„Ef vér slítum í sundur lögin, slítum vér og í sundur friðinn“

Sættir og málamiðlun í deilum eru lykilhugtök í friðarboðskap þeirra bóka sem skrifaðar voru á mestu

ófriðartímum þjóðarinnar, þegar kristni var tekin upp á landinu árið 1000. En hvernig skildu menn þess

tíma hugtakið lög? Lög voru alls ekki lagabókstafurinn fyrst og fremst; lögin voru samfélagið sjálft, hin

siðræna undirstaða, rétt hegðun gagnvart náunganum, heiðarleiki. Ef lögin voru slitinn, ef samfélagið var

brotið upp var ófriður skollinn á. Nú hafa þessi varnaðarorð Þorgeirs Ljósvetningagoða orðið að

raunveruleika á okkar tímum, þegar ráðamenn þjóðarinnar hafa “slitið í sundur lögin.”

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill með meðsendu fylgiskjali koma á framfæri lykilatriðum um

málefni heimilanna inn í umræður um Samfélagssáttmála þann sem nú er í smíðum.

Sem frjálsir þegnar hefur almenningur í landinu kosið sér fulltrúa, sér jafna menn og konur, til að fara með

hagsmunamál sín í stjórnsýslu og lykilstofnunum samfélagsins. Það er gert í því sjónarmiði að jafna stöðu

þegnanna á milli, skapa jöfn skilyrði til atvinnustarfsemi og jafnframt að hlúa að uppbyggingu

samfélagslegra þátta.

Undanfarin ár hefur þessi skilningur snúist allur á hvolf og þegnarnir eru farnir að þjóna

samfélagsyfirbyggingunni og eru orðnir að þrælum fjármálastofnana. Ef skapa á skilyrði fyrir frjálsa þegna

til að búa í þessu landi og byggja hér upp atvinnulíf til framtíðar verður að snúa þessum formerkjum aftur

við og hlúa að grunnstoðum samfélagsins, þegnunum sjálfum, heimilunum í landinu.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna óskar ykkur góðs gengis í þeirri miklu vinnu sem þið eigið fyrir

höndum og er boðin og búin til að leggja sitt af mörkum í því samhengi, sé þess óskað.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, Reykjavík 5. júní 2009

www.heimilin.is

Póstur þessi hefur og verður einnig sendur til:

Forsætisráðherra

Fjármálaráðherra

Viðskiptaráðherra

Dómsmálaráðherra

Félagsmálaráðherra

Allra þingmanna allra flokka

Ríkissáttasemjara

Stjórnar ASÍ

Stjórnar SA

Stjórnar SI

Allra helstu sambanda og félaga verkalýs og launþega

Sambands Íslenskra sveitarfélaga og aðilarfélaga

Fjölmiðla

Samtökum, stofnunum og talsmanni neytenda

 

Markmið og kröfur til nýs samfélagssáttmála

Markmið

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna telur ljóst að alger forsendubrestur sé kominn upp í veðlánum

heimila, bæði hvað varðar verð
‐ og gengistryggð lán, sem vegur að fjárhagslegu sjálfstæði íslenskra heimila

og grefur undan tilvist þeirra og framtíðarsýn.

Forsendur endurreisnar eru að leiðréttingar á stöðu mála eigi sér stað í sumar og í framhaldi sameinist

hagsmunaaðilar og stjórnvöld um endurmótun og þróun kerfis með það að leiðarljósi að ábyrgð í

lánveitingum verði framvegis deilt af meira jafnræði milli lánveitenda og lántaka. Jafnframt verði samtímis

hafist handa við að snúa ógnvekjandi skuldastöðu heimilanna við.

Hagsmunasamtök heimilanna setja hér með fram tillögur að leiðum, sem innlegg í nýjan samfélagssáttmála,

til að sátt náist aftur milli hins opinbera, fjármálakerfis, atvinnulífs og heimila hér á landi sem allra fyrst. Sú

sátt sem hefur varað í fjölda mörg ár, um í raun meingallað fjármálakerfi, var rofin í undanfara

bankahrunsins. Ljóst er að hvorki heimilin né atvinnulífið í landinu hafa lengur ráð á núverandi verðtryggðu

lánakerfi, sem hlýtur að kalla á fullkomna endurskoðun kerfisins. Til að endurheimta og byggja aftur upp

traust milli þessara aðila og koma á nýjum samfélagssáttmála telur stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

nauðsynlegt að vinna að eftirfarandi markmiðum og aðgerðum:

Meginmarkmið er að efla trú landsmanna á grunnstoðir samfélagsins í kjölfar hrunsins og byggja upp

von um sanngjörn og uppbyggileg skilyrði fyrir fjölskyldur hér á landi til framtíðar og koma þar með í

veg fyrir upplausn og umfangsmikinn landflótta.

Leiðrétta stöðu gengis‐ og verðtryggðra neytendalána strax í sumar.

Leitað verði allra leiða til að skapa eins mörgum og hægt er fjárhagslegar forsendur til að halda

húsnæði sínu með því að laga til langs tíma greiðslubyrði að greiðslugetu, án þess að lengja stöðugt í

lánum

Endurvinna kaupmátt heimilanna með því að draga markvisst úr skuldsetningu þeirra með skýrri

sameiginlegri stefnumörkun hins opinbera, samtaka neytenda, launþega og atvinnulífs. Forðast ber

þensluhvetjandi úrræði og álögur sem munu hækka beint innlent verðlag og draga þannig úr

samkeppnishæfi framleiðslufyrirtækja, útflutningsgreina og ferðaþjónustufyrirtækja.

Afnema tengingu neysluverðsvísitölu við veðlán neytenda og gera lánakjör veðlána sambærileg og á

Norðurlöndunum.

Koma á virkum samkeppnismarkaði með íbúðarhúsnæði, bæði á eignar‐ og leigumarkaði.

Tryggja að allir landsmenn, 18 ára og eldri, geti verið þátttakendur á húsnæðismarkaði eftir efnum,

áherslum og aðstæðum.

Endurskapa fjármálakerfið sem sanngjarnan bakhjarl heimila og atvinnulífs landsins, sem stenst

samanburð fjármálakerfa Norðurlandanna.

Jafna ábyrgð lántakenda og lánveitenda við útlán, m.a. með því að takmarka veð við veðandlag,

takmarka kröfur um ábyrgðarmenn, afnema samkeppnishamlandi gjöld og kvaðir fjármálafyrirtækja.

Snúa kredithagkerfinu í debethagkerfi með áherslu á frjálsan sparnað.

Tryggja betri vernd og vitund neytenda um rétt og skyldur með eflingu málaflokksins.

Yfirfara og endurskoða útreikninga og forsendur verðtryggingar og verðbreytinga á núverandi

lánasöfnum, fyrir 1.okt. nk.

Endurskoða lög um greiðsluaðlögun, innheimtukostnað og fyrningarfrest fyrir 1.okt. nk., svo að

kynnt úrræði virki í reynd fyrir almenning, séu raunhæf úrræði og þannig að viðreysnar sé von eftir

þrot.

 

Bráðaaðgerðir ‐ tillaga HH að nauðsynlegum tafarlausum aðgerðum

Grunnkrafa er gerð um að ábyrgð og kostnaði sé jafnað milli lántakenda og lánveitenda með leiðréttingu

veðlána, samkvæmt tillögum HH á fjárhagslegum skaða þeim sem hlotist hefur í aðdraganda og í kjölfar

hruns fjármálakerfisins. Samtökin hafna einhliða boðaðri leið stjórnvalda að deila kostnaði vegna

efnahagshrunsins út frá skuldastöðu heimilanna eins og nú er gert með því að knýja fram

skuldaviðurkenningu veðkrafna fjármálastofnana. Þessar veðkröfur sem um ræðir eru langt umfram þær

skuldir sem upphaflega var stofnað til af samningsaðilum og þar með langt umfram upphaflega samninga og

greiðsluáætlanir. Þær fela í raun í sér stórtæka eignaupptöku í eiginfjárhlut fjölskyldna í fasteignum,

sparnaði og jafnvel ævilanga áskrift fjármálafyrirtækja að framtíðartekjum lántakenda. Samtökin hafna því

einnig að hægt sé hægt að senda bakreikninga á verðtryggð lánasöfn heimilanna með beinum hækkunum á

neysluverðsvísitölu. Heimilin eru ekki, og mega ekki vera, botnlaus sjálftökusjóður til að bæta fyrir tjón sem

varð vegna óábyrgrar útlánastefnu fjármálastofnana og meingallaðrar efnahagsstjórnar stjórnvalda.

Gerð er krafa um að hrun efnahagskerfisins og þar með vandi heimilanna sé skilgreint sem þjóðhagslegt

vandamál, sem beri að taka á með tilstilli sameiginlegra sjóða og taka tillit til í samningagerð við kröfuhafa,

þar sem byrðum verði deilt í samræmi við tekjur.

Ríkissjóður takmarki ábyrgðir sínar á skuldbindingum vegna fjármálastofnana við reglugerðir og

samþykktir. Jafnræðis verði gætt í úrræðum og lausnum gagnvart mismunandi eignarformum.

Leiðrétting gengistryggðra veðlána. Boðið verði upp á að breyta gengistryggðum veðlánum

heimilanna í verðtryggð, sem miðist við gengi lántökudags. Lánið verði síðan uppreiknað miðað við

verðbætur frá og með sama tíma.

Leiðrétting verðtryggðra veðlána. Verðbótaþáttur verðtryggðra veðlána heimilanna verði leiðréttur

aftur til 1.janúar 2008 og miðist þá við 4% verðbótaþak skv. hámarks þolmörkum

verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands.

Leiðrétting veðlána taki einnig til uppgjöra á veðlánum frá og með 1.janúar 2008, þar með talið uppog

inngreiðslum á höfuðstóla og nauðasamningum.

Tafarlaust verði sett á stofn sáttanefnd / gerðardómur í anda tillagna Talsmanns neytenda með það

að markmiði að forða frekari eignabruna og frekari fjárhagshremmingum heimilanna með sem

skjótvirkustum hætti. Mikilvægt er að almenningur fái sem fyrst skýr jákvæð skilaboð um að

stjórnvöld kveði á um jöfnun ábyrðar milli lántakenda og lánveitenda, sem samtímis eflir traust milli

almennings, stjórnvalda og fjármálakerfisins og styrkir greiðsluvilja.

Breyting á lögum um greiðsluaðlögun, skv. tillögum HH sem lagðar voru fyrir Alsherjanefnd Alþingis

(sjá vefsíðu www.heimilin.is). Meginefni tillagna HH voru að úrræðið gildi fyrir alla óháð

atvinnuformi. Jafnframt að úræðið taki strax á skuldum fólks en ekki verði farin leið sem má kalla

lengingu á hengingaról með tilsjónarmanni.

Breyting á lögum um innheimtulög. Krafa HH er að lágmarks neytendavernd komi fram í þessum

lögum og reglugerð sem þeim fylgir. Setja þarf % þak á innheimtukostnað t.d. 20% á skuldir innan

við 50.000 kr. Koma þarf í veg fyrir göt í lögum, sem gera slyngum innheimtulögfræðingum kleift að

nýta sér í innheimtuaðgerðum sínum gagnvart heimilum.

Breyting á lögum um fyrningu kröfuréttinda. Krafa HH er að fyrning fyrir einstaklinga sé 5 ár og

alfarið sé komið í veg fyrir að hægt sé að endurnýja fyrndar kröfur með nokkrum hætti.

 

Viðsnúningur ‐ tillaga HH að aðgerðum til viðsnúnings á skuldastöðu heimilanna

Grunnkrafan er að stjórnsýslan í samvinnu við fulltrúa neytenda og verkalýðshreyfinguna setji fram

markvissa og tímasetta áætlun um leiðir til að minnka skuldastöðu heimilanna. Árið 1995 voru

heildarskuldir 125% af ráðstöfunartekjum og höfðu hækkað í 221% af ráðstöfunartekjum við ársbyrjun 2008

og um 280% við árslok 2008. Á sama tíma hefur skuldastaða heimila hinna Norðurlandanna farið lækkandi.

Neytendastofnun verði stofnuð að norrænni fyrirmynd og fjármögnuð af ríkinu. Þar verði öll svið

neytendamála sameinuð og efld stórlega. Meginmarkmið er að snúa ofan af sí hækkandi

skuldsetningu heimilanna með breytingum á samkeppnisumhverfi helstu útgjaldaþátta heimilanna,

breytingum á fjármögnun veðlána, aukinni upplýsingagjöf um réttindi , skyldur og efla almenna

meðvitund um fjármál heimila og einstaklinga með það að markmiði að hvetja til debetneyslu og

frjáls sparnaðar.

Tafarlaust verði sett á nefnd / gerðardómur sem yfirfari reiknireglur og útfærslur á útreikningi

verðbóta út frá neysluverðsvísitölu. Reikniaðferðir fjármálastofnana verði sannreyndar. Komi fram

misbrestur á útreikningi lántakendum í hag verði tafarlaust sett fram tímasett áætlun um

leiðréttingu.

Tafarlaust verði sett fram tímasett áætlun um afnám verðtryggingar og að kjör á veðlánum neytenda

verði sambærileg kjörum Norðurlanda. Fram að afnámi verði bæði sett þak á óverðtryggð breytileg

veðlán og á verðbætur verðtryggðra veðlána.

Samkeppnishamlandi gjöld við veðlán verði tafarlaust afnumin. Öll gjöld við afgreiðslu lána

endurspegli raunkostnað og verði föst upphæð, óháð upphæð láns.

Kvaðir fjármálastofnana um umfang viðskipta verði bannaðar.

Jafna ber ábyrgð lántakenda og lánveitenda við ný veðútlán, með því að lögboðið verði að veð skuli

ávallt takmarkast við veðandlag.

Breytingar á lögum um ábyrgðarmenn, þar sem óheimilt verði að krefjast ábyrgðarmanna við veðlán.

Skattaumhverfi verði breytt þannig heimilin og menntun verði varin í víðasta skilningi. Koma verður í

veg fyrir beina fjárhagslega hvatningu kerfisins til skilnaða og undanskota frá sköttum.

Í skattaáherslum séu innbyggðir hvatar til að stofna til heimila / fjölskyldna, þar sem sérstaklega er

tekið tillit til barnafjölskyldna. Heimiluð verði nýting persónuafsláttar innan kjarnafjölskyldna, þeas.

milli foreldra og ungmenna á framfærslu foreldra sinna. Vaxta
‐ og húsaleigubætur komi til afsláttará tekjuskatti vegna kaupagreiðslna eða leigugjalds á lögheimili. Hvatt verði til sí‐ og

endurmenntunar með skattaafslætti á útlögðum kostnaði vegna náms og vegna faglegrar

símenntunar. Mótuð verði valfrjáls sparnaðarleið fyrir ungt fólk til fasteignakaupa sem veiti afslátt af

tekjuskatti, sbr. BSU kerfi Norðmanna.

 

Efnahagslegt jafnvægi til framtíðar ‐ tillögur HH

Grunnkrafan er að slegin verði raunverulegri skjaldborg um heimili landsins og að lausnir í dag skapi ekki

augljós ný vandamál til framtíðar, ss. undirliggjandi verðbólguþrýsting vegna yfirþyrmandi persónubundinna

skulda heimila og atvinnulífs.

Lágmarka ber umfang þrotaúrræða með fyrirbyggjandi aðgerðum til að skjóta styrkari stoðum undir

atvinnustig og þar með greiðslugetu og greiðsluvilja, sem munu skila sér í minni undanskotum. Það mun

einnig styrkja fjárhagslega stöðu ríkis og sveitarfélaga.

Lækka verður stýrivexti, lánskostnað og auka almenna lánafyrirgreiðslu tafarlaust til að forða enn

frekari þrengingum atvinnulífsins, til að forða frekari útbreiðslu atvinnuleysis.

Íbúðalánasjóður verður að taka þátt í samkeppni við aðrar fjármálastofnanir með boði á

endurfjármögnun fasteignaveðlána og óverðtryggðum lánum.

Fjölga ber möguleikum á búsetu‐ og eignarformum heimila til samræmis lausnum á

Norðurlöndunum. Ef lánshlutfall verður lækkað sbr. tillögur um takmörkun veðs við veðandlag er

ljóst að eftirspurn eftir leiguhúsnæði mun aukast verulega. Ennfremur þarf að stuðla að meiri

samkeppni á milli eignar‐ og leiguforma til að framkalla eðlilegri verðmyndun á fasteignamarkaði.

Skattaumhverfi verði endurskoðað og endurmetið til jöfnunar og jákvæðrar stýringar til samræmis

við norrænt fjölþrepa skattaumhverfi.

 

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Reykjavík 5. júní 2009


mbl.is Ólíklegt að sátt náist í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband