Ákall til þjóðarinnar

Eftirfarandi er bútur úr ræðu Viðars Þorsteinssonar sem flutt var á Austurvelli þann 15. nóvember 2008:

,,Íslensk stjórnvöld hafa ekki umboð fólksins í landinu. Helsta áhyggjuefni þeirra er hvernig tryggja megi að forysta stjórnmálaflokkanna og íslensk auðmannastétt bíði sem minnstan skaða af þjóðargjaldþrotinu. Þessi lýððisskortur er alvarlegri vandi en svo að það dugi að fá eitt lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, eða ganga í Evrópusambandið, taka upp evru eða skipta yfir í vinstristjórn í eitt eða tvö kjörtímabil. Engin þessara þrautarlendinga mun færa okkur það sem okkur vantar helst: lýððislegt stjórnarfar – til þess er hið hið íslenska stjórnmála og efnahagskerfi of samvaxið spillingunni, sérhagsmunagæslunni og samtryggingunni. Það mun fara aftur í sama farið innan fárra ára nema gripið verði til róttækra aðgerða."

Hér má sjá upptöku af fundinum:

Sjá einnig umfjöllin í grein í vefritinu Nei: Stofnum lýðveldi.

Velta má fyrir sér hvort Viðar hafi reynst sannspár.  Ég óttast að svo sé.  Allavega benda þessar fréttir til þess:

,,Útrásarvíkingar fá fyrirtækin aftur frá bönkunum. Súrt segir ráðherra. Segist ekkert geta aðhafst"

Ummæli forsætisráðherra á viðskiptaþingi dauðans virðast sama marki brennd:

„Þeim sjónarmiðum hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin ætli að láta það afskiptalaust að sömu persónur og leikendur og fóru með stórt hlutverk í fjármála- og viðskiptalífinu fyrir hrun, verði áfram við stjórnvölinn. Að þessu tilefni vil ég láta koma fram að ég er algerlega mótfallin því að stjórnmálamenn handstýri fjármálakerfinu.“  Hjörtur Hjartarson gerir þessu skil.

19-02-10

Gott og vel.  Ef stjórnmálamenn eiga ekki að stýra kerfinu, hvernig væri þá að gefa almenningi færi á því að ráða því sem almenningur vill í þeim efnum?  Hvort er fólkið fyrir kerfið eða kerfið fyrir fólk?  

Í þessu samhengi má rifja upp meira frá Viðari Þorsteinssyni, nú úr ræðu sem flutt var 1. febrúar 2009:

,,Fólkið í landinu þarf að ná lýðræðislegum tökum á auðmagni og gæðum, ekki bara finna upp leiðir framhjá þessu risavaxna vandamáli."

Ég veit ekki með aðra en ég hef þá trú að ef við getum fengið í gegn almenna löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur sé það stórt skref í rétta átt.  Með því móti væri t.d. hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um kvótakerfið, verðtryggingu, hámarksvexti, virkjanaframkvæmdir, setu ráðherra á þingi, persónukjör og önnur mál sem kunna að brenna á þjóðinni hverju sinni.

Því skora ég á alla að setja sig í samband við þingmenn allsherjarnefndar Alþingis hvar frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur er fast í nefnd.  Frumvarpið (flutningsmaður er Þór Saari) sem ég er að vísa í gerir m.a. ráð fyrir því að 10% kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál.  Markmiðið með því að hafa samband við þingmenn er að þrýsta á þá að taka málið til umfjöllunar í nefndinni og fá það á endanum samþykkt sem lög frá Alþingi. 

Annað frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur liggur einnig inni í allsherjarnefnd.  Það er stjórnarfrumvarp og miðast við að meirihluti á Alþingi geti ákveðið að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um mál.  Ég ætla ekki að eyða púðri í að segja álit mitt á þessháttar lýðræðisumbótum.  Aðalatriðið er að allir geri sér grein fyrir því að það sem máli skiptir er að almenningur geti tekið málin í sínar hendur þegar honum sýnist svo.  Hæglega væri gerlegt að sameina þessi tvö frumvörp í eitt sé vilji fyrir því.  

Að pressa á þingmenn er eitt.  Hitt er að skapa umræðu í samfélaginu um málið og halda kröfunni á lofti til að mynda á útifundum á laugardögum á Austurvelli; alþingi götunnar.  Við þurfum að taka málin í okkar hendur - það hafa dæmin sýnt.  Bendi að lokum á ræðu Evu Hauksdóttur um borgaralega óhlýðni.


mbl.is Fundur formannanna hafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Ég er reiður og ætla að koma suður að alþingi lýðræðið er í húfi.

Sigurður Haraldsson, 22.2.2010 kl. 01:19

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Sammála. Merkilegt hve lítið hefur breyst síðan þessi ræða var flutt.

Byltingakveðjur að norðan.

Arinbjörn Kúld, 23.2.2010 kl. 03:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband