að þessi tilraun hafi mistekist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða ASÍ: Samningsvextir standi

Í kjölfar niðurstöðu hæstaréttar þann 16. júní 2010 stigu fjölmörg samtök fram og lýstu því yfir að samningsvextirnir ættu að standa.  Þar á meðal ASÍ. 

Á heimasíðu sambandsins má lesa í frétt sem birt var þann 23. júní 2010: ,,Afstaða ASÍ til þessa lögfræðilega álitaefnis er sú að skuldara beri að greiða samningsvexti."

Aðrir voru m.a. Samtök iðnaðarins, Hagsmunasamtök heimilanna, Talsmaður neytenda, Verkalýðsfélag Akraness og Neytendasamtökin.


mbl.is Hindrunum verið rutt úr vegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing um stjórnskipan og lýðræði

Eftirfarandi er hugleiðing um stjórnskipan sem byggir á þrískiptu ríkisvaldi hvar uppspretta valds liggur hjá almenningi.  Hugmyndin er að hver og ein grein ríkisvaldsins verði sjálfstæð þannig að forsendur fyrir nauðsynlegu aðhaldi aukist.

Löggjafarvald
Alþingi verði löggjafi þar sem þjóðkjörnir þingmenn eigi sæti.  Kjörtímabil verði fjögur ár í senn.  Ekki verði heimilt að sitja á þingi lengur en tvö kjörtímabil.  Ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi og hafi ekki heimild til að leggja fram þingmál.  Landið verði eitt kjördæmi og persónukjör þvert á flokka verði leyft.  Áfram verði heimilt að bjóða fram í flokkum.  5% reglan verði afnumin.  Lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og reglum um framboðskynningar verði breytt.  Fjöldi þingmanna verði tekinn til umræðu.  Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur verði virkt þannig að tiltekinn hluti þjóðarinnar og minnihluti þings geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál.

Framkvæmdavald
Þjóðkjörinn forseti verði æðsta embætti framkvæmdavaldsins.  Kjörtímabil verði fjögur ár í senn.  Ekki verði heimilt að sitja á forsetastóli lengur en tvö kjörtímabil.  Auk þess að vera einn af talsmönnum þjóðarinnar verði hlutverk forseta að staðfesta lög sem Alþingi samþykkir (málskotsréttur verður áfram fyrir hendi) og koma þeim til framkvæmdar.  Þannig verði hlutverk forseta að skipa ríkisstjórn.  Til athugunar kæmi að kjósa einstaka ráðherra beinni kosningu að auki.  Almennt verði reglugerðarheimilidir ráðherra takmarkaðar.  Ráðherrar veiti þingmálum í vinnslu umsögn.

Dómsvald
Hæstiréttur samanstandi af tilteknum fjölda dómara (oddatölu - eigi færri en fimm).  Val á dómurum fari þannig fram að meirihluti hæstaréttar verði ávallt þjóðkjörinn en minnihluti ákvarðist að jöfnu af framkvæmdavaldi annars vegar og ljöggjafarvaldi hins vegar.  Dæmi: Verði hæstaréttardómarar níu áfram verði fimm þjóðkjörnir, tveir kosnir af Alþingi og tveir skipaðir af forseta, fyrir hönd framkvæmdavaldsins.  Hæfniskröfur (og þar með kjörgengi) verði lögfestar.  Hæstaréttardómarar verði æviráðnir.


mbl.is Seldu reynslulausum bröskurum bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi viðheldur óeðlilegum tengslum viðskipta og stjórnmála

Svohljóðandi yfirlýsingu þingmanna Hreyfingarinnar sem ekki studdu málið má lesa á heimasíðu Hreyfingarinnar

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka.  Frumvarpið var lagt fram af formönnum allra flokka á þingi utan Hreyfingarinnar.  Nýsamþykkt lög gera hvorki ráð fyrir að rofin verði óeðlileg tengsl á milli viðskipta og stjórnmála né að jafnræðis verði gætt við úthlutun opinberra fjármuna.  Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn munu áfram geta tekið við peningum frá fyrirtækjum.  Þá verður flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við peningum frá einstaklingum án þess að upplýst verði í öllum tilfellum um viðkomandi styrkveitendur.

Þessar ráðstafanir eru í andstöðu við markmið laganna sjálfra sem er að „...draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum."  Einnig er lögunum ætlað „...að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið."  Að þessu leiti eru lögin í innra ósamræmi sem seint verður talin vönduð lagasetning.

Sú málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið við afgreiðslu málsins er í meira lagi tortryggileg.  Ekki fékk málið efnislega umfjöllun í allsherjarnefnd og beiðni um að gestir kæmu fyrir nefndina til að veita málinu umsögn var hafnað þó hefð sé fyrir slíku við afgreiðslu þingmála.  Svo virðist sem þingmönnum hafi legið á að afgreiða málið áður en þingmannanefnd sú sem ætlað er að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar hafi skilað af sér.

Þetta mál er skýrt dæmi um að Alþingi ætlar ekki að taka tillit til vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis og þeirra niðurstaðna sem fram koma í skýrslu hennar.  Áttunda bindi skýrslunnar ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008". Í kafla II. 3 segir:  „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna".[1] Enn fremur segir í niðurlagi kaflans þar sem ályktanir eru dregnar og komið er inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni:  „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."[2]

Með þessari lagasetningu hefur Alþingi hafnað niðurstöðum þess hluta skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem gagnrýnir harðlega tengingar stjórnmálaflokka við fjármála- og viðskiptalíf.  Því miður eru fjárhagslegir hagsmunir fjórflokksins settir skör ofar en almannahagsmunir.  Lýðræði og gegnsæi mega sín lítils gegn brenglaðri forgansröðun valdhafa.  

9. september 2010,
Birgitta Jónsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir
og Þór Saari

 

 

[1] Sjá bls. 164

[2] Sjá bls. 170


mbl.is Lög um fjármál stjórnmálaflokka samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband