Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Hornsteinn að samfélagssáttmála

Því miður fer því fjarri að allt sem máli skipti varðandi fjármál stjórnmálaflokkanna sé fram komið.

Almenningur á skýlausan rétt á að flokkarnir opni bókhald sitt nokkur ár aftur í tímann.  T.d. frá því fyrir einkavæðingu bankanna.  Hér má sjá töflu yfir einkavæðingu frá 1992.

Það kann að vera sársaukafullt að draga þessi mál fram í dagsljósið en það er nauðsynlegt svo heiðarlegt uppgjör við fortíðina geti farið fram.

Slíkt uppgjör mætti líta á sem hornstein að nýjum samfélagssáttmála, svo það mikilvæga uppbyggingarstarf sem fyrir þjóðinni liggur megi hefjast.

Ég skora á flokkana að tefja ekki fyrir endurreisninni og taka til óspilltra málanna með þjóðinni.



mbl.is Allt komið fram sem máli skiptir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðaþjónusta vonarglætan í íslensku efnahagslífi?

SAF gefur árlega út lítinn bækling með statistík um ferðaþjónustu á Íslandi.  Bæklinginn má nálgast hér

Nokkrar áhugaverðir punktar um Ferðaþjónustu á Íslandi 2008 

• Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum voru tæpir 110 milljarðar árið 2008 (17% af útflutningstekjum þjóðarinnar)

• Frá árinu 2000 til 2008 hafa gjaldeyristekjur af greininni aukist um 169%

• Árið 2006 var heildarneysla í ferðaþjónustu samkv. TSA 135 milljarðar króna. Leiða má líkur að því að heildarneyslan hafi verið 175 – 185 milljarðar árið 2008. Þá er tekið mið af gjaldeyristekjum ásamt aukningu í gistnóttum Íslendinga og 10% verðbólgu

• Frá árinu 2000 til 2008 hefur fjöldi rúma á hótelum og gistiheimilum aukist um 54%

• Frá árinu 2000 til 2008 hefur fjöldi gistinátta á hótelum og gistiheimilum akist um 56%
He
imild: Hagstofa Íslands

• Frá árinu 2000 til 2008 hefur fjöldi erlendra ferðamanna aukist um 66%
Heimild: Ferðamálastofa

• Frá árinu 2000 til 2008 hefur fjöldi gesta í hvalaskoðunarferðum aukist um 161%
Heimild: Hvalaskoðunarsamtök Íslands


mbl.is Vonarglæta í efnahagslífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunasamtök heimilanna taka líka á móti sjálfstæðismönnum...

...framsóknarmönnum, samfylkingarfólki, borgurum, vinstri grænum, frjálslyndum, L-listafólki, lýðræðishreyfingjum, þeim sem kjósa Andrés önd eða yrkja vísu á kjörseðilinn, og meira að segja þeim sem sleppa því að kjósa.

Tökum stöðu með heimilunum! 

http://skraning.heimilin.is/


mbl.is Taka á móti sjálfstæðismönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Don't bite the hand that feeds you

Fréttir af háum styrkjum til handa stjórnmálaflokkum frá fjármálaelítunni á Íslandi kalla eðlilega fram sterk viðbrögð meðal almennings.  Í áraraðir hefur því verið haldið fram að Ísland sé eitt af minnst spilltu löndum heims.  Í kjölfar hruns fjármálakerfisins hefur annað því miður komið á daginn.

Eftirminnilegt „Bréf frá bankamanni“ sem var birt á bloggsíðu Egils Helgasonar þann 30. okt. 2008, olli ákveðnum straumhvörfum í umræðunni varðandi tengsl stjórnmálamanna og forystu ASÍ við fjárvaldið.  Þó bréfið snúist fyrst og fremst um  málefni starfsmanna bankans kom fljótlega á daginn að margir fulltrúar almennings tengdust þessum málum á vægast sagt óheppilegan máta á einn eða annan hátt.    

Í því samhengi hefur komið fram að á Íslandi höfum við skv. stjórnarskrá þrískipt vald:  Löggjafavald, framkvæmdavald og dómsvald.  Fjölmiðlar eru oft tilgreindir sem fjórða valdið.  Fimmta valdið er hins vegar fjárvaldið, sem gleypti öll hin.

Þessu til stuðnings má minna á frétt sem birt var í Morgunblaðinu þann 22. Júní 2006.  Í henni kom fram að „athugun Viðskiptaráðs á afgreiðslu frumvarpa Alþingis á síðasta starfsári hefur leitt í ljós að Alþingi  fórí 90% tilfella að hluta eða öllu leyti eftir tilmælum ráðsins, sem lögð voru fram í athugasemdum með frumvörpunum“.

Það er átakanlegt að horfast í augu við ískaldar staðreyndir málsins.  Sjálfsímynd þjóðarinnar verður vart söm.  

Það að spillingin sé nú að einhverju leiti orðin opinber hjálpar okkur þó að setja raunveruleikann í samhengi.  Þess vegna þarf nýkynnt samkomulag stjórnvalda við fjármálaelítuna á Íslandi um greiðslujöfnun íbúðalána ekki endilega að koma svo mjög á óvart.  Né heldur að ekki sé búið að afnema verðtrygginguna.


mbl.is Flokkarnir skulda hálfan milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússíbanareið heimila með gengistryggð íbúðalán

Núverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var mynduð m.a. til að hrinda í framkvæmd brýnum og mikilvægum aðgerðum, einkum í þágu heimila og atvinnulífs (sjá nánar á www.island.is).  Forsætisráðherra hefur einnig lýst ítrekað yfir að fyrirhugað sé að leysa vanda heimila sem eru með íþyngjandi gengistryggð íbúðalán. Þessi heimili hafa nú þurft að búa við stöðuga óvissu, ef ekki fullkomna angist, í allt að tvö ár frá því krónan tók fyrst að veikjast. Vert er að benda öllum sem fjalla um málið opinberlega á að höfuðstóll erlendra lána hefur hækkað um allt að 150% frá því á miðju ári 2007. Ætla má að slík hækkun á höfuðstóli og afborgunum íbúðalána hafi haft í för með sér hækkandi blóðþrýsting,  áhyggjur og svefnleysi þeirra sem tóku slík lán. Þeir sem það gerðu, gerðu það þó í góðri trú á efnahagsstjórn landsins og í trausti til fjármálastofnana þeirra sem lánin voru tekin hjá og bera enga ábyrgð á stöðu krónunnar í dag. 

Hagsmunasamtök heimilanna skora á núverandi ríkisstjórn að láta verkin tala með því að taka nú þegar á þessum bráðavanda heimilanna með raunhæfri leiðréttingu áður en lánin losna úr frystingu nú með vorinu. Einnig eru stjórnvöld og heimilin í landinu hvött til að láta ekki blekkjast af gyllitilboðum og bráðabirgðalausnum fjármálastofnana.

Greiðslujöfnunarleið bankanna áhættusöm og íþyngjandi fyrir heimilin

Haraldur Líndal Haraldsson hagfræðingur skrifar ágætis grein um vanda gengis- eða verðtryggðra lána í Fréttablaðið þann 28. mars sl.. Þar bendir hann réttilega á að greiðslujöfnunarleið Íslandsbanka dugi ekki ef stjórnvöldum takist ekki að styrkja gengi krónunnar.  Þrátt fyrir þessa ábendingu þá leggur Haraldur til að lánastofnanir bjóði greiðslujöfnunarleið Íslandsbanka. Það verður að teljast athyglisvert í ljósi þess að krónan hefur veikst um 10% síðast liðnar 2 vikur.  Spyrja má því hvort Haraldi og stjórnvöldum finnist eðlilegt og sanngjarnt að heimilin í landinu séu í áhættuviðskiptum með krónuna á tímum þegar forsendur lánanna eru algjörlega brostnar vegna efnahagshrunsins og óstöðugleika krónunnar.

Heimili sem tóku erlend íbúðalán hafa lifað við stöðuga óvissu vegna veikingar krónunnar nú í allt að tvö ár, en ekki bara frá 6. október. Lán sem tekið var í maí 2007 að upphæð um 16 mkr. (meðalskuldir heimilanna skv. Seðlabankanum)  helmingur í japönskum jenum og hinn helmingurinn í svissneskum franka stendur nú,  eftir um 10% veikingu krónunnar síðustu tvær vikur, í um 35 mkr. Ef viðkomandi lán væri ekki í frystingu væri þessi fjölskylda að borga sem nemur ríflega 100% meira í mánaðarlega afborgun en við upphaflega lántöku, eða úr um 110 þúsund krónum á mánuði í allt að 250 þúsund krónur  (og er þá ekki tekið tillit til þess að margar fjármálastofnanir hækkuðu einnig vexti á erlendum lánum á tímabilinu). 

Úr áhættusömum bráðabirgðalausnum í langtímalausnir

Svo virðist sem fjármálastofnanir séu nú enn og aftur byrjaðar að bjóða heimilunum upp á flóknar fjármálalausnir sem settar eru í fallegan markaðsbúning s.s. eins og greiðslujöfnunarleiðina. Slík lausn er í raun eingöngu bráðabirgða- og skammtímalausn sem leysir ekki vandann en heldur  heimilunum áfram í rússíbanareiðinni með gengi íslensku krónunnar. Vandanum er í raun kastað inn í framtíðina, jafnvel til elliáranna, ef ekki  til barnanna sem verða þeirrar gæfu aðnjótandi að erfa skuldabagga foreldranna sem gistu í  þrælabúðum krónunnar og fjármálastofnana frá lántökudegi árið 2007.

Hagsmunasamtök heimilanna skora hér með á stjórnvöld að koma fram með raunhæfa langtíma lausn fyrir þá sem voru ginntir með markaðstilboðum bankanna til að taka erlend lán, með því að leiðrétta þessi lán áður en þingi er slitið og áður en lánin losna úr frystingu. Leiðréttingin felst í því að boðið verði upp á að breyta lánunum í krónulán frá og með þeim degi sem þau voru tekin. Til samræmis við önnur íbúðalán í landinu mætti setja á þau verðtryggingu líkt og á önnur íbúðalán. Með þessu móti sætu allir íbúðalántakendur í landinu við sama borð og gætu barist saman fyrir leiðréttingu á verðtryggingunni vegna áhrifa af spákaupmennsku og hruni efnahagskerfisins eins og Haraldur Líndal Haraldsson hagfræðingur telur þörf á og Hagsmunasamtök heimilanna eru honum fyllilega sammála um.


mbl.is Þarf samþykki allra fyrir greiðslufrystingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsátt um efnahagsvanda heimilanna

Nú í aðdraganda kosninga er kastljósinu beint að efnahagskreppunni og hvernig hún bitnar á almenningi í landinu.  Í því samhengi hafa Hagsmunasamtök heimilinna kallað eftir skýrum svörum um stefnu stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki og farið fram á upplýsingar um nákvæmar, vel skilgreindar og tímasettar mótvægisaðgerðir flokkanna.

Staða heimilanna
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum starfshóps Seðlabanka Íslands sem birtar voru þann 11. mars s.l. voru 42% heimila með neikvæða eða afar takmarkaða eiginfjárstöðu um síðustu áramót.  Í ljósi þess mikla verðfalls sem er fyrirsjáanlegt á fasteignamarkaði á næstu misserum er mikilvægt að hafa í huga að starfshópurinn skilgreinir húsnæðiseign út frá á fasteignamati í desember 2008.  Af þeim sökum má ætla að heimilum með neikvæða eiginfjárstöðu fjölgi umtalsvert á næstunni.  Að auki hefur höfuðstóll gengis- og verðtryggðra lána, og þar með mánaðarlegar afborganir fjölskyldna, nú þegar hækkað verulega samhliða launalækkunum og vaxandi atvinnuleysi.

Almennar eða sértækar aðgerðir?
Þegar rýnt er í afstöðu stjórnmálaflokkanna til málsins kemur í ljós að sú hugmyndafræði sem einkum er lögð til grundvallar byggir annars vegar á almennum aðgerðum og hins vegar sértækum.   Gróft á litið mætti staðhæfa að flokkarnir skipi sér í tvær fylkingar í þessum efnum.  Sem dæmi um almennar aðgerðir má nefna 20% leiðréttingu höfuðstóls íbúðalána á meðan aðgerð á borð við greiðsluaðlögun skoðast sem sértækt úrræði.

Til að rökstyðja hvers vegna beri að grípa til sértækra úrræða fremur en almennra er gjarnan vísað til takmarkaðrar getu hins opinbera til að taka á sig frekari skuldbindingar og að með sértækum lausnum sé aðstoðinni beint þangað sem hennar er þörf og vandinn hvað mestur.

Þeir sem gagnrýnt hafa þessa nálgun halda því fram  að vandinn sé mun alvarlegri en gefið sé í skyn, þörfin fyrir róttækari aðgerðir sé knýjandi og vísað er til þess að á óvenjulegum tímum dugi engin venjuleg ráð.  Fyrirsjáanlegt sé að fjöldi þeirra sem á aðstoð þurfi að halda á næstu mánuðum og árum sé svo mikill að ekki fáist með góðu móti séð að hægt verði að sinna þörfinni á skilvirkan hátt. 

Eins hefur komið fram að nýju bankarnir kaupi lánasöfn gömlu bankanna með miklum afföllum og því sé sanngjarnt og skynsamlegt að þau afföll verði að hluta látin ganga áfram til lántakenda.  Slíkt verði þegar upp er staðið til þess fallið að auka raunveruleg gæði lánasafnsins.  Einnig hefur verið bent á að sértæku lausnirnar taki á vandanum eftir á, þegar það liggi fyrir að bráðnauðsynlegt sé að fyrirbyggja að vandinn verði ekki óyfirstíganlegur.

Greiðsluaðlögun nær ekki til íbúðalána
Þegar fjallað er um greiðsluaðlögun er mikilvægt að hafa í huga að þau lög sem nýlega voru samþykkt á alþingi taka ekki til veðkrafna (t.d. íbúða- og bílalána) heldur samningskrafna (skuldir sem ekki eru tryggðar með veði í eignum skuldara).  Hins vegar liggur fyrir þinginu annað frumvarp sem tekur til fasteignaveðkrafna.  Það frumvarp hefur ekki verið samþykkt.  Velta má fyrir sér hvort nægilegur tími sé til að afgreiða það fyrir kosningar og hvort ekki hefði verið æskilegra að afgreiða þessi tvö frumvörp samtímis.

Greiðsluaðlögun samningnskrafna felur í sér heimild til að aðlaga skuldastöðu og greiðslubyrði að raunverulegri greiðslugetu ef sýnt er  fram á að viðkomandi  sé og verði um ófyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.  Mikilvægt er að gera grein fyrir því að ekki eiga allir rétt á þessu úrræði.  Lögin ná ekki til þeirra sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra.

Það frumvarp sem liggur nú fyrir þinginu um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna felur ekki í sér aðlögun / eftirgjöf skulda.  Fyrst og fremst er um að ræða frestun afborgana og lengingu lána samhliða því að greiðslubyrði er tímabundið löguð að greiðslugetu lántakenda en þó þannig að hún nemi að lágmarki fjárhæð hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir þá fasteign sem um ræðir.  Það er þó opið fyrir það í lok greiðsluaðlögunartímabilsins, sem getur verið allt að 5 ár, að ef sýnt sé að skuldari verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með greiðslu geti skuldari þá leitað eftir því „að veðréttindi sem standa til tryggingar uppreiknaðra eftirstöðva veðskulda á fasteigninni sem hún varðar og nema hærri fjárhæð en svarar til söluverðs fasteignarinnar á almennum markaði að viðbættum 10 hundraðshlutum verði afmáðar af fasteigninni enda sýni skuldari fram á að hann geti staðið í fullum skilum með þær veðskuldir sem áfram hvíla á fasteigninni“. 

Neyðarlögin vörðuðu veginn
Bent hefur verið á að með setningu neyðarlaganna hafi innstæður verið tryggðar umfram skyldu og að einnig hafi verið komið til móts við þá sem áttu sparifé sem tapaðist í peningamarkaðssjóðum.  Án þess að draga úr mikilvægi slíkra aðgerða mætti spyrja um kostnað í því samhengi (talan 800 milljarðar hefur verið tilgreind).  Með þessu móti hafi í raun verið gert upp á milli sparnaðarforma þar sem þeir sem settu sparifé sitt í fasteign horfa á það brenna upp á verðbólgubáli.  Eins má minna á að ráðgjöf banka í húsnæðismálum síðustu árin og verðbólguforsendur þeirra við lántöku stóðust ekki.  Á sama tíma tóku bankar, eigendur þeirra og stjórnendur, stöðu gegn krónunni og ollu með því hækkun höfðustóls lána, bæði gengis- og verðtryggðra.

Almennar aðgerðir sem tryggja þjóðarsátt og sértækar fyrir þá verst settu
Spurningin um hvort grípa skuli til sértækra eða almennra aðgerða er því alla vega tvíþætt.  Augljóslega snýst málið um hvoru tveggja þjóðarhag sem og réttlæti gagnvart heimilunum í landinu. 
Hagsmunasamtök heimilanna hafa kynnt sínar tillögur um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar.  Þær aðgerðir eru í raun blanda af sértækum og almennum aðgerðum og er ætlað að skapa þjóðarsátt um efnahagsvanda heimilanna og leggja samhliða hornstein að efnahagslegri endurreisn þjóðarbúsins.  Hugmyndin er að grípa fyrst til almennra aðgerða til að fækka verulega í þeim hópi sem á sértækum lausnum þurfa á að halda.  Tillögur samtakanna eru að boðið verði upp á að gengistryggðum íbúðalánum verði umbreytt í verðtryggð krónulán frá lántökudegi einstakra lána.  Samhliða takmarkist verðbótaþáttur verðtryggðra íbúðalána, frá og með 1. janúar 2008, við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, eða að hámarki 4%.  Dugi þetta ekki til geti fjölskyldur leitað eftir greiðsluaðlögun.
mbl.is AGS tjáir sig ekki um „skjalið sem lak út“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lætur þú atkvæði þitt falla með heimilunum?

Smellið á myndina fyrir læsilega upplausn (látið opnast í sér glugga og súmmið inn):

hh


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stríðið gegn Íslandi

Fréttablaðið, 04. apr. 2009 07:15

Stríðið gegn Íslandi - Michael Hudson skrifar

mynd
Michael Hudson

Ísland hefur orðið fyrir árás - ekki hernaðarárás, heldur fjármálaárás. Afleiðingarnar eru jafn banvænar þrátt fyrir það. Fleiri verða veikir, lifa í örvæntingu og deyja fyrir aldur fram ef þjóðin neitar ekki að greiða til baka megnið af þeim lánum sem prangað hefur verið inn á hana á síðustu átta árum. En leiðin til bjargar er þyrnum stráð. Voldugir skuldunautar á borð við Bandaríkin og Bretland munu siga áróðursmeisturum sínum, sem og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum á Íslendinga og krefjast þess að þeir verði hnepptir í skuldafangelsi með því að þvinga þá til að greiða skuldir sem þessar þjóðir myndu aldrei greiða sjálfar.

Til að komast út úr skuldafeninu verða Íslendingar að átta sig á hvers konar efnahagsástand sjálfseyðingar íslenskir bankamenn hafa skapað. Þrátt fyrir að hafa eytt nærri hálfri öld í að rannsaka þjóðir í erfiðri skuldastöðu hef ég sjaldan eða aldrei séð neitt í líkingu við ástandið á Íslandi. Hér á landi hafa bankarnir steypt sér í svo gríðarlegar skuldir að verðgildi krónunnar mun rýrna til frambúðar og leiða af sér verðbólgu næstu áratugina.



Skuldaleikurinn

Í gegnum söguna hafa skuldugar þjóðir oftast farið þá leið að losa sig við skuldirnar með hjálp verðbólgu, þ.e. borgað skuldirnar með „ódýrum peningum". Ríkisstjórnir prenta peninga og viðhalda fjárlagahalla til þess að hækka verðlag og þannig er meira fjármagn í boði, en vöruframboð óbreytt. Þessi verðbólga og gengisfall minnka skuldabyrðina svo framarlega sem laun og aðrar tekjur hækka samhliða.

Ísland hefur snúið þessari lausn á hvolf. Í stað þess að auðvelda hina hefðbundnu skuldaleiðréttingu hefur verið sköpuð paradís lánardrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánadrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.

Það er eðlilegt að fólk greiði lán sem tekin hafa verið á heiðarlegan hátt. Venjulega er gert ráð fyrir að fólk taki lán - og bankar láni - til vænlegra fjárfestinga, sem skili arði sem síðan er hægt að nýta til að greiða lánið til baka auk vaxta. Þannig hafa bankar starfað um aldaraðir og þannig hefur orðið til ímynd hins varkára bankamanns sem neitar fjölmörgum þeirra sem sækjast eftir lánum frá honum.

Þannig var það að minnsta kosti einu sinni. Fáir sáu fyrir sér að aðgangur að lánsfé yrði svo greiður að þau vanskil sem við sjáum í dag væru óhjákvæmileg. Í Bandaríkjunum eru þannig þriðjungur þeirra sem tóku húsnæðislán með neikvæða eiginfjárstöðu. Það þýðir að lánin eru orðin hærri en virði eignanna sem þau hvíla á.

Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða, einmitt þegar þær þurfa mest á því að halda. Þetta gildir þó aðeins um litlu þjóðirnar. Þær þjóðir sem hæst hrópa á Íslendinga að greiða lán spákaupmannanna eru undanskildar. Þar eru fremstar í flokki þær þjóðir sem eru skuldsettastar, Bandaríkin og Bretland, undir stjórn manna sem dytti aldrei í hug að leggja slíkar byrðar á eigin þegna. Um leið og þessar þjóðir lækka skatta og auka á fjarlagahallann reyna þær að kúga peninga út úr smærri og veikburða þjóðum, líkt og þær stunduðu gagnvart Þriðjaheimsríkjum á 9. og 10. áratug síðustu aldar.



Fjármálastríðið

Á síðustu árum hefur Ísland orðið fyrir árásum alþjóðlegra lánadrottna. Þeir hafa náð að sannfæra hóp lukkuriddara um að leiðin til auðs og hagvaxtar væri í skuldsetningu, en ekki ráðdeild. Bankar og spákaupmenn í innsta hring alþjóðafjármálakerfisins höfðu það að meginstarfi að selja skuldir og þurftu að búa sig undir það efnahagslega hrun sem sagan sýnir að fylgi óhjákvæmilega í kjölfar slíkrar ofurskuldsetningar. Það gerðu þeir með því að sá fræjum hugmyndafræði sem leit á keðjuverkandi skuldsetningu sem góða hagstjórn.

Stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum er að koma á stöðugleika og forðast kreppu með því að færa niður skuldir til jafns við lækkandi markaðsverð, en ekki síður að ná greiðslubyrði húsnæðislána niður á viðráðanlegt stig, þ.e. innan við 32% af tekjum heimilanna. Í öðrum löndum er einnig verið að færa niður skuldir svo fólk og fyrirtæki geti staðið í skilum. Á Íslandi er verðtryggingin hins vegar að belgja út skuldir og steypa húseigendum í neikvæða eiginfjárstöðu.

Það fyrsta sem Íslendingar verða að gera er að átta sig á að landið hefur orðið fyrir efnahagslegri árás útlendinga, sem studdir voru af íslenskum bankamönnum. Til að hafa sigur reyndu þessir lánadrottnar að sannfæra þjóðina um að skuldir væru framleiðsluhvetjandi og að hagkerfið efldist, þar sem verðmæti þess ykist - þ.e. eignir yxu umfram skuldir. Þannig var gert ráð fyrir að verð myndi aldrei lækka og við myndum aldrei standa eftir með skuldirnar einar og neikvæða eiginfjárstöðu. Þeir gerðu sitt besta til að sannfæra þjóðina um að það væri slys sem gerðist aðeins einu sinni á öld eða svo, en ekki óhjákvæmileg afleiðing gríðarlegrar skuldsetningar með samsettum vöxtum án tekjuaukningar sem stæði undir vaxtagreiðslum.

Þessari hugmyndafræði er nú fylgt eftir með því að telja íslenskum almenningi trú um að honum standi ekkert annað til boða en að borga skuldirnar sem örfáir einstaklingar hafa steypt sér í, skuldir sem safna vöxtum að öðrum kosti. Þjóðin þarf einfaldlega að gera sér grein fyrir því að þær skuldir sem krafist er að hún greiði, eru meiri en hún getur ráðið við.



Hvernig eiga Íslendingar að borga?

Íslendingar verða að gera sér grein fyrir því fyrr en seinna að ekki er hægt að greiða þessar skuldir og um leið halda uppi sanngjörnu samfélagi. Óhjákvæmilegt er að afskrifa skuldir á einhvern hátt. Hversu mikið er ekki hægt að segja til um fyrr en vitað er hver skuldar hverjum og hversu mikið. En Ísland er sjálfstætt ríki og getur sett hver þau efnahagslög sem því hentar, svo framarlega sem þau mismuna ekki fólki eftir þjóðerni.

Alþjóðlegir lánadrottnar munu mótmæla harðlega. Markmið þeirra er að halda fjármálaheiminum utan alþjóðalaga og gera innheimtu skulda óháða lýðræðislegum reglum. Þannig reyna alþjóðlegar fjármálastofnanir að hindra stjórnvöld í að koma böndum á óhefta lánastarfsemi og eignaupptöku. Málpípur fjármagnseigenda saka þannig stjórnvöld um að hefta hinn frjálsa markað, þegar þau eru í raun eina aflið sem getur komið í veg fyrir að heilu þjóðirnar verði hnepptar í skuldafangelsi.

Með því að fara fram á greiningu á því hver skuldar hverjum hvað getur Ísland komið boltanum í fang lánadrottnanna og látið þeim eftir að svara því hvernig í ósköpunum Íslendingar eigi að fara að því að borga og hverjar efnahagslegar afleiðingar þess verði. Hvernig geta Íslendingar borgað á næstu árum án þess að landsmenn tapi unnvörpum eignum sínum og félagslega kerfið verði lagt í rúst? Hvernig geta Íslendingar greitt skuldir sínar án þess að keyra sig í þrot, leggja niður þjóðfélag félagslegs jafnréttis og koma hér á samfélagi örfárra ofurríkra lánadrottna og svo örsnauðs almennings? Það er raunveruleg hætta á að hér myndist ný stétt fjármagnseigenda sem stjórna muni landinu næstu öldina eða svo.

Íslendingar hafa verið prettaðir. Eiga þeir að líta á það sem skyldu sína að greiða þjóðum sem hafa ekki í hyggju að greiða nokkurn tíma sínar eigin skuldir? Svo lánadrottnar fái greitt þurfa þeir að sannfæra skuldunauta sína um að þeir geti í raun og veru borgað, þ.e. borgað án þess að leggja samfélagið í rúst, selja auðlindir sínar eða koma á gríðarlegri stéttaskiptingu fjármagnseigenda og skuldara.



Lánin eða lífið?

Íslendingar verða að líta til langs tíma. Hvernig á efnahagskerfið að lifa af og vaxa til framtíðar? Verðtryggingu lána verður að afnema. Gjaldeyrislán verður að færa yfir í krónur á lágum, óverðtryggðum vöxtum eða afskrifa að hluta eða öllu leyti. Markmiðið á að vera að fella niður skuldir sem valda efnahagslegu tjóni.

Leiðarljósið er heilbrigt efnahagskerfi í heild sinni. Þeir sem heimta mest eru ekki þeir sem skulda mest, heldur þeir sem hafa lánað mest. Markmið þeirra er að tryggja völd sín í samfélaginu. Umfram allt vilja þeir hámarka vald skulda umfram verðmætasköpun. Þess vegna er verðtrygging lána notuð til að tryggja að bankarnir hagnist á hruni efnahagslífsins, en ekki almenningur, sem greiða þarf jafnt skuldirnar sem og kostnaðinn af hækkandi verðlagi og hruni krónunnar. Lánadrottnar um allan heim eru í óða önn að færa niður skuldir í takt við lækkandi fasteignaverð. Á Íslandi hafa bankarnir hins vegar fengið að hækka skuldabyrðina um 14% á síðasta ári, á meðan fasteignaverð hefur lækkað um 21%! Því verra sem efnahagsástandið er, því sterkari eru lánveitendurnir. Þetta er ávísun á efnahagslegt sjálfsmorð þar sem dýpkandi kreppa hneppir æ fleiri í skuldafangelsi.

Ísland getur tekið forystu og orðið fyrirmynd annarra þjóða í efnahagslegu jafnrétti. Aldrei hefur verið betra tækifæri til að taka afstöðu til þess um hvað standa á vörð - óyfirstíganlegar skuldir eða framtíð íslensks samfélags? Munu stjórnvöld verja þegna sína fyrir afætum fjármálaheimsins, eða munu þau færa þeim íslenska hagkerfið á silfurfati? Það er spurningin sem íslensk stjórnvöld verða að svara.


mbl.is Samræmd úrræði vegna greiðsluerfiðleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um 8% kjósenda á atvinnuleysiskrá

Alls eru 17.944 skráðir á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar í dag.  Það hlýtur að gefa ákveðna vísbendinu um stöðu mála þegar um 8% kjósenda eru á atvinnuleysisskrá, en skv. þessari frétt eru á kjörskrá eru 227.896 manns.

Ef allir atvinnulausir myndu kjósa sama flokkinn myndu þeir ná inn manni á þing.  Er kominn tími á stjórnmálaflokk sem hefur það markmið að sinna hagsmunagæslu atvinnulausra?

Og hvernig ætla flokkarnir sem bjóða fram í ár að höfða til þessa hóps?


mbl.is 17.944 á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kolli mínum geymi ég gullið...

Óverðtryggt lán
Lánsfjárhæð: 10.000.000 mkr.
Lánstími: 25 ár
Vextir: 20%
Verðbólguspá 0%
Heildargreiðsla: 35.261.917 kr.

Verðtryggt lán
Lánsfjárhæð: 10.000.000 mkr.
Lánstími: 25 ár
Vextir: 5%
Verðbólguspá 15%
Heildargreiðsla: 121.529.352 kr. 

***************************

Óverðtryggt lán
Lánsfjárhæð: 20.000.000 mkr.
Lánstími: 40 ár
Vextir: 20%
Verðbólguspá 0%
Heildargreiðsla: 100.452.052 kr.

Verðtryggt lán
Lánsfjárhæð: 20.000.000 mkr.
Lánstími: 40 ár
Vextir: 5%
Verðbólguspá 15%
Heildargreiðsla: 1.298.911.582 kr.

****************************

...sem gríp ég höndum tveim, svo fæ ég vexti og vaxta vexti og vexti líka af þeim.

 http://www.landsbanki.is/einstaklingsthjonusta/lan/skuldabref/reiknivel/


mbl.is Verðtryggingin burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband