Þriðja leiðin – frumvarp Hreyfingarinnar um stjórn fiskveiða

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.  Markmið frumvarpsins er að færa úthlutun á aflaheimildum úr sameiginlegum fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar til þess horfs sem hún var í áður en framsal aflaheimilda kom til árið 1991, en fram að þeim tíma hafði úthlutunin byggt á veiðireynslu til margra ára og var því bæði sanngjörn og réttlát. Með frumvarpinu er einnig reynt að tryggja að aflaheimildir fari til þeirra byggða sem þeim var upprunalega úthlutað til. Miðað er við að aflahlutdeildin sé nýtt í viðkomandi sveitarfélagi. Þó er sveigjanleiki í nafni hagkvæmni tryggður þar sem aflahlutdeildin er framseljanleg þegar hagkvæmnisrök gefa tilefni til. Með því móti verður réttur íbúa sjávarbyggða á Íslandi til sjósóknar tryggður eins og verið hefur frá örófi alda sem eini raunverulegi grundvöllur tilvistar flestra þeirra. Auk þess stuðlar frumvarpið að fjárhagslegri endurskipulagningu útgerðar á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins.

 

Arðurinn renni til þjóðarinnar
Skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á fiskistofnunum í kringum landið í fyrstu tveimur greinum laga um stjórn fiskveiða. Þar segir orðrétt:

„1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2. gr. Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um. Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn."

Frumvarp Hreyfingarinnar tryggir að arður af nytjastofnum á Íslandsmiðum skili sér til réttmætra eigenda þeirra, íslensku þjóðarinnar. Upptaka uppboðskerfis við sölu aflaheimilda tryggir hámarksverð fyrir nýtingarrétt auðlindarinnar en þó eingöngu að því marki sem útgerðirnar geta borið. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hluta aflaheimilda megi selja framvirkt til allt að fimm ára í senn þannig að þeir sem hyggjast fjárfesta í útgerð geti gert ráð fyrir aðgengi að heimildum til lengri tíma en eins árs. Þá er sveigjanleiki tryggður með því að útgerðir utan viðkomandi sveitarfélaga geta keypt aflaheimildir gegn greiðslu 10% álags eða gjalds.

Ákvæð gegn brottkasti og mikil atvinnusköpun  
Með ákvæði um meðafla er stefnt að því að girða að mestu leiti fyrir brottkast afla en meðafli í hverri veiðiferð má vera allt að 10% af heildarafla. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir mikilli beinni atvinnusköpun vegna löndunar alls afla og sölu í gegnum innlenda uppboðsmarkaði í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um sölu sjávarafla o.fl. frá 139. löggjafarþingi (þskj. 51 - 50. mál) en þar segir meðal annars:

„Allur sjávarafli, þó ekki rækja, humar og uppsjávarfiskur, sem veiddur er úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal seldur á innlendum uppboðsmarkaði sjávarafla er fengið hefur leyfi Fiskistofu. Heimilt er að selja afla í beinum viðskiptum í innlenda fiskvinnslu og skal þá verð milli útgerðar og fiskvinnslu ákvarðast af markaðsverði söludagsins eða síðasta þekkta markaðsverði á uppboðsmarkaði.

Heimilt er að selja fullunninn frystan afla utan innlends fiskmarkaðar skv. 12. gr. a. Til fullunnins frysts afla telst sjávarafli sem hefur verið veiddur og í kjölfarið unninn um borð í frystiskipi, honum pakkað og hann verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður eða verkaður á annan hátt og hann frystur að vinnslu lokinni. Þegar aðeins fer fram frysting um borð í frystiskipi á heilum eða hausskornum fiski eða heilfrysting á rækju telst slíkur afli ekki til fullunnins frysts afla í skilningi laga þessara."

Þessi breyting mun að öllum líkindum leiða til um 800 til 1.000 nýrra starfa við fiskverkun með mjög litlum tilkostnaði á skömmum tíma.

Auknar strandveiðar
Framsal aflaheimilda hefur leitt til gríðarlegrar byggðaröskunar víða um land og gert að engu eina bjargræði sjávarbyggða, sjósóknina, sem þær hafa notað í aldaraðir. Með því að taka lífsbjörgina af sjávarbyggðunum hefur öll afkoma og eignastaða íbúa á þessum stöðum raskast fyrir atvinnuleysi, brottflutning og eignabruna. Með samþykkt frumvarpsins mun sú þróun snúast við og fólksflótti af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins stöðvast og koma í veg fyrir þann gríðarlega samfélagslega tilkostnaði sem slíkir hreppaflutningar hafa í för með sér.  Aukning á afla til strandveiða sem hér eftir verða utan tillagna Hafrannsóknarstofnunar um heildarafla og standa yfir stærri hluta ársins en nú er, mun hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf um allt land. Auðlindagjald og strandveiðar munu skila umtalsverðum tekjum til þeirra sveitarfélaga þar sem aflanum er landað.

