16.3.2011 | 22:49
Þörf fyrir fjárhagsaðstoð eykst hlutfallslega mest í Mosfellsbæ
Þann 9. mars síðast liðinn birti Morgunblaðið frétt um fjárhagsaðstoð nokkurra sveitarfélaga árin 2009 og 2010. Að því er fram kemur í fréttinni eykst fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna mikið milli ára, þeim fjölgar ört sem þurfa á aðstoð að halda og tímabilið sem fólk þarf á aðstoð að halda lengist. Þau sveitarfélög sem voru tekin til umfjöllunar í fréttinni voru Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjanesbær og Akureyri. Ekki var fjallað um Mosfellsbæ í fréttinni. Því aflaði ég upplýsinga hjá bæjarstjóra Mosfellsbæjar og setti í samhengi við efni fréttarinnar í eftirfarandi töflu:
Sveitarfélag | Breyting í fjölda tilfella milli ára | Breyting í útgjöldum milli ára |
Reykjavík | 12,5% | 23% |
Hafnarfjörður | 28% | 33% |
Akureyri | -3,5% | 27% |
Kópavogur | 18% | 30% |
Reykjanesbær | 9% | 38% |
Mosfellsbær | 33% | 45% |
Í ljós kemur að af þeim sveitarfélögum sem hér er fjallað um er aukningin mest í Mosfellsbæ, bæði hvað varðar fjölda tilfella og útgjöld. Menn hljóta því að velta fyrir sér hvort kreppan bíti fastar í Mosfellsbæ en annars staðar og ef svo er hvað sé til ráða?
Ein af megin áherslum Íbúahreyfingarinnar er að bæjarfélagið hugi sérstaklega að stöðu atvinnuleitenda og tekjulægri hópa. Miðað við ofangreindar niðurstöður virðist ekki vanþörf á.
Sú ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að hækka viðmiðunarfjárhæð fjárhagsaðstoðar um 2 þúsund krónur á mánuði, úr 126 þúsund krónum í 128 þúsund krónur (m.v. einstaklinga), og sniðganga þannig tilmæli velferðarráðherra um að lágmarksfjárhæð fjárhagsaðstoðar verði ekki lægri en atvinnuleysisbætur, um 150 þúsund krónur, veit ekki á gott.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.