Leiðrétting sanngjörn og eðlileg

Til Hagsmunasamtaka heimilanna hefur snúið sér fólk sem hefur viljað færa viðskipti sín frá núverandi viðskiptabanka eða sparisjóði. Samtökin hvetja fólk hiklaust að skipta um viðskiptabanka með launareikninga og annað veltu og lausafé treysti það ekki bankanum af einum eða öðrum ástæðum. Við viljum benda félagsmönnum á, að fari þeir í slíka flutninga, þá velji viðkomandi banka eða sparisjóð sem það treysti til að standa af sér þá kreppu sem núna gengur yfir og geti veitt þeim örugg viðskipti. Samtökin leggja áherslu á að slíkur flutningur er ákvörðun og á ábyrgð hvers og eins.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú um nokkurt skeið átt í viðræðum við stjórnvöld, forystufólk í stjórnmálaflokkum sem og lánastofnanir um aðgerðir í þágu heimilanna. Auk þess hafa samtökin fylgst náið með umræðunni og yfirlýsingum þessara aðila um þessi málefni og leitast við að koma sjónarhorni og kröfugerð sinni á framfæri við fjölmiðla.

Það er þyngra en tárum tekur að stjórnvöld skuli ekki hafa í hyggju, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur samtakanna, að eiga frumkvæði að leiðréttingu ósanngjarnra og hugsanlega ólöglegra hækkana höfuðstóla lána, í formi hvoru tveggja gengis- og verðtryggingar. Þvert á móti stefnir í að umræddar hækkanir eigi að mynda grunn fyrir stórfellda eignaupptöku fjármálastofnana á heimilum landsmanna. Stofnana sem flestar eru nú í ríkiseigu eða í gjörgæslu ríkisins með einum eða öðrum hætti. Stofnanir þessar eiga sjálfar að fá í meðgjöf himinháar afskriftir á innlendum lánasöfnum en ætla ekki að gefa spönn eftir sjálfar. Hagsmunasamtökum heimilanna finnst eðlilegt og sanngjarnt að heimilin í landinu njóti þessarar meðgjafar á sama hátt og aðrir skuldarar bankanna. Stjórn Hagsmunasamtakanna óttast að innheimta eigi lán heimilanna að fullu til að fjármagna skuldir fyrirtækja og fjármálastofnana sem ekki fást greiddar. Það virðist vera ætlun stjórnvalda að endurfjármagna þannig bankakerfið með fasteignum heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna telja nauðsynlegt að dómstólar taki afstöðu til lögmæti skilmála verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána í ljósi þess hve forsendur þessara lána hafa breyst gríðarlega.  Vonast samtökin til þess að fá nokkra einstaklinga til að taka þátt í slíkri lögsókn.  Samtökin telja slíka málsókn mikilvæga til láta reyna á neytendasjónarmið, þar sem annar aðili í lánasamningi hafi sjaldnast nokkra sérþekkingu á lánamálum, hugsanlega breytingu höfuðstóls lánanna til langs eða skamms tíma eða geti haft á nokkurn hátt áhrif á slíka þróun, meðan hinn aðilinn hefur öll tök á að hafa áhrif á forsendur lánasamningsins sér í hag.  Undirbúningur að svona málsókn er þegar hafinn.  Er þetta m.a. gert í ljósi þess, að ríkisvaldið hefur ákveðið skilja lántakendur eftir með skellinn af hækkun höfuðstóls.

Ríkið hefur þegar gripið til ráðstafana til að vernda sumar eignir. Í þessum flokki eru m.a. peningamarkaðssjóðir og innstæður á bankareikningum umfram skylduábyrgð ríkisins.  Með setningu neyðarlaganna 6. október sl. gerðu stjórnvöld gróflega upp á milli sparnaðarforma. Þ.e. þeir sem settu sitt sparifé í fasteign horfa á það brenna upp á meðan innistæður eru varðar upp í topp og dælt er í peningasjóði háum upphæðum til að minnka tap þeirra sem þar höfðu fjárfest. Þá var ekki spurt hvort viðkomandi einstaklingar gætu bjargað sér sjálfir eða hvort þeir hefðu tekið óábyrga áhættu með því að geyma háar upphæðir ótryggðar inni á bankareikningum. Nei, þá var allt tryggt upp í topp og engra gagnrýninna spurninga spurt.

Umræða um ábyrgðarlaus lán til eigenda og stjórnenda bankanna svo og þrálátur orðrómur um að margir í stjórnkerfinu, sem og stjórnmálamenn, hafi notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu hefur einnig valdið miklum óróa meðal almennings. Nú hefur einn hlutafélagssparisjóður verið lagður niður, auk þess sem ríkissjóður hefur ákveðið að leggja öðrum til nýtt stofnfé. Er ætlunin að gera það, þrátt fyrir að einn sjóðanna hafi af ótrúlegri ósvífni greitt stofnfjáreigendum sínum himinháan arð í apríl 2008 á saman tíma og verulega hafði byrjað að halla undan íslenska hagkerfinu. Arð sem nam hátt í tvöföldum hagnaði ársins sem arðgreiðslan náði til.

Aðgerðir banka og stjórnvalda miðast við að dreifa eignaupptökunni yfir allt að tíu ár eða meira. Þúsundir heimila munu ekki eiga sér viðreisnar von. Heimilin standa frammi fyrir þeim valkostum að verða þrælar fjármálastofnana eða missa eigur sínar og/eða flýja land.

25.3.2009
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
www.heimilin.is


mbl.is Niðurfelling skulda óhagkvæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

mailið mitt er oskar.evropa@gmail.com eða vikingpr@gmail.com Þetta gmail virkar ekki alltaf. Langar til að senda þér smá hugmynd af því að þú ert eitthvað í ferðaþjónustu.

Svo eitt mail sem er trúnaðarmál frá bankamanni og buisnessmanni.

Óskar Arnórsson, 4.4.2009 kl. 06:17

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Já, takk fyrir góðan pistill, enn þetta er því miður of seint fyrir mig. Ég var búin að borga upp öll lán, enn nýji Glitnir gjaldfelldi allar yfirdráttarheimildir.

Íbúðin, bíllinn og allt fauk í þessa andskotans banka. Samt er ég með undirritað plag frá Gamla Glitni að ég sé einsakur skilamaður. Nú er er ég gjaldþrota. Það var ekkert hægt að semja við neinn í Nýja Glitni. 

Óskar Arnórsson, 4.4.2009 kl. 06:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband