Í miðri vísindakreppu?

BA verkefnið mitt í mannfræði árið 2003 fjallaði um þróun sjúkdómshugtaksins alkóhólisma.  Mig langar til að birta kafla úr ritgerðinni hér og setja um leið í annað samhengi.  Mig langar til að velta því upp hvort hægt sé að beita kenningu Thomas Kuhn um vísindabyltingar á þá stöðu sem birtist mörgum þegar hefðbundin vinstri hægri pólitík ber á góma.  Getur verið að við séum stödd í miðri „vísindakreppu" ofan í allar hinar?  Ég læt svo ritgerðina fylgja með í heild sinni sem fylgiskjal fyrir áhugasöm.


Vísindi vísindanna: um sannleika almennra fullyrðinga

Er sannleikurinn afstæður?  Þau vísindi sem ætlað er að færa okkur sannleikann breytast í tíma og rúmi.  Sífellt koma fram nýjar kenningar sem eiga að útskýra veröldina, eða alla vega einhvern hluta hennar.  Sumar þessara kenninga eru kæfðar í fæðingu og þeim er hafnað umsvifalaust.  Aðrar þykja sannfærandi og eru samþykktar, verða hluti af ráðandi hugmyndum um hvað sé satt og rétt, hluti af ríkjandi vísindaheimsmynd.  Svo líður tíminn og vísindalegar „framfarir" eiga sér stað, ný þekking verður til sem þykir meira sannfærandi en sú sem fyrir er til staðar og leysir hún þá eldri af hólmi.  Eldri kenningum er annað hvort hafnað algjörlega eða þær felldar inn í hina nýju, breyttu, ríkjandi vísindaheimsmynd.  Síðan endurtekur ferlið sig aftur og aftur.

Kenning Thomas Kuhn um vísindabyltingar er í svipaða veru og síðasta málsgrein.  „Þungamiðjan í kenningu Kuhns er hugtakið um vísindaleg viðmið (e. paradigm) og muninn á hefðarvísindum og vísindabyltingu" (Gilje og Skirbekk, 1999: 679).  Samkvæmt Kuhn eru vísindaleg viðmið stórar kenningar sem innihalda smærri kenningar.  Þegar smærri kenningar útskýra ekki lengur veröldina á máta sem þykir sannfærandi á sér stað vísindakreppa.  Afleiðing slíkrar vísindakreppu er að smærri kenningunni er annað hvort hafnað eða hún felld inn í nýja og stærri kenningu (Barnard, 2000: 7).  „Hugtakið viðmið er tilraun Kuhns til að lýsa því hvernig sérhver kenning í vísindum er hluti af stærra kerfi sem allt vísindastarf hvílir á" (Gilje og Skirbekk, 1999: 679).  Ef bornar eru saman eðlisfræðikenningar Newton (1643-1727) og Einstein (1879-1955) mætti segja, í anda Einstein, að allt (tími, rými, o.s.frv.) sé afstætt, með öðrum orðum að öll fyrirbrigði séu háð hvert öðru.  Samkvæmt Newton eru segulsvið og rafmagn hins vegar aðgreind fyrirbrigði og hægt er að útskýra þau óháð hvoru öðru.  Að mati Einstein aftur á móti er segulsvið nauðsynlegur hluti af rafmagni.  Hvorug kenningin er endilega algerlega rétt eða röng.  Hins vegar öðlast þær merkingu innan stærri kenningalegri ramma.  Þó væri hægt að halda því fram að kenning Einstein sé „betri" að því leyti að hún útskýrir ákveðin fyrirbrigði sem kenning Newton gerir ekki og getur ekki gert (Barnard, 2000: 7-8).

Til að tengja þetta við umfjöllunarefni þessarar ritgerðar væri hægt að hugsa sér læknisfræði sem einn stóran kenningarlegan ramma og innan hans vísindatilgátuna „alkóhólismi er sjúkdómur":

Sérhver vísindatilgáta er líkt og samofin flóknu kerfi forsenda sem í meginatriðum ríkir þögult samkomulag um.  Til þessara þöglu forsendna telst sú þjálfun sem vísindamenn hljóta þegar þeir læra grein sína. (Að læra vísindi felst ekki aðeins í því að tileinka sér mikið safn staðreynda heldur einnig að hljóta þjálfun og innvígslu í sameiginlegan hugsunarhátt - hugtök vísindanna og vinnureglur þeirra.) ... Við vísindalegar rannsóknir er mismikil þörf á því að velta fyrir sér þessum forsendum og gera breytingar á þeim.  Þegar slíkar vangaveltur og athuganir hefjast á sér stað vísindabylting, segir Kuhn (Gilje og Skirbekk, 1999: 679). 

Í samhengi við þessa umræðu væri hægt að halda því fram að vísindabylting hafi átt sér stað undir lok átjándu aldar þegar Benjamin Rush og Thomas Trotter kynntu hugmyndir sínar um ofdrykkju sem sérstakan sjúkdóm fyrstir manna. Rökin fyrir þeirri stæðhæfingu væru að áður en Rush og Trotter mótuðu hugmyndir sínar var ofdrykkja útskýrð með skírskotun til trúarbragða (Conrad og Schneider, 1992: 78).  Ekki verður hjá því komist í þessari umræðu að beina athyglinni að því hvernig hægt sé að álíta það vísindabyltingu, með nútímalega merkingu orðsins vísindi í huga, þegar menn byrja að útskýra tiltekið athæfi með skírskotun til læknisfræðilegra hugtaka í stað trúarlegra kenninga.  Nauðsynlegt er að hafa tíðaranda átjándu aldarinnar í huga en sú öld hefur verið kennd við upplýsingartímann:

Þá var farið að líta svo á að maðurinn gæti af eigin frumkvæði haft áhrif á samfélagsgerðina og framvindu eigin lífs.  Að vissu leyti var upplýsingin beint framhald endurreisnartímans þegar maðurinn varð mælikvarði allra hluta og sú trú vaknaði að manninum væri kleyft að ráða í flestar gátur og komast að sannleikanum um eðli hluta og fyrirbæra með skynsemi sinni einni saman (Haraldur Ólafsson, 1998: 9).    

Unnur B. Karlsdóttir fjallar um tímabilið á eftirfarandi hátt:

Fyrir daga vísindabyltingar, upplýsingarinnar og síðan náttúruvísinda og Darwinisma 19. aldarinnar taldist guð ábyrgur fyrir sköpun lífríkisins.  En nú var farið að skýra náttúruna út frá kenningum um lögmál og þróun sem hefði ekkert með íhlutun guðs að gera heldur lyti reglum náttúrunnar, mannlífið þar með talið (Unnur B. Karlsdóttir, 1998: 12).

Áður en vísindin ruddu sér til rúms sem ráðandi hugmyndafræði leitaði fólk skýringa á ráðgátum tilverunnar í trúarbrögðum. Á Vesturlöndum var kristin trú ráðandi og því var það fyrst og fremst Biblían sem sótt var í eftir svörum við hverju því sem fólk óskaði eftir skýringum á. Í kjölfar uppgötvanna þeirra er gerðar voru á upplýsingartímanum fór almenningur smám saman að draga upplýsinga- og sannleiksgildi Biblíunnar í efa og vísindalegar heimildir tóku við sem helsta uppspretta skýringa á ráðgátum heimsins.  Sem dæmi um það má nefna að „allt fram undir miðja nítjándu öld og jafnvel miklu lengur, var talið að heimurinn hefði verið skapaður árið 4004 f. Kr. eins og enski biskupinn Ussher (1581-1656) hafði reiknað út eftir ættartölum í Gamla testamentinu" (Haraldur Ólafsson, 1998: 95).  Trúarbrögð voru því eins konar vísindi miðaldamanna.

Samkvæmt Kuhn er vísindabylting andstæða hefðarvísinda þar sem fengist er við afmarkaðar tilgátur á grundvelli skilyrða sem ekki eru dregin í efa.  Þar sem hinar víðtæku forsendur, sem áður var fjallað um, fela einnig í sér mælikvarða á mikilvægi og sannleika í vísindum verða deilur um mismunandi viðmið ekki útkljáðar með rökum.  Að því gefnu er ekki til neitt hlutlaust sjónarhorn á slíkar deilur og engin leið er til að skera úr um hvort niðurstaða slíkra deilna leiði til framfara eða ekki (Gilje og Skirbekk, 1999: 679).  Í því samhengi er áhugavert að lesa eftirfarandi klausu sem læknirinn Þórarinn Tyrfingsson skrifar á heimasíðu SÁÁ, samtaka sem eru „fyrst og fremst pólitískur vettvangur fyrir einstaklinga til að vinna að áfengis- og vímuefnavörnum" (Þórarinn Tyrfingsson, 2002):

Þekking á áfengissýki- og vímuefnafíkn hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin 25 ár.  Undraverðar framfarir hafa orðið í líffræði og nú vitum við miklu betur en nokkru sinni fyrr hvernig vímuefnin hafa áhrif á heilastarfsemina og breyta henni svo varanlega að fíknisjúkdómur verður til (Þórarinn Tyrfingsson, 2002, feitletrun bætt við).

Sökum þess að Kuhn gerir ráð fyrir að á milli mismunandi viðmiða í vísindum sé óbrúanlegt bil er ekki lengur hægt að tala um vísindalegar framfarir sem samfellda hreyfingu fram á við.  Þó hægt sé að segja, frá tilteknu sjónarhorni, að þekkingunni fleygi fram er slíkt hið sama ekki uppi á teningnum þegar eitt viðmið leysir annað af hólmi.  Ástæða þess er sú að ekki er til neinn hlutlaus dómstóll sem gæti metið framfarirnar.  Þar af leiðir að erfitt er að koma á gagnkvæmum skilningi milli fulltrúa ólíkra viðmiða af þeirri ástæðu að báðir aðilar sjá málið út frá sínum eigin forsendum, út frá sínu viðmiði.  Samskipti eru aftur á móti möguleg milli þeirra sem deila sama viðmiði (Gilje og Skirbekk, 1999: 679).  Ef þessi kenning er túlkuð á róttækan hátt mætti segja að ekkert hlutlaust tungumál sé til, að allar upplýsingar séu háðar þeim kenningaramma sem þær koma úr og séu mótaðar af viðmiðinu.  Af þeim sökum eru ekki til aðferðir sem eru hlutlausar með tilliti til viðmiðanna, allir mælikvarðar á sannleika eru háðir því viðmiði sem þeir heyra til, engir mælikvarðar eru óháðir öllum viðmiðum og engir mælikvarðar eru sameiginlegir öllum viðmiðum.  Sannleikurinn er afstæður.[1] 

Til að tengja þetta aftur við umfjöllunarefni þessa texta má líta svo á að allt síðan Benjamin Rush og Thomas Trotter, sem nánar verður fjallað um í næsta kafla, skilgreindu ofdrykkju sem sjúkdóm hafi fræðimenn læknavísindanna, og aðrir sem deila því viðmiði sem skilgreinir ofdrykkju sem sjúkdóm, verið að stunda hefðarvísindi í tengslum við ofdrykkju.  Ljóst er að á þeim rúmlega tvö hundruð árum sem liðin eru frá því að Rush og Trotter skilgreindu ofdrykkju sem sjúkdóm hafa ýmsar kenningar verið settar fram í tengslum við sjúkdómshugtakið.  Á umræddum ferli hefur sjúkdómshugtakið tekið breytingum.  Í dag útskýra menn ofdrykkjusjúkdóminn á annan hátt en þeir gerðu fyrir tvö hundruð árum.  Þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa á skilningi manna á sjúkdómshugtakinu er samt sem áður eitt sem ekki hefur breyst, það er að ofdrykkja er ennþá skilgreind sem sjúkdómur og hefur verið það í rúmlega tvö hundruð ár.  Þess vegna væri hægt að tala um hefðarvísindi í því samhengi.

Það þýðir þó ekki að enginn gagnrýni þá skilgreiningu að ofdrykkja sé sjúkdómur.  Fleiri viðmið fyrirfinnast en það viðmið sem umlykur sjúkdómsskilgreininguna alkóhólisma.  Sem dæmi um þess háttar viðmið má taka sjónarhorn sem félagsfræðingarinr Conrad og Schneider (1992) nefna „þekkingarfélagsfræði" (e. sociology of knowledge), en nánar verður vikið að gagnrýni þeirra félaga og annara á sjúkdómshugtakið síðar í ritgerðinni.

 


[1] Ef stigið er skrefinu lengra í túlkuninni og kenningin er notuð sem mælitæki á sjálfa sig er hún um leið orðin varhugaverð.  Því að ef kenningin boðar afstæðan sannleik hvernig er þá hægt að halda því fram að hún sé sönn? Slíkt væri ekki hægt nema að gert væri ráð fyrir því að einhvers staðar væri að finna einhvern altækan sannleik sem stæði utan við allar kenningar, viðmið og vísindi.  Í framhaldi væri þá hægt að spyrja að því hver sá sannleikur kynni að vera sem og velta „eðli" sannleikans fyrir sér: Hvað er sannleikur?


mbl.is Baráttan rétt að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Vísindin og fræðin sem ættu fyrst og fremst að byggja gagnrýnni hugsun og efahyggju hættir til að hlaupa einmitt yfir þennan grundvöll sinn og láta málefnalegri gagnrýnni ósvarað.  Í fræðasamfélaginu verðu ákveðin fagleg forskrift og eftir því sem kenning kemur sér betur fyrir þá þarf talsvert áttak til að hafna henni og það jafnvel þó svo að kenningin hafi ekkert forspárgildi og sé byggð á mjög hæpnum forsendum.

Vel þekkt er að fræðin og kenningar eru notaðar til hentugleik til þess að rökstyðja ákveðnar lífsskoðanir og pólitísk markmið s.s. í hagfræði, kvennarannsóknum, lögfræði osfrv.

Sigurjón Þórðarson, 17.5.2011 kl. 00:44

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Má ekki bæta því við að vísindin eru múlbundi hefðum eða othodoxíu einhverskonar, þar sem vísindamenn halda sig vísvitandi innan ramma hefðarinnar og oft gegn betri vitun til að verja starfsframa sinn og afkomu. Pólitík og peningar ráða miklu. 

Meðferðarúrræði alkohólista eru iðnaður og ákveðinn þrýstingur um að halda í viðtekin viðhorf vegna hagsmuna þessa geira. Menn sem setja sig gegn þessum viðhorfum eru einatt úthrópaðir.  Það er raunar kominn risa hagsmunabatterí í kringum allskonar "disorder" sem greind eru í krossaprófum, svo engin sleppur við nokkrar greiningar, sem þau taka.  Lyfjaiðnaðurinn hefur ekki síst hag af þessu.

Mér finnst læknisfræðin að mörgu leyti á villigötum vegna þessara áhrifaþátta, þótt ég þræti ekki fyrir að alkohólismi er gríðarlega mikið vandamálog ekki síst samfélagssjúdómur. Áfengi er þó leyft af því að fíknin í það er svo sterk að það hefur verri afleiðingar á öðrum sviðum ef það er bannað.

Þótt áfengissýki sé greind, eru greiningaraðferðirnar ansi loðnar. Atferlisfræðileg skoðun, viðtöl, líkamlegt ástand. Ekkert af þessu þarf þó að vera afgerandi. Þol manna fyrir efninu er einstaklingsbudið og bundið mörgum þáttum.  Lækningin felst í grunnin í viðhorfsbreytingu eftir afeitrun, sem er svolítið merkilegt og jafnvel óvísindalegt. 

Áfengislækningar eru meira tengd sefjun einhverskonar frekar en læknisfræði. Kannski sálarfræði, en hvað er á ferð er umdeilt.  Hér líðast t.d. trúartengdar lækningarmiðstöðvar, sem er nánast orðið vúdú, ef þá ekki woo woo.  AA samtökin eru svo byggð á þessumgaldralækningum og klínískar stofnanir krefjast jafnvel trúariðkunnar.

Alkohólismi er vandamál og mikilir harmar honum tengdir eins og öll önnur kompúlssjón og öfgar. Hvort hann er sjúkdómur per se, skiptir litlu máli þar nema sem tryggingalegt og praktískt viðmið, held ég.  Menn hafa ekki hugmynd um hvað veldur í raun og ekkert hefur læknað þetta frekar en það sem flokkast undir geðsjúkdóma. Að halda þessu niðri er relatívara en andskotinn hvað aðferðir og viðhorf snertir. Mjög persónubundið.

Ég er sjálfur greindur alki og hef verið þurr í fjölda ára. Ég er raunar "mjög greindur" í gegnum þetta allt og hef fengið allskyns greiningar aðrar þar sem hænan og eggið eru stór spurning og óræð. Bipolar disorder, ofvirkni, etc. 

Ég felst þó á að alkohól er á einhvern máta ofnæmisvaldur, sem hefur áhrif á ansi vítalt líffæri og raskar efnabúskap þess. Sjúkdómur? Já kannski á sama máta og græðgi banksteranna fyrir hrun. Aunnið stjórnleysi og sósíópatía með alvarleg margfedisáhrif á alla. Þessvegna virði ég allt, sem gert er til rannsókna og meðferðar.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.5.2011 kl. 02:54

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tók einu sinni greiningarpróf á vegum SÁÁ og Erfðagreiningarinnar, sem var mikið og langt.  Ég var þá blautur á bakvið eyrun og svörin meira í anda þess sem ég taldi viðmælandann vilja heyra eða hvernig ég vildi sjá mig og fortíðina í samhengi "sjúkdómsins" og býst ekki við að ég gæfi sömu svör í dag.  Þetta er gersamlega óvísindaleg nálgun að mínu mati. Allavega hvað varðar alka. Relatívt var þetta allavega í hæsta máta og þá ekki endilega í póstmódernískum skilningi.  Hreinlega háð hita augnabliksins, stemmningu og hugmyndum og ranghugmyndum þar og þá.

Hér var sennilega verið að leita eftir fylgni einhverskonar og get ég ekki ímyndað mér að á þessu sé byggjandi.  Fólk, sem fær þessa greiningu er svo á allavega "stigum" og sumir greindir, sem ég hefði ekki haldið hafa sjúkleg einkenni frekar en hver annar. 

It's a mystery. 

Jón Steinar Ragnarsson, 17.5.2011 kl. 03:06

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú fyrirgefur svo rantið allt. Mér er málið hugleikið. Ég er sammála með hefðarvísindin. Þetta er á svipuðum nótum og guðfræðin raunar. Þú heldur þig við ákveðnar grunnályktannir eða stendur úti.

Afstæðni er annars hugtak, sem ég tel hættulegt að halda á lofti. Jafnvel óábyrgt, því við erum þó einatt að miða að því að flokka og festa hönd á bráðlifandi vanda þótt hann skorti alhæfanlega skilgreiningu. Það er auðvelt að færa rök fyrir því að frjáls vilji sé ekki til og líklega er hann það ekki samkvæmt strangri jarðbundinni skoðun, en það er þó varasamt að viðurkenna það eða halda á lofti sem normi og gera þar með alla að fórnarlömbum eða ósakhæfum í eigin tilveru.

En eins og ég segi, þá hallast ég að því að Alkohólismi hafi verið flokkaður sem sjúkdómur af praktískum ástæðum fremur en vísindalegum. Það vantaði lagalegan grunn til að taka á þessum einstaklingum, sem og fjárhagslegan grunn til að koma þessu inn í bóta og tryggingakerfi svo eitthvað mætti gera til að taka á vandanum með kerfisbundnum hætti. Það er jafnvel talið hjálpa strax að "sjúklingar" upplifi sig sem sjúklinga en ekki einhverskonar úrhrök í augum sjálfs sín og samfélags.  Ég held raunar að geðlæknisfræðin öll eigi tilveru sína undir þesskonar samkomulagi.

Svo er aftur spurning hvort þetta hjálpar til lang tíma, þar sem sýnt er að samfélög, sem hafa umgengist áfengi lengi hafa sorterað alkana úr genapollinum með ótímabærum dauða og lélegri endurnýjun. Þ.e. það eru færri alkar í Japan en á Grænlandi í réttu hlutfalli við reynslu þjóanna.

 Alkohólisminn hefur þó svo gríðarlega skemmandi áhrif útávið að það er engin réttlæting fyrir því að gera ekkert og láta þessa fáu einstaklinga deyja drottni sínum með sviðna jörð að baki.

Ég held að áfengi sé orsakavaldur í flestu illu í okkar samfélagi (meira að segja hruninu)  Ég sé ekkert jákvætt við það, þótt hæfileg slökun sé jákvæð í stressuðum heimi og sannarlega virkar það fínt þannig sem lyf. En er þá ekki eitthvað að samfélagi, sem þarf stöðugt að nota lyf sér til fróunnar og slökunnar? Kannski erum við að gelta upp í vitlaust tré þar.

Á hinn bóginn er alger hystería gagnvart góðum lækningarmætti kannabis og má nefna að Carl Sagan gagnrýndi það harðlega. Raunar er ekkja hans að fara að halda fyrirlestur um þau efni hér á landi á næstunni.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.5.2011 kl. 03:41

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Að lokum.  Mannskepnan er skrýtin skrúfa og þegar ég tala um kosti þess að flokka þetta sem sjúkdóm, þá hefur það líka galla þar sem margir gangast upp í þessari greiningu og draga sinn kross með pathos ómegnugir um að gera nokkuð sjálfir í bölvun sinni. Ég tel þó að lykilatriði í þessu öllu sé að það geti enginn haldið þessu niðri og öðlast sómasamlegt líf með reisn nema að átta sig á því að þetta er alfarið í höndum einstaklingsins. Annað er bara yfirborðsleg  leiðbeining og stuðningur.

Á þessu má sjá hversumikilvægur þáttur viðhorfa er í þessu.  Ég tel sjálfur að þau séu alfa og omega í að beisla þetta.  Það er hnífsegg sem feta verður svo ekkert sé of né van. Allt er þetta svo afar persónubundið og jafnvel bundið gildum, trú, uppeldi og umhverfi hver og eins.Það er því engin "ríkispilla" við þessu frekar en t.d. þunglyndi, sem á sérótölulegar orsakir, þótt hin"læknisfræðilega" nálgun sé algerlega einsleit og furðuleg í sjálfu sér.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.5.2011 kl. 04:21

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Þórður fyrir athyglisverðan inngang. Þú mátt mjög gjarnan birta lokaorðin að ritgerðinni líka. Það væri gaman að vita hver ályktun þín er, nú þegar vandamálið hefur verið kynnt.

Ég leyfi sjónarmið praktíserandi vísindamanns. Að mínu viti skiptir hönnun tilrauna/rannsókna öllu máli og síðan að bestu tölfræði sé beitt. Það er okkar skásta leið að sannleikanum.

Bakgrunnur minn er í líffræði, og þar skiptir sýn manna eða afstaða t.t.l. litlu máli. Vitanlega hafa menn vissa afstöðu, sem hefur flækst fyrir, t.d. í genadýrkun og ofuráherslu á orsakir innan fruma eða einstaklings (andstætt við orsakir sem liggja í samskiptum einstaklinga eða vistkerfi). Hér er ég sérstaklega að hugsa til geðlæknisfræðinnar og að hluta til læknavísindanna. Ég held að Jón Steinar sé á svipaðri skoðun (takk kærlega fyrir athyglisvert innlegg Jón!).

Annars finnst mér nokkuð borðleggjandi að áfengisneysla sé sjúkdómur eða allavega skaðvaldur. Margar rannsóknir hafa sýnt að regluleg neysla áfengis dregur úr lífslíkum (skorpulifur, bílslys, ...). Vitanlega skiptir máli hversu mikils er neytt og yfir hversu langan tíma, en ég tel nokkuð borðleggjandi að heildaráhrifin séu neikvæð.

Þannig getur tölfræðin sagt okkur að áfengi dragi úr lífslíkum. Síðan getum við leikið okkur að þeirri spurningu hvort að áfengissýki sé sjúkdómur, en hið tölfræðilega mynstur mun standa (og það er mjög góð vísbending um sannleikann).

Það fer síðan eftir fjölda góðra rannsókna, óháðra prófanna og hversu strangar tilraunirnar eru hvort  að við höfum landað sannleikanum. T.d. það er sannleikur að sígarettur skaða heilsu. En vandamálið er vitanlega að vita hvenær höfum við landað sannleikanum? Aftur tel ég að tölfræðin geti hjálpað okkur þar, með stórgreiningum (meta-analysis).

Arnar Pálsson, 17.5.2011 kl. 09:53

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Þú verður að fyrirgefa, ég hef ákaflega takmarkaðan áhuga á muninum á hægri og vinstri pólitík.

Arnar Pálsson, 17.5.2011 kl. 09:55

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo ég kommenteri á þig Arnar, þá veit ég ekki hvort ég miskilji þig, en mér sýnist þú segja að tölfræðin staðfesti að um sjúkdóm er að ræða. Minnkandi lífslíkur eða auknar lífslíkur má væntanlega mæla af hverju því sem við neytum er það ekki? Það þarf ekkert að segja til um annað en sumt er hættulegra okkur en annað. Áfengi er þar ytri orsakavaldur en ekki innri. 

Ég er nokkuð viss um að þú getur hvergi fundið dánarvottorð upp á að maður hafi dáið úr alkohólisma. (Það er raunar á þeim rökum sem menn vilja réttlæta Tazer byssurnar. Dánarorsökin er ávallt á grunni líkamlegs brests.  Spuni sem fer óendanlega í taugarnar á mér.)

Sama má væntanlega segja um t.d. þunglyndi. Það er þó sammerkt með þeim, sem fremja sjálfsvíg t.d. að þar er alger serotoninþurrð. Þessvegna nota menn kannski lýsinguna um að eitthvað dragi menn til dauða, þótt það drepi þá ekki beint. 

En ég verð nú að taka því fram að ég er bara leikmaður í þessu og blanda mér í svona umræður til að hjálpa sjálfum mér að skilja hlutina.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.5.2011 kl. 10:35

9 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Þakka ykkur innlitið og fróðleg skoðanaskipti.  Ritgerðin í heild sinni fylgir með sem skrá við færsluna.

Þórður Björn Sigurðsson, 17.5.2011 kl. 12:02

10 Smámynd: Hörður Þórðarson

Alkóhólismi er það þegar einstaklingur getur ekki hamið löngun sína í áfengi að því marki að hann geti notað, eða ekki notað það í þeim mæli að hann vinni sjálfum sér og eða öðrum tjón með neyslu sinni. Hvort menn vilja kalla það sjúkdóm eða ekki er síðan spurning sem hver og einn verður að gera upp við sig held ég.

Að kalla vandamálið sjúkdóm eflir kannski sjálfsmynd alkóhólistans. Þetta er ekki honum að kenna. Þetta er bara sjúkdómur sem verður að lækna. Ekki hans aumingjaskapur að geta ekki rifið sig upp úr þessu.

Jón skrifaði:

"En eins og ég segi, þá hallast ég að því að Alkohólismi hafi verið flokkaður sem sjúkdómur af praktískum ástæðum fremur en vísindalegum. Það vantaði lagalegan grunn til að taka á þessum einstaklingum, sem og fjárhagslegan grunn til að koma þessu inn í bóta og tryggingakerfi svo eitthvað mætti gera til að taka á vandanum með kerfisbundnum hætti. Það er jafnvel talið hjálpa strax að "sjúklingar" upplifi sig sem sjúklinga en ekki einhverskonar úrhrök í augum sjálfs sín og samfélags.  Ég held raunar að geðlæknisfræðin öll eigi tilveru sína undir þesskonar samkomulagi." 

Sjálfur myndi ég kalla hugmyndina um að alkóhólsmi sé sjúkdómur gagnlega lýgi. Flestar okkar hugmyndir og tilgátur um tilveruna má reyndar setja í þann flokk og þess vegna ætla ekki að gagnrýna það. Ef sú trú á að alkóhólsimi sé sjúkdómur getur hjálpað einhverjum, það er það af hinu góða.

Hörður Þórðarson, 17.5.2011 kl. 14:14

11 Smámynd: Starbuck

"Ef þessi kenning er túlkuð á róttækan hátt mætti segja að ekkert hlutlaust tungumál sé til, að allar upplýsingar séu háðar þeim kenningaramma sem þær koma úr og séu mótaðar af viðmiðinu.  Af þeim sökum eru ekki til aðferðir sem eru hlutlausar með tilliti til viðmiðanna, allir mælikvarðar á sannleika eru háðir því viðmiði sem þeir heyra til, engir mælikvarðar eru óháðir öllum viðmiðum og engir mælikvarðar eru sameiginlegir öllum viðmiðum.  Sannleikurinn er afstæður."

"Ef stigið er skrefinu lengra í túlkuninni og kenningin er notuð sem mælitæki á sjálfa sig er hún um leið orðin varhugaverð.  Því að ef kenningin boðar afstæðan sannleik hvernig er þá hægt að halda því fram að hún sé sönn? Slíkt væri ekki hægt nema að gert væri ráð fyrir því að einhvers staðar væri að finna einhvern altækan sannleik sem stæði utan við allar kenningar, viðmið og vísindi.  Í framhaldi væri þá hægt að spyrja að því hver sá sannleikur kynni að vera sem og velta „eðli" sannleikans fyrir sér: Hvað er sannleikur?"

Þetta er mjög athyglisverðar pælingar!

Það er ekki hægt að "sanna" neitt nema gefa sér fyrst ákveðnar forsendur og á þá "sönnunin" aðeins við út frá þeim forsendum.

"Sannleikur" er hugtak sem er eins og önnur hugtök tæki sem við notum til að hjálpa okkur að skilja heiminn.  Merking þess fer eftir því hvaða skilning við ákveðum að setja í það.  Hugtakið sannleikur er sem sagt afstætt fyrirbæri eins og öll þau tæki og orð sem við notum til að rannsaka heiminn og lýsa honum.  

Ef það er til algildur sannleikur þá er hann utan þess sviðs sem vísindalegar aðferðir ná til og utan þess sviðs sem tungumálið getur lýst.  Við getum aldrei sannað (né afsannað) að algildur sannleikur sé til.  Er þá hinn algildi sannleikur (ef hann er til) algjörlega utan seilingar?  Það held ég ekki.  Ég held að hann sé til en eina leiðin til að nálgast hann sé með persónulegri upplifun! 

Til að upplifa Sannleikann þarf maður að komast handan við hugann (sem er mjög einfalt en ótrúlega erfitt).  Trúarbrögðin (kannski sérstaklega Búddisminn) bjóða upp á ýmsar aðferðir til þess t.d. hugleiðsluiðkun og íhuga þverstæður eins og "Sannleikurinn er afstæður". 

Til að nálgast afstæðan sannleika verðum við að nota vísindi.  Til að nálgast algildan sannleika verðum við að nota trúarbrögð.

Starbuck, 17.5.2011 kl. 15:51

12 Smámynd: Hörður Þórðarson

Virkilega góð færsla, Starbuck. Ég vil í þessu samhengi benda á að margir telja Búddisma ekki vera trúarbrögð, heldur frekar leiðarvísir til að nálgast þennan sannleika sem þú talar um.

Hörður Þórðarson, 17.5.2011 kl. 16:09

13 Smámynd: Starbuck

Þetta langar mig að segja um alkóhólisma

Að mínu mati er ekki hægt að aðskilja alkóhólisma frá öðrum fíkni"sjúkdómum".  Það má segja að fíkn (í hvað sem er) sé sjúklegt ástand en ég held að það skipti ekki svo miklu máli hvort fíknin er flokkuð sem lífeðlisfræðilegur sjúkdómur eða ekki.  Aðalmálið er að í boði séu aðferðir sem hjálpa einstaklingnum að sigrast á fíkninni. 

AA-nálgunin gengur út á að leita til æðri máttar.  Það held ég að hjálpi mörgum - en að það sé eina leiðin held ég ekki.

Starbuck, 17.5.2011 kl. 16:18

14 identicon

Í raun finnst mér þessi umræða um hvort alkóhólismi sé sjúkdómur eða ekki vera deila um keisarans skegg.  Eitt er víst, þetta er fyrirbæri sem heilbrigðiskerfið verður að glíma við, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 19:14

15 identicon

Ég held að drjúgur hluti fyrsta kaflans í riti Isaac Newtons, Philoshipiæ Naturalis Principia Mathematic, hafi farið í að sanna að 1+1=2.

Vitanlega er alkóhólismi dulítið flóknari.

Jóhann (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband