Alþingi viðheldur óeðlilegum tengslum viðskipta og stjórnmála

Svohljóðandi yfirlýsingu þingmanna Hreyfingarinnar sem ekki studdu málið má lesa á heimasíðu Hreyfingarinnar

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka.  Frumvarpið var lagt fram af formönnum allra flokka á þingi utan Hreyfingarinnar.  Nýsamþykkt lög gera hvorki ráð fyrir að rofin verði óeðlileg tengsl á milli viðskipta og stjórnmála né að jafnræðis verði gætt við úthlutun opinberra fjármuna.  Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn munu áfram geta tekið við peningum frá fyrirtækjum.  Þá verður flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við peningum frá einstaklingum án þess að upplýst verði í öllum tilfellum um viðkomandi styrkveitendur.

Þessar ráðstafanir eru í andstöðu við markmið laganna sjálfra sem er að „...draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum."  Einnig er lögunum ætlað „...að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið."  Að þessu leiti eru lögin í innra ósamræmi sem seint verður talin vönduð lagasetning.

Sú málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið við afgreiðslu málsins er í meira lagi tortryggileg.  Ekki fékk málið efnislega umfjöllun í allsherjarnefnd og beiðni um að gestir kæmu fyrir nefndina til að veita málinu umsögn var hafnað þó hefð sé fyrir slíku við afgreiðslu þingmála.  Svo virðist sem þingmönnum hafi legið á að afgreiða málið áður en þingmannanefnd sú sem ætlað er að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar hafi skilað af sér.

Þetta mál er skýrt dæmi um að Alþingi ætlar ekki að taka tillit til vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis og þeirra niðurstaðna sem fram koma í skýrslu hennar.  Áttunda bindi skýrslunnar ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008". Í kafla II. 3 segir:  „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna".[1] Enn fremur segir í niðurlagi kaflans þar sem ályktanir eru dregnar og komið er inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni:  „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."[2]

Með þessari lagasetningu hefur Alþingi hafnað niðurstöðum þess hluta skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem gagnrýnir harðlega tengingar stjórnmálaflokka við fjármála- og viðskiptalíf.  Því miður eru fjárhagslegir hagsmunir fjórflokksins settir skör ofar en almannahagsmunir.  Lýðræði og gegnsæi mega sín lítils gegn brenglaðri forgansröðun valdhafa.  

9. september 2010,
Birgitta Jónsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir
og Þór Saari

 

 

[1] Sjá bls. 164

[2] Sjá bls. 170


mbl.is Lög um fjármál stjórnmálaflokka samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þannegin að íslenski fjórflokkurinn lærði ekkert af þessu hruni um pólitíkst siðferði.

Bjóst þá einhver við því?

Árni Gunnarsson, 9.9.2010 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband