Fundur um stöðu atvinnuleitenda; fundargerð

Hreyfingin stóð fyrir málefnafundi á Kaffi Sólon í gærkvöldi um stöðu atvinnuleitenda.  Frummælendur voru Karl Sigurðsson, sviðsstjóri vinnumálasviðs Vinnumálastofnunar og Hörður Ingvaldsson, atvinnuleitandi.

Í framsögu sinni vék Hörður m.a. að samskiptum sínum við Vinnumálastofnun og gerði hann athugasemd við það hvernig stofnunin meðhöndlar fólkið sem til hennar leitar.  Hörður lýsti þeirri skoðun sinni að stofnunin horfi á atvinnuleitendur sem vandamál frekar en skjólstæðinga.  Ennfremur noti stofnunin hvert tækifæri til að ná fólki af bótum með einhverjum ráðum.  Til að rökstyðja þessa skoðun sína tók Hörður dæmi um reglur Vinnumálastofnunar er lúta að sviptingu atvinnuleysisbóta fari atvinnuleiutandi erlendis en Hörður þáði boð vina um vikudvöl í Danmörku fyrir skemmstu.  Hörður sagði rökstuðning stofnunarinnar þess efnis að viðkomandi geti ekki stundað virka atvinnuleit fyrirslátt, ekki sé hlustað á mótrök svo sem að viðkomandi hafi stundað atvinnuleit í gegnum netið og geti framvísað gögnum því til sönnunar.

Karl tók til umfjöllunar ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um atvinnuleysi , stöðuna dag og framtíðarhorfur.  Atvinnustig í fjármálageiranum í samanburði við aðra geira vakti athygli en skv. gögnum Karls er um 5% atvinnuleysi í þeim geira sem er talsvert undir meðaltali.  Atvinnuleysi á landsvísu er nú um 9% og hafa sumar greinar mátt þola um og yfir 20% atvinnuleysi, til að mynda í mannvirkjageiranum.  Eins kynnti Karl átaksverkefnið Ungt fólk til athafna sem er ætlað að spyrna við vaxandi langtímaatvinnulseysi á meðal ungs fólks sem er að sögn Karls „verulegt áhyggjuefni“.

Þegar opnað var fyrir fyrirspurnir og umræður mátti heyra að hljóðið í mörgum fundarmönnum var mjög þungt.  Meðal annars voru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að taka ekki með í reikninginn upplýsingar um fjölda þeirra sem hafa yfirgefið Ísland þegar atvinnuleysisstigið er útreiknað.  Niðurstaðan væri skekkt mynd í þágu skuggalegrar efnahagsstefnu.  Einhverjir sögðu farir sínar af samskiptum við Vinnumálastofnun ekki sléttar.  Sumir höfðu áhyggjur af því að boðaðar þrengingar reglna um bótarétt sjálfstætt starfandi aðila myndu auka líkurnar á svartri atvinnustarfsemi.  Kallað var eftir talsmanni atvinnuleitenda og spurt var að upplýsingaskyldu og ábyrgð vinnumálastofnunar gagnvart þeim sem til hennar leita.  Ítrekað lýstu fundarmenn þeirri afstöðu sinni að Vinnumálastofnun þyrfti að rækta betur skyldur sínara gagnvart skjólstæðingum sínum og að viðhorfsbreytingar væri þörf.  Lögð var áhersla á að gera bótakerfið sveigjanlegra og til að forða því að fólk festist á atvinnuleysisibótum væri nauðsynlegt væri að þiggja ráðgjöf frá nágrannaríkjum sem hefðu gengið í gegnum hátt atvinnuleysisstig.  

Karl viðurkenndi að stofnunin væri undirmönnuð og að hún væri ekki nægilega vel í stakk búin til að sinna þjónustuhlutverki sínu.  Karl sagðist myndi koma boðskap fundarins til skila.Fundarstjóri var Ásta Hafberg.


mbl.is Atvinnumálin í forgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband