Á eintali við Sjálfstæðisflokkinn

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Vandamálin sem heimilin standa nú frammi fyrir eru viðameiri og margslungnari en margur ætlar. Í grunninn má segja að þau felist í skulda- og greiðslubyrði heimilanna í kjölfar hárra vaxta, verðbólgu, gengisfalls íslensku krónunnar, lækkandi raunlauna, atvinnuleysis og fallandi eignaverðs. Þessir þættir voru að mestu ófyrirséðir og afleiðing af alheimskreppu, ójafnvægi í efnahagslífinu og hruni fjármálakerfisins – það varð forsendubrestur hjá skuldurum."

ÞBS:
Sammála.  Sérstaklega þessu með forsendubrestinn.  Það gleymist reyndar að nefna hversu grátt verðtryggingin hefur leikið hagkerfið.  Þó alheimskreppa sé staðreynd má heldur ekki líta framhjá því sem miður hefur farið heima fyrir.  Varðandi forsendubrestinn varð hann ekki síður hjá lánveitendum.  Ef rétt væri með farið ætti að segja að forsendur lánasamninga væru brostnar, m.a. vegna framgöngu lánveitenda. 

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Í kjölfar þessa forsendubrests hafa vanskil aukist mikið. Þannig hafa vanskil sem varað hafa í 90 daga eða lengur við Íbúðalánasjóð, viðskiptabankana (nýju bankana) og sparisjóðina, tæplega fimmfaldast frá því í upphafi árs 2008 og stöðugt bætist í vanskilahópinn. Í lok mars 2009 voru um 16,5 milljarðar kr. í vanskilum í þessum hlutum lánakerfisins. Eignastaða heimilanna hefur einnig versnað gríðarlega eftir hrunið."

ÞBS:
Sammála.

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Vandinn við þau úrræði sem nú þegar hafa verið lögfest er að skilyrðin fyrir því að skuldarar eigi kost á þeim eru of þröng. Í ljósi þess hve vandinn er almennur er lagt til að öllum sem þess óska verði gert kleift að minnka greiðslubyrði húsnæðislána sinna um allt að 50% næstu þrjú árin. Lækkuninni verði bætt við eftirstöðvar lánsins. Hugmyndin er að eftir þrjú ár verði efnahagslegar aðstæður á Íslandi umtalsvert betri en nú eru og fólk geti þá frekar staðið við skuldbindingar sínar."

ÞBS:
Ósammála.  Þetta er eins og Iceslave samningurinn.  Öll áhætta áfram hjá lántakendum.  Í ofanálag mætti spyrja að því í ljósi þess forsendubrests sem Sjálfstæðismenn vilja kalla svo hvort ekki beri að leiðrétta það sem miður hefur farið í kjölfarið.  Hverjar eru skuldbindingar lánveitenda við lántaka?

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Efnahagur þjóðarinnar verður ekki bættur með fjöldagjaldþrotum skuldara. Það er því hagur heildarinnar að þess verði freistað að koma heimilunum yfir versta skuldahjallann."

ÞBS:
Sammála þessu með gjalþrotin.  Skuldahjallinn er engu að síður ennþá bara á teikniborðinu í mínum huga.  Stjórnvöld hafa öll völd í hendi sér varðandi þá ákvörðun hvort hjallinn verður reistur skv. forskrift þess arkitektúrs sem íslenska efnahagsundrið hefur nú brotlent eða hvort ný teikning verður höfð til grundvallar.  M.ö.o. ætti ekki að reyna að þvinga fram ósæmandi skuldaviðurkenningu á þessum okurlánum.  Það væri að lengja í ólinni í stað þess að skera menn úr henni.  Bólan sem menn héldu að væri full af peningum var full af lofti þegar á reyndi.  Þar af leiðandi eru engar innistæður fyrir hluta af bókfærðum eignum lánveitenda.

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Möguleikinn á lækkun greiðslubyrði dugir ekki öllum heimilum. Því er lagt til að skoðuð verði af fullri alvöru sú leið að lækka höfuðstól húsnæðislána til að bæta þann forsendubrest sem varð við hrun bankanna."

ÞBS:
Þarna er ekki nógu langt gengið.  Annað hvort varð forsendubrestur eða ekki.  Ef það varð forsendubrestur þá varð hann hjá öllum - ekki bara þeim sem ekki geta borgað.  Þetta er ekki síður réttlætismál.  Þess vegna þarf að byrja á því að taka út fyrir sviga það fyrirsjáanlega tjón sem af forsendubrestinum myndi hljótast og leiðrétta með almennum aðgerðum.  Síðan ber að horfa til sértækra lausna til handa þeim sem ennþá standa höllum fæti.

Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Í dag eru fyrir hendi úrræði til höfuðstólslækkunar lána en það ferli sem ganga þarf í gegnum er bæði langt og niðurlægjandi fyrir skuldara. Þá er brýnt að stimpilgjöld verði afnumin til þess að auðvelda heimilunum að nýta sér bestu kjör við endurfjármögnun lána. Þegar í stað verði settur á laggirnar hópur sérfræðinga skipaður fulltrúum allra stjórnmálaflokka til að koma með tillögur í þessum efnum."

ÞBS:
Sammála.

http://xd.is/?action=efnahagsmal_nanar&id=23376


mbl.is Fyrirtækin nálgast hengiflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heimlin nálgast líka hengiflugið. Það er alveg á hreinu líka.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 10:37

2 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Mörg heimili eru löngu farin fram af bjargbrúninni...

Þórður Björn Sigurðsson, 12.6.2009 kl. 21:28

3 Smámynd: Vilhjálmur Sveinn Björnsson

Heimilin er ein af undirstöðum landsins ef við hjálpum þeim ekki verður mikil skaði skeður með því, þess vegna skil ég ekki hvað stjórnmálamenn eru að bíða eftir!!

Vilhjálmur Sveinn Björnsson, 12.6.2009 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband