28.5.2009 | 12:06
Er ábyrgðin heimilanna?
Nokkur umræða hefur farið fram að undanförnu um að heimilin hafi sýnt óráðsíu í lántökum undanfarin misseri og beri því að axla sínar byrðar vegna þess. Þegar rýnt er í tölur varðandi lán íslenska þjóðarbúsins má lesa úr þeim ýmsar upplýsingar. Síðastliðin fjögur ár hafa erlendar skuldir aukist verulega og langt umfram það sem þjóðarbúið getur borið. Hver er hlutur heimila í þessum lántökum?
Skuldir heimila við lánakerfið í septemberlok 2008
Í millj. kr. Hlutfall
Lán í ísl. krónum 1.575.014 83,3%
Gengistryggð lán 315.360 16,7%
Samtals 1.890.374 100%
Tafla 1
Heimild: Seðlabanki Íslands
Taflan hér að framan sýnir heildarskuldir heimila við lánakerfið. Hér er um að ræða skuldir við bankakerfið, ýmis lánafyrirtæki, lífeyrissjóði, tryggingafélög og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Samkvæmt því sem taflan sýnir voru gengistryggð lán heimila í lok september 16,7% af heildarskuldum heimila við lánakerfið. Rétt er að fram komi að heimilin eru með eignarleigusamninga að fjárhæð 85.268 m. kr. Ekki liggur fyrir hvernig þessir samningar skiptast á milli gengistryggðra og verðtryggðra samninga. Þessi upphæð er hér talin með lánum í íslenskum kr. Hún nemur 4,5% af heildarskuldum heimila. Hluti þessara samninga eru gengistryggðir. Ekki er vitað hversu háar þær upphæðir eru.
Skuldir fyrirtækja við bankakerfið
Aðgengilegar upplýsingar eru til um skuldir fyrirtækja við bankakerfið. Tafla 2 sýnir hvernig skuldir fyrirtækja skiptast á milli íslenskra króna og skulda þeirra sem eru gengistryggðar við bankakerfið.
Skipting útlána til annarra en heimila í septemberlok 2008
Í millj. kr. Hlutfallsleg skipting
Lán í ísl. krónum 1.169.635 30%
Gengistryggð lán 2.686.074 70%
Samtals 3.855.708 100%
Tafla 2
Heimild: Seðlabanki Íslands
Eins og tafla 2 sýnir voru gengistryggð lán fyrirtækja orðin 70% af heildarskuldum þeirra við innlánsstofnanir í septemberlok 2008. Væntanlega segir þetta nokkuð um þá vaxtastefnu sem rekin hefur verið hér undanfarin misseri. Það hefur verið álit margra að vextir á Íslandi hafi verið orðnir svo háir að almennt hafi fyrirtæki ekki getað staðið undir þeim vaxtakostnaði og því hafi fyrirtæki í auknum mæli tekið gengistryggð lán. Einnig ætti þetta að segja nokkuð um hver staða íslenskra fyrirtækja almennt er í dag með svo hátt hlutfall af gengistryggðum lánum.
Erlendar skuldir annarra en banka
Hér er um að ræða aðila sem tekið hafa lán beint hjá erlendum bönkum og lánastofnunum en ekki með milligöngu íslenskra banka. Um er að ræða opinbera aðila, þ.m.t. sveitarfélög, félög í eigu ríkis og sveitarfélaga og væntanlega stór íslensk félög sem hafa haft bolmagn til að taka lán beint hjá erlendum bönkum. Hér er um að ræða skuldir sem staðið verður að mestu við að greiða. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að hér er ekki um að ræða hluta af skuldum íslensku bankanna.
Erlendar skuldir annarra en banka
í millj. kr.
2004 2008
Seðlabankinn 142 371.352
Ríki og sveitarf. 212.384 533.988
Aðrir geirar 173.731 1.136.172
Bein fjárfesting 56.946 247.241
Samtals 443.203 2.288.753
Hlutfall af vergri landsframleiðslu
48,4% 151,2%
Tafla 3
Heimild: Seðlabanki Íslands
Eins og taflan sýnir er gríðarleg aukning erlendra lána. Aukningin er fimm föld á fjögurra ára tímabili, þ.e. frá árslokum 2004 til ársloka 2008. Þessi skuldsetning nemur 151% af vergri landsframleiðslu. Samanborið við 48% af vergri landsframleiðslu árið 2004. Að því gefnu að erlendar skuldir orkufyrirtækja séu að mestu teknar beint erlendis vega þau nokkuð þungt í skuldsetningunni. Þannig eru samtals erlendar skuldir Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, skv. ársreikningum þessara félaga, samtals 515 ma. kr. Erlendar skuldir Landsvirkjunar eru um 80% af skuldum félagsins og Orkuveitu Reykjavíkur um 90%. Fyrir liggur að mörg sveitarfélög hafa tekið lán erlendis sem nú eru að sliga þau.
Að undanförnu hefur gengisvístala íslensku krónunnar farið hækkandi og því borið við að um sé að ræða þrýsting á krónuna vegna mikilla vaxtagreiðslna af svokölluðum Jöklabréfum. Umræðan er eins og að ekki þurfi að greiða af öðrum erlendum skuldum. Rætt er um að þessi Jöklabréf séu að höfuðstól um 500 ma. kr. Skuldir annarra en banka eru skv. framanrituðu 2.288 ma. kr. Hér er um að ræða að stórum hluta skuldir vegna hins opinbera og tengdra aðila. Miðað við að vextir af þessum lánum séu að meðaltali 3,5% gerir það í vaxtagreiðslur á ári um 80 ma. kr. Það er eins og þessar erlendu skuldir þjóðarbúsins gleymist í allri umræðunni. Þessar skuldir hreinsast ekki út með gjaldþroti bankanna. Þessi skuldsetning hlýtur að setja mikinn þrýsting á íslensku krónuna með þeirri afleiðingu að verðlag hækkar. Hverjir bera ábyrgð á þessum lántökum? Heimilin hafa hvergi komið hér nærri.
Peningastefna undangengin ár
Af framanrituðu má ljóst vera að peningastefna íslenskra stjórnvalda undanfarin ár hefur algerlega mistekist. Hún hefur einkennst af háum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og frjálsu flæði fjármagns inn í landið. Á sama tíma var nægt fjármagn til á erlendum mörkuðum og stýrivextir annarra Seðlabanka mun lægri en á Íslandi. Á peningastefnunni bera stjórnvöld ábyrgð en ekki heimilin.
Stýrivextir á Íslandi hafa verið svo háir að nánast enginn atvinnurekstur hefur getað staðið undir þeim. Á sama tíma hefur boðist erlent fjármagn á mun lægri vöxtum. Þetta hefur leitt til þess að fyrirtæki bæði í einkaeign og opinberri eigu hafa nánast alfarið snúið sér að gengistryggðum lánum á þeim vaxtakjörum sem viðgengust í viðkomandi löndum. Má í því sambandi nefna m.a. Orkuveitu Reykjavíkur með um 90% af sínum lánum erlendis frá og hlutfall gengistryggðra lána fyrirtækja hjá bankakerfinu 70%. Háir stýrivextir hafa ekki einungis leitt til þess að leitað hefur verið eftir erlendum lántökum heldur hafa erlendir fjármagnseigendur einnig verið tilbúnir að koma með peninga til ávöxtunar á háum vöxtum hér á landi. Miklu hærri en í nágrannalöndunum.
Afleiðingin af þessari stefnu hefur verið sú að hér hefur verið nægt framboð af peningum langt umfram hagvöxt og innlendan sparnað sem síðan hefur komið fram í aukinni verðbólgu. Jafnframt að íslenska krónan var framan af mun sterkari en raunveruleg efni stóðu til. Einnig má ætla að þau fáu fyrirtæki í atvinnurekstri sem tekið hafa lán í íslenskum krónum með svo háum vöxtum hafi þurft að velta kostnaði af þeim lánum út í verðlagið sem síðan hefur leitt til hærri verðbólgu. Að lokum hrundi allt bankakerfið.
Enn eru stýrivextir á Íslandi mun hærri en í nágrannalöndunum þrátt fyrir að hér sé verulegur samdráttur. Ástæðan er sögð Jöklabréf þrátt fyrir að aðrar erlendar skuldir en banka séu margfalt hærri en svokölluð Jöklabréf. Háir stýrivextir geta ekki gert annað en ýtt undir verðbólgu þegar fyrirtæki þurfa að taka slík lán svo ekki sé minnst á heild- og smásöluaðila, sem þurfa að fjármagna sig með slíkum dýrum lánum. Þeir hljóta að velta kostnaðinum beint út í verðlagið. Eitt af brýnustu verkefnum stjórnvalda er að lækka stýrivexti.Hagsmunasamtök heimila vara stjórnvöld við háum stýrivöxtum.
Vara við frekari erlendum lántökum
Samkvæmt framanrituðu eru erlendar skuldir annarra en banka í árslok 2008 2.289 ma. kr. og nema 151% af vergri landsframleiðslu. Væntanlega hefur þessi skuldsetning leitt til versnandi lánshæfismats á Íslandi. Gert hefur verið samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og nokkur þjóðlönd um lántöku að upphæð um kr. 650 ma. kr. og að auki er rætt um yfirtöku á skuldum vegna gamla Landsbankans vegna svokallaðra ICESAVE-reikninga, að upphæð um 650 ma. kr.
Ef af þessu verður er skuldaaukningin samtals um 1.300 ma. kr. til viðbótar við 2.289 ma. kr. Þannig gætu erlendar skuldir þjóðarbúsins verið orðnar um 3.589 ma. kr. í árslok 2009, eða 240% af áætlaðri vergri landsframleiðslu í ár. Rétt er að leggja áherslu á að vegna lántöku vegna ICESAVE-reikninga koma peningur ekki inn í landið, heldur einungis skuldaaukning. Hætta er á að þetta geti leitt til enn frekari lækkunar á lánshæfismati Íslands með enn frekari útgjöldum fyrir ríki, sveitarfélög og félög í eigu ríkis og sveitarfélaga. Slíkum kostnaði er síðan velt yfir á heimilin með hækkun skatta, lakri velferðarþjónustu og hækkun þjónustugjalda o.s.frv.
Jafnframt gæti þessi lántaka haft neikvæð áhrif á gengi íslensku krónunnar og vegið þar með á móti lántöku frá AGS. Með vísan til framanritaðs vara Hagsmunasamtök heimilanna við frekari erlendum lántökum af hálfu ríkisins.
Tillaga til sáttar
Af framanrituðu má ljóst vera að það hafa ekki verið íslensk heimili sem farið hafa ógætilegast í erlendum lántökum, því er ábyrgðin ekki þeirra. Sú peningastefna sem fylgt hefur verið hefur neytt fyrirtæki og sveitarfélög til að taka erlend lán. Vegna þessa þurfa m.a. sveitarfélög að finna leiðir til að draga úr kostnaði m.a. að lækka laun starfsmanna, hækka gjöld og skatta, sem allt kemur niður á heimilunum. Að auki eru skuldir heimila að sliga þau. Af framanrituðu má sjá að mistök hafa verið gerð sem nú eru að bitna á heimilum þessa lands án þess að þau hafi komið þar nærri.
Hagsmunasamtök heimilanna ítreka tillögur sínar um að komið verð til móts við heimili og fyrirtæki í landinu:1. Gengistryggðum lánum verði breytt í verðtryggð lán miðað við það gengi sem var þegar viðkomandi lán var tekið.2. Vísitala neysluverðs verði leiðrétt. Þannig taki bæði skuldarar og lánveitendur á sig skaðann af bankahruninu.
Verði farið að þessum tillögum mun fjölda heimila og fyrirtækja verða forðað frá gjaldþroti. Þetta mun leiða til þess að hjól atvinnulífsins fara að snúast að nýju.
Fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna,
Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur.
Kreppan grefur undan mannréttindum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ennþá er ekkert gert fyrir heimilin í landinu. Fólk bíður bara í öngum sínum. Það er ekkert verið að gera fyrir fólkið í landinu. Á meðan blæðir heimilunum á Íslandi. Þetta er bara ömurlegt. Maður veit hreinlega ekki hvernig þetta endar...
Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 19:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.