1.5.2009 | 09:00
Skorað á launþegasamtök
Hagsmunasamtök heimilanna og Húseigendafélagið
skora á
verkalýðshreyfinguna
Ofangreind hagsmunasamtök, skora á launþegasamtök og verkalýðsfélög landsins að taka afgerandi stöðu með heimilunum í landinu vegna gríðarlegs og hratt vaxandi fjárhagsvanda þeirra, sem er m.a. afleiðing ófyrirsjáanlegra, óeðlilegra og jafnvel ólöglegra hækkana á gengis- og verðtryggðum veðlánum heimilanna í kjölfar efnahagshrunsins.
Um 42% heimila eru með bága eða neikvæða eiginfjárstöðu skv. gögnum Seðlabanka Íslands frá síðustu áramótum. Allt bendir til að efnahagur þeirra hafi versnað enn frekar frá áramótum og muni halda áfram á þeirri voðabraut, nema gripið verði inn í með almennri leiðréttingu lánanna. Um 25% heimila landsins eru með gengistryggð veðlán og um 90% þeirra eru í tímabundinni frystingu. Umsóknum Íbúðarlánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika hefur fjölgað um 900% á milli ára.
Forsendur verð- og gengistryggðra lána eru brostnar og þeim heimilum fjölgar ískyggilega hratt sem geta ekki staðið í skilum eða sjá hvorki tilgang né skynsemi í að greiða af lánum sem hækka stjórnlaust úr öllu valdi . Kaupmáttur rýrnar óðum og atvinnuleysi er í sögulegum hæðum, sem leiðir til samdráttar í einkaneyslu, sem eykur svo atvinnuleysið enn frekar.
Með samhentu átaki má rjúfa þennan vítahring og snúa þessari óheillaþróun við. Aukið fjárhagslegt svigrúm heimilanna mun fljótt efla atvinnulífið, draga úr atvinnuleysi og styrkja afkomu fjármálakerfis, sveitarfélaga og ríkissjóðs.
Undirrituð samtök skora á launþegahreyfingar landsins að knýja á stjórnvöld og kalla eftir tafarlausum almennum leiðréttingum á gengis-og verðtryggðum lánum heimilanna. Í þessu samhengi er vert að benda á nýlega kynnta sáttartillögu talsmanns neytenda vegna sama vanda.
Skráðir félagar í ofangreindum samtökum eru samtals um 11.000.
Reykjavík, 30.4.2009
F.h. Hagsmunasamtaka heimilanna,
Þórður Björn Sigurðsson
F.h. Húseigendafélagsins
Sigurður Helgi Guðjónsson
Efling í sameiningarviðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér er lífsins ómögulegt að skilja þetta samstarf Hagsmunasamtaka heimilanna, með Húseigendafélaginu. Ég held að það verði þessum samtökum ekki til framdráttar
Kristbjörn Árnason, 1.5.2009 kl. 10:24
Stundum gildir orðtækið: "sama hvaðan gott kemur", Kristbjörn!
Hér eru á ferðinni mikil réttlætismál og jafnframt lífsspursmál fyrir alla þjóðina, að mínu mati.
"Auk þess legg ég til að verðtryggingar-gálginn verði höggvinn niður!"
Hlédís, 1.5.2009 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.