Drögin í heild sinni birt hér.

1

Stöðugleikasáttmáli

Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB,

Kennarasambands Íslands, SSF, Samtaka atvinnulífsins,

ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þessi stöðugleikasáttmáli er gerður við mjög erfiðar aðstæður í efnahags- og atvinnumálum sem bitna

hart á heimilum og atvinnulífinu í landinu. Við þessar kringumstæður hafa aðilar þessa sáttmála

sameinast um aðgerðir til að vinna þjóðina út úr vandanum.

Markmið stöðugleikasáttmálans er að stuðla að endurreisn efnahagslífsins. Í upphafi viðræðna settu

samningsaðilar sér markmið um að í lok árs 2010 verði verðbólga ekki yfir 2,5%, halli hins opinbera

verði ekki meiri en 10,5% af VLF, dregið hafi úr gengissveiflum, gengið styrkst og hafi nálgast

jafnvægisgengi. Einnig verði vaxtamunur við evrusvæðið innan við 4%. Þannig hafi skapast skilyrði

fyrir auknum fjárfestingum innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti, nýrri sókn í atvinnumálum

og grunnur lagður að bættum lífskjörum til framtíðar.

Aðilar eru einnig sammála um að mikilvægt sé að styrkja stöðu heimilanna, verja undirstöður

velferðarkerfisins, standa vörð um menntakerfið og verja störf jafnt á almennum vinnumarkaði sem

og hjá hinu opinbera eins og aðstæður frekast leyfa.

Samhliða gerð þessa sáttmála hafa aðilar vinnumarkaðarins sameinast um að eyða óvissu á

vinnumarkaði með því að ljúka gerð kjarasamninga sem gilda til nóvemberloka árið 2010, þar sem

áhersla er lögð á að styrkja stöðu þeirra tekjulægstu.

Til að ná framangreindum markmiðum hafa aðilar þessa sáttmála sameinast um eftirfarandi:

1. Kjarasamningar

-Samhliða gerð þessa sáttmála hafa samningsaðilar á almennum vinnumarkaði náð

samkomulagi um að framlengja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til loka nóvember

2010.

-Samningsaðilar á opinberum vinnumarkaði munu eins fljótt og auðið er ganga frá

kjarasamningum sem byggja á þessum stöðugleikasáttmála.

-Forsendur stéttarfélaga á opinberum vinnumarkaði fyrir gerð kjarasamninga eru að ekki

verði gripið til lagasetninga eða annarra stjórnvaldsaðgerða sem hafa bein áhrif á innihald

kjarasamninga eða kollvarpa með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggja á.

Þetta hindrar þó ekki að sett verði lög sem kalla á breytingar á kjarasamningum enda sé um

slíkt samið milli aðila kjarasamnings í framhaldinu.

2. Fyrirliggjandi aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum

Ríkisstjórnin hefur kynnt samningsaðilum áform sín um aðgerðaráætlun í ríkisfjármálum 2009 2013.

Mikilvægt er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem allra fyrst og þá mögulega fyrr en gert er ráð fyrir í

sameiginlegri áætlun stjórnvalda og AGS.

Samstaða er um eftirfarandi fyrir tímabilið 2009
2011:

- Í ljósi þess að tekjustofnar ríkisins dragast mikið saman er mikilvægt að hlutdeild tekjuöflunar

í aðgerðunum verði ekki of mikil. Skattar verði lækkandi hlutfall aðlögunaraðgerða eftir

yfirstandandi ár og ekki samtals hærra en 45% þeirra fyrir árin 2009
2011.

- Fjárlagafrumvarp fyrir 2010 verði í samræmi við framlagða áætlun og þá liggi fyrir eins og

kostur er, endanleg og nákvæm útfærsla vegna 2011 ásamt nauðsynlegum lagabreytingum.

Virku samráði verði haldið áfram um undirbúning þessara áætlana í sumar og haust.

- Náist markmið þessa sáttmála um hraðari endurreisn efnahags- og atvinnulífs og verulega

minna atvinnuleysi en nú er spáð verði það svigrúm sem við það skapast nýtt til að verja

betur velferðarkerfið, draga úr skerðingum tryggingabóta, skattahækkunum og lækka

tryggingagjald. Gangi endurreisnin hægar en nú er spáð eru aðilar sáttmálans sammála um

2

nauðsyn þess að endurskoða aðhaldsaðgerðirnar í því ljósi, m.a. hagræna skiptingu tekna- og

gjaldahliðar ríkisfjármála.

3. Bætt staða lántakenda og skuldsettra heimila

Mikilvægt er að bæta stöðu skuldsettra heimila. Í því skyni mun ríkisstjórnin hraða vinnu

ráðherranefndar sem fjallar um stöðu þeirra. Þar verði m.a. lögð áhersla á að tryggja að þau úrræði

sem þegar hefur verið komið á gagnist eins og vænst var. Einnig verði gerðar tillögur í samráði við

aðila vinnumarkaðarins um viðbótarúrræði eftir því sem þörf krefur. Þá skal sérstaklega horft til þess

hóps sem nýlega keypti sína fyrstu eign.

Jafnframt verði lagðar fram tillögur í samráði við aðila vinnumarkaðarins um það hvernig styrkja megi

stöðu lántakenda á fjármálamarkaði.

4. Framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu

Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda sbr. þjóðhagsáætlun, s.s.

framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma

sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, s.s. gagnaverum og kísilflöguframleiðslu.

Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1.

nóvember 2009.

Einnig verði unnið skipulega að úrvinnslu áforma um aðrar stórfjárfestingar í atvinnulífinu þannig að

taka megi ákvarðanir sem fyrst um hugsanlegan framgang þeirra.

Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir sbr.

minnisblað vegna verklegra framkvæmda dags. 16.06.2009 o.fl. með sérstakri fjármögnun. Stefnt skal

að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009. Aðkoma

lífeyrissjóða að slíkum verkefnum útilokar ekki þátttöku annarra fjárfesta eða lánveitenda, innlendra

sem erlendra.

Sveitarfélög og önnur stjórnvöld tryggi að farið verði að tímafrestum við gerð skipulags og allar

leyfisveitingar og greitt verði fyrir nýjum fjárfestingum eins og kostur er.

5. Endurreisn bankanna

Eigendastefna ríkisins gagnvart bönkunum feli í sér að erlendir aðilar geti eignast meirihluta í

einhverjum nýju bankanna og eftir atvikum öðrum fjármálafyrirtækjum. Þannig verði m.a. reynt að

tryggja eðlilegan aðgang að erlendu lánsfé fyrir atvinnulíf og heimili. Endurskipulagningu á eignarhaldi

bankanna verði lokið 1. nóvember 2009.

Upplýst verði hvernig farið verður með gjaldeyrisjöfnuð bankanna fyrir 17. júlí 2009.

6. Endurreisn atvinnulífsins og samfélagsleg ábyrgð

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins móti sameiginlega viðmið sem fylgt verði við endurreisn

atvinnulífsins og aðkomu opinberra aðila að atvinnustarfsemi og eignarhaldi fyrirtækja. Í þessu starfi

verði m.a. stuðst við viðurkenndar innlendar og erlendar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja.

7. Hömlur á gjaldeyrisviðskipti

Hömlum á gjaldeyrisviðskiptum verði aflétt í áföngum í samræmi við tímasetta áætlun

ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að koma stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Áætlunin

verði lögð fram fyrir 1. ágúst og taki mið af lausn á vanda vegna fjármagnsflæðis úr landi. Leitast verði

við að aflétta hömlum á nýrri fjárfestingu fyrir 1. nóvember 2009.

Meðal þeirra leiða sem reynt verði að fara er að erlendir aðilar fái uppgerðar kröfur sínar í krónum á

hendur ríki eða Seðlabanka með skuldabréfum til langs tíma í evrum eða öðrum erlendum

gjaldmiðlum. Þá verði látið reyna á áhuga lífeyrissjóðanna á að koma að viðskiptum við erlenda aðila

sem eiga eignir í íslenskum krónum.

3

8. Málefni sem snúa sérstaklega að sveitarfélögum

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga munu efla samstarf sitt á sviði efnahagsmála og

styrkja samræmingu áætlanagerðar og þjóðhagsreikninga hins opinbera búskapar. Ennfremur munu

ríki og sveitarfélög eiga með sér aukið samstarf um fyrirkomulag aðhaldsaðgerða og þróun afkomu

beggja aðila. Þá verður gengið frá útistandandi skuldum ríkisins vegna húsaleigubóta.

Í þeim aðhaldsaðgerðum sem sveitarfélögin standa frammi fyrir munu þau leggja áherslu á að verja

grunnþjónustuna og störfin sem kostur er. Ljóst er að í einhverjum tilfellum kunna einstök sveitarfélög

að telja þörf á auknum þjónustutekjum en reynt verður að takmarka gjaldskrárhækkanir sem kostur

er.

Samband íslenskra sveitarfélaga og aðilar vinnumarkaðarins munu skipa samráðshóp til að fjalla um

leiðir til að standa vörð um grunnþjónustu á vegum sveitarfélaga og forgangsröðun í starfsemi þeirra.

9. Málefni lífeyrissjóða

Ríkisstjórn, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins munu í sameiningu taka lífeyrismál og málefni

lífeyrissjóða til umfjöllunar. Farið verður yfir málin frá grunni án skuldbindinga og fjallað um

framtíðarsýn í þessum málaflokki.

Að óbreyttu hvílir sú lagaskylda á sjóðunum að endurskoða fjármögnun þeirra og/eða skerða réttindi

sjóðsfélaga. Aðilar eru sammála um að gera ráðstafanir til að unnt sé að fresta slíkum ákvörðunum að

sinni á meðan unnið er að heildarendurskoðun.

10. Lækkun vaxta

Aðilar vinnumarkaðarins treysta því að með þessum stöðugleikasáttmála skapist forsendur fyrir því að

stýrivextir Seðlabanka Íslands lækki í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember 2009 og að þeir og aðrir vextir

bankans fari síðan áfram lækkandi. Aðilarnir leggja einnig áherslu á að til að örva hagkerfið, efla

atvinnulífið og bæta stöðu heimilanna sé nauðsynlegt að vextir lækki hratt á næstu mánuðum og að

vaxtamunur við útlönd verði ásættanlegur.

11. Samstarf um eftirlit á vinnumarkaði og vinnustaðaskírteini

Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld taki upp virkt samstarf um eftirlit á vinnustöðum og

vinnustaðaskírteini í samræmi við bókun ASÍ og SA frá 17. febrúar 2008. Markmiðið með slíku

samstarfi er m.a. að tryggja að starfsmenn njóti umsaminna réttinda og vinna gegn svartri

atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir nauðsynlegum

lagabreytingum um almennt eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini.

12. Framkvæmd yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 og tengd atriði

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:

- Lögfest verði gjald í Starfsendurhæfingarsjóð frá atvinnulífinu á árinu 2009. Sjóðurinn fái

úr ríkissjóði 150 milljóna framlag á árinu 2010. Svo fremi að áfram verði unnið á

grundvelli sáttmála þessa mun framlag ríkisins í sjóðinn hækka í 250 milljónir 2011 og

350 milljónir 2012. Lögfesta skal framlög til sjóðsins frá lífeyrissjóðum Lögfesta skal á

næsta þingi að frá og með 1. júlí 2013 greiði ríkið 0,13% af tryggingagjaldsstofni til

sjóðsins. Komið verði á samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að meta

jafn óðum árangur og framhald verkefnisins.

- Skattaleg meðferð greiðslna úr sjúkra- og fræðslusjóðum, greiðslur úr verkfallssjóði og

fleiri tengd atriði verði endurskoðuð með hliðsjón af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í

febrúar 2008.

- Framlög til fullorðinsfræðslu verði aukin í samræmi við yfirlýsinguna. Þá verði gert

samkomulag um aðkomu opinbera vinnumarkaðarins að kerfinu.

4

13. Fyrirvari Samtaka atvinnulífsins vegna sjávarútvegsins

Samtök atvinnulífsins viðhalda þeim fyrirvara gagnvart framlengingu kjarasamninga að vinna á vegum

ríkisstjórnarinnar um endurskoðun fiskveiðistjórnunar verði í þeim sáttafarvegi sem lagt var upp með

við skipan nefndar til þess að vinna að því máli.

14. Framgangur sáttmálans o.fl.

Allir aðilar þessa stöðugleikasáttmála samþykkja að vinna að framgangi sáttmálans og annarra brýnna

samfélagsverkefna á formlegum samráðsvettvangi ofangreindra aðila auk Bændasamtakanna, undir

forystu forsætisráðherra.


mbl.is Ekki meira en 45% skattar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað með lágu launin öryrkjanna?

Ég (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband