22.4.2009 | 12:59
Áskorun til allra stjórnmálaframboða
Hagsmunasamtök heimilanna skora á alla framboðslista til að sameinast um að slá raunverulegri skjaldborg um heimilin, með yfirlýsingu um tafarlausar almennar aðgerðir til leiðréttingar á gengis- og verðtryggðum veðlánum heimilanna, strax að loknum kosningum.
Fjárhagsvandi heimilanna er gríðarlegur og samofinn hratt versnandi rekstrargrundvelli atvinnulífsins. Á þessum tímapunkti hafa stjórnvöld tækifæri til að fyrirbyggja frekara tjón og boða til nýrrar þjóðarsáttar milli hins opinbera, fjármálakerfisins, atvinnulífsins og heimilanna.
Einungis með slíkri yfirlýsingu mun skapast svigrúm til að vinna að farsælli lausn með breiðri þátttöku allra hagsmunaaðila heimila og atvinnulífs.
Tugþúsundir heimila eru nú þegar í mjög þröngri og hratt versnandi fjárhagsstöðu. Atvinnuleysi er í raun mun meira en gefið er upp, því fjöldi forráðamanna smáfyrirtækja eiga engan annan kost en að halda áfram verkefnalausum rekstri þar til lánveitendur fara fram á þrotaskipti. Fyrirsjáanlegt er að þúsundir, ef ekki tugþúsundir einstaklinga munu þurfa á nauðasamningum greiðsluaðlögunar að halda verði ekki gripið inn í þróunina með almennum fyrirbyggjandi aðgerðum, til að forða frekari þrengingum og hruni efnahagskerfisins. Eftir nauðarsamninga greiðsluaðlögunar verða einstaklingar vanhæfir til fjárskuldbindinga og festinga í 4-5 ár. Þetta á bæði við um fjölskyldur og einnig til að skapa sér sjálfstæðan atvinnurekstur , þar sem litlum rekstrareiningum er gert að setja persónuleg veð gegn fjárskuldbindingum rekstrarins. Slík fjárfestingaleg lömun af þessari stærðargráðu mun hafa gríðarlega neikvæð og langvinn áhrif á hagkerfið í heild.
Lykilatriði nýrrar þjóðarsáttar er að aðilar deili afleiðingum hrunsins með sér af jafnræði og sanngirni. Samtökin telja allar forsendur veðlánasamninga brostnar. Sífellt fleiri röksemdir benda til að fjármálastofnanir hafi beitt lántakendur órétti með markaðsíhlutandi aðgerðum og óeðlilegri eigin hagsmunagæslu um árabil. Sú verðbólga sem stjórnvöld hafa valið að láta ganga yfir heimili og atvinnulíf á grundvelli verðtryggingar, bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla og vísitölu neysluverðs, er óverjanleg í ljósi aðstæðna og verður að leiðrétta til að skapa sátt til enduruppbyggingar samfélagsins.
Landsmönnum er flestum orðið ljóst að verðtrygging fjárskuldbindinga, sem kveðið var á um í lögum nr 13/1979, fær ekki staðist lengur. Lánskjaravísitalan hefur sprengt gjaldþol þegnanna, ekki aðeins heimila og fyrirtækja heldur einnig opinberra stofnana og ríkissjóðs sjálfs. Sjálfkrafa vaxtahækkanir samkvæmt vísitölu neysluverðs mynda vaxta og verðlagsskrúfu sem ekki er unnt að hemja. Hér er rétt að geta þess að lög nr. 13/1979 gerðu ráð fyrir verðbótavísitölu á laun sbr. 48.gr. Hún var afnumin í byrjun níunda áratugarins en lánskjaravísitala ekki. Það orkar tvímælis og spurning hvort slíkt standist lög. Mikil útlán gengistryggðra lána er jafnframt skýr höfnun á lánakerfi verðtryggðra veðlána sem tengjast vísitölu neysluverðs.
Bent er á að mikill vafi leikur á lögmæti gengistryggðra veðlána á grundvelli skýringa með 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Þar segir orðrétt: Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.
Brýn þörf er á að setja sem allra fyrst saman ópólitíska nefnd til gagngerrar endurskoðun á núverandi íbúðarlánakerfi og rannsóknar á útreikningi verð- og gengistryggðra veðlána.
Það er afar brýnt nefndin sé skipuð óháðum fagaðilum, fulltrúum hagsmunaaðila, neytenda og oddamanns til að hefja vinnu við að leiðréttingu þessara lána nú þegar. Þverpólitísk samstaða verður að ríkja um að aðfarir vegna vanefnda á veðlánum heimilanna verði óheimilar þar til endurmat veðlána liggur fyrir út frá niðurstöðum nefndarinnar og þær liggi fyrir ekki síðar en 1.desember 2009.
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
22.4.2009 Reykjavík
Athugasemdir
Sælir.
Ég meina það er alltaf verið að tala um það að gera hitt og gera þetta en svo er ekkert gert. Hvað er málið? Ég meina þetta er náttúrulega ekkert sniðugt. Maður hreinlega spyr sig. Það er engum að treysta í þessu.
Gangi ykkur vel í samtökunum.
Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 17:29
Gangi ykkur vel með þessa áskorun.
Hilmar Gunnlaugsson, 22.4.2009 kl. 23:12
Mér finnst það liggja beinast við að samtök sem ykkar eigi fulltrúa í nefndum hjá alþingi þar sem ákvarðanir eru teknar um aðgerðir fyrir heimilin.....að fólkið eigi sinn fulltrúa og talsmann í svona mikilvægum málum.
gangi ykkur vel..
katrín
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 23.4.2009 kl. 09:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.