Ráðgefandi löggjafarvald?

„Þjóðfrelsi voru er hætta búin, meðan stórveldastefna er til í heiminum, meðan nokkrir auðdrottnar ráða yfir framleiðslutækjum stórþjóðanna og nota fjármagn þeirra og hervald í sína þágu, þegar þeim býður svo við að horfa.  Voldugir einokunarhringir, bankadrottnar og hervaldssinar nútímans eru arftakar þeirra sjóræningja, einokunarkaupmanna og drottnara fortíðarinnar, sem áður þjörmuðu að landi voru og komu þjóðinni á heljarþröm."

Einar Olgeirsson, 17. júní 1944

---

Nokkuð hefur borið á umræðu um hugsanlega aðild Íslands að ESB.  Ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort ég telji hagsmunum Íslands betur borgið utan eða innan sambandsins.  Til þess veit ég einfaldlega of lítið um hvað felst í aðild enda hef ég engan samning séð.  Ég hef um nokkurt skeið verið verið fylgjandi þeirri hugmynd að fá úr því skorið hvers kyns samningur kann að bjóðast.  Ef formleg aðildarumsókn er nauðsynleg í því samhengi þarf einfaldlega að sækja um, semja og leggja svo afraksturinn í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir faglega og upplýsta umræðu.  En málið er ekki einfalt.

Eðli málsins samkvæmt er ég einnig hlynntur tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.  Slík aðferðafræði gerir ráð fyrir lágmarkstillitsemi gagnvart þeim sem kunna að vera andvígir.  Ég tel að umboð framkæmdavaldsins til aðildarviðræðna verði að vera skýrt og óskorað.  Annað væri ólýðræðislegt og síður líklegt til árangurs eins og nú árar í okkar sundraða samfélagi.  Það má ekki gleyma því að horfa á málið í því samhengi sem sitjandi ríkissstjórn komst til valda.  Ég er alls ekki sammála því að síðustu kosningar hafi snúist um ESB.  Þær snérust um allt, allt annað.

Ég hef verið ófeiminn síðustu daga við að láta í ljós þá skoðun mína að ef aðgöngumiðinn að ESB er samþykkt Icesave samningsins í núverandi mynd og óbreytt samstarf við AGS tel ég að ESB megi bíða áfram eftir umsókn Íslands.  Umsókn okkar þarf að vera lögð fram á okkar forsendum þegar við höfum um eitthvað að semja.  Við megum ekki bara taka hverju því sem að okkur er rétt.  Að þessu sögðu mælist ég til þess að þessi tvö mál verði leidd til lykta áður en ESB málið verður lagt í dóm þjóðarinnar.

Það sem stendur upp úr varðandi ESB málið og Icesave er hversu lítil virðing er borin fyrir Stjórnarskránni en 48. grein hennar hljóðar svo: ,,Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum".  Fregnir af kúgun þingmanna til hlýðni við flokk sinn í sambandi við þessi mál vekja eðlilega upp áleitnar spurningar er varða stöðu þjóðríkisins og þroskastig þess lýðræðis sem menn telja sig vera að iðka.

Íslensk samtímastjórnmál komust á nýtt plan í vikunni sem leið í tengslum við fréttaflutning af ósk alþjóðlegra fjárfesta um helmingsafslátt af ógreiddri skuld við ríkisbanka vegna kaupa fjárfestanna á öðrum ríkisbanka fyrir nokkrum árum.  Málsins vegna var m.a.rætt við þjóðkjörinn þingmann sem  einnig er ráðherra.  Það vakti athygli að sem ráðherra vildi hann ekki tjá sig um málið, þar sem ráðuneytið sem hann er í forsvari fyrir fer með eignarhald bankans sem kröfuna á, en sem borgari þessa lands finndist honum lánið til fjárfestanna það síðasta undir sólinni sem ætti að afskrifa.  Ég sem kjósandi fer fram á að viðkomandi upplýsi hvaða grímu hann setti upp þegar hann bauð sig fram til Alþingis; hver fólst eftir umboði mínu?  Þetta fyrirkomulag þykir mér ótækt.  Nauðsyn þess að skilja á milli framkvæmda- og löggjafarvalds blasir við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þennan pistil vildi ég skrifað hafa, Þórður Björn. Megi hann fara sem víðast.

Eitt er ljóst: ráðherra getur ekki haft eitt álit sem ráðherra og annað sem almennur borgari!

Minnir þetta nokkuð á Dr. Jeykill og Mr. Hyde? Reyndar man ég aldrei hvor var Dr og hvor var Mr. Nema Mr reyndi aldrei að svara sem Dr nema hann væri í því hlutverki.

Sigurður Hreiðar, 13.7.2009 kl. 11:30

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

It´s a question of hats...

http://www.youtube.com/watch?v=7x1UYhysgLg

Héðinn Björnsson, 13.7.2009 kl. 13:11

3 Smámynd: Sævar Finnbogason

„Þjóðfrelsi voru er hætta búin, meðan stórveldastefna er til í heiminum, meðan nokkrir auðdrottnar ráða yfir framleiðslutækjum stórþjóðanna og nota fjármagn þeirra og hervald í sína þágu, þegar þeim býður svo við að horfa. Voldugir einokunarhringir, bankadrottnar og hervaldssinar nútímans eru arftakar þeirra sjóræningja, einokunarkaupmanna og drottnara fortíðarinnar, sem áður þjörmuðu að landi voru og komu þjóðinni á heljarþröm."

Þetta er bara eins og að lesa Karl Marks á Íslensku :)  afar hressand ekki satt.

Ég held þó að okkur stafi nú ekkert meiri hætti hætta af þessu auðhringum innan ESB en undir AGS.

Satt að segja vil ég heldur vera undir AGS innan ESB en utan.

Að auki virðist okkur stafa enn meiri hætti af innlendum auðmönnum en erlendum æns og allt hefur verið hér.

Sævar Finnbogason, 22.7.2009 kl. 03:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband