17.6.2011 | 16:01
Verðtryggingin ólögleg svikamylla?
Eftirfarandi færsla byggir á greiðsluseðli fyrir gjalddaga á verðtryggðu láni. Í færslunni er útskýrt hvernig lánveitandi þríverðbætir lánið á hverjum gjalddaga. Í fyrsta lagi er höfuðstóllin verðbættur, í annan stað er greiðsla af höfuðstól verðbætt og í þriðja lagi eru vextir verðbættir. Í framhaldi er gerður samanburður á heildarendurgreiðslu verðtryggðs láns annars vegar og óverðtryggðs láns hins vegar. Í restina er þeirri spurningu velt upp hvort sú aðferðafræði sem fjármálafyrirtæki viðhafi við innheimtu verðtryggðra lána standist lög.
Forsendur
Lántökudagur | 6.11.2003 |
Lánsfjárhæð | 1.400.000 |
Lánstími | 30 ár |
Vextir | 5,60% |
Grunnvísitala | 229 |
Gjaldagi (12 á ári) | 1.1.2007 |
1. Verðbætur á höfuðstól lánsins
Eftirstöðvar á síðasta gjalddaga | 719.354 |
Breyting á vísitölu neysluverðs milli gjalddaga | 266,1 |
266,2 | |
Breyting í % | 0,04% |
Verðbætur á eftirstöðvar | 270 |
(skýring: 719.354 x 0,04% = 270) |
Fyrst er höfuðstóll lánsins verðbættur. Það er gert með því að reikna út breytingar á vísitölu milli mánaða og breyta svo höfuðstól lánsins í samræmi við þá hlutfallstölu. Þessi hlutfallstala stýrir öllum áreiknuðm verðbótum á höfuðstól og vexti lánsins í hverjum mánuði, 12 sinnum á ári. Vegna gjalddaga í janúar 2007 hækkar vísitalan um 0,04% milli mánaða. Verðbætur á eftirstöðvar eru því 0,04% x 719.354 kr. = 270 kr.
2. Verðbætur á greiðslu af höfuðstóli lánsins
Greiðsla af höfuðstól án verðbóta | 826 |
Verðbætur á greiðslu af höfuðstól | 134 |
Greiðsla af höfuðstól með verðbótum | 960 |
Eftirstöðvar eftir greiðslu með verðbótum | 718.664 |
(skýring: 719.354 + 270 - 960 = 718.664) |
Þá er greiðsla af höfuðstól verðbætt. Eins og sjá má í töflunni er greiðsla af höfuðstól án verðbóta í janúar 826 kr. Verðbætur á greiðslu af höfuðstól eru 134 kr.
Greiðsla með verðbótum er 960 kr. Formúlan fyrir eftirstöðvar höfuðstóls er þessi: Eftirstöðvar á síðasta gjalddaga + verðbætur á eftirstöðvar - greiðsla af höfuðstól með verðbótum. Fyrir janúar 2007 væri þetta því svona í krónum: 719.354 + 270 - 960 = 718.664.
3. Verðbætur á vexti
Vextir með verðbótum | 3.358 |
Til greiðslu á gjalddaga | |
Greiðsla af höfuðstól með verðbótum | 960 |
Seðilgjald | 300 |
Til greiðslu á gjalddaga | 4.618 |
Auk verðbóta á höfuðstól og verðbóta á greiðslu af höfuðstól eru reiknaðar verðbætur á vexti. Samkvæmt greiðsluseðlinum eru vextir með verðbótum 3.358 kr. Sú upphæð auk greiðslu af höfuðstól með verðbótum og seðilgjalds mynda stofn til greiðslu á gjalddaga. Það sem ekki er greitt strax vegna þessa gjalddaga færist á höfuðstól.
Margfeldisáhrif verðbóta á höfuðstól
Fyrir greiðsluna í janúar 2007 var höfuðstóll lánsins 719.254 kr. Greiðslan á gjalddaga var 4.618 kr. Eftirstöðvar eftir greiðslu voru 718.664. Staða lánsins lækkar því um 590 kr. milli mánaða. Slíkt er reyndar fáheyrt þegar um verðtryggð lán er að ræða og skýrist af þeirri staðreynd að nánast engin verðbólga var milli mánaða, eða 0,04%.
Öðru máli hefði gegnt ef við hefðum litið á gjalddaga þegar verðbólga er meiri, sem hún er nú vanalega, t.d. í október 2007 þegar VNV hækkaði um 1,3% milli mánaða, þá voru samtals greiddar 4.788 kr. af láninu (takið eftir að greiðsla á gjalddaga hefur hækkað um 3,7% á 10 mánuðum) en höfuðstóllinn hækkaði engu að síður um 8.572 kr., eða úr 729.249 kr. í 737.821 kr. eftir greiðslu á gjalddaga. Verðbætur á eftirstöðvar voru 9.613 kr. Þarna höfum við gott dæmi um hvernig sjálkrafa verður til nýtt lán fyrir hluta af vöxtunum sem til falla (verðbætur eru vextir), lán sem sjálfkrafa færist á höfuðstólinn sem er svo verðbættur aftur og aftur um hver mánaðarmót.
Af þessu fæst ekki annað ráðið en að lánveitendur þríverðbæti verðtryggð lán. Í ljósi þeirra margfeldisáhrifa sem slík vaxtavöxtun hefur í för með sér er ekki furða að menn veigri sér við því að taka slík lán. Hafa ber í huga að dæmið sem ég tek hér miðaðst við nánast enga breytingu á VNV milli mánaða og að höfuðstóll lánsins er undir milljón. Í þeim aðstæðum þar sem lánsfjárhæðin er hærri og verðbólga meiri erum við ekki að tala um breytingar á höfuðstól milli mánaða í þúsundköllum heldur jafnvel hundraðþúsundköllum eins og margir lántakendur eflaust kannast við.
Samanburður á verðtryggðu og óverðtryggðu láni
Til að útskýra betur virkni margfeldisáhrifanna er gott að bera saman verðtryggt og óverðtryggt lán. Einn helsti munurinn á óverðtryggðu láni og verðtryggðu láni er að þegar um óverðtryggt lán er að ræða eru allir vextir borgaðir jafnóðum en ekki að hluta til færðir mánaðarlega á höfuðstól lánsins. Þannig hefur verið reiknað út, eins og sjá má í eftirfarandi töflu, að munur á heildarendurgreiðslu getur hlaupið á tugum milljóna þegar um 10 milljón króna lán til 30 ára er að ræða:
Verðtryggt lán | |
Lánsfjárhæð | 10.000.000 |
Vextir | 5% |
Verðbólga | 7% |
Fyrsta greiðsla | 54.581 |
Síðasta greiðsla | 409.238 |
Heildarendurgreiðsla | 63.347.906 |
Óverðtryggt lán | |
Lánsfjárhæð | 10.000.000 |
Vextir | 12% |
Verðbólga | hefur ekki áhrif |
Fyrsta greiðsla | 103.456 |
Síðasta greiðsla | 103.456 |
Heildarendurgreiðsla | 32.244.307 |
Af þessu er ljóst að 12% óverðtryggðir vextir jafngilda ekki 5% óverðtryggðum vöxtum + 7% verðbólgu. Margfeldisáhrif verðbóta á höfuðstól koma í veg fyrir það. Í þessu sambandi hefur einnig verið reiknað út að til að (ónúvirt) heildareindurgreiðsla óverðtryggðst 10 milljón króna láns verði jafnhá því verðtryggða, eða rúmar 63 milljón krónur þurfi að miða við 21% óverðtryggða vexti.
Er þetta löglegt?
Í dag þegar eitt ár og einn dagur er liðinn frá því hæstiréttur úrskurðaði um ólögmæti gengistryggingar er vel við hæfi að velta því upp hvort innheimta verðtryggðra lána hvíli á traustum lagalegum stoðum. Ég vænti þess að dómstólar muni koma til með að skera úr um það áður en langt er um liðið. Nýlega las ég texta eftir lögfræðing sem segir að svo sé ekki. Lagaheimild skorti fyrir því að höfustóll sé verðbættur eins og ég útksýri hér að ofan (liður 1). Hins vegar sé heimilt að verðbæta greiðslur af höfuðstól og vexti (liður 1 & 2).
---
,,Í kolli mínum geymi ég gullið, sem gríp ég höndum tveim, svo fæ ég vexti, og vaxtavexti, og vexti líka af þeim." -Sigurður Hreiðar
Allt netinu að kenna" | |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Athugasemdir
Og HVAÐ í ósköðunum kemur þetta þessari frétt við......
Jón Ingi (IP-tala skráð) 17.6.2011 kl. 20:04
Það væri gaman að lesa álit þessa lögfræðings, gæturðu vísað í það.
Því ég fæ þveröfuga niðurstöðu, að það sé leyflegt að verðbæta höfuðstól, en ekki afborgun og vexti.
Reglugerð Nr. 492/2001 4. gr. höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingu á vísitölunni milli gjalddaga.
Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.
Með öðrum orðum skal höfuðstóll verðbættur en ekki afborgun og vextir.
Siggi T. (IP-tala skráð) 18.6.2011 kl. 12:22
Fróðleiksmoli:
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/verdtrygging-eilifdarvelin-sem-brast?page=2&offset=-5
Almenningur (IP-tala skráð) 18.6.2011 kl. 13:04
Þórður, hvernig færðu í lið 2 að verðbætur á greiðsluna séu 134kr?
Hið rétta er að ef þú ætlar að verðbæta greiðsluna eingöngu (sbr. lögfræðiálitið okkar) þá eru verðbætur = 826kr * 0,0004 = 0,3304 krónur
Siggi T, ert þú ekki að vitna í reglugerð eða reiknireglur seðlabankans, en ekki í lögin sjálf? Sú niðurstaða sem athugun HH leiðir okkur að er að reglugerðin/reiknireglur seðlabankans samræmast ekki lögunum sjálfum. Lestu hvernig orðalagið er í lögum 38/2001 og þú sérð hvað við er átt.
Andrea J. Ólafsdóttir, 18.6.2011 kl. 13:27
Lögfræðimgarnir hljóta að eiga við 13. gr. laga Nr.38/2001
Afleiðusamninga má ekki verðtryggja,svo sannarlega er hægt að halda því fram að verðtryggð lán á Íslandi séu Afleiðusamningar.
Síðan segir í 15gr. sömu laga að Seðlabankinn setur nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár,samk. Reglugerð 492/2001.og í 4. gr. þeirrar reglugerðar segir að höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs.
Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.
Ég get ekki fengið annað út en það sé bannað að leggja verðbætur ofaná afborgun og vexti,því þá er verið að leggja verðbætur í þrí gang ofan á sömu krónurnar.
Siggi T. (IP-tala skráð) 18.6.2011 kl. 16:26
Sæl öll. Takk fyrir innlit og athugasemdir.
Andrea, varðandi verðbætur á greiðsluna rak ég mig á það sama og þú við ritun færslunnar. Ég átta mig ekki á því hvernig lánveitandinn reiknar þennan lið út nákvæmlega (líkt og verðbótaþátt vaxta), en styðst við þá krónutölu sem fram kemur á greiðsluseðlinum. Ef einhver getur útskýrt þennan þátt betur væri það vel þegið.
Siggi T, orðalagið í 13. gr. laga 38/2001 sem ég geri ráð fyrir að Andrea vísi til hljóðar svo:
Þarna kemur skýrt fram að heimilt er að verðtryggja greiðslur. Ekki er heimild fyrir því í lögum 38/2001 að verðtryggja höfuðstól. Lögfræðitextinn sem ég vísa til í færslunni tekur efnið einnig fyrir í sögulegu samhengi sem skýrir það enn frekar. Ég hef því miður ekki umboð til að birta þennan texta eins og er en hyggst gera honum betri skil þegar þar að kemur.
Þórður Björn Sigurðsson, 18.6.2011 kl. 17:49
Skýring liggur fyrir á því hvernig verðbótaþáttur á greiðslu af höfuðstól er reiknaður.
Fundin er út hlutfallstala út frá grunnvísitölu. Þeirri hlutfallstölu er svo beitt á greiðlsu af höfuðstól.
Í þessu dæmi lítur þetta þá svona út:
826 x 266,2 / 229 = 960
Og til að reikna verðbæturnar sérstaklega þarf að reikna út hlutfallslegu hækkunina: 266,2 / 229 = 1,1625 eða 16,25%. 0,1625 x 826 = 134
Þórður Björn Sigurðsson, 18.6.2011 kl. 18:09
Sú tala sem beitt er til að reikna út verðbætur á vexti er hlutfallsleg hækkun VNV milli mánaða eða 0,04%.
Þórður Björn Sigurðsson, 18.6.2011 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.