Einkavæðingarstefna Árna Páls

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.  Árni Páll vill fækka verkefnum ríkisins í hagræðingarskyni.  Viðtalið er birt á vef Vísis.  Í því segir m.a.:

,,Árni Páll segir hlutverk ríkisins að sinna ákveðnum kjarnaverkefnum. Öðrum málum eigi að útvista og koma á markað. Markmiðið sé að halda góðri þjónustu og helst að hún verði betri. Umfang rekstrarins þurfi að endurhugsa og það hvað hann kosti."   

Vísir hefur svo orðrétt eftir Árna Páli: 

„Það eru margar leiðir til og við þurfum að velta öllu fyrir okkur. Þarf ríkið að vinna öll verkefni sem það sinnir í dag? Við þurfum að skoða hverju væri betur fyrir komið annars staðar. Í því felast einnig tækifæri. Við getum til að mynda stutt við atvinnulífið með því að fela því að sinna stoð- og tækniþjónustu. Ríkið er að sinna upplýsingatækni með eigin starfsfólki. Er það endilega besta leiðin? Við getum búið til fjölbreyttari þjónustumarkað með því að ríkið skilgreini þau verkefni sem það vinnur sjálft og kaupi síðan þá þjónustu sem þarf að auki.“

Að skilgreina hlutverk og verkefni ríkisins í síbreytilegum heimi hlýtur að vera umræða sem aldrei tekur enda.  Í því ljósi ber að taka vel í það frumkvæði sem ráðherra tekur með því að hefja þessa umræðu nú. 

Hitt er annað mál hvort einkavæðing af því tagi sem ráðherra kallar eftir sé til þess fallin leysa fjárhagsvanda ríkisins.  Af hverju að búa til einn milliliðinn í viðbót sem þarf að fá sitt?  Og ef annar aðili getur í raun gert þetta fyrir minni pening en ríkið borgar í dag, af hverju getur ríkið þá ekki tekið upp ódýrari vinnubrögð sjálft?

Að hve miklu leyti er sá þjónustumarkaður sem Árni Páll vill búa til um upplýsingatækniþörf ríkisins sérhæfður?  Hversu margir aðilar myndu á endanum keppa um hituna?  Ekki þarf annað en að taka dæmi um mælaleigu Finns Ingólfssonar til að skynja að sporin hræða.  Þá kemur Kögunarmálið fljótlega upp í hugann svo ekki sé minnst á einkavæðingu bankanna. 

Kögun komst reyndar aftur í opinbera eigu í gegnum Landsbankann eftir að Jón Ásgeir og félagar voru búnir að taka snúning á félaginu.  Í dag er Kögun hluti af Skýrr sem er í eigu Lífeyrissjóða og Landsbankans.  Þetta er svo aftur forvitnilegt í því samhengi að Skýrr er skammstöfun fyrir gamla nafn hins opinbera fyrirtækis: Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Þegar jafnaðarmenn ræða um mörkin á milli einkareksturs og ríkisreksturs má alveg rifja upp Stefnuskrá íslenzkra jafnaðarmanna frá 1915.  Í henni segir: 

,,Atvinnurekstur, sem samkvæmt eðli sínu, eða í reynd, er einokun, rekist af Landsjóði, sýslu- eða hreppafélögum."

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja.  Sú kollsteypa samfélagsins sem öfgamarkaðshyggja ól af sér kann að vera vísbending um mikilvægi þeirra orða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Þarfur og góður pistill, hugsaði nákvæmlega þetta þegar ég sá fréttina.

Gunnar Skúli Ármannsson, 7.8.2011 kl. 09:07

2 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Nú hefur einhver frændinn komið með góða hugmynd á ættarmótinu og er líklega starfandi í annaðhvort stoð eða tækniþjónustu Ríkisins, ég veit reyndar ekki hvað þessi skilgreining nær yfir.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 7.8.2011 kl. 22:07

3 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Já, mér þætti nú eiginlega mest forvitnilegt að gera bara nákvæman samanburð á tölum. Hvað kostaði þjónustan hjá ríkinu vs. eftir einkavæðingu - þori ég að veðja að í öllum tilfellum er hún dýrari eftir einkavæðingu.

Það þarf vissulega að skilgreina algerlega hvað á heima í opinbera geiranum og halda því þar - skiptir kannski ekki máli hvort sveitarfélögum er falið að sjá um þjónustuna eða ríkinu, svo lengi sem fjármagnið til hennar sé tryggt af hinu opinbera í sameiningu. 

Eins mætti taka smá snúning á tölum vegna einkaframkvæmda í byggingariðnaðinum, til að reisa byggingar fyrir hið opinbera. Hve oft hafa þær staðist áætlanir (aldrei) og hversu mikið hafa þær farið fram úr áætlun? Ætti ekki að skylda þann sem tekur að sér framkvæmdina að fylgja kostnaðaráætlun? 

Andrea J. Ólafsdóttir, 7.8.2011 kl. 23:29

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Góður pistill hjá þér...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.8.2011 kl. 01:01

5 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Þá mætti velta því upp hvort ekki mætti spara með því að nota opinn hugbúnað. Það virðist ekki útilokað: http://www.visir.is/kanna-​sparnad-med-opnum-hugbunad​i/article/200942077028

Þórður Björn Sigurðsson, 8.8.2011 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband