Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Alheimsstríð lánardrottna

mynd

Michael Hudson

Michael Hudson skrifar:

Stríð geisar í heiminum, byggt á skuldafjötrum. Saklaus fórnarlömb, einstaklingar jafnt sem heilu hagkerfin, eru leidd inn í skuldahringekju sem þau sleppa ekki úr.

Lánardrottnar bjóða sífellt meiri lán og hrúga á skuldirnar samsettum vöxtum, vitandi sem er að lánin verða aldrei greidd aftur, nema með sölu eigna. Engin venjuleg framleiðsla getur haldið í við stigvaxandi samsetta vexti. Allar eignir eru hreinsaðar upp til að greiða endalausa vexti. Markmiðið er að greiðslurnar sjúgi eins mikið af tekjuafgangi og mögulegt er, svo í reynd er hagkerfið að greiða skatt til hinnar nýju stéttar fjármagnseigenda; bankamanna og stjórnenda fjárfestingarsjóða, lífeyrissjóða og vogunarsjóða. Helsta vopnið í þessu stríði er hugmyndir almennings um skuldir. Sannfæra verður skuldara um að greiða af sjálfsdáðum, taka hagsmuni lánadrottna fram yfir hagsmuni hagkerfisins í heild og jafnvel láta erlendar kröfur ganga fyrir þjóðarhagsmunum.




Kristnin og hreint borð

Þessi hefur ekki alltaf verið raunin. Allt aftur til 2400 fyrir Krist var venja hjá leiðtogum Súmera og Babýlóníumanna eftir fyrsta árið á valdastóli, að fella niður persónulegar skuldir þegnanna, sem og skuldir vegna landbúnaðar. Auk skuldaniðurfellingar voru þrælar leystir úr skuldaánauð og bændum afhent lönd sem þeir höfðu misst í hendur lánadrottna. Þá er skuldaniðurfelling kjarni laga Mósebóka biblíunnar þar sem kveðið er á um að skuldir skuli felldar niður með reglulegu millibili og þrælar leystir úr skuldaánauð.

Á tímum Jesú höfðu leiðtogar Gyðinga þegar hafið baráttu gegn Fagnaðarárinu og studdu í stað þess prosbul, lagaklausu sem heimilaði lánadrottnum að þvinga skuldunauta sína til að afsala sér rétti til skuldaniðurfellingar á Fagnaðarárinu. Í fyrstu ræðu sinni reyndi Jesú að verja Fagnaðarárið með því að lesa upp úr bók Jesaja og kunngjöra náðarár Drottins. Leiðtogar Gyðinga kröfðust þess að yfirvöld í Róm krossfestu hann. En kristindómur óx og með auknum pólitískum völdum náði hann fram merkustu efnahagslegu umbótum sínum sem voru að útrýma skuldaánauð úr Vestrænni menningu.

Kristnir menn bönnuðu vexti með öllu og gömul tungumál gerðu engan greinarmun á "vöxtum" og "okurvöxtum". Kirkja 13. aldar skilgreindi okurlán sem þjófnað og þar með brot á áttunda boðorðinu. Frá fornöld og fram á miðaldir Evrópu var þjófnaður yfirleitt í formi okurlána, þar sem veð voru innkölluð af mikilli hörku hjá þeim sem neyðst höfðu til að taka lán. Tómas Aquinas og Marteinn Lúter vöruðu við því árið 1516 að þessi starfsemi leggði borgríki í rúst á sama hátt og ormar skemma epli innan frá. Þessi aldagömlu viðmið eru nú í uppnámi.

Í Bandaríkjunum hafa greiðslukortafyrirtæki lagt háar upphæðir í kosningasjóði stjórnmálamanna sem reiðubúnir eru til að endurskoða gjaldþrotalög svo lán með veði í íbúðarhúsnæði verði varanleg og dómarar geti ekki fært þau niður sem hluta af greiðsluaðlögun. Sama gildi ekki um aðrar fasteignir á borð við sumarhús. Þetta gengur gegn fornum lögum sem tryggðu þegnum land til sjálfsþurftar, en ekki munað umfram það.




Evrópusambandið

Til að sjá samhengið verðum við að skoða hvað er að gerast í „Stór-Evrópu" nútímans. Eins og komið hefur fram í viðskiptafréttum hafa fyrrum Austantjaldsríkin lent í gríðarlegum erfiðleikum á leið sinni inn í Evrópusambandið á síðustu árum. Sú skoðun fer vaxandi í þessum ríkjum að Evrópa og Lissabonsáttmáli hennar hafi, í stað þess að hjálpa ríkjunum að byggja upp og hagræða í efnahagskerfi sínu, sleppt bönkum sínum lausum á þau. Bankarnir líti einungis á þessi ríki sem nýja lántakendur sem hægt er að skuldsetja - ekki til uppbyggingar í iðnaði eða innviðum samfélagsins, heldur með veði í fasteignum og auðlindum sem þegar voru til staðar. Það er eftir allt saman fljótlegasta leiðin til að græða og fjármálageirinn hefur ávallt lifað á skammtímahagnaði.

Þetta vandamál var óumflýjanlegt í ljósi blindrar trúar Evrópu á að allt sem auki "virði", jafnvel með því að blása upp verð fasteigna eða annarra eigna, feli í sér sömu framleiðni og aukin raunveruleg framleiðsla eða þjónusta. Afleiðingin var röð bóluhagkerfa sem byggðu á skuldsettri virðisaukningu fasteigna og hlutabréfa. Slíkar bólur springa alltaf á endanum. Seint og um síðir eru þjóðir að átta sig á því að eina leiðin til að greiða fyrir innflutning til langs tíma er að framleiða vörur til útflutnings. Þjóðir geta ekki, frekar en einstaklingar, lifað af greiðslukortum einum saman.



„Óþægilegur sannleikur“

Það er einfaldlega engin leið fyrir ofurskuldsettar þjóðir nútímans að „vinna sig út úr skuldum" með því að prenta peninga. Með því hrynur gengið og svo mikið fjármagn og fasteignir renna úr höndum þegnanna til lánadrottna að til verður nýtt, póstkapitalískt hagkerfi, án framleiðslu/neyslu, með minnkandi sjálfstæði, jafnrétti og sjálfbærni.

Tekjur eru fleyttar ofan af með því að hneppa einstaklinga og þjóðfélög í skuldafjötra samsettra vaxta. Lánadrottnar vita sem er að skuldin fæst aldrei greidd, nema með sölu eigna. Þannig eru eignir hreinsaðar upp í vaxtagreiðslur sem engan enda taka. Markmiðið er að hreinsa upp allan mögulegan tekjuafgang.

Vara þeirra er skuldir. Þeir byggja upp eigin auð með því að steypa öðrum í skuldir og neyða þá svo til að selja eignir sínar öðrum, sem aftur taka lán til að kaupa þær í þeirri von að geta hagnast á sölu þeirra síðar. Þetta er hin nýja auðmyndun þeirra sem græða á daginn og grilla á kvöldin, sem nú fellir hvert hagkerfið á fætur öðru um allan heim.



Hlutverk Bandaríkjanna

Það hljómar eðlilega að fólk greiði þær skuldir sem það hefur gengist undir á heiðarlegan hátt. Eðlilegar væntingar eru að fólk taki lán - og bankar láni — til arðbærra fjárfestinga, sem skapi tekjur svo lántakendur geti greitt lánið til baka með vöxtum.

Þannig var það að minnsta kosti. Enginn gerði sér í hugarlund heim þar sem bankamenn lánuðu ábyrgðarlaust til hvers sem hafa vildi, sem leiddi aftur af sér þann gríðarlega fjölda greiðsluþrota sem við verðum nú vitni að. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum eru um þriðjungur þeirra sem skulda af heimili sínu með neikvætt eigið fé. Það þýðir að áhvílandi lán eru hærri en virði eignanna sjálfra. Skuldir ríkisins hafa þrefaldast á síðasta ári, úr 5 billjónum dollara í 15 billjónir, í kjölfar björgunaraðgerða ríkisins. Þar á meðal má nefna yfirtöku á 5,2 billjóna dollara húsnæðislánarisunum Fannie Mae og Freddie Mac. Eitt einasta tryggingafélag, A.I.G. mun fá fjórðung úr billjón og einn banki, Citybank hefur fengið yfir 70 milljarða dollara og sér ekki fyrir endann á vandræðum hans. Hlutabréf í þessum fyrrum fjármálarisum hafa hrunið í verði og þingið deilir nú um hvort þjóðnýta skuli þá og þurrka þannig út eignir hluthafanna.

Bandaríkin eru skuldugasta þjóð heims og mun aldrei greiða erlendar skuldir sínar. Ríkissjóður mun halda áfram að gefa út skuldabréf í skiptum fyrir vörur, þjónustu og raunveruleg verðmæti frá Kína, Japan og öðrum lánadrottnum, þar til þær þjóðir sem sitja uppi með pappírana átta sig á hvers kona svikamyllu þau eru flækt í. Eins og Adam Smith sagði í riti sínu Auðlegð þjóðanna: „Engin þjóð hefur nokkru sinni greitt upp skuldir sínar." Mögulegt er að þvinga litlar þjóðir á borð við Ísland til að borga, þar til engar eignir eru eftir. En stórlaxarnir eru stikkfrí. Þeir stjórna alþjóðastofnunum, skrifa söguna, stjórna fjölmiðlaumfjöllun og laga til námsefni háskólanna, allt í eigin þágu.

Hin nýjungin er að í stað þess að hagnast á nýjum fjárfestingum er fljótlegasta leiðin til að græða, að taka eignir upp í skuldir á miklum afföllum og snúa sér svo við og selja þær með hagnaði á alþjóðamarkaði. Þó svo kenningin sé að ekkert sé ókeypis, er það svo að svik, innherjaviðskipti og einkavinavæðing sem ná hámarki í ríkisaðstoð, þar sem áhættan er ríkisvædd, en hagnaðurinn einkavæddur, færir einmitt fjármagnseigendum fjármuni almennings á silfurfati.



Fjármálastríð

Þjóðir vita hvenær þær verða fyrir árás óvinaherja. Þær verjast til að koma í veg fyrir að óvinirnir hernemi lönd þeirra og heimti af þeim skatta. Slíkur hernaður virðist við fyrstu sýn fjarri fjármálaheiminum. Allir vita að óvinaherjum er ekki boðið í heimsókn. Þeir eru ekki boðnir velkomnir þó þeir lofi að hjálpa til við uppbyggingu efnahagsins með því að leggja vegi eða byggja brýr (til að auðvelda skriðdrekum þeirra að komast um), virkja fallvötn til að flytja út orku (og halda eftir hagnaðinum), hótel og heilsulindir fyrir sig og aðra útlendinga (og stinga leigu og öðrum verðmætum í eigin vasa) eða setja upp flóknar tölfræðigreiningar til að stjórna hagkerfinu í eigin þágu.

Þetta herbragð fjármálaheimsins er nú orðið fjölþætt. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) er nokkurs konar handrukkari alþjóðlegra lánardrottna og innheimtir tekjur af fasteignum og iðnaði fyrir þá. Það ótrúlega er að þjóðir um allan heim eru að glata efnahagslegu og peningalegu sjálfstæði sínu án mótspyrnu. Þá hafa lífeyrissjóðir orðið vopn í höndum fjármálakerfisins. Þeir hafa verið notaðir miskunnarlaust til að fjármagna bólur á fasteigna- og hlutabréfamarkaði og hafa þannig unnið beint gegn hagsmunum þeirra sem í þá borga. Þannig er fjárhagslegur hernaður mun minna áberandi en hefðbundinn hernaður, því fórnarlambið gerir sér ekki einu sinni grein fyrir að verið er að ráðast á það. Afleiðingarnar eru hins vegar þær sömu. Meðalaldur styttist, fæðingum fækkar, vinnuafl flýr land, sjálfsmorðstíðni hækkar, sjúkdómar, áfengissýki og fíkniefnaneysla aukast. Líkt og hefðbundið stríð þurrkar út karla á aldrinum 25-40 ára, hrekur fjármálastríðið þá úr landi í atvinnuleit. Því hefur bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett kallað lánavöndla og álíka skuldaviðskipti „efnahagsleg gereyðingarvopn".

Bandaríkin, Bretland og AGS kalla kröfur sínar og skilyrði kapítalisma. Í raun er verið að koma á fjármálakerfi sem endar í skuldaánauð, ekki lýðræðislegum kapítalisma. Samsettir vextir þeirra eru að leggja heilu þjóðirnar í rúst. Sem dæmi um fáránlegan þankagang þeirra má taka dæmi af íbúð. Hvort myndir þú heldur vilja eiga 20 milljóna króna íbúð skuldlaust, eða 60% af sömu íbúð með uppblásið markaðsvirði upp á 50 milljónir? Í síðara tilfellinu ættir þú 60% af 50 milljónum, eða 30 milljónir, en aðeins 20 í því fyrra. Um allan heim hefur tekist að sannfæra fólk um að síðari kosturinn sé dæmi um „myndun auðs". Það sem gleymist er að af skuldsettu íbúðinni þarf að greiða vexti. Sú upphæð er 1,2 milljónir miðað við 6% vexti. Íbúðin er meira virði, en ber mun meiri kostnað, sem er jú tekjur fyrir fjármálafyrirtækin.

Á síðustu árum hafa fjármálamenn sannfært margar ríkisstjórnir um að selja ríkisfyrirtæki á borð við vatnsveitur og orkuver, einkum til að afla fjár til að greiða niður skuldir eða lækka skatta á þá tekjuhæstu. Þessi sala skammsýnna stjórnvalda á þjóðarauðlindum, sem studd hefur verið af nytsömum sakleysingjum sem veitt hafa efnahagsráðgjöf, breytir skuldsettum þjóðum í skattlendur, þar sem grunnþjónusta verður leið til að fleyta ofan af sífellt stærri hluta þjóðarteknanna til hagsbóta fyrir fáa útvalda. Galdurinn er að plata skuldara til að trúa því að frjáls markaður þýði að borga skuldir Þetta er í raun andstætt hinum frjálsa markaði, eins og klassískir hagfræðingar skilja hugtakið.



Leiðin út úr vandanum

Besta leiðin fyrir þjóðir út úr vandanum er verja eigin hagvöxt umfram hag lánadrottna og hafna því að eini kosturinn sé að þjóðin greiði þær skuldir sem fáeinir einstaklingar hafa steypt sér í. Hagur hagkerfisins í heildina er grundvallaratriði. Markmið lánadrottnanna er að auka völd sín, með því að setja greiðslu skulda í forgang. Því verr sem hagkerfi standa, því sterkari verða lánadrottnar. Þetta er leiðin að efnahagslegu sjálfsmorði sem endar í skuldaánauð þegar kreppan harðnar. Lánadrottnar um allan heim færa nú niður skuldir í samræmi við lækkandi fasteignaverð. Aldrei hefur verið betra tækifæri til að taka afstöðu til þess um hvað standa á vörð - óyfirstíganlegar skuldir eða framtíð íslensks samfélags? Munu stjórnvöld verja þegna sína fyrir efnahagslegum afræningjum, eða munu þau færa þeim íslenska hagkerfið á silfurfati?

Það er stóra spurningin.

Höfundur er sérfræðingur í alþjóðafjármálum, hefur verið ráðgjafi Hvíta hússins, bandaríska innanríkisráðuneytisins og varnarmálaráðuneytisins og vinnur að tillögu að nýrri skattalöggjöf fyrir Bandaríkin. Þetta er fyrri greinin af tveimur eftir Hudson sem birtast í Fréttablaðinu. Í þeirri síðari, sem birtist innan fárra daga, beinir hann sjónum sínum að Íslandi.


mbl.is Voru sammála um að lækka vexti um 1 prósentu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þverpólitísk samstaða að myndast um leiðréttingu íbúðalána?

Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að flokkar og framboð fyrir komandi kosningar hafi tekið undir með samtökunum um að leiðrétta þurfi höfuðstól húsnæðislána eins og sjá má í ályktunum landsfunda og/eða tillögum leiðtoga flokkanna.  Þó gagnrýnisraddir á þessa aðferð hafi verið háværar í fjölmiðlum þá hafa þær klárlega orðið undir á landsfundum flokkanna og Hagsmunasamtök heimilanna munu leggja hart að flokkunum að standa við stóru orðin.

Hér má sjá mjög áhugaverða samantekt á ályktunum og tillögum flokkanna, nú í aðdraganda kosninga.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband