14.9.2010 | 14:45
Hugleiðing um stjórnskipan og lýðræði
Eftirfarandi er hugleiðing um stjórnskipan sem byggir á þrískiptu ríkisvaldi hvar uppspretta valds liggur hjá almenningi. Hugmyndin er að hver og ein grein ríkisvaldsins verði sjálfstæð þannig að forsendur fyrir nauðsynlegu aðhaldi aukist.
Löggjafarvald
Alþingi verði löggjafi þar sem þjóðkjörnir þingmenn eigi sæti. Kjörtímabil verði fjögur ár í senn. Ekki verði heimilt að sitja á þingi lengur en tvö kjörtímabil. Ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi og hafi ekki heimild til að leggja fram þingmál. Landið verði eitt kjördæmi og persónukjör þvert á flokka verði leyft. Áfram verði heimilt að bjóða fram í flokkum. 5% reglan verði afnumin. Lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og reglum um framboðskynningar verði breytt. Fjöldi þingmanna verði tekinn til umræðu. Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur verði virkt þannig að tiltekinn hluti þjóðarinnar og minnihluti þings geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál.
Framkvæmdavald
Þjóðkjörinn forseti verði æðsta embætti framkvæmdavaldsins. Kjörtímabil verði fjögur ár í senn. Ekki verði heimilt að sitja á forsetastóli lengur en tvö kjörtímabil. Auk þess að vera einn af talsmönnum þjóðarinnar verði hlutverk forseta að staðfesta lög sem Alþingi samþykkir (málskotsréttur verður áfram fyrir hendi) og koma þeim til framkvæmdar. Þannig verði hlutverk forseta að skipa ríkisstjórn. Til athugunar kæmi að kjósa einstaka ráðherra beinni kosningu að auki. Almennt verði reglugerðarheimilidir ráðherra takmarkaðar. Ráðherrar veiti þingmálum í vinnslu umsögn.
Dómsvald
Hæstiréttur samanstandi af tilteknum fjölda dómara (oddatölu - eigi færri en fimm). Val á dómurum fari þannig fram að meirihluti hæstaréttar verði ávallt þjóðkjörinn en minnihluti ákvarðist að jöfnu af framkvæmdavaldi annars vegar og ljöggjafarvaldi hins vegar. Dæmi: Verði hæstaréttardómarar níu áfram verði fimm þjóðkjörnir, tveir kosnir af Alþingi og tveir skipaðir af forseta, fyrir hönd framkvæmdavaldsins. Hæfniskröfur (og þar með kjörgengi) verði lögfestar. Hæstaréttardómarar verði æviráðnir.
Seldu reynslulausum bröskurum bankana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.