Hrollvekjandi niðurstaða?

Ég spyr: Hefur einhver hafi lagt fram fjárhagsáætlun sem sýnir að þjóðarbúið ráði við Icesave?

***

Fengið að láni héðan:
http://fridjon.eyjan.is/2009/06/24/icesave-samantekt-peturs-richters/

Pétur Richter, kunningi minn og Facebook vinur hefur lagt sig fram öðrum fremur við að ná utan um flesta þætti Icesave-málsins. Niðurstaða hans er hrollvekjandi.
Hann birti eftirfarandi á Facebook-síðu sinni með áskorun um að dreifa þessu víðar. Ég tel mér ljúft og skylt að gera það.

Að neðan er pistill Péturs eins og hann birtist á Fb-síðu hans.

————-

Einn laugardagsmorgun í byrjun júní setti ég upp lítið Excel-skjal til að reyna að reikna út vænta skuldbindingu vegna IceSave-samningsins. Síðan þá hafa vangaveltur mínar undið upp á sig og er svo komið að ég tel rétt að taka saman smá samantekt yfir helstu staðreyndir varðandi þennan samninginn.

Ástæða þess að ég fór út í að reyna að meta skuldbindinguna vegna IceSave er að eftir 12 ára starf í banka tel ég mig vera farinn að skilja áhrif vaxta á skuldir. Þetta virtist eitthvað vefjast fyrir stjórnvöldum þar sem þau kynntu væntanlega skuld okkar vegna IceSave alltaf sem X ma.kr auk vaxta. Vitandi það að “auk vaxta” væri líklega hærri upphæð en skuldin reiknaði ég þetta út, og má sjá nýjustu niðurstöðu í næsta Note frá mér.

Eftir að hafa reiknað út skuldbindinguna, fór ég að velta fyrir mér þessum góðu eignum í Bretlandi sem ættu að koma á móti skuldinni. Alltaf var talað um eignasöfn í Bretlandi, en eftir smá grams á netinu fann ég kynningu á efnahagsreikningi Landsbankans sem birt var í febrúar en miðaðist við 14. nóvember 2008. Þá kom tvennt í ljós

  1. Eignirnar eru að stærstum hluta útlán og þá til innlendra aðila (en í gjaldeyri)

  2. Eignirnar eru metnar um 1.195 ma.kr.

Mér létti mjög við þetta þar sem þetta leit ekki illa út á þessum tímapunkti. Eignir upp á 1.195 ma.kr. en skuldbinding upp á tæpa 700 ma.kr. Það þyrfti að verða gríðarlegur eignabruni hjá Landsbankanum til að við fengjum ekki allt upp í skuldbindinguna.

 

Eina sem truflaði mig var að Jóhanna forsætisráðherra var alltaf að tala um að samninganefndin gerði ráð fyrir að 75% næðist upp í skuldbindinguna með eignum Landsbankans, og að virt ensk endurskoðunarskrifstofa hefði eftir skoðun á lánasafninu komist að þeirri niðurstöðu að það næðust jafnvel 95%.

Hvernig gátu 1.195 ma.kr. eignir lækkað í 525 ma.kr (75%) til 665 ma.kr. (95%) á ekki lengri tíma?

Þegar hér var komið í sögu var ljóst að það þyrfti að birta samninginn, ekki seinna en strax. Það var eitthvað sem ekki stemmdi.

Það fóru á þessum tímapunkti að leka valdar fréttir um samninginn (t.d. að það væri ákvæði um endurskoðun og nýtt mat á eignasafninu)

Þann 11. júní síðastliðinn birtist síðan í vefriti fjármálaráðuneytisins smá frétt um samninginn þar sem aðallega var verið að réttlæta 5,55% vextina á lánið. Það sem var skondið nið þessa umfjöllun var að þar voru lánin allt í einu orðin hærri í erlendum myntum (GBP og EUR) en þegar samningurinn var kynntur. Hvað var eiginlega í gangi. Vissu menn ekki hvað þeir voru að skrifa undir?

Þann 15. júní fóru ýmsir að hafa samband við mig sem eru mun lögfróðari en ég og benda mér á tvennt. Annars vegar að vegna laga um slitastjórnir væri varla hægt að borga inn á IceSave lánið með eigum Landsbankans fyrr en í fyrsta lagi eftir kröfulýsingarfrest (sem er í nóvember 2009) Hins vegar er það óvissa um hvort hægt væri að nota eigur Landsbankans til að greiða vextina af láninu, þar sem þeir falla ekki undir forgangskröfur.

Reyndar er það svo að nýlegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki heimila að greiða fyrr út forgangskröfur en þá þarf að vera vissa fyrir því að greiða út allar jafnar forgangskröfur að fullu eða að jöfnu. Því er ennþá möguleiki á að skilanefnd Landsbankans geti byrjað að greiða inn á samninginn áður en kröfulýsingarfrestur rennur út, þ.e. ef IceSave samningurinn verður samþykktur.

Á þessum tímapunkti (16. júní) brást mér þolinmæði og sendi öllum alþingismönnum Íslands tölvubréf þar sem ég setti fram nokkrar spurningar og staðreyndir varðandi IceSave samninginn. Viðbrögð voru þokkaleg, sérstaklega frá VG.

Þann 18. júní var síðan rætt um samninginn á Alþingi. Í þeim umræðum kom meðal annars fram að forsætisráðherra teldi að samningurinn ætti að bæta lánshæfismat landsins, sérstaklega þar sem fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hefðu sagt það. Það hafði reyndar láðst að spyrja lánshæfismatsfyrirtækin sjálf.

Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði, þar sem erlendar skuldir, bæði ríkis og ekki síst opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar og Orkuveitunnar, eru verulegar og lánshæfismat ríkisins er einu skrefi fyrir ofan ruslbréf (e. junk bond). Fari lánshæfismat ríkisins niður í rusl, getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðinga, svo sem að margir fjárfestar megi hreinlega ekki eiga skuldabréf/skuldir þessara fyrirtækja.

Þennan dag var síðan tilkynnt að birta ætti samninginn. Eftir að hann var síðan birtur upphófst heljarmikill sirkus varðandi lögfræðina bak við þennan samning, en þar sem ég er bara vesæll verkfræðingur og bankamaður reyndi ég að sneiða framhjá þeim umræðum. Forsendur útreikninga minna stóðust ágætlega, en sumt var nokkuð óljóst í samningnum (eða ég svona lélegur í ensku lagamáli)

Ég var ennþá að klóra mér í hausnum yfir því af hverju 1.195 ma.kr. eignir dygðu ekki fyrir 700 ma.kr. skuld. Eftir að hafa verið í viðtali í Speglinum á Rúv vegna þessa máls fórust mér að berast hinar ýmsu upplýsingar úr stjórnkerfinu og fjármálakerfinu um samninginn og hvernig raunverulega hann virkaði.

Til dæmis fékk ég loksins skýringu (sjá neðst í forsendum) á því af hverju 1.195 ma.kr. eignir duga ekki fyrir 700 ma.kr. skuld. Það er af því að Bretar og Hollendingar eiga líka forgangskröfu á eignirnar fyrir því sem þeir tryggðu umfram innistæðutryggingu samkvæmt tilskipun ESB. og því fengju þeir í raun ca. 630 ma.kr. forgangskröfu í eignirnar á móti 700 ma.kr. kröfu okkar, en þessar kröfur væru jafnréttháar.

Það þýðir á mannamáli að það er ekki krækiber í helvíti að það náist að borga upp alla skuldbindinguna og hvað þá vexti.(afsakið orðalagið)

Fram að þessum tímapunkti var ég á því að við þyrftum að taka þessa skuldbindingu á okkur þar sem kostnaðurinn við að hafna ríkisábyrgðinni og þar með samningum væri of há vs. að samþykkja samninginn. Þarna snérist ég alveg. Þessi samningur gerir ekkert annað en að lengja í hengingarólinni, eða eins og einhver kallaði samninginn “stærsta kúlulán sögunnar”.

Ég fékk líka upplýsingar fyrir helgi um að eitthvað væri bogið við túlkun stjórnvalda á skýrslu “virtu ensku endurskoðunarskrifstofunnar” á eignasafni Landsbankans. Ég sendi nokkrum þingmönnum tölvupóst.

Eitt mega stjórnvöld eiga. Þann 21. júní voru loksins komnar mjög ýtarlegar upplýsingar inn á island.is um samninginn, skýringar, fylgiskjöl og Q&A. Þar á meðal var hin margrædda skýrsla“virtrar enskrar endurskoðunarskrifstofu” og viti menn. Þetta er skýrsla um hvernig sveitarfélög eigi að fara með kröfur sínar á hendur íslensku bönkunum og dótturfélögum þeirra. Á einni blaðsíðu af 15 kemur fram að þeir hafa notað sömu kynningu og ég fann á netinu um eignir Landsbankans og reiknað sig fyrst í 90% heimtur upp í skuldir (1.330/1.195=90%) en vegna óvissu um verðmat á eignum milli gamla og nýja Landsbankans gáfu þeir sér að þetta gæti hækkað í 100%, en tóku síðan meðaltalið og fengu 95%. Ég hefði geta metið þetta á 5 mínútum.

Þannig var nú það, upplýsingarnar frá virtu ensku endurskoðendunum voru í raun unnar upp úr glærukynningu Landsbankans en ekki eftir skoðun á þessum blessuðu eignum sem eiga að standa bak við þetta. Erum við þá komin í hring?

Stjórnvöld virðast líka hafa gleymt að lesa alla skýrsluna. Á blaðsíðu 13 er farið yfir áhættuþætti varðandi mat á hvað fáist upp í skuldbindinguna. Þar kemur fram að það sé líklegt að aðrir kröfuhafar fari í mál til að reyna að fella neyðarlögin (þar sem innlán voru sett í hóp forgangskrafna) og ef þau falli er líklegt að það fáist eingöngu 33% upp í kröfuna !!!

Þann 22. júní var haldinn fundur í efnahags- og skattanefnd þar sem umræðuefnið var IceSave samningurinn. Var skilanefnd Landsbankans boðið. Þar var síðan staðfest það sem ég hafði verið að velta fyrir mér, þ.e. vextir af láninu eru ekki forgangskröfur og falla að fullu á íslenska ríkið og að við deilum aðgangi að eignum Landsbankans með hinum forgangskröfuhöfunum (Bretum og Hollendingum).

Þetta er sem sagt samantektin á IceSave farsanum séð frá mínum bæjardyrum. Einhvern veginn hefur sú tilfinning mín vaxið að kostnaðurinn og áhættan við að hafna ríkisábyrgðinni og þar með fella þennan samning hafi minnkað í hlutfalli við kostnað og áhættu við að samþykkja samninginn. Einhvern veginn fær maður það á tilfinninguna að þessi samningur geri ekkert annað en að lengja í hengingarólinni. Það verður reyndar spennandi að sjá lagafrumverpið sem lagt verður fram á Alþingi varðandi ríkisábyrgðina, en þá hljóta stjórnvöld að koma með útreikninga á getu þjóðarbússins til að standa við samningana. Eitt sem þarf að varast við slíka kynningu er að það er rangt að bera greiðslugetuna saman við landsframleiðslu, heldur þarf að bera hana saman við afgang af erlendum viðskiptum okkar, því við verðum að greiða þetta í gjaldeyri, ekki íslenskum krónum.

Svona er málið fram á þennan dag séð frá mínum bæjardyrum. Ég mun halda ótrauður áfram að djöflast í þessu máli. Nú voru að berast upplýsingar um að ríkisábyrgðin yrði lögð fyrir Alþingi á föstudaginn. Spurning um að mæta á pallana?

—-

Þessu til viðbótar ber það vott um gríðarlega bjartsýni ef ekki barnaskap að halda að heimtur verði allt að 95%.
Helmingur eignasafns Landsbankans eru útlán, hversu stórt hlutfall þeirra er til gjaldþrota fyrirtækja?

Pétur Richter á þakkir skilið fyrir þetta framtak, hann er tvímælalaust einn af hetjum Íslands.


mbl.is Getum staðið við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Traust verður aldrei metið til fjár. Um leið og stjórnvöld Íslands byrja að fá traust eigum við möguleika á að sanna mátt okkar, vitsmuni og gæsku með nýsköpun, og til nýsköpunar þurfum við fjármagn.

Gömlu gildin eru góð en þróunin stoppar aldrey. Impra sem er meðal annars nýsköpunarfyrirtæki getur gert kraftaverk á Íslandi ef við bara gefum hugsuðunum séns og það kostar peninga.

Bendi á síðu þeirra: impra.is. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 29.6.2009 kl. 18:28

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég get ekki séð hvernig Gylfi Magnússon fær út að við getum staðið við Icesave-klúðrið, hann segir að undanfarið höfum við flutt út vörur fyrir fimm milljarða evra á ári og vöxturinn verið átta prósent á ári, en veit maðurinn ekki að það er kreppa núna og það má gera ráð fyrir að útflutningur minnki?  Og þó að við seljum þetta mikið úr landi þá verður að taka inn í dæmið að við flytjum líka inn vörur, ekki er viðskiptajöfnuðurinn hagstæður um fimm milljarða evra á ári?

Jóhann Elíasson, 29.6.2009 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband