22.1.2011 | 23:29
Hugleiðing um heilindi og gildismat
Svohljóðandi frétt má lesa á vef RÚV:
Ekkert lát er á mótmælum í Túnis. Mörg þúsund liðsmenn öryggissveita komu saman í höfuðborginni í dag til að hvetja landsmenn til að gleyma voðaverkum sem þeir frömdu á stjórnartíð Ben Ali, fyrrverandi forseta. Lögreglumenn, hermenn og jafnvel liðsmenn meintra dauðasveita voru meðal mótmælenda í Túnis borg í dag. Þeir voru flestir hliðhollir Ben Ali, forseta landsins, en hann flúði land fyrir rúmri viku eftir 23 ára valdasetu. Ben Ali stjórnaði með harðri hendi og beitti öryggissveitum sínum óspart gegn stjórnarandstæðingum. Stjórnarandstaðan segir liðsmenn öryggissveitanna hafa gerst seka um gróf mannréttindabrot. Þeir eru meðal annars sagðir hafa skotið fjölda mótmælenda til bana í óeirðunum sem leiddu til þess að Ben Ali var steypt af stóli á dögunum. Í mótmælunum í dag kvað við annan tón. Hermenn og lögreglumenn segjast gengnir til liðs við mótmælendur og hvetja almenning til að líta til framtíðar en ekki fortíðar. Lögreglumenn og hermenn benda á að þeir fái afar illa borgað miðað við aðra opinbera starfsmenn og óttist nú um lífsviðurværi sitt eftir fall einræðisstjórnar Ben Alis.
http://www.ruv.is/frett/motmaelt-i-tunis-i-dag
Vilhjálmur Árnason, heimspekingur, skrifar inngangskafla bókarinnar Tilvistarstefnan er mannhyggja eftir franska heimspekinginn Jean Paul Sarte. Í honum segir m.a.:
Ég get ekki sagst vilja eitt, en gert annað. Vilji minn og gildismat eru lesin út úr athöfnum mínum. Ef ég segi til dæmis að ég sé nauðbeygður til að hlýða kalli til herþjónustu sem mér sé meinilla við vegna þess að ég sé á móti öllu hernaðarbrölti, þá dæmast orð mín óheil. Með því að verða við herkvaðningunni kýs ég hernaðarbröltið, lýsi því yfir að það sé af hinu góða.
Er hægt að setja þetta tvennt í samhengi við íslenskan veruleika? Heimfæra til dæmis upp á störf þeirra sem innheimta stökkbreytt lán eða verja valdhafa þegar kemur til mótmæla? Og ef svo er, hvað segir það okkur um gildismat þeirra sem í hlut eiga, ef eitthvað? Er hugsanlegt að þeir sem um ræðir séu færir um að endurskoða sitt gildismat og ganga til liðs við mótmælendur á Íslandi, líkt og gerst hefur í Túnis? Eða er hreinlega fráleitt að spyrja að þessu þar sem aðstæður á Íslandi og í Túnis séu svo gjörólíkar?
Lögregla til liðs við mótmælendur í Túnis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er áhugavert að ekki einn einasti Alþingismaður er á móti gjaldeyrishöftunum.
Reglur Seðlabankans banna sambúð karls og konu.
Ég má ekki starfa á Íslandi en eiga fjölskyldu erlendis.
En engum finnst það athugavert því ástandið á Íslandi er svo alvarlegt.
Þetta finnst mér varhugavert gildismat.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 02:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.