Kvótaskuldasjóður
Sá skaði sem útgerðir og núverandi handhafar aflaheimilda verða fyrir vegna missis aflaheimilda verður bættur með því að skuldir útgerða sem eru til komnar vegna kaupa á aflaheimildum verða færðar í sérstakan Kvótaskuldasjóð. Skýrt er í lögum að aflahlutdeild útgerðar er ekki eign hennar og þær skuldir sem stofnað hefur verið til vegna kaupa á slíkum heimildum eru og hafa alltaf verið áhættulánveiting viðkomandi lánveitenda. Kvótaskuldasjóður verður greiddur niður með 5% gjaldi á allar seldar veiðiheimildir þar til sjóðurinn er að fullu upp gerður. Skuldir Kvótaskuldasjóðs bera enga vexti.

Það borgar sig að breyta kerfinu
Varðandi þá umræðu sem skapast hefur og snýr að hugsanlegum brotum á eignaréttarákvæði stjórnarskrár skal fram tekið að um langa hríð hefur skýrt verið kveðið á um í lögum að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Þrátt fyrir að möguleiki sé á þeirri ólíklegu niðurstöðu dómstóla að ríkið yrði dæmt skaðabótaskylt vegna innköllunar aflaheimilda eða annars þess sem leiðir af frumvarpinu,  þá er það engu að síður þess virði að  þær breytingar sem frumvarpið felur í sér komist til framkvæmda. Betra er að þurfa hugsanlega að sæta slíkri niðurstöðu dómstóla en að búa áfram við óbreytt eða lítið breytt fyrirkomulag fiskveiða.

Frekari rannsókna er þörf
Í framhaldi af þeim breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem frumvarpið gerir ráð fyrir er brýnt að fram fari víðtæk og ítarleg úttekt á Hafrannsóknarstofnun og veiðiráðgjöf hennar með tilliti til aðferðarfræðilegra sjónarmiða. Þar verði einnig kannað hversu vel hefur tekist til með verndun fiskistofna, fiskimiða, lífríkis og uppbyggingar fiskistofna. Í þeirri úttekt er brýnt að fiskveiðar við Ísland verði skoðaðar heildstætt með tilliti til þess skaða sem þær hafa valdið á lífríkinu og mat lagt á hagkvæmni togveiða annars vegar og krókaveiða hins vegar. Slík úttekt ætti að vera gerð af hlutlausum erlendum sérfræðingum í samráði við sjómenn, íslenska fiskifræðinga og vistfræðinga.


mbl.is Hreyfingin leggur fram frumvarp um fiskveiðistjórnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þið viljið hverfa aftur í gamla tíma þar sem útgerðir voru reknar með tapi, hún var ósamkeppnisfær og ríkisstyrkt?

Af hverju?

Njáll (IP-tala skráð) 20.5.2011 kl. 14:13

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Njáll virðist  bara meðvirkur kvótafíkill sem vill ekki nota heilasellurnar til rökrænnar greiningar á viðfangsefninu...... Hann sér ekki ofskuldsetningu sjávarútvegs, - sér ekki verðhrun fasteigna sjávarbyggða -  sér ekki að það er lágmarksveiði úr þorskstofninum - 160 þúsund tonn af 500 þúsund (32%) - sér ekki brottkastið og framhjálöndunina...  Njáll vill ekkert sjá - einhverra hulta vegna.....

Útgerði er stórfellt ríkisstyrkt. Fær gratís aflaheimildir árlega - sem þeir fénýta svo með því að ráða "þræla" í að vinna fyrir sig - eða leigja "þrælum" kvótann á okurverði - sem þeir fá ókeypis árlega.

Flestir "keyptu" engar aflaheimildir.  Þetta voru alls konar "Sterlingsnúningar" þar sem upplogið kvótaverð var fært í nýtt fyrirtæki og menn fengu loftbóluhlutabréf og  svo er sagt að þetta sé "nýir eigendur sem keyptu kvótann"....

Þetta eru að stórum hluta sömu eigendur - á nýjum kennitölum - á fiffuðu nýju "eigin fé"  byggt á kvótabólunni - sem ekki stenst.

Svo er þetta með hugmynd Hreyfingarinnar:

Hefur Hreyfingin kynnt sér allar blekkingarnar í Hafró - og ef ekki - hvernig væri þá að fara að lesa sig til?

Ég get veitt einhverjar upplýsingar fyrir þá sem vilja kynna ´sér hvað virðist er rétt - og hvað virðist ekki rétt....... - krp@simnet.isog /eða GSM 892 5826  KP

Kristinn Pétursson, 21.5.2011 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